Framkvæmdir

Möguleg tímalína framkvæmda

Ekki hefur verið ákveðið hvenær framkvæmdir hefjist við Hvammsvirkjun. Unnið er að öflun nauðsynlegra leyfa.

Verði ákveðið að hefja útboð og framkvæmdir munu líða um þrjú og hálft ár þar til hægt yrði að gangsetja virkjun.

Undirbúningsframkvæmdir 

Fyrstu framkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar verða vegabætur vegna flutnings aðfanga að framkvæmdasvæðinu. Um er að ræða endurbætur á núverandi Hvammsvegi, nýjan aðkomuveg frá Hvammsvegi að virkjunarsvæðinu og nýjan veg og brú yfir Þjórsá.

Efni úr fyrirhuguðum frárennslisskurði virkjunarinnar í landi Hvamms verður nýtt til vegagerðar og því verður gröftur í skurðstæðinu ein af fyrstu framkvæmdunum. Þá verður opnuð náma í landi Minna-Hofs til að vinna efni í nýja veginn Skeiða- og Gnúpverjamegin.

Aðstöðusköpun með gerð plana fyrir vinnusvæði, raf-, ljósleiðara- og vatnsveitu að vinnusvæði og uppsetning vinnubúða er einnig hluti af fyrstu undirbúningsframkvæmdum.

Nýi vegurinn, Búðafossvegur, verður lagður frá Þjórsárdalsvegi við Árnes að Landvegi og ný brú verður byggð yfir Þjórsá ofan við Búðafoss. Landsvirkjun fjármagnar gerð vegar og brúar sem verða svo í eigu og á ábyrgð Vegagerðarinnar. Vegurinn nýtist okkur til að flytja aðföng á byggingartíma virkjunarinnar.