Grein

Olivera Ilic, sérfræðingur á Þjórsársvæði

30. október 2020
Í fullum skrúða á víkingahátíð í Danmörku.
Fjölskyldan á góðri stundu. Guðni, Olivera og Freyr.
Í göngutúr með syninum, Garðari Frey.
Fjölskyldan í Kerlingafjöllum.
Olivera og Guðni við Inkaborgina Machu Picchu í Perú.
Olivera við vatnamælingar við Fossá.

Ef þið bregðið ykkur í Nettó í Hafnarfirði um miðsumar og rekið augun í bardagaynju í fullum víkingaskrúða grípa sér rækjusamloku og kókdós úr kælinum hníga nokkrar líkur til þess að þar sé á ferð Olivera Ilic sérfræðingur hjá Landsvirkjun, sem er með umhverfismál og samskipti við hagsmunaaðila á Þjórsársvæðinu á sinni könnu, auk þess að huga að gæðakerfi og öryggismálum. Olivera er í hafnfirska víkingafélaginu Rimmugýgi, sem stendur árlega fyrir víkingahátíðinni þar í bæ og ferðast um víða veröld til móts við annað áhugafólk um víkingamenninguna, þegar drepleiðinlegar sóttvarnaaðgerðir kæfa ekki stemmninguna hjá vönum og ásum.

„Já, við erum nokkrir tugir vaskra karla og kvenna sem höfum áhuga á víkingatímanum og reynum að nálgast lifnaðarhætti þessara forfeðra okkar þegar við komum saman á hinum ýmsu hátíðum og samkomum,“ segir Olivera. Á víkingahátíðum eins og þeirri sem haldin er í Hafnarfirði fara fram bardagasýningar og leikjasýningar. Þar er líka kennd bogfimi, sagðar sögur, handverk sýnt, ýmislegt boðið til sölu á markaði og börnum boðið í víkingaskóla, svo fátt eitt sé nefnt.

Snýst um lífsstílinn

Spurð um bardagasýningarnar segir Olivera að þar sé almennt ekki verið að endurleika sérstaka bardaga úr fortíðinni, heldur meira verið að sýna hvernig forfeður okkar hafi borið sig að þegar sló í brýnu milli hópa. „Þetta snýst líka aðallega um lífsstílinn. Við reynum að hafa hlutina eins upprunalega og hugsast getur. Allur klæðaburður er byggður á sniðum sem unnin voru úr klæðum sem fundust við uppgröft á víkingagröfum og við notum líka efni og litunaraðferðir sem við vitum að voru notaðar á þessu tímabili,“ segir Olivera. „Til dæmis notum við ekki gerviefni og bómull, heldur frekar ull, hör eða leður og oftar en ekki eru efnin jurtalituð. Hið sama á við bardagatækni – vopn og verjur,“ bætir hún við. Þar fyrir utan er margt það handverk sem sýnt er á víkingahátíðum – smíði, leirvinnsla og útskurður – unnið á sama máta og á víkingatímabilinu.

Fyrrnefnt félag Rimmugýgur, sem er nefnt eftir öxi Skarphéðins Njálssonar, er öflugt og með mikla starfsemi. „Fyrir utan þessa hátíð í Hafnarfirði höldum við smærri hátíðir um allt land og förum svo til útlanda, á víkingahátíðir þar og bardagaæfingar, til að mynda til Danmerkur, Bretlands og Póllands,“ segir Olivera, „en við erum semsagt bæði í þessu, ég og maðurinn minn,“ heldur hún áfram. Upp úr krafsi spyrils kemur þá að Olivera og sambýlismaður hennar, Guðni Garðarsson, kynntust einmitt á Keflavíkurflugvelli, á leiðinni til Danmerkur í víking! Þau eiga núna tíu mánaða gamlan son, Garðar Frey Guðnason Ilic. Er þá ekki víkingaævintýrið úti? „Nei, heldur betur ekki. Hann kemur bara með okkur!“ segir Olivera. Þetta verður því skammvinn pása.

