Grein

Úlfar Linnet, sérfræðingur í viðskiptagreiningu

14. nóvember 2020
Prinsinn lítill, borinn á gullstól og elskaður af öllum.
Teknóhljómsveitin Útópía. „Betri í flestu öðru en tónlist.“
Úlfar krýndur fyndnasti maður Íslands 2001. Titilinn ber hann enn.
Fyrsta myndin af Úlfari og eiginkonu hans, Ragnheiði Þórdísi Ragnarsdóttur, birtist á 01.is.

Úlfar Linnet ber ennþá titilinn fyndnasti maður Íslands 2001, þótt hann hafi skipt um vinnuveitanda og vinni núna fyrir orkufyrirtækið Landsvirkjun, sem sérfræðingur í viðskiptagreiningu. Hann er ekkert síður fyndinn nú en þá, eins og við vinnufélagar hans verðum áþreifanlega varir við á hverjum degi. Húmor Úlfars er lúmskur og snjall, að mati þess sem þetta ritar, og hann býður upp á lífleg lyftusamtöl þegar maður rekst á hann á milli funda á lóðréttum göngum höfuðstöðva fyrirtækisins. En þetta viðtal er á alvarlegu nótunum, því Úlfar er líka manneskja eins og við hin, þrátt fyrir yfirburðakímnigáfu sína.

Segðu mér aðeins frá uppruna þínum. Þú ert úr Hafnarfirðinum.

„Jú, ég er Hafnfirðingur. Sko, það er mjög sterk Linnet-ætt í Hafnarfirði, en þeir Linnettar eru reyndar ekki náskyldir mér.“

Þú ert ekki skyldur Vernharði?

„Djassgeggjara? Jú, en hann er ekki úr Hafnarfirði. En jú, hann er föðurbróðir minn.“

Já hann er föðurbróðir þinn.

„Já. En mamma og pabbi fluttu semsagt í Hafnarfjörðinn á sínum tíma. Mamma er listakona – hún gerði Hringiðuna við Hálslón, verkið sem er hægt að ganga upp á. Hún hefur unnið mikið í leir, þannig að hana vantaði húsnæði fyrir vinnustofu og leirbrennslu. Og það var í Hafnarfirði, þannig að mamma og pabbi keyptu hús á Hverfisgötu 23b. Þú veist hvar Linnetsstígurinn er?“

Uu nei...

„Það er mikilvægasta gatan í Hafnarfirði. Fríkirkjan er á Linnetsstíg. Nema hvað að Linnetstígur átti að vera löng gata og ná upp í gegnum allan bæinn, en þegar gatnagerðarmennirnir voru komnir yfir Hverfisgötu náðist bara að gera 80 metra götu í viðbót, áður en þeir lentu á þykku hrauni sem þeir komust ekki í gegnum. Það var þess vegna bakkað og beygt aðeins til hægri, haldið áfram og búin til ný gata sem hét Smyrlahraun. Og ég átti alltaf heima í þessum 80 metra anga, þessari endastöð Linnetsstígs, og til þess að fullkomna niðurlæginguna var þessi angi skráður af Linnetsstíg og kallaður Hverfisgata. Þetta var fullkomlega ósanngjarnt.“

Þannig að gatnagerðin þarna í fyrndinni hefur bara verið eins og tölvuleikur? Menn hafa bara lagt af stað?

„Já, ég held að það hafi verið svolítið svoleiðis. Ætli það hafi ekki fyrst verið byggð hús og svo hafi menn séð að það væri gott að komast á milli þeirra.“

Svo bara kemur eitthvert hraun og það kemur mikið á óvart.

„Já, einmitt. En þetta hafði mikil áhrif á barnæsku mína. Þótt ég væri mjög stoltur af Linnetsstíg var ég einhvern veginn ekki á honum. Vegna hraunsins.“

Segðu mér aðeins frá foreldrum þínum. Hvað heitir mamma þín?

„Jónína Guðnadóttir. Hún er af Skaganum. Hún er listakona eins og ég sagði áðan og hefur verið frumkvöðull í því að vinna úr leir, gert skúlptúra og lágmyndir, og svo auðvitað nytjalist til að gefa okkur börnunum að borða. Pabbi er lyfjafræðingur. Kristján Linnet. Bróðir Vernharðar. Var lengi með apótekið á Borgarspítalanum. Þannig að maður á sælar minningar af Borgarspítalanum.“

Líklega betri minningar en margir aðrir.

„Já.“ (Vandræðaleg þögn.)

Þannig að þú bara elst upp í Hafnarfirði, segirðu. Fæðistu þar?

