Sumarstörf

Ungt fólk í fjölbreyttum störfum

  

Við leitum að áhugasömum dugnaðarforkum í fjölbreytt sumarstörf fyrir háskóla-, iðn- og tækninema. Störfin veita tækifæri til þátttöku í raunverulegum og krefjandi verkefnum á sviði endurnýjanlegrar orkuvinnslu. Einnig eru laus störf fyrir ungmenni í sumarhópunum okkar.

Hjá Landsvirkjun vinnur skemmtilegt og reynslumikið fólk sem hefur margt að kenna. Við leggjum mikið upp úr jákvæðum starfsanda og jöfnum tækifærum.

„Ég vann eitt sumar á orkusviði þar sem ég þurfti að takast á við fjölbreytt og skemmtileg verkefni, m.a. að gera upp 100 ára gamla túrbínu fyrir sýningu. Ég var aðallega í Blönduvirkjun en kom líka við í Laxárvirkjun og Kröfluvirkjun. Landsvirkjun býður upp á mjög gott umhverfi til þess að læra og allir boðnir og búnir til þess að hjálpa og leiðbeina auk þess sem andrúmsloftið er vinalegt og gott.”

Aldís Eir Hansen
Vélfræðinemi á Blöndusvæði
Orkusvið

„Ég fékk það verkefni í sumarstarfi mínu að taka alþjóðlegan staðal sem notaður er til að merkja alla hluti innan fyrirtækisins og koma honum á rafrænt form. Ég fékk nokkuð frjálsar hendur með verkefnið og notfærði mér það að tengja saman það sem ég lærði í náminu við verkefni á vinnumarkaði. Hjá Landsvirkjun fékk ég alla þá aðstoð og frjálsræði sem þurfti til að komast vel inn í hlutina. Ég starfa enn hjá Landsvirkjun og er mjög ánægður með starf mitt og því sem ég hef skilað af mér til fyrirtækisins.”

Rúnar Kristjánsson
sérfræðingur, eignastýring
Orkusvið

„Mitt helsta verkefni í sumarstarfi mínu sneri að því að skoða leiðir til að draga úr umhverfisáhrifum Kröflustöðvar og gera tilraunir til að undirbúa mögulegar breytingar á stöðinni með því markmiði. Í dag starfa ég í því verkefni á þróunarsviði ásamt því að sinna öðrum fjölbreyttum verkefnum tengdum jarðvarmavirkjunum Landsvirkjunar.”

Freyja Björk Dagbjartsdóttir
Sérfræðingur á þróunarsviði
Jarðvarmi

Sumarstörf fyrir háskóla-, iðn- og tækninema

  

Í sumar eru í boði fjölmörg spennandi sumarstörf í höfuðstöðvum okkar í Reykjavík og í aflstöðvum okkar um allt land. Hér að neðan er stutt yfirlit um starfsemi hvers sviðs. Við hvetjum umsækjendur til að kynna sér sviðin og taka fram í umsókninni ef eitt þeirra heillar meira en annað.

Framkvæmdasvið

Sviðið stýrir virkjunarframkvæmdum frá undirbúningi að fullbúinni virkjun, vaktar kostnað, gæði og framvindu og tryggir að verkefnum sé skilað á áætlun og í samræmi við tilskyldar kröfur.

Upplýsingatækni og stafræn þróun

r SCRUM-ar fólk og LEAN-ar okkur í átt að sjálfvirknivæðingu ferla og nýtingu gervigreindar við þróun og rekstur upplýsingatækni og tölvukerfa.

Þróunarsvið

Okkar fólk á þróunarsviði undirbýr framkvæmdir og hönnun mannvirkja ásamt því að annast rannsóknir á jarðhita, ástandi jökla og áhrifum framkvæmda á lífríki, gróður- og vatnafar.

Skrifstofa forstjóra

Hér starfar öflugur hópur að sameiginlegum málefnum fyrirtækisins. Stoðsviðin eru; lögfræðisvið, samfélagsleg ábyrgð, samskiptasvið, starfsmannasvið, svið stjórnunarkerfa og umbóta, og öryggismál.