Lék í Englum alheimsins

Víkingahátíðirnar eru sumar hverjar afar stórar. Rimmugýgjarfólk hefur undanfarin ár sótt eina þá stærstu, í Moesgård í Danmörku, þar sem saman koma hundruð víkinga hvaðanæva að úr heiminum. „Þá mætast tveir herir í svokölluðum línubardaga, alveg uppundir 4-500 manns í hvorum her,“ segir Olivera. Þá vaknar spurningin hvort fólki hitni ekki stundum í hamsi og einhverjir meiði sig í látunum? Olivera brosir góðlátlega. „Sko, vopnin sem við notum eru úr stáli, en þau eru ekki beitt. En vissulega verður maður að búast við einhverjum marblettum, þegar maður býr sig undir þessa bardaga. Það er í raun og veru ótrúlega sjaldgæft að fólk verði fyrir einhverjum alvarlegri meiðslum,“ bætir hún við. „Það gilda gríðarlega strangar öryggisreglur í þessari íþrótt eins og flestum öðrum íþróttum sem fela í sér einhverja hættu á meiðslum,“ segir hún.

Olivera segir að oft komi fyrir að félagar í Rimmugýgi séu ráðnir í hin ýmsu „gigg“, þar sem þeir séu fengnir til að vera með sýningu, eins og t.a.m. fyrir ferðamenn eða jafnvel koma fram í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Spyrill æsist upp við þessar upplýsingar. Hefur hún þá komið fram í frægri mynd? „Nei, reyndar ekki sem víkingur. En ég var statisti í Englum alheimsins!“ segir hún hlæjandi. „Þetta var þegar ég var í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, að vinna lokaverkefni í fjölmiðlafræði, sem var heimildamynd um gerð myndarinnar Englar alheimsins, en tökur stóðu þá yfir. Ég var þess vegna mikið í kringum tökurnar, tók viðtöl við leikara og starfsfólk og var fengið til þess að stíga inn í þegar það vantaði einhvern í bakgrunninn. Ég kom fram í tveimur eða þremur statistahlutverkum, meðal annars var ég kransaberi í jarðarför,“ segir hún og brosir í kampinn. Lesendur eru hér með hvattir til þess að renna sér aftur í gegnum þetta meistaraverk Friðriks Þórs og Einars Más og lúsleita að Oliveru í hverri senu.

Ólst upp í Neskaupstað

Spyrill vendir kvæði sínu í kross og spyr Oliveru skyndilega hvaðan hún sé og hvar hún hafi búið á lífsleiðinni. Augljóst er á viðbrögðum viðmælandans að þessi viðtals-u-beygja kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti, en hún heldur ró sinni og svarar: „Ég er fædd og uppalin í Neskaupstað. Móðir mín heitir Þuríður Una Pétursdóttir og faðir minn heitinn hét Emil Dusan Ilic og kom frá Serbíu. Þau skildu þegar ég var ung og ég ólst upp hjá móður minni fyrir austan. Um leið og grunnskóla lauk flutti ég til Reykjavíkur og hóf nám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Síðan flutti ég í Kópavog, þar sem ég á marga ættingja þótt ég sé að uppruna ættuð frá Dýrafirði á Vestfjörðum. Um tíma var ég svo að vinna á Patreksfirði og Ólafsvík og núna bý ég á Selfossi,“ segir hún.

Svo óheppilega vildi til að kennarar fóru í verkfall á síðustu önn Oliveru í fjölmiðlafræði í FB og flosnaði hún því tímabundið upp úr því námi. „Þá var ég búin að ákveða að mig langaði til þess að verða sjúkraflutningamaður,“ segir hún, „þannig að ég skellti mér í meiraprófið, þarna 21 árs gömul, því sjúkraflutningamaður verður að vera með svoleiðis. Þegar það var í höfn brunaði ég til Bandaríkjanna, þar sem ég tók grunnnám í sjúkraflutningum, með áherslu á óbyggðasjúkraflutninga,“ segir Olivera, en hún hafði þá verið starfandi í björgunarsveitum frá því hún varð unglingur og m.a. lært skyndihjálp.