„Ja svona næstum því. Svona eins nálægt Hafnarfirði og hægt var. Það var búið að leggja fæðingardeildina þar af 1977-8, eitthvað svoleiðis, tveimur til þremur árum áður en ég fæddist.

Þannig að ég er yngstur, ég á þrjár systur. Prins, borinn í gullstól. Elskaður af öllum og aldrei strítt. Með slíku uppeldi nýtur maður lífsins. Maður er glaðlyndur og tekur fólki opnum örmum, en hefur ekkert ofboðslega harðan skráp, af því að það vantaði alveg að það væri níðst á manni.“

Þannig að þar liggja rætur þeirrar ákvörðunar að hætta að vera grínisti.

(Hlær.) „Eða að ákveða aldrei að verða grínisti. Ég held að það sé nú frekar þannig.“

En já, þú átt semsagt áhyggjulausa æsku í Hafnarfirði.

„Já, algjörlega áhyggjulausa fram að kynþroska.“

Og þú eignast góðan vinahóp, ekki satt?

„Jú, mjög góðan. Við byrjuðum að gera teknó...“

Já, ég ætlaði einmitt að spyrja þig út í hljómsveitina Útópíu.

„Já, Útópía var æðisleg hljómsveit. Ég var með vinum mínum í henni. Hún var búin að gera þrjú lög þegar það var auglýst í Morgunblaðinu eftir hljómsveitum til að spila á Halló Akureyri, þeirri frægu útihátíð. Þetta var þannig að maður þurfti bara að senda inn þrjú lög í demóútgáfu með umsókninni. Við sendum inn öll lögin okkar og vorum svo ráðnir í þetta verkefni. Og það var svo bágt ástand á hljómsveitinni, að fyrir utan að eiga ekki lög notuðum við straubretti fyrir hljómborðsstanda. Þannig að aðbúnaður var enginn. En við náðum að klastra saman einhverju svakalega lélegu teknói í heilt prógramm á nokkrum vikum.

Svo mættum við til Akureyrar og komumst að því að við vorum lokaatriðið á Ráðhústorginu alla dagana. Það var semsagt barnaskemmtun þar allan daginn og svo teknóhljómsveitin Útópía, til þess að keyra partíið í gang um fimmleytið. Mávar, pylsubréf og gosumbúðir dönsuðu fyrir framan sviðið, ásamt nokkrum ungmennum.

Þetta var þannig upplifun að við hugsuðum að næsta rökrétta skref fyrir þessa hljómsveit væri nafnabreyting. Það væri hreinlega betra eftir svona útreið að byrja upp á nýtt, með hreint blað. En ég er samt rosalega stoltur af því að hafa verið í hljómsveit sem bar algengasta hljómsveitarnafn í heimi. Það er svo gaman að hafa verið í einni Útópíu. Mér finnst að það ætti að halda hátíð í Hörpunni þar sem allir sem einhvern tímann hafa verið í hljómsveit sem heitir Útópía koma saman. Alheimsfögnuð.“

(Með jákvæðni og von í röddu:) En þú ert með töluverða tónlistarhæfileika...

„Nei. Það kom í ljós, hægt og rólega. Við héldum áfram að forrita trommuheila, en það gekk aldrei neitt. Í raun gerðist ekki neitt fyrr en við stækkuðum þennan hóp aðeins og breyttum honum í vefsíðugerð. Við einbeittum okkur að því að gera heimasíður fyrir ungt fólk, sem var mjög mikilvægt á þessum tíma, rétt fyrir árþúsundamótin. Þá gerðum við heimasíðuna núlleinn punktur is, sem við vorum mjög uppteknir við í þrjú til fjögur ár og varð bara nokkuð vinsæl. Hún breyttist svo í internetfyrirtæki, sem var mjög skemmtilegt. Þetta gekk betur. Við þurftum ekki að vera í þessari tónlist og ég skilaði meiri árangri á þessum vettvangi.“

(Vendir kvæði sínu snögglega í kross:) Hvernig maður er Úlfar Linnet? Ertu tilfinningavera? Græturðu fyrir framan sjónvarpið?

„Ef einhver er að meiða mig! En jú, ég myndi telja að ég væri frekar tilfinninganæmur.“

Já, ég velti fyrir mér með húmorinn, hvernig hann þróaðist. Var þetta eins og hjá svo mörgum öðrum, sem nota grínið sem einhvers konar brynju?

„Ja sko þetta var nú eiginlega mjög einfalt. Ég fór og sá uppistand og hugsaði: Mig langar að gera svona. Þannig að næst þegar það var haldin keppni um fyndnasta mann Íslands hugsaði ég: Ég verð með í þessu. Ég held að mér hafi alltaf verið frekar eðlislægt að segja einhverjar bullsögur og búa til einhverja vitleysu. En ef við eigum að kryfja húmorinn aðeins frekar myndi ég segja að ég væri ekki dónalegur maður. Mér finnst ekkert ofboðslega þægilegt að stuða fólk. Ég hef meiri ánægju ef fólki líður vel í kringum mig.

Mitt grín var svolítið inn á við. Það gekk dálítið út á að viðurkenna vanmátt sinn fyrir ákveðnum hlutum, sem mörgum finnst erfitt að gera sjálfum en mjög þægilegt þegar aðrir gera það. Maður er alltaf að ögra einhverjum tilfinningum – ef maður er ekki bara hreint og beint sniðugur – og það getur verið allur tilfinningaskalinn.

Og allir brandarar ganga út á að áheyrandinn gleðjist yfir því að hafa fattað þá. Brandarabækur eru til dæmis ekki fullar af tilfinningum. Þær eru fullar af litlum sögum sem fá lesandann til þess að gleðjast yfir að fatta brandarann, og þá hlæja þeir. Svo er brandarinn ömurlegur ef maður fattar hann ekki og alls ekki ef einhver segir manni svarið, því þá fer maður að hugsa: Djöfull er ég vitlaus, maður.“

En varstu ekki líka með svona „observational“ húmor, eins og uppistandarar eru nú gjarnan með, þar sem þeir taka hluti úr daglega lífinu og snúa upp á þá?

„Jú, ég held að það sé nú óhjákvæmilegt í svona uppistandi. En svo verður að hafa í huga í öllu þessu að ég var náttúrulega bara 21 árs, þannig að auðvitað fjallaði þetta líka um það sem fólk á þeim aldri hefur áhuga á.

En ég dáist mikið að því hversu margir eru að fást við þetta núna. Sérstaklega er hann Ari Eldjárn mikill snillingur, sem hefur náð alveg ótrúlega langt í þessum bransa.“

Kitlar það þig ekkert að reima á þig grínskóna aftur og taka nokkrar sýningar?

„Taka þátt í keppninni um fyndnasta mann Íslands? Sko, ég fékkst við þetta á vissan hátt áfram, þegar ég bjó til prógramm fyrir Bjórskóla Ölgerðarinnar. Það var svona fyrirlesaragrín. Ég var með plan um að gera meira af slíku, ekki í tengslum við bjór, heldur snerta á einhverjum öðrum málefnum.

Það er eitt sem ég hef lært í vinnunni, sem er mjög áhugavert. Þegar ég var fyrst að halda kynningar, flytja mál mitt, fannst mér svo óþægileg tilhugsun að þeim sem væru að hlýða á mig leiddist, en ég er búinn að læra það að fólki getur fundist hlutir áhugaverðir og skemmtilegir, þótt það liggi ekki í hláturskrampa.“

Hvernig var að koma svona sterkur inn í þennan sprelliheim, þarna 21 árs? Var þetta ekki svolítið sérstakt? Jón Gnarr og kó. Var ekki rokkstjörnulíferni á mönnum þarna? Hvernig höndlaðirðu þetta?

„Nei, þetta er náttúrulega ekki rokkstjörnulíf.“ (Hlær.)

En samt svona samfélag, mikið komið saman á kvöldin á öldurhúsum og svoleiðis.

„Nei, þetta var mjög sóló, sko.“

Já ókei.

„Það er leiðinlegt að skemma fyrir þér þessa hugmynd.“

Ég sá fyrir mér að þú hefðir verið með Jóni Gnarr, Sigurjóni Kjartanssyni og Radíusbræðrum að grínast og drekka bjór á Dubliner fram undir morgun. Það var semsagt ekki þannig.

„Nei, mér var að minnsta kosti ekki boðið á þær samkomur, ef þær áttu sér stað. En ég held að það skipti líka svolitlu máli hvernig menn koma inn í þennan heim. Þessir jaxlar höfðu auðvitað lagt af stað í sína eigin vegferð og komist á toppinn með mikilli vinnu. Ég fór í gegnum fyndnasta mann Íslands, sem er svolítið eins og að keppa í Ædolinu. Þriðja sigurvegara Ædolsins er ekkert boðið til Helga Björns til sumbls og skemmtunar á skemmtistaðnum Astro í Austurstræti helgina eftir sigurinn. Alls ekki. En Jón Gnarr tók mér samt rosalega vel og var góður við mig, fékk mig meira að segja til þess að hita upp fyrir sig á sýningunni sinni.

