Grein

Harpa Ósk Björnsdóttir, sérfræðingur í vinnsluáætlunum

23. október 2020
Harpa Ósk í hlutverki Barbarinu í sýningu Íslensku óperunnar á Brúðkaupi Fígarós haustið 2019.
Með samstarfsfólkinu á vinnsluáætlunardeild. Frá vinstri: Rúnar Kristjánsson, Magnús Sigurðsson, Ívar Baldvinsson, Harpa, Elísa Rún Hermundardóttir og Eggert Guðjónsson.
Harpa var einn af fjórum sigurvegurum í keppninni Ungir einleikarar 2019 og söng á samnefndum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hér er henni fagnað eftir magnaða frammistöðu.
Harpa Ósk með Gulla kærasta sínum fyrir utan sambandsstjórnsýsludómstólinn í Leipzig, sem heitir því ekki síður þjála nafni Bundesverwaltungsgericht á tungumáli innfæddra.
Harpa með kynningu á verkefninu sem hún vann að í 10 vikur hjá prófessor í Caltech sumarið 2018 og snerist um að þróa ígræðanlega flögu sem mælir blóðsykur hjá sykursjúkum.
Harpa með foreldrum sínum, Heiðrúnu Hákonardóttur og Birni Þrastari Þórhallssyni, eftir að hafa verið valin Rödd ársins á keppninni Vox Domini árið 2019.

Slík rödd kemur ekki fram nema með áratuga millibili, sagði hetjutenórinn og þjóðareignin Kristján Jóhannsson um Hörpu Ósk Björnsdóttur, 26 ára rafmagnsverkfræðimenntaðan sérfræðing sem vinnur heildsöluuppgjör, er í sambandi við viðskiptavini Landsvirkjunar, áætlar orkuframleiðslu og þróar bestunarhugbúnað fyrir vinnsluáætlanir á orkusviði fyrirtækisins.

Óhætt er því að segja að Harpa Ósk eigi titilinn Besta sópransöngkona Landsvirkjunar vísan, þrátt fyrir harða samkeppni frá mörgum lagvissum ástríðusöngkonum innan fyrirtækisins.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún hlotið mikla upphefð fyrir sönghæfileika sína, var t.a.m. valin einn fjögurra sigurvegara í keppninni Ungir einleikarar 2019 og kom fram á samnefndum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Um svipað leyti var hún valin „Rödd ársins 2019“ í söngkeppninni Vox Domini og viðhafði Kristján ofannefnd ummæli eftir þá keppni.

Jarðskjálftinn vakti heimþrá

Harpa Ósk er núna í Leipzig-borg í Þýskalandi, þar sem hún stundar söngnám við Felix Mendelssohn tónlistarháskólann undir leiðsögn prófessors Caroline Stein, virtrar þýskrar óperusöngkonu. Hún er um leið í hálfu starfi hjá okkur á Landsvirkjun og vinnur í gegnum fjarfundabúnað, eins og við gerum mörg um þessar mundir. Það er því nóg að gera, enda leyfa Þjóðverjar engar undanþágur frá kröfum um iðjusemi í námi. „En ég hef það voða fínt hérna. Ég verð samt að viðurkenna að ég fékk smá heimþrá þegar jarðskjálftinn kom um daginn og hugsaði: „O, ég er að missa af þessu. Ég fann ekki neitt!“ segir hún og hlær. „Það verður örugglega ekki íslenskara,“ bætir hún við. Kærastinn hennar, Guðlaugur Ari Jónsson, var að flytja út til hennar og er að hefja meistaranám í Þýskalandi, en hann er líka menntaður á sviði rafmagnsverkfræðinnar.

Vegurinn til Leipzig hefur verið um það bil eins langur og mögulegt er hjá manneskju sem er rétt skriðin yfir aldarfjórðunginn. Hún hóf fiðlunám þriggja ára gömul og píanónám fjögurra ára, í Suzuki-skólanum. „Mömmu og pabba fannst rosa mikilvægt að senda öll börnin í hljóðfæranám. Það var auðvitað töluvert mikill pakki og ég er ekki frá því að það hafi verið svolítið yfirþyrmandi þegar ég, þriðja systkinið, byrjaði í fiðlunámi. Ég var þess vegna sett í píanónámið ári seinna,“ segir hún, „svona aðeins til að auka fjölbreytnina,“ bætir hún brosandi við. Systkini hennar heita Björney Inga og Hákon Þrastar og eru átta og fimm árum eldri en Harpa. Þau lærðu bæði lengi á fiðlu og syngja mikið í kórum. „Bróðir minn er í kórnum Hljómeyki og þar vorum við öll í fjölskyldunni að syngja saman á tímabili, nema pabbi,„ segir hún. Núna nokkrum árum seinna er Björney fjármálahagfræðingur og Hákon með gráðu í hugbúnaðarverkfræði.