Lögreglustörf og fjölmiðlafræði

Haustið 2001 kom hún svo heim frá Bandaríkjunum, fulllærður sjúkraflutningamaður, „og þá vantaði mig vinnu, en það var ekki beinlínis hlaupið að því að komast strax að í sjúkraflutningabransanum,“ segir hún. „Þannig að ég tók því sem mér bauðst á þeim tímapunkti og fór að keyra strætó í Hafnarfirði,“ bætir hún við án þess að blikna. Spyrill sperrir eyrun enn frekar. „Þar vann ég semsagt um haustið 2001 og vorið 2002, en þá hafði ég sótt um afleysingastarf hjá lögreglunni á Selfossi, sem á þeim tíma annaðist líka sjúkraflutninga. Þar byrjaði ég um sumarið og vann þar fram á árið 2003, þegar ég fór í Lögregluskólann og kláraði hann. Að honum loknum fór ég aftur í lögregluna, fyrst á Patreksfirði og svo á Selfossi, og vann sem lögreglu- og sjúkraflutningamaður, þangað til Heilbrigðisstofnun Suðurlands tók yfir sjúkraflutningana. Þá stóð ég allt í einu uppi sem „óbreytt“ lögreglukona. Ég kláraði svo námið í FB með vinnu og útskrifaðist með stúdentspróf frá fjölmiðlafræðibraut,“ segir Olivera.

Hún ílengdist þó í löggunni og var meira og minna að starfa sem lögreglukona þangað til hún byrjaði að vinna hjá Landsvirkjun, í lok árs 2016. Til viðbótar við allt þetta hafði Olivera unnið í aukavinnu við að keyra ferðamenn í breyttum bifreiðum upp á jökla á meðan hún keyrði strætó og fyrstu fimm árin sem hún vann sem lögreglukona.

Og, ofan á allt þetta kláraði Olivera BS-próf í umhverfis- og orkufræði frá Háskólanum á Akureyri og núna í vor lauk hún meistaraprófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands. Að spyrli læðist sá grunur að Olivera hafi verið nokkuð önnum kafin síðustu áratugi. „Já, ætli það megi ekki segja það,“ svarar hún brosandi. „Ég er voðalega mikið flöktandi úr einu í annað. Ég vil prófa sem flest, þú sérð að ég fer ekkert afskaplega beinar leiðir í þessu öllu saman. Úr fjölmiðlafræði í sjúkraflutninga og lögguna, yfir í umhverfis- og orkufræði og jarðfræði. Það er svolítið ég í hnotskurn. Ég er til að mynda búin að æfa ógrynnin öll af íþróttum, var í tónlistarnámi í mörg ár. Ég átti vélsleða í nokkur ár, keypti mér mótorhjól sem ég á reyndar enn, og svona má lengi halda áfram,“ segir Olivera og kímir.

Beint af flugvellinum í Hampiðjuna

Sem fyrr segir var faðir Oliveru, Emil Dusan Ilic, Serbi. Hann lést árið 2006. Hvernig endaði hann á Íslandi? „Ólíkt mörgum löndum hans hér á landi var hann ekki flóttamaður eða íþróttamaður. Hann kom hingað árið 1977, í leit að betra lífi. Hann hafði átt grunnskólakennara sem hafði komið hingað og sagt honum að hér drypi smjör af hverju strái. Pabbi hafði alist upp við erfiðar aðstæður. Amma og afi skildu, sem var afar fátítt í Serbíu á þessum tíma. Amma fór með tvö yngri systkinin til Austurríkis, en pabbi og systir hans urðu eftir hjá afa. Þetta voru viðsjárverðir tímar í Serbíu, sem þá var hluti af einræðisríkinu Júgóslavíu. Tito var við völd og hersveitir Arkans vofðu yfir öllu. Þetta var kannski ekki beint flótti, en það var ekki gott að vera í Júgóslavíu á þessum tíma, þannig að pabbi pakkaði í eina pínulitla ferðatösku og kom til Íslands. Hann talaði hvorki stakt orð í íslensku né ensku, en frændi hans sótti hann út á flugvöll og keyrði hann beint í Hampiðjuna, þar sem hann hafði reddað honum vinnu. Mamma var að vinna þar og hér er ég!“ segir hún og hlær.

