Grein

Sveinn Grímsson, rekstur og viðhald í Búrfelli

23. desember 2020
Sveinn með dóttur sinni Dröfn á jólunum 2006. Hamborgarhryggurinn er órjúfanleg jólahefð á heimilinu.
Jólahald í Hrauneyjum árið 2004. Á myndinni má sjá Eggert, Siggu, Dröfn, Sædísi, Magnús, Ásrúnu og baksvipinn á Magneu.
Sædís, eiginkona Sveins, við jólatréð í hefðbundnu Moelven-húsi í vinnubúðum Landsvirkjunar, jólin 2004.
Dröfn dóttir Sveins og Sædísar, prúðbúin jólastúlka árið 2006.

Jólalífið í Landsvirkjun

Eins og við getum ímyndað okkur fá túrbínurnar í aflstöðvum Landsvirkjunar ekkert jólafrí. Þvert á móti er rafmagnsvinnslan í fullum gangi þegar þjóðin undirbýr jólamatinn og fjölskyldurnar setjast niður við hátíðarborðið. Þess vegna verðum við hjá Landsvirkjun alltaf að hafa fólk á vakt og til taks, ef einhver snurða skyldi hlaupa á raflagnirnar.

Sveinn Grímsson er eldri en tvævetur í rekstri og viðhaldi aflstöðva. Hann byrjaði að vinna í Búrfellsstöð sem verktaki árið 1996 og var svo ráðinn til okkar árið 2001. Þá hóf hann störf sem vaktmaður við rekstur og viðhald í Hrauneyjafossstöð.

Sveinn segir að jólahaldið í Hrauneyjum hafi verið nokkuð frábrugðið því sem nú þekkist á aflstöðvum. „Já, þetta var afskaplega skemmtilegt í þá daga.  Langflestir voru með fjölskylduna með sér, svo sem eins og þekkist núna, en þetta var frábrugðið að því leyti að við borðuðum öll jólamatinn saman í mötuneytinu. Mikið fjör og mikið gaman. Mikið af börnum, sem gerði stemmninguna alveg ógleymanlega. Ráðskonan eldaði dýrindis jólamat og að honum loknum hjálpuðust allir við að ganga frá og taka til í eldhúsinu. Þegar því var lokið fóru allir til sinna vistarvera og opnuðu sína pakka þar. Þetta var ansi gott samfélag í Hrauneyjum, mikil samheldni og samstaða,“ segir Sveinn.

Sveinn segir að þeir sem eru á vakt á aðfangadag noti daginn til þess að taka gott eftirlit í stöðvunum, svo þeir geti haft það sem náðugast um kvöldið með fjölskyldunum. „En auðvitað erum við alltaf á verði og við öllu búnir og getum skotist með engum fyrirvara inn í stöðvarhúsið, ef á þarf að halda. Hér áður fyrr var mjög þungt á kerfinu á aðfangadag og fram yfir kvöldmat, þ.e.a.s. mikil framleiðsla og álag á vélum. Með því að undirbúa okkur vel getum við yfirleitt tekið því nokkuð rólega eftir klukkan fjögur, þótt við séum auðvitað mikið á varðbergi eftir það, eins og ég sagði áðan.“

Aðspurður hvort aldrei hafi ró stöðvarmanna verið raskað á aðfangadag segir Sveinn að það hafi nú sjaldan gerst, fyrir utan mikla útleysingu sem varð árið 2007. „Þá fengum við útkall um hálfellefuleytið á aðfangadagskvöld. Það var mjög alvarleg bilun í Sultartanga og við vorum ekki komnir inn fyrr en undir morgun, þannig að jólanóttin fór öll í það ævintýri.“

En hefur jólahaldið á stöðvunum eitthvað breyst í seinni tíð, með meiri sjálfvirkni og bættri tækni? Þarf eitthvað minni viðveru en í gamla daga? „Nei, við mætum til vinnu alla daga yfir hátíðarnar. Flestir fá fjölskyldurnar til sín, en auðvitað eru sumir einir, eins og gengur. Við höfum allir vistarveru, herbergi eða íbúð, og yfir jólin er reynt að haga því þannig að allir geti fengið íbúð sem eru með fjölskyldu hjá sér, þannig að fólk geti haldið hefðbundin jól. Við setjum upp okkar jólatré í íbúðinni, skreytum og reynum að gera þetta eins og við séum heima hjá okkur,“ segir Sveinn.

Sveinn segir að fjölskyldunni hans þyki alls ekki kvöð að halda jólin í Búrfellsstöð, þar sem hann vinnur núna. „Þetta er bara ævintýralegt. Við komum með okkar eigin jólamat og eldum hann í íbúðinni. Ef konan mín þarf að fara í jólaboð hjá sinni fjölskyldu bregður hún sé bara bæjarleið með dóttur okkar á Selfoss. Við höfum meira að segja haldið fámenn jólaboð hérna í Búrfelli,“ segir hann.

Aðspurður um eigin jólasiði segir Sveinn að þau séu alltaf með hamborgarhrygg á aðfangadag. „Konan mín gerir svo alltaf heimalagaðan frómas, sem er upprunninn úr hennar fjölskyldu. Það er mjög gaman að hafa eitthvað svona sérstakt á boðstólum. Frómasinn er eftirrétturinn okkar,“ segir hann brosandi.

Eiginkona Sveins heitir Sædís Jónsdóttir. Þau hjónin eiga dótturina Dröfn, sem er 21 árs gömul og býr í foreldrahúsum. „Hún er nánast jafngömul þeim tíma sem ég réðist hingað til Landsvirkjunar í Búrfelli. Hún er svolítið alin upp hérna í Búrfelli. Henni þykir ekki leiðinlegt að koma hingað og vera yfir jólin,“ segir Sveinn.

Fjölskyldan býr á Selfossi, en Sveinn og eiginkona hans eru bæði ættuð þaðan. „Við erum alveg innmúraðir Selfyssingar. Forfeður mínir bjuggu meira að segja á Selfossbænum,“ segir  Sveinn, en langafi hans, Símon Jónsson var bóndi á Selfossi. Þannig að það má segja að þú sért sjálfur jarlinn af Selfossi? Sveinn hlær. „Á maður ekki bara að vera drjúgur með sig og segja það?“

Að lokum vill Sveinn senda eftirfarandi jólakveðju til samstarfsfólks síns hjá Landsvirkjun:

„Sendum frábæru samstarfsfólki og fjölskyldum bestu óskir um gleðileg jól og farsæl komandi ár.

Bestu þakkir fyrir það sem þið hafið gefið okkur.“

Fréttasafn Prenta