Undir miklum áhrifum frá mömmu

Þegar Harpa byrjaði í Snælandsskóla gekk hún svo í skólakórinn, sem svo heppilega vildi til að móðir hennar, Heiðrún Hákonardóttir, stýrði. Mamma hennar er lærð söngkona og -kennari, sem hefur m.a. sungið með Hamrahlíðarkórnum og Þjóðleikhúskórnum. Pabbi hennar, Björn Þrastar Þórhallsson, er tannlæknir og hefur að mestu leyti kynnst klassískri tónlist í gegnum eiginkonu sína og síðar börnin. „Ég held ég verði að viðurkenna að mamma hefur haft mikil áhrif á mig í lífinu. Ég ætlaði aldrei að gera þetta – ég ætlaði aldrei að verða eins og mamma, en svo hefur þetta bara þróast svona einhvern veginn,“ segir Harpa og hlær. Spyrill skýtur inn í að fólk verði gjarnan að foreldrum sínum – að því forspurðu og jafnvel gegn vilja sínum. „Já, það var líka mjög stórt skref hjá mér að fara ekki í tannlækninn,“ segir Harpa og hlær.

Úr kór Snælandsskóla fór Harpa í Gradualekór Langholtskirkju, sem lék stórt hlutverk í tónlistaruppeldi hennar. „Það má eiginlega segja að það hafi verið fyrir hvatningu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Jóns Stefánssonar hjá Gradualekórnum, að ég fór að læra söng fyrir alvöru. Ég byrjaði þá í einkatímum hjá Þóru Björnsdóttur og var þar til sautján ára aldurs, þegar ég hóf nám í Söngskólanum í Reykjavík, hjá Ólöfu Kolbrúnu,“ segir Harpa og bætir svo við í framhjáhlaupi, eins og um algjört aukaatriði sé að ræða: „já og svo æfði ég píanó, alveg þangað til ég varð átján ára.“

Í tvöföldu háskólanámi

Og meðfram öllu þessu tónlistarnámi gekk Harpa auðvitað hinn hefðbundna menntaveg. Hún gerði sér lítið fyrir og tók rafmagnsverkfræði í Háskóla Íslands í nefið og á síðasta árinu byrjaði hún í Listaháskólanum, þannig að hún var í tvöföldu háskólanámi í hálft ár. „Það var algjör bilun, verð ég að segja,“ segir hún og spyrill samsinnir því, nánast uppgefinn á upptalningunni.

Eftir námið við Háskóla Íslands stóð Harpa á tímamótum í lífinu. „Þá fékk ég að heyra að það væri eiginlega nú eða aldrei, ef ég ætlaði að læra söng í útlöndum. Ég ákvað því að láta á það reyna og sótti um í nokkrum skólum í Þýskalandi og átti að fara í nokkur inntökupróf í maí og júní 2019. Það þróaðist hins vegar þannig að fyrsta inntökuprófið var hjá skólanum í Leipzig og ég stóðst það, þannig að ég þurfti ekki að fara í fleiri próf, enda hafði hann verið draumaskólinn,“ segir hún.

En hvernig stendur á þessu tvíeðli, að geta verið listamaður og verkfræðingur í senn? Skiptirðu bara um karakter eftir þörfum? „Já, mér finnst ég stundum lifa tvöföldu lífi. Það er rosalega fyndið að vera í listaháskóla hérna úti og mæta svo á fjarfundi hjá Landsvirkjun. En ég er búin að prófa mig svolítið áfram með þessa hluti og ég finn að ég get ekki verið í bara öðru hvoru, það er algjörlega vonlaust fyrir mig. Mér líður oft eins og ég sé allt of ferköntuð fyrir listina, en svo er ég svo rosalega sveigjanleg í verkfræðinni, þannig að ég passa eiginlega hvergi inn,“ segir hún og hlær dátt. „En þetta hefur allt gengið einhvern veginn.“

Flaga til að bæta líf sykursjúkra

Árið 2018 var stórt í lífi Hörpu Óskar. Um sumarið fékk hún styrk til þess að vinna að merkilegu rannsóknarverkefni við Caltech-háskóla í Kaliforníu, sem snerist um ígræðanlegar rafrásir, þ.e. flögu sem er stungið undir efsta lag húðarinnar. „Þessi flaga sem við vorum að vinna með virkaði þannig að hún mældi blóðsykur hjá sykursjúkum. Í staðinn fyrir að þeir þurfi þá að stinga sig til blóðs á hverjum degi mælir flagan blóðsykurinn og sendir upplýsingarnar á nokkurra sekúndna fresti, þannig að sjúklingurinn er með þær í rauntíma í símanum sínum,“ segir Harpa. „Mitt verkefni var að hjálpa þeim að fá þetta samþykkt hjá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, sem gerir miklar kröfur til tækis svo það geti talist lækningatæki. Ég var að vinna að kóðanum í flögunni og skrifa hann þannig að hann fylgdi ákveðnum reglum og skemmdi ekki húðvefinn,“ segir hún. Flagan hefur síðan verið send í prófanir og kom vel út, þannig að það er allt útlit fyrir að sópransöngkonan og rafmagnsverkfræðingurinn geti brátt bætt við afrekaskrána að hafa átt þátt í að stórbæta líf milljóna sykursjúkra einstaklinga um víða veröld.