Olivera hefur farið nokkrum sinnum til Serbíu og Þýskalands til að hitta ættingja sína. „Pabbi átti tvær systur, aðra sem býr í Serbíu og hina sem bjó í Þýskalandi. Ég hef farið tvisvar til Serbíu og hitt þá fyrrnefndu, en sú sem býr í Þýskalandi á börn á mínu reki, sem ég er í mjög góðu sambandi við. Ég fer mjög reglulega að heimsækja þau og hef jafnvel dvalið þar marga mánuði í senn,“ segir hún. Hún segist aðspurð vera mjög stolt af serbneskum uppruna sínum. „Og ég vildi gjarnan að ég hefði haft meiri dug í mér að læra serbnesku, en nú er pabbi því miður ekki lengur til staðar til að kenna mér tungumálið.“

Stolt af því að hafa ekki komið til Noregs

Eitt af stærstu áhugamálum Oliveru er að ferðast á framandi slóðir. Um páskana 2019 skellti hún sér ásamt Guðna sambýlismanni sínum til Perú. „Þar vorum við bæði að príla Andesfjöllin og spígspora um frumskóga Amazon, við frumstæðar aðstæður. Svo þegar við komum heim komumst við að því að það væri lítill laumufarþegi með, sem er hann Freyr,“ segir hún brosandi. Sá stutti er því víðförulli en meðalkornabarnið.

Olivera segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á ferðalögum. „Helst á framandi slóðir og helst þangað sem engir Íslendingar eru,“ segir hún og brosir, „enda umgengst ég Íslendinga dags daglega og þegar ég fer út langar mig að umgangast einhverja aðra,“ segir hún og hlær. „Ég hef til dæmis hvorki komið til Svíþjóðar né Noregs, en hins vegar hef ég heimsótt staði eins og Suður-Afríku, Perú og Maldíveyjar, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir hún.

Enn bætist í áhugamálin, því Olivera er ástríðukafari. „Kannski er það ein helsta ástæðan fyrir því að ég hef ferðast víða um veröldina, að það er alveg stórkostlega gaman að kafa úti í heimi. Það jafnast ekkert á við að skoða fjölskrúðugt dýra- og plöntulíf í sjónum. Ég hef mjög gaman af því að kafa með hákörlum og svo finnst mér gaman að kafa með sæljónum, skötum og skjaldbökum.“ Olivera hefur kafað á Grikklandi, á Kúbu, Suður-Afríku, Tyrklandi, Perú, Maldíveyjum og Bahama-eyjum og mælir sérstaklega með þeim tvennu síðastnefndu. En er ekki köfunarævintýrinu lokið í bili, þegar Freyr er mættur á svæðið? „Nei, aldeilis ekki. Það má byrja að læra að kafa sex ára!“ segir hún og hlær.

Með bláa beltið í júdó

Ef lesendur halda að upptalningu afreka og áhugamála Oliveru Ilic sé lokið er það misskilningur. Hún er með bláa beltið í júdó! „Ég hef reyndar lítið æft síðustu ár, í og með vegna barneigna og veirufaraldurs. Ég fékk þessa hugmynd þegar ég var rúmlega þrítug og í löggunni. Fannst þetta hugsanlega geta nýst manni í starfinu og svo hefur nú komið í ljós að júdóið kemur að góðum notum annars staðar. Júdó kennir manni að detta án þess að meiða sig, sem hefur margoft komið sér mjög vel í víkingabardagabransanum. Svo lenti ég einu sinni í því að þurfa að handtaka afbrotamann í fljúgandi hálku og auðvitað flugum við bæði á hausinn og ég vil meina það að júdóþjálfunin hafi gert mér kleift að ná áttum miklu fyrr en hann og ná yfirhöndinni í viðureigninni,“ segir Olivera að lokum og skellihlær.

 

Fréttasafn Prenta