Grein

Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í eignastýringu

14. ágúst 2020

Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir, sem vinnur sem sérfræðingur á eignastýringu hjá okkur, spilar handknattleik með meistaraflokki HK við góðan orðstír. Valgerður, sem er 28 ára gömul, er af einni frægustu ætt handboltakvenna á Íslandi. Amma hennar, landsliðskonan Sigríður Sigurðardóttir, fyrirliði Vals, varð fyrst kvenna til að verða valin íþróttamaður ársins, árið 1964. Með kjörinu varð hún einnig fyrsti íþróttamaðurinn úr hópíþróttum til að hljóta þann titil.

Hafdís móðir Valgerðar og systur hennar, Díana og Guðríður Guðjónsdætur, áttu svo glæsilegan feril með gullaldarliði Fram og unnu með því fjölmarga Íslands- og bikarmeistaratitla. Segja má að hún hafi fengið handboltaáhugann með móðurmjólkinni, en Hafdís mamma hennar var að þjálfa hjá Fram og tók dóttur sína gjarnan með á æfingar. „Maður ólst eiginlega upp í þessu, sniglaðist í kringum æfingar frá blautu barnsbeini, þannig að þetta var eiginlega bara eðlilegt framhald og kom bara af sjálfu sér,“ segir hún. Valgerður var kornung, fimm ára, þegar hún byrjaði í Fram og æfði þar í fjögur ár, áður en hún skipti yfir í HK.

Spyrill, sem er Framari að upplagi, spyr hvort aldrei hafi komið til greina að feta í fótspor móðurinnar og móðursystra innan þess félags. „Í rauninni ekki. Við fluttum í Kópavoginn og mamma byrjaði að þjálfa hjá HK, þannig að ég flaut með. Ég var auðvitað í skóla í Kópavoginum og allir vinir mínir voru í HK, þannig að það lá beinast við,“ segir hún.

Núna stendur yfir undirbúningur fyrir Íslandsmótið, Olísdeildina, sem byrjar eftir mánuð ef þróunin í COVID-19 faraldrinum verður ekki óhagstæð. „Þetta undirbúningstímabil hefur náttúrulega verið svolítið óvenjulegt, vegna veirufaraldursins. Við höfum til dæmis bara verið að lyfta og hlaupa núna í byrjun undirbúningstímabilsins, en við byrjum vonandi fljótlega að taka handboltaæfingar og æfingaleiki, ef þróunin verður áfram í rétta átt. Það er svolítið erfitt að skipuleggja haustið, því leikjadagskráin getur breyst með skömmum fyrirvara og þjálfarinn verður bara að plana fyrir eina viku í senn,“ segir hún.
Hvernig fer saman að vinna hjá Landsvirkjun og spila handbolta í efsta gæðaflokki? „Bara mjög vel. Á þessum árstíma erum við venjulega að fara út á aflstöðvarnar og skipuleggja næsta ár og þá hef ég reynt að fá frí á æfingum eða reynt að taka síðdegisflugið heim til að ná æfingu. Það hafa orðið mjög litlir árekstrar og ég hef alltaf notið skilnings á báðum stöðum,“ segir hún.

Hvað er hún nákvæmlega að gera hjá eignastýringu? „Við sjáum um skipulag viðhalds á mannvirkjunum okkar og reynum að skipuleggja það eitt til þrjú ár fram í tímann. Við gerum endurbótaáætlun einu sinni á ári, en verkefnin dreifast um fyrirtækið, bæði skrifstofuna á Háaleitisbrautinni og úti á aflstöðvunum, og okkar hlutverk er að fylgja þeim eftir og sjá til þess að orkuvirkin okkar skili tilgreindu hlutverki á líftíma sínum,“ segir Valgerður.

Hvernig vildi það til að hún fór að vinna hjá Landsvirkjun? „Ég byrjaði sem sumarstarfsmaður í mötuneytinu þegar ég var í Háskólanum í Reykjavík að læra fjármálaverkfræði. Þegar ég svo útskrifaðist, árið 2015, fékk ég starf á fjármálasviðinu, sem sumarstarfsmaður, og í kjölfarið fór ég út í mastersnám í tvö ár og vann hjá fjármálasviði þegar ég kom heim á sumrin. Í nóvember 2017, eftir að ég útskrifaðist úr mastersnáminu og við fluttum heim, fékk ég svo starf hjá eignastýringunni,“ segir hún. Hún segir að starfið sé fjölbreytt og skemmtilegt og vinnustaðurinn góður.
Hver eru svo framtíðarplönin? Hversu lengi ætlar hún að vera í handboltanum? „Ég er nú ekkert búin að leggja það niður fyrir mér, en það er að minnsta kosti engin ástæða til að hætta á meðan maður er ennþá á góðum aldri, með líkamann í góðu standi og maður hefur gaman af þessu,“ segir hún. Unnusti hennar, Leó Snær Pétursson, er líka í handboltanum og spilar með Stjörnunni. „Við þekkjum eiginlega ekkert annað en að vera á fullu í boltanum og höfum engin plön um neitt annað á næstunni,“ segir Valgerður að lokum.

Fréttasafn Prenta