Grein

Dagný Jónsdóttir, viðskiptastjóri

11. september 2020

Þegar Dagný Jónsdóttir var sautján ára var hún hræðileg í tennis og fór þess vegna að hlaupa í kringum tennisvöllinn. Hlaupaferill hennar hefur nú náð því stigi að hún varð Íslandsmeistari í ólympískri þríþraut í sumar. Auk þess að bera þennan titil er Dagný viðskiptaþróunarstjóri hjá okkur í Landsvirkjun, á markaðs- og viðskiptaþróunarsviði, þar sem hún vinnur að því að koma Íslandi á kortið fyrir spennandi erlend iðnfyrirtæki.

Auðvitað er Dagný ekki bara framúrskarandi langhlaupari, því auk tíu kílómetra hlaups gengur ólympísk þríþraut út á eins og hálfs kílómetra sund og 40 kílómetra hjólreiðar, hvorki meira né minna. Hún fæddist á Akranesi, með sundgleraugun á nefinu, því afi hennar, Hörður Sævar Óskarsson, var sundkennari og faðir hennar, Jón Hugi Harðarson, var afreksmaður í sundi. „Ég var eiginlega í sundi frá því að ég fæddist og þangað til ég byrjaði í Verslunarskólanum,“ segir hún. „Ég fæddist í sundlaug og fékk aldrei að koma upp úr,“ segir hún og hlær. „Allar æskuminningar mínar eru úr lauginni. Ég fór mjög oft í sund snemma á morgnana með pabba og Helga Hannessyni, sem var sundgoðsögn og átti heima í sömu raðhúsalengju og við á Skaganum,“ segir hún.

Dagný keppti sem barn í sundi fyrir Íþróttafélag Akraness. Hún segir að sund sé mjög hörð íþrótt, með öguðu umhverfi. „Það er góður undirbúningur fyrir lífið og byggir upp mikinn aga að þurfa að fara á æfingar tvisvar á dag þegar maður er bara tólf ára. En ég hætti svo í sundi þegar ég byrjaði í Versló, enda ók ég á milli Skagans og Reykjavíkur á hverjum degi og þetta hefði aldrei gengið upp. Ég var líka eiginlega komin með nóg, eins og gerist á endanum hjá flestum krökkum sem æfa sund,“ segir hún.

Þegar hún var sautján ára fór hún sem skiptinemi til Hong Kong og gekk þar í kaþólskan kvennaskóla, sem var með eitt besta íþróttalið allra skóla á eyjunni. „Ég fór þarna út með opnum huga og vildi prófa sem flest, þannig að ég skráði mig eiginlega í allar íþróttagreinar sem voru í boði, meira að segja tennis. Nema hvað að ég er svo hræðileg í boltaíþróttum að ég gat ekki neitt í tennis, þannig að ég byrjaði bara að hlaupa í kringum tennisvöllinn. Þetta var meira að segja svo slæmt að þjálfarinn sá enga vonarglætu í mér og nennti ekki að þjálfa mig. En þarna kom einhver stelpa auga á mig og sá greinilega einhverja hæfileika hjá mér, þannig að hún talaði við hlaupaþjálfarann. „Hún bara hljóp og hljóp! Þessi verður að fara í liðið ykkar,“ sagði hún við hann,“ segir Dagný og hlær dátt. „Þannig byrjaði ég á víðavangshlaupunum,“ bætir hún við. Hún keppti í fjölda móta í hlaupi og sundi á meðan á náminu í Hong Kong stóð.

Eftir nokkurt hlé hélt hlaupaferillinn svo áfram fyrir alvöru þegar hún kom heim úr framhaldsnámi, en hún lauk fyrst meistaranámi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og svo meistaranámi í stjórnun frá Duke-háskóla í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Hún daðraði reyndar eitthvað við hlaupin á meðan á náminu stóð, bar til að mynda sigur úr býtum í fimm kílómetra opnu götuhlaupi kvenna á meðan hún var í Duke. Þegar hún kom heim, árið 2016, tók hún hlaupin föstum tökum og byrjaði á því að taka þátt í götuhlaupakeppnum, áður en hún hóf þríþrautarferilinn haustið 2017, eftir að hún byrjaði að vinna hjá Landsvirkjun.

Þú ert ekki í þessu fyrir félagsskapinn. Þú ert „in it to win it.“ Er það rétt skilið hjá mér? spyr spyrill varfærnislega og uppsker hlátur viðmælandans, sem hikar aðeins og segir: „Mér finnst ofboðslega leiðinlegt að stunda eitthvað svona án þess að hafa eitthvert endamarkmið til að setja stefnuna á. Og jú, ég er keppnismanneskja. Mér finnst félagsskapurinn samt alveg yndislegur. Þegar maður er í svona skrifstofustarfi þarf maður á einhverju að halda sem segir manni að maður sé á lífi, skilurðu? Þetta er það mikið aksjón, að stundum er maður á æfingum bæði kvölds og morgna og svo tekur þetta kannski sex klukkutíma um helgar. Það er bara ekkert sem minnir mann jafn vel á að maður sé lifandi og að æfa sund, hlaup eða hjólreiðar undir beru lofti, í hvaða veðri sem er,“ segir hún.

Hátindur þríþrautarferils Dagnýjar var svo í sumar, þegar hún sigraði í ólympískri vegalengd í Laugarvatnsþríþrautinni, stærstu þríþrautarkeppni ársins hér á landi. Veðrið var ekki keppendum hagstætt, hávaðarok. Hún var þriðja upp úr sundinu af öllum keppendum, konum og körlum og leiddi kvennaflokkinn allan tímann, nema í nokkrar sekúndur þegar hún var að skipta af hjóli yfir í hlaup. „Þetta var bara minn dagur. Mér leið vel allan tímann og brosti út að eyrum alla þrjá klukkutímana. Hjólið í mótvindinum var erfiðast, enda er það lakasta greinin mín. Öldurnar í vatninu gerðu okkur líka svolítið erfitt fyrir og svo var hlaupið auðvitað áskorun, enda utanvegar,“ segir hún. Hvernig tilfinning var að koma fyrst í mark? „Ég var nú bara mest hissa, þetta var svo ótrúlegt. En ég var líka rosalega stolt af sjálfri mér og þeirri vinnu sem ég var búin að leggja í þetta. Ég bjóst alls ekki við þessu,“ segir hún og brosir.

Sem fyrr segir hóf Dagný störf hjá Landsvirkjun haustið 2017 og vinnur þar í viðskiptaþróun. Hvernig líkar henni það? „Mér finnst það alveg frábært. Það var alltaf markmiðið mitt – og í raun og veru áhugamál mitt líka – að vinna að því að byggja upp erlendar fjárfestingar á Íslandi. Hluti af því að vinna hjá Landsvirkjun er að skila af sér auknum verðmætum til samfélagsins. En tækifærin koma ekki af sjálfum sér og það er mikil vinna að koma Íslandi á kortið hjá erlendum iðnfyrirtækjum. Við leggjum okkur mikið fram um að laða til landsins sterkan iðnað sem skapar verðmæti, byggir upp samfélagið og hefur ekki slæm áhrif á náttúruna,“ segir Dagný að lokum.

Fréttasafn Prenta