Landsvirkjun

Við leggjum ríka áherslu á að vera í fararbroddi sem vinnustaður enda mannauður lykillinn að árangri og velgengni. Hjá fyrirtækinu starfar fjölbreyttur hópur fólks sem hefur framsækni, ráðdeild og traust að leiðarljósi í allri sinni vinnu.


Tækifærin hjá okkur eru fjölmörg og markmiðið er að byggja upp fjölbreyttan vinnustað þar sem ólík gildi og menning eru aflgjafi nýsköpunar. Við trúum því að þannig náist betri árangur og forsendur fyrir krefjandi og uppbyggilegu vinnuumhverfi. Starfsfólk okkar býr yfir fjölbreyttri reynslu og menntun og jafnfréttisstefna er samofin rekstri fyrirtækisins. Við gerum miklar kröfur til okkar fólks en bjóðum jafnframt spennandi tækifæri til að þroskast í starfi og taka þátt í að gera Landsvirkjun enn verðmætari fyrir þjóðina.

Miklar umbætur hafa orðið á mannauðsmálum á undanförnum árum. Unnið var að mótun og þróun mannauðsferla innan fyrirtækisins og stjórnun efld og bætt. Einu sinni á ári eiga sér stað frammistöðusamtöl þar sem farið er yfir þær hæfniskröfur sem fylgja hverju starfi. Starfsfólk fær þar skýra umsögn og endurgjöf um það sem vel er gert og hvað betur má fara. Jafnframt hefur aukin áhersla verið lögð á innri samskipti og bætta upplýsingagjöf til starfsfólks þar sem innri vefurinn gegnir lykilhlutverki.

Laus störf

Persónuverndarstefna

Traust er eitt af gildum Landsvirkjunar og hefur fyrirtækið einsett sér að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi persónuupplýsinga sem unnið er með innan þess. Í því skyni hefur Landsvirkjun sett sér persónuverndarstefnu sem segir til um hvaða persónuupplýsingum félagið safnar, hvers vegna, hversu lengi upplýsingarnar eru varðveittar, hvert þeim kann að vera miðlað og hvernig öryggi þeirra er tryggt.
 
Tengiliður persónuverndarmála svarar öllum spurningum sem kunna að vakna varðandi persónuvernd á netfanginu personuvernd@landsvirkjun.is
 

Persónuverndarstefna

23.05.2019 - 0,13 MB

Vinnustaðurinn

Mannauðurinn er auðlind

Framtíðarsýn okkar er að vera framsækið raforkufyrirtæki á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Við störfum í alþjóðlegu umhverfi og viljum vera meðal þeirra bestu sem vinna og selja orku. 

Landsvirkjun er stærsta orkufyrirtæki landsins og vinnur 73% af allir raforku á Íslandi. Hjá okkur starfa um 260 manns á 7 starfsstöðvum víðsvegar um landið.

Um helmingur starfsfólksins starfar í höfuðstöðvunum á Háaleitisbraut 68 í Reykjavík og á Akureyri. Þá starfar helmingur á fimm starfssvæðum sem eru staðsett við þær fimmtán vatnsaflsstöðvar og tvær jarðvarmavirkjanir sem starfræktar eru.


Skrifstofa forstjóra

Annast sameiginleg málefni fyrirtækisins og ber ábyrgð á að tryggja vandaða stjórnarhætti og stefnumótun. Stoðsvið sem annast úrvinnslu sameiginlegra mála tilheyra einnig skrifstofu forstjóra. Stoðsviðin skiptast í umsjón gæðamála, lögfræðisvið, samfélagslega ábyrgð, samskiptasvið, starfsmannasvið, upplýsingasvið, svið öryggismála og verkefnastofu.

Framkvæmdasvið

Stýrir virkjunarframkvæmdum frá undirbúningi að fullbúinni virkjun. Sviðið vaktar einnig kostnað, gæði og framvindu verks og tryggir að framkvæmdinni sé skilað tilbúinni til reksturs í samræmi við forsendur, áætlanir og þarfir fyrirtækisins.

Orkusvið

Uppfyllir gerða orkusölusamninga við viðskiptavini með öryggi og hagkvæmni að leiðarljósi ásamt því að tryggja hámarksnýtingu vinnslukerfisins. Deildir orkusviðs eru vatnsaflsdeild, jarðvarmadeild, eignastýring, tæknideild og vinnsluáætlanir.

Markaðs- og viðskiptaþróunarsvið

Hefur það hlutverk að hámarka tekjur fyrirtækisins með greiningu nýrra viðskiptatækifæra, vöruþróun, kynningu og sölu á vörum og þjónustu, gerð samninga og eftirfylgni þeirra. Deildir markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs eru viðskiptagreining, sölu- og viðskiptaþróun og viðskiptastjórnun.                                                                                         

Fjármálasvið

Skapar grundvöll fyrir hagkvæmni í rekstri og stuðlar að hámarksárangri hjá öllum einingum Landsvirkjunarsamstæðunnar. Fjármál, innkaupadeild, reikningshald, innri þjónusta og rekstrarþróun eru deildir innan fjármálasviðs.                                                                    

Þróunarsvið

Hefur þann tilgang að undirbúa nýja virkjunarkosti, hafa umsjón með ýmsum rannsóknum og eftirlit vegna virkjana í rekstri. Jafnframt er hlutverk sviðsins að tryggja hagkvæma útfærslu á virkjunarkostum, auka sveigjanleika í orkuvinnslu, sjá um nýsköpun í orkuvinnslu og hafa langtímayfirsýn yfir orkuforða. Deildir þróunarsviðs eru rannsóknir, umhverfi, innri mál og virkjanir.

Stefnan


Á starfsstöðvum okkar er lögð áhersla á jákvætt og hvetjandi andrúmsloft þannig að starfsfólki líði vel. Leitast er við að skapa vinnuaðstöðu sem stuðlar að góðu upplýsingaflæði og þekkingaryfirfærslu. Samskipti eru opin og heiðarleg þar sem starfsfólk leggur hvort öðru lið við dagleg störf og stuðlar með því að góðum starfsanda.


Lögð er áhersla á heilbrigði og hollt líferni og stendur starfsfólki til boða reglulegt heilsufarseftirlit og stuðningur við eflingu heilsu og vellíðunar. Einelti, fordómar og kynferðisleg áreitni líðast ekki innan fyrirtækisins.

Mannauðsstefnan

Landsvirkjun er í fararbroddi sem vinnustaður og eftirsóttur fyrir hæfustu starfsmenn hverju sinni. Mannauður fyrirtækisins er lykillinn að árangri og velgengni þess og staðin er vörð um þekkingu, færni og vellíðan starfsmanna.

Jafnrétti

Jafnréttisstefnan

Stefna okkar er að gæta fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla og að starfsmenn njóti jafnra tækifæra óháð kyni. Þannig fer fyrirtækið ekki aðeins að lögum heldur nýtir jafnframt mannauð sinn á sem árangursríkastan hátt.

Í þessu augnamiði leitumst við meðal annars við að jafna kynjahlutföll innan hinna ýmsu starfa fyrirtækisins. Gætt er að jafnrétti hvað varðar ábyrgð og þátttöku starfsfólks í starfshópum, stjórnum og nefndum, auk þess eru greitt jöfn laun og/eða sömu kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.