Grein

Pétur Bjarni Gíslason, umsjónarmaður verkskipulags

2. október 2020
Það er engu líkara en sólarhringurinn hjá Pétri Bjarna Gíslasyni sé á fjórða tug klukkustunda. Hann er umsjónarmaður verkskipulags hjá Landsvirkjun á Mývatnssvæðinu, smíðar meistarastykki með rennibekk, tekur ljósmyndir eins og atvinnumaður, keyrir um á enduro mótorhjóli, klifrar ísi lagða fossa og þeysist um á vélsleða á veturna og gengur um fjöll og firnindi á sumrin. Þar að auki er hann með flugmannspróf, þótt hann hafi reyndar ekki stundað flugið að ráði síðustu ár.

Ekki á sérsamningi

Pétur vísar þó á bug þessari fyllyrðingu spyrils, að hann hljóti að vera á sérsamningi hjá opinberri ákvörðunarnefnd um fjölda klukkutíma í sólarhring. „Nei, ég myndi segja að mig vantaði nú frekar tíma til þess að sinna þessu öllu saman,“ segir hann og hlær. Aðspurður um smíðarnar segist hann hafa byrjað fyrir um sex árum að nota rennibekk, þótt hann hafi alla tíð haft gaman af smíðum, enda séu þær í ættinni, svo langt aftur sem menn muni. Spurður hvað hann geri við afraksturinn segir hann: „Ég hef nú meira gaman af því að smíða þetta en að selja þetta, þannig að þetta safnast nú svolítið upp hjá mér. En ég hef sett nokkra hluti í sölu hjá handverkshúsi hérna í Mývatnssveit og svo er þetta farið að spyrjast aðeins út og fólk farið að hafa samband við mig og falast eftir þessum hlutum,“ segir hann. Hægt er að sjá sýnishorn af handbragðinu með því að slá inn Snæuglan á Facebook.

Ísklifrið stundar hann aðallega í Vatnajökli, „og svo hef ég farið svolítið í Kinnarfjöll við Skjálfanda. Það var líka nóg af fossum í nágrenni Kárahnjúka, þegar ég var að vinna þar. Annars hefur vandamálið aðallega falist í því að klifurmennirnir verða alltaf að vera tveir saman, til að tryggja öryggi hvor annars, og lengi vel var ég sá eini í mínu nánasta umhverfi sem hafði áhuga á þessu sporti. En sonur minn hefur komið með mér, allt frá því að hann var tólf ára,“ segir Pétur.

Með ljósmyndasíðu á Flickr

Pétur Bjarni er með síðu á ljósmyndavefnum Flickr, en hægt er að nálgast hana með því að slá nafn hans inn á forsíðunni. „Ég held að ég hafi fengið fyrstu myndavélina mína tólf ára og hef ekki hætt að mynda síðan. Það má eiginlega segja að ég hafi alltaf verið með myndavélina um hálsinn. Ég er til dæmis sá eini af þeim sem ég var með í bekk sem á myndir úr kennslustofunni okkar í grunnskóla. Stundum hefur fólk furðað sig á því að ég nenni að burðast út um allar trissur með þessa græju, og stundum þrífót líka, en oft kviknar á perunni þegar afraksturinn kemur í ljós,“ segir hann.

Er þetta það skemmtilegasta sem hann gerir, að festa heiminn á filmu? „Það er nú erfitt að gera upp á milli barnanna sinna,“ segir Pétur og hlær dátt. „Þetta er kannski það hobbí sem ég hef stundað lengst og stöðugast,“ bætir hann við. „En ég hugsa nú að skemmtilegasta tómstundagamanið hafi verið flugið,“ segir hann. Pétur stundaði flugið af krafti, allt frá árinu 1986 til 2013, þegar vélin skemmdist í óhappi. „Ég gat ekki réttlætt það fyrir fjölskyldunni að kaupa aðra vél,“ segir hann og brosir. „En þetta var alveg rosalega gaman. Útsýnið og frjálsræðið. Það var hápunktur tilverunnar að fljúga fyrst yfir svæðið, keyra svo á fjallabílnum og síðan ganga sömu leið. Þannig fékk maður öll möguleg sjónarhorn,“ segir hann.
Ofan á allt þetta hefur Pétur verið í björgunarsveit síðan 1984, eða í 36 ár, þar af 15 ár sem formaður og í stjórn slysavarnafélagsins Landsbjargar í tíu ár. Nú er hann formaður svæðisstjórnar björgunarsveitanna á svæði 12. Hann gerir lítið úr framlagi sínu í þessum efnum. „Það má nú eiginlega bara segja að það sé samfélagsskylda að vera í björgunarsveit úti á landi, þar sem þetta er hreinlega öryggismál fyrir allt samfélagið,“ segir hann.

Grænlendingar æðislegt fólk

Pétur dvaldi á Grænlandi í fjögur ár á vegum Landsvirkjunar, þar sem hann gangsetti og prófaði virkjanir, áður en hann kenndi heimamönnum að reka þær. „Þetta voru mjög skemmtileg verkefni,“ segir hann. En hvernig eru Grænlendingar í viðkynningu? „Grænlendingar eru alveg æðislegt fólk. Það var yndislegt að flækjast með þeim um náttúruna; þau eru svo fróð um náttúruna og lífríkið, enda hefur lífsbaráttan auðvitað oltið á þeirri þekkingu í margar aldir. Ég geri hvað ég get til að halda tengslum við grænlenska vini mína,“ segir hann.

Pétur býr í Reykjahlíðarþorpi við Mývatn. Hann er kvæntur Sigríði Stefánsdóttur og eiga þau fjögur uppkomin börn. Aðsetur hans er við Kröflustöð, en starfstitill hans hjá Landsvirkjun er sem fyrr segir umsjónarmaður verkskipulags. Hvað gerir umsjónarmaður verkskipulags nákvæmlega? spyr spyrill. „Ekkert nákvæmlega,“ svarar Pétur og hlær innilega. „Það má segja að ég sjái um viðhaldskerfið; alla bakvinnslu og verklýsingar, auk ýmissa annarra verkefna,“ segir hann. Hann er búinn að vinna í 31 ár hjá fyrirtækinu, hvorki meira né minna, og segist líka vel, þótt starfið hafi kannski færst eilítið mikið yfir á skrifborðið síðustu árin. „En ég fæ þá bara útrásina í áhugamálunum,“ segir hann að lokum og hlær.

Fréttasafn Prenta