Spurt og svarað um Hvammsvirkjun

Hér má sjá spurningar og svör um Hvammsvirkjun. Ef þú ert með spurningu en finnur ekki svar við henni hér getur þú sent okkur línu á hvammur@landsvirkjun.is.

Almennt um Hvammsvirkjun

  • Virkjunin verður í tveimur sveitarfélögum; Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Flest mannvirkin verða í Rangárþingi ytra í landi Hvamms 1. Hagalón mun liggja upp að stíflugarði sem reistur verður við núverandi farveg í landi Skarðs. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi mun Hagalón ná upp að Þjórsárdalsvegi og inn á land Minni-Núps, Fossness, Melhaga, Haga I og Haga II. Þjórsárdalsvegur verður færður nær núverandi farvegi Þjórsár í landi Hagabæja.

    Hvammsvirkjun verður 720 GWst, 95 MW rennslisvirkjun. Hana verður hægt að reka á fullum afköstum allt árið, nema þegar sinna þarf viðhaldi. Hún verður sambærileg að stærð og Þeistareykjastöð í orkuvinnslu.

  • Landsvirkjun hefur ekki samið um sölu á orkunni frá Hvammsvirkjun. Í svokallaðri Grænbók sem unnin var á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er farið yfir ólíkar sviðsmyndir um orkuþörf framtíðarinnar út frá orkuskiptum. Ljóst er að framtíðin þarf á aukinni grænni, endurnýjanlegri orku að halda ef standa á við skuldbindingar og áætlanir íslenskra stjórnvalda um orkuskiptin. Nú þegar má segja að meiri eftirspurn sé eftir orku en núverandi kerfi getur annað.

  • Nei. Leyfismál eru enn í ferli. Sótt var um framkvæmdaleyfi til sveitarfélaganna Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps í desember 2022. Sótt verður um önnur nauðsynleg ferli síðar í undirbúningsferlinu, svo sem byggingarleyfi og starfsleyfi vinnubúða.

    • Virkjunarleyfi frá Orkustofnun liggur fyrir.
    • Leyfi Minjastofnunar liggur fyrir.
    • Leyfi Fiskistofu liggur fyrir.
    • Aðalskipulag, landsskipulag og deiliskipulag liggja fyrir.
    • Alþingi hefur samþykkt virkjunina í nýtingarflokk rammaáætlunar og mat á umhverfisáhrifum hennar liggur fyrir.
    • Á árunum 2008–2015 var samið við alla landeigendur um afnot af landinu þeirra og við íslenska ríkið um vatnsréttindi.

    [Síðast uppfært 9. janúar 2022]

  • Já. Landsvirkjun hefur verið að vinna að þessu verkefni lengi. Á þeim tíma hefur borist fjöldi góðra athugasemda og ábendinga frá íbúum og hagaðilum. Þær hafa nýst mjög vel til að bæta fjölmarga þætti í verkefninu. Við teljum ekki raunhæft að fullkomin sátt náist um framkvæmdina en vonumst til að skilningur á nauðsyn hennar aukist jafnt og þétt og jafnframt viðurkenning á þörfinni fyrir grænu orkuna til íslensks samfélags. Þá bindum við miklar vonir við þau tækifæri sem skapast í nærsamfélaginu vegna aukinnar grænnar, endurnýjanlegrar orkuvinnslu og þeirrar innviðauppbyggingar sem henni fylgir.

     Í síðustu framkvæmdum hefur Landsvirkjun lagt mikla áherslu á sjálfbærni og er þá horft til efnahagslegra áhrifa, samfélagsáhrifa og umhverfis. Við skipulag framkvæmda verður horft til þess að gefa rekstrar- og þjónustuaðilum tækifæri til þátttöku t.d. með því að nýta þjónustu í nærumhverfi virkjunarsvæðis og horfa til verktaka á svæðinu þegar verk eru boðin út.

    Upplýsingamiðlun og samskipti við hagaðila eru lykilatriði við að skapa eins góða sátt um verkið og verða má. Landsvirkjun mun leggja mikla áherslu á þá þætti, þó vitað sé að aldrei munu allir á eitt sáttir.

  • Nei. Samkomulag ríkisins og Landsvirkjunar var undirritað í maí 2007. Í desember sama ár komu fram athugasemdir ríkisendurskoðanda, um hvort samkomulagið hefði þurft staðfestingu Alþingis og hvort það væri bindandi fyrir ríkissjóð á meðan ekki lægi fyrir sérstök lagaheimild.

    Með breytingarlögum nr. 58/2008 á vatnalögum nr. 15/1923 var bætt við vatnalög ráðstöfunarheimild til opinberra aðila.

    Landsvirkjun og ríkið hafa frá árinu 2007 unnið eftir efni samkomulagsins. Í því kemur einnig fram að gengið skuli til „endanlegra samninga“ um vatns- og landsréttindin eigi síðar en við útgáfu virkjanaleyfis.