Fjármálasvið

Flest þeirra sem vinna hér elska excel. Sviðið vinnur með öllu fyrirtækinu að því að hámarka hagkvæmni í rekstri svo hægt sé að greiða niður skuldir og skapa arð af starfseminni. 

Markaðs- og viðskiptaþróunarsvið

Greining nýrra viðskiptatækifæra er stór hluti af viðskiptaþróun okkar.  Hér fer fram greining á mörkuðum, vöruþróun, kynning og sala og gerð viðskiptasamninga og eftirfylgni þeirra.

Orkusvið

Á orkusviði er flest tæknifólkið okkar. Starfsemi aflstöðvanna fellur hér undir, vinnslustýring og allt sem snýr að því að afhenda orku á réttri tíðni og í réttu magni.

Áður en þú hefur umsóknarferlið skaltu hafa ferilskrána þína tilbúna. Ef þú vilt styrkja umsóknina þína getur þú einnig sent mynd og kynningarbréf. 

Umsóknarfresturinn er liðinn. Öllum umsóknum var svarað þegar ráðningum í sumarstörf lauk.

Umsókn fyrir háskóla-, iðn- og tækninema

 • Verkstjórn í sumarvinnu unglinga á höfuðborgarsvæðinu og við aflstöðvar á landsbyggðinni.
 • Upplýsingasöfnun og skýrslugerð vegna þróunarverkefna.
 • Teymisvinna við viðhald og rekstur aflstöðva - hentar vélfræði- og rafvirkjanemum.
 • Afleysingar í móttöku og við húsvörslu á höfuðborgarsvæðinu.
 • Afleysingar í mötuneytum fyrirtækisins í Reykjavík, Búrfelli og Blöndu.
 • Móttöku gesta í gestastofum á aflstöðvum Landsvirkjunar, í Ljósafossstöð og í Kröflustöð.
 • Móttöku gesta og umsjón með Þjóðveldisbæ í Þjórsárdal.
 • Afleysingar í fjárstýringu og reikningshaldi.
 • Afleysingar og aðstoð við sérhæfð skrifstofustörf t.d. á starfsmannasviði og á lögfræðisviði.
 • Verkfræðistörf tengd rannsóknum og þróun orkukosta.
 • Verkfræðistörf tengd viðhaldi og rekstri aflstöðva.

Sumarhópar fyrir 16-20 ára

Ár hvert ráðum við um það bil 150 ungmenni til starfa í sumarhópunum okkar. Þeir eru starfræktir í Reykjavík og við sex aflstöðvar fyrirtækisins víða um land.

Hóparnir hafa meðal annars það hlutverk að sinna viðhaldsstörfum eins og grasslætti, lagningu göngustíga og almennri umhirðu í nágrenni aflstöðvanna.

Í verkefninu „Margar hendur vinna létt verk“ hafa sumarhóparnir einnig unnið að landgræðslu, hirðingu útivistar- og ferðamannasvæða og margvíslegum samfélagsverkefnum. Verkefnið er samstarfsverkefni Landsvirkjunar og félagasamtaka, sveitarfélaga og stofnana.

Umsóknarfresturinn er liðinn. Öllum umsóknum var svarað þegar ráðningum í sumarstörf lauk.

Umsóknareyðublað fyrir 16-20 ára

 • Blanda – Starfsmenn koma sér sjálfir á staðinn á mánudagsmorgnum og gista á staðnum.
 • Þjórsársvæði – Rútuferðir daglega úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
 • Fljótsdalur – Daglegar rútuferðir frá Egilsstöðum
 • Laxá – Starfsmenn koma sér sjálfir á staðinn.
 • Krafla - Starfsmenn koma sér sjálfir á staðinn.
 • Reykjavík – Rútuferðir úr Mjóddinni daglega.
 • Sog – Rútuferðir frá Reykjavík og Selfossi daglega.

Fyrir nánari upplýsingar er hægt að senda tölvupóst á starfsmannasvid (hjá) landsvirkjun.is