En það sem var svona sérstakast við þetta var að maður hitti alls konar fólk og kom inn í alls konar aðstæður.“

Á þessum tíma ertu væntanlega að byrja í verkfræðinni í Háskóla Íslands. Hvernig endaðirðu þar?

„Það var teknóið sem leiddi mig þangað. Ég get svo svarið að mig langaði til að búa til hljómborð. Við vorum alltaf að bardúsa með einhverja trommuheila, tölvur og svona, og mér fannst þetta svo merkileg tækni öll sömul. Þannig að ég ákvað að fara í rafmagnsverkfræði, til að svipta hulunni af því sem gerðist innan í þessum töfratækjum. Svo fannst mér það reyndar ekkert svo spennandi, ekki þannig sko. Það var miklu skemmtilegra að leika sér með þau en að pæla nákvæmlega í því hvernig þau virkuðu. Svo fór ég í mastersnám í iðnaðarverkfræði í Danmörku.“

Þannig að þú ert svona...

„Ævintýramaður?“

Já, þú ert ævintýramaður, en þú ert líka fjölhamur, frjór og fyndinn, en um leið með þessa verkfræðihugsun. Er þetta ekki óvenjulegt? Eru verkfræðingar almennt fyndnir?

„Þeir eru allavegana. Þeir verkfræðingar sem ég umgengst mest eru mjög skemmtilegir og það er gríðarleg breidd í þessum efnum á þeim einstaklingum sem ég var með í námi. Eins og er held ég í flestum greinum.

En þetta eru viss þægindi, að geta hugsað um allt í röð og reglu.“

En þú getur komist út úr kassanum, samt.

„Mér finnst það skemmtilegt, að reyna það.“

En sumir verkfræðingar eru alveg pikkfastir inni í kassanum.

„Já, það er líka stundum mjög mikilvægt. Hver vill til dæmis vera farþegi í bíl með frumlegum bílstjóra, eða fara undir hnífinn hjá skapandi hjartaskurðlækni?“

Réttmætir punktar. En hvernig endaðirðu svo hjá Landsvirkjun?

„Ég var að vinna í aðgerðagreiningu, sem er bestun, og hún er ekki mikið notuð á Íslandi, því fyrirtæki þurfa að vera af vissri lágmarksstærð til þess að hún sé praktísk hjá þeim. En ég vissi að Landsvirkjun var að fást við bestun í lónrekstri, þannig að það var bara þessi mikli áhugi á reiknistússi sem leiddi til þess að ég fór að vinna hjá Landsvirkjun, við að gera orkulíkan.“

Svo breyttirðu til og færðir þig til inni í fyrirtækinu.

„Já, ég fór yfir í rannsóknadeildina og svo endaði ég í viðskiptagreiningunni. Það er samt ekki eins og ég sé einhver öfgafullur og rótlaus glaumgosi þegar kemur að því að hlaupa á milli deilda inni í fyrirtækinu, heldur kemur þetta bara til af því að Landsvirkjun er miklu fjölbreyttara fyrirtæki en virðist í fyrstu, og ég hef alltaf verið ánægður og fundist skemmtilegt hjá Landsvirkjun.“

Hver eru áhugamál Úlfars Linnets, auk blaks og reiknistúss?

„Ég er í Blakfélagi Hafnarfjarðar. Blak er mjög rísandi íþrótt meðal eldri borgara, en hún á mjög sterkar rætur á landsbyggðinni. Maður þarf bara að safna saman tólf leikmönnum til að vera kominn með blakleik og maður þarf ekki risastóran völl eða íþróttahús. Eftir því sem maður fer nær pólunum á jörðinni, fólki fækkar og veðrið verður verra, þeim mun betra er að spila blak.

Þegar maður er að spila blak er maður alltaf að keyra eitthvert. Einu sinni vorum við að keyra til Norðfjarðar, til að keppa í blaki. Þá byrjaði ég að semja spurningar, til að hafa sem skemmtiefni á leiðinni. Ég náði svo að endurnýta það efni í jólabjórsmakkið, sem ég hef séð um hjá Landsvirkjun undanfarin ár. Ég sagði reyndar af mér því embætti eftir síðustu jól, því ég vildi ekki detta í það að vera maðurinn sem enginn þyrði að segja að nú væri barasta nóg komið og kominn tími til að hleypa öðrum að.“

Fréttasafn Prenta