Þegar heim er komið, um haustið 2018, er Harpa að klára rafmagnsverkfræðina „og veit ekki alveg hvað ég á að gera við líf mitt. Á þeim tíma prófa ég að skella mér í keppnina Ungir einleikarar og er svo bara valin sem einn af fjórum sigurvegurum, sem er líklega einn stærsti heiður sem ég hef hlotið,“ segir hún. Verðlaunin voru þau að fá að flytja nokkur lög með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg. „Þetta var bara alveg geggjuð upplifun. Ég fékk að taka svolitlar „sprengjuaríur“, með miklum leikrænum tilburðum og flugeldasprengingum. Ég hef gaman af því að fara í karakter – falla í gerviyfirlið og sveifla demantshálsfestum vítt og breitt um sviðið,“ segir hún brosandi.

Harpa var sú eina af sigurvegurunum sem ekki var í námi erlendis, „þannig að þetta ýtti svolítið við mér og ég fékk þá hugmynd að sækja um í skólum eins og ég sagði áðan. Stuttu seinna fór ég líka í prufu fyrir Íslensku óperuna og fékk þar hlutverk, auk þess sem ég tók þátt í söngkeppninni Vox Domini, þar sem ég bar sigur úr býtum og var valin rödd ársins. Þannig að það var margt í gangi þarna á þessum tíma, seinni hluta ársins 2018 og byrjun 2019,“ segir Harpa.

Vel tekið í Íslensku óperunni

Harpa tók svo þátt í uppsetningu Íslensku óperunnar á Brúðkaupi Fígarós í kjölfarið, þar sem hún fór með hlutverk Barbarinu. Hvernig var að koma inn í heim óperunnar á Íslandi? „Ótrúlega skrýtið. Það er ekkert sem býr mann fyrir þetta. Ég vona að mér hafi verið tekið með smá stúdentafyrirvara, því ég var eina manneskjan sem var ennþá í námi og yngst. Fólk gerir sér held ég almennt ekki grein fyrir því hvað það er gríðarlega mikil vinna að taka þátt í svona uppfærslu. Fólk heldur kannski að óperusöngvarar mæti bara á svæðið og syngi. En í Brúðkaupi Fígarós er til dæmis eitt af aðalhlutverkunum eitt stærsta hlutverk óperubókmenntanna. Söngkonan er á sviðinu í 43 senum, sýningu eftir sýningu. Þetta er eins og hjá atvinnuíþróttamönnum. Ég var nú sjálf í litlu hlutverki, en mér fannst nógu erfitt að læra mína rullu, því söngstíllinn leyfir engin frávik. Þetta er svona tal-söngur, mörg atkvæði á ítölsku í ákveðnum takti og þetta þarf að vera algjörlega fullkomið, því það þekkja allir þetta verk og vita hvernig það á að hljóma,“ segir Harpa. „En það var ótrúlega gaman að koma inn í þennan hóp og kynnast þessari blöndu af þaulreyndum og yngri söngvurum, sem tóku mér allir svo vel. Þetta er án efa með því skemmtilegra sem ég hef gert á ævinni,“ segir hún.

Aðspurð hvort hún hafi nokkurn tíma fyrir önnur áhugamál en sönginn, meðfram starfinu hjá Landsvirkjun, segir Harpa að hún hafi gríðarlega gaman af því að ferðast um Ísland. „Já, ég held að það sé númer eitt; að fara á staði sem ég hef ekki farið áður. Stundum reynir held ég svolítið á þolinmæði ferðafélaga minna, því ég vil alltaf fara svo langt, því mér finnst svo áhugavert að fara í lengri og erfiðari ferðir. Ég hef svolítið verið að kenna í Vísindasmiðju Háskóla Íslands, fyrir hönd Landsvirkjunar, og þar hef ég fengið að ferðast mikið um landið, sem er alveg geggjað. Ég er alltaf að plana einhver ferðalög og það er líklega oft krefjandi fyrir kærastann minn að loksins þegar það kemur einhver pása frá vinnu og námi er ég búin að skipuleggja næstu ferð,“ segir Harpa og kímir.

Fréttasafn Prenta