  • Já. Í úrskurði umhverfisráðherra frá 2004 er kveðið á um eftirfarandi skilyrði: „Samhliða hönnun virkjunarinnar, skal framkvæmdaraðili láta gera áhættumat fyrir virkjunina þar sem sýnt er fram á að árleg staðaráhætta fólks á svæðinu eftir byggingu mannvirkjanna verði ekki meiri en talin er ásættanleg vegna ofanflóða.“

    Vinnu við áhættumatið lauk árið 2008. Helstu niðurstöður eru þær að staðaráhætta á svæðinu sé innan þeirra marka sem gerðar eru kröfur um í skilyrði umhverfisráðherra. Sú vinna sem nú fer fram á Veðurstofu Íslands mun ekki breyta þessari niðurstöðu sem byggir á þeirri staðreynd að rúmmál Hagalóns er lítið miðað við hámarksrennsli Þjórsár í flóðum.

  • Nei. Holta- og Urriðafossvirkjanir eru í biðflokki rammaáætlunar. Það þýðir að kostirnir eru í sífelldu endurmati og rannsóknum svo meta megi hagkvæmni þeirra.

    Hvammsvirkjun hins vegar er í orkunýtingarflokki. Um er að ræða þrjú aðskilin verkefni sem unnin eru hvert á sínum forsendum.

  • Já. Áætlanir um stækkanir til að auka afl stöðva á Þjórsár-Tungnaársvæðinu tengjast ekki Kjalölduveitu á nokkurn hátt. Það er þörf fyrir aukið afl í kerfi Landsvirkjunar. Aukið afl gefur okkur sveigjanleika til að mæta breytilegri eftirspurn.

    Við skoðum núna stækkun þriggja stöðva á Þjórsár-Tungnaársvæði, Sigöldu, Hrauneyjar og Vatnsfells. Matsferli við stækkun Sigöldustöðvar er hafið.

Framkvæmdir og mannvirki

  • Já, það verður óhjákvæmilega ýmislegt rask og ónæði sem fylgir framkvæmdum, en Landsvirkjun leitar ævinlega allra leiða til að draga úr áhrifum framkvæmda á daglegt líf og atvinnustarfsemi í nágrenninu.

    Hvammsvegur verður aðalaðkoma að virkjunarsvæðinu. Komið er í ljós að óþarfi er að vegurinn verði breiður og með 90 km hámarkshraða, eins og gengið var út frá í fyrstu áætlunum Vegagerðarinnar. Rask verður því minna en ella. Landsvirkjun hefur reynslu af að byggja upp vegi í samkomulagi við íbúa, þar sem t.d. væri gert hlé á framkvæmdum ef aðstæður krefðust.

  • Þjórsá er ein vatnsmesta á landsins og stærstu flóð í ánni eru með miklu vatnsmeiri en meðalrennsli árinnar.

    Flóðvirkið er með fjórar flipalokur og þrjár geiralokur. Það þarf að flytja flóð í Þjórsá án þess að vatnsborð í lóninu hækki það mikið að öryggi stíflunnar verði ógnað, þess vegna er það stórt. Við hönnun hefur hæð stíflna, mannvirkja og stærð flóðvirkja verið bestuð með þeim takmörkunum sem gilda um vatnsborð lónsins í rekstri.

    Lengd yfirfalls takmarkast af breidd farvegarins. Lengsta mögulega yfirfall myndi aðeins flytja stór flóð við of hátt vatnsborð í lóninu, sem aftur ógnaði öryggi mannvirkja við lónið. Þess vegna er ekki mögulegt að sleppa flóðlokum og setja í staðinn yfirfall.

  • Áætlanir gera ráð fyrir að eftir að framkvæmdaleyfi fæst fyrir Hvammsvirkjun verði endurbætur á núverandi Hvammsvegi og gerð aðkomuvegar að stöðinni boðin út. Vegagerðin býður út Búðafossveg og brúarsmíði. Vinnan við vegi og brú tekur líklega tvö til þrjú ár, en gera þarf hlé á vinnu í Þjórsá ca. frá maí-september ár hvert vegna lífríkisins.

  • Nei. Hvammsstöð verður tengd inn á núverandi flutningskerfi. Búrfellslínu 1 verður þó hliðrað til með því að færa fjögur möstur og hækka tvö önnur.

  • Landsnet mun byggja nýtt tengivirki austan við stöðvarhúsið sem tengir Hvammsvirkjun við Búrfellslínu 1. Það tengivirki mun gjörbylta tengingu nærsamfélagsins við þá orku sem framleidd er á svæðinu og opnar á uppbyggingu orkuháðrar starfsemi. Slík uppbygging er þó ekki einvörðungu háð aðgengi að raforku, heldur einnig aðgengi að öðrum aðföngum, innviðum og umgjörð til að fyrirtæki séu tilbúin til að staðsetja sig á svæðinu. Þar er hlutverk sveitarfélagsins mjög mikilvægt í að marka stefnu um hvernig starfsemi það telur æskilega á svæðinu og tryggja lóðir og umgjörð til að skapa álitlegar aðstæður fyrir nýja starfsemi.

    Landