Grein

Dagbjartur Jónsson, rekstur og viðhald í Fljótsdalsstöð

17. október 2020
Að störfum í Fljótsdalsstöð.
Feðgar bregða á leik. Með sonunum Vésteini, Nirði og Trausta.
Við Fardagafoss: Sóley, Njörður, Droplaug og Vésteinn.
Droplaug á toppi Snæfells.
Hvalreki við Fögruhlíðarós.
Við Landsenda.

Dagbjartur Jónsson hefur lent í ýmsum ævintýrum sem hreindýraleiðsögumaður. „Já, hreindýraveiðarnar eru oft heilmikið streð. Einu sinni man ég að ég fór með mann á veiðar í Seyðisfirði, langt inn í dal sem heitir Sörlastaðadalur, þar sem við fundum og felldum tarf. Við höfðum lagt af stað snemma, um sexleytið um morguninn, og náðum tarfinum um klukkan ellefu. Við festum hann á dúk sem við notuðum til að draga hann niður og drógum hann  fimm og hálfan kílómetra í beinni gps-línu, með lítilli lækkun, þannig að verkið sóttist seint. Við vorum búnir að vera í átta klukkutíma að erfiða við að koma tarfinum niður í bíl og þegar við keyrðum inn í Seyðisfjörð og komumst í farsímasamband, um áttaleytið að kvöldi, alveg búnir á því, fékk ég skilaboð í talhólfið. Þá var það kunningi minn á Seyðisfirði sem hafði verið að keyra yfir heiðina kl. níu um morguninn og séð fjóra tarfa rétt við pípuhliðið rétt ofan við Fardagafoss, semsagt í vegkantinum,“ segir Dagbjartur og hlær. „En ég segi nú við veiðimennina, þegar þeir bera sig aumlega yfir streðinu og baksinu, að kjötið bragðist í réttu hlutfalli við erfiðið,“ bætir hann við.

7-8 þúsund hektarar græddir

Dagbjartur byrjaði að vinna hjá okkur árið 2007, en hann var í fyrsta hópi starfsmanna sem ráðnir voru til starfa við Fljótsdalsstöð þegar hún hóf rekstur. Starfsheitið var þá stöðvarvörður og gegnir hann ennþá sama starfi, sem núna heitir rekstur og viðhald. „Þetta er mjög fjölbreytt starf og skemmtilegt. Ég hef líka starfað síðan 2008 fyrir hönd Landsvirkjunar í Ráðgjafarnefnd Landbótasjóðs Norður-Héraðs, sem hefur staðið að uppgræðslu lands til mótvægis við það sem fór undir Hálslón. Ég er nú ekki með nákvæma tölu í kollinum, en þetta eru um 6-7 þúsund hektarar sem við erum búin að vinna eitthvað á. Núna á þessu ári dreifðum við t.a.m. 150 tonnum af áburði, en starfið hefur fyrst og fremst falist í því að ákveða hvar dreifa skuli áburði hvers árs, en einnig hefur unglingaflokkurinn hérna í Fljótsdalsstöð dreift nokkru af fræjum í kringum rofabörð á gróðurvana svæðum,“ segir hann. „Það er ótrúlegt hversu áburðurinn hefur góð áhrif á gróðurinn og skilar miklum árangri,“ segir hann. Á vef Sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi, sem er á vegum Landsvirkjunar og Alcoa-Fjarðaáls, er hægt að skoða ársskýrslur sjóðsins: www.sjalfbaerni.is/is/skyrslur/arsskyrslur-landbotasjods-nordur-herads.

Dagbjartur er fæddur vestur á Bolungarvík, en flutti þaðan austur á Hérað eins og hálfs árs, „þannig að ég tel mig nú alltaf vera Héraðsmann,“ segir hann. Hann er alinn upp úti í sveit, á bænum Grænuhlíð í Hjaltastaðaþinghá. „Maður hefur verið búsettur hér á þessu svæði meira og minna allt sitt líf,“ segir hann. Til ársins 1979 var sauðfé á bænum, en þá var það skorið niður vegna riðu og skipt yfir í mjólkurframleiðslu. Dagbjartur hóf vinnuferilinn í landbúnaðartengdum störfum, leysti bændur af á svæðinu og mjólkaði fyrir þá, auk þess að vinna í sláturhúsi í nokkur haust. „Ég tók mér sex ára frí frá námi eftir grunnskólann, áður en ég ákvað að skella mér í Vélskólann, þaðan sem ég útskrifaðist árið 2001. Ég fór í Vélskólann fyrir sunnan en svo tók ég samning í vélvirkjun hérna fyrir austan, hjá Stáli hf. á Seyðisfirði. Þar smíðuðum við töluvert fyrir Landsvirkjun, til dæmis lokur og ristar fyrir Írafossstöð. Á meðan ég var fyrir sunnan skellti ég mér líka í rafvirkjann og tók svo samning hérna fyrir austan, hjá Rafey á Egilsstöðum,“ segir hann.

Sjóveikur sjómaður

Eftir að hann kláraði Vélskólann var Dagbjartur í þrjú ár til sjós, aðallega á togaranum Ljósafelli sem gerður er út frá Fáskrúðsfirði. „Ég var svosem aldrei efni í góðan sjómann – ég varð alltaf svo sjóveikur,“ segir hann. Spyrill hefur reynslu af sjóveiki og spyr þess vegna hvort það hafi ekki verið algjört helvíti, að vera sjóveikur sjómaður? Dagbjartur vill nú ekki ganga svo langt, „en jú, ég ældi í flestum túrum. Það er auðvitað afleitt, að vera svona veikur fyrstu tvo dagana. Eftir það var maður nú þokkalegur, en ef það kom svo einhver leiðindabræla gat maður orðið veikur aftur,“ segir hann.

„Ástæðuna til þess að ég hætti á sjónum má rekja til þess að þegar ég var eitthvað að reyna að siða elsta strákinn minn til, sem var þá ekki orðinn þriggja ára, sagði hann við mig „Farðu, pabbi!“. „Fara hvert?“ spurði ég. „Farðu bara út á sjó!“ svaraði hann þá. Þá sá ég að ég yrði að gera eitthvað í mínum málum og vera meira til staðar fyrir fjölskylduna,“ segir Dagbjartur. Hann sagði því upp og fór að vinna hjá Rafey á Egilsstöðum.

Fimm börn og fjör á heimilinu

Eiginkona Dagbjarts er Áslaug Sigurgestsdóttir, sem er kennari í Fellaskóla, en þau eiga heima í Fellabæ ásamt fimm börnum sínum: Trausta, Nirði, Droplaugu, Sóleyju og Vésteini. Þau eru á aldrinum 8-18 ára. Það hefur aldeilis verið fjör síðustu árin á heimilinu? „Jú, maður ákvað að halda sig við efnið, fyrst maður var búinn að átta sig á því hvernig þetta væri gert,“ segir Dagbjartur og kímir.

Aðspurður um önnur áhugamál en hreindýraveiðarnar segir Dagbjartur að fjölskyldan hafi gaman af því að ganga um fjöll og firnindi. „Við Íslendingar eigum svo fallegt land. Hér á Héraði er mjög mikið af fallegum gönguleiðum og til að mynda erum við með svokallaðar „perlur Fljótsdalshéraðs“, sem eru fallegir staðir og fjölbreyttar gönguleiðir, en Ferðafélag Fljótsdalshéraðs hefur sett upp stimpla á þessum stöðum sem hægt er að safna,“ segir hann. Fyrir forvitna er slóðin www.fljotsdalsherad.is/is/mannlif/frodleikur-um-fljotsdalsherad/perlur-fljotsdalsherads.

Þegar kemur fram á veturinn taka svo skíðin við. „Það má eiginlega segja að krakkarnir hafi komið okkur gamla settinu á bragðið í skíðaíþróttinni. Ég byrjaði í raun bara þegar við gáfum þeim elsta skíði í jólagjöf sex ára gömlum. Síðan höfum við verið dugleg að fara á skíði, oftast á skíðasvæðið í Stafdalnum, sem er á milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar. Krakkarnir hafa verið iðnir við að æfa og keppa og fjölskyldan hefur mest átt fjóra þátttakendur á Andrésar andar-leikunum. Ef veiran hefði ekki komið í veg fyrir það hefðum við núna í vor farið á tólftu leikana í röð,“ segir Dagbjartur að lokum. Vefsvæði skíðasvæðisins er á slóðinni www.stafdalur.is.

Fréttasafn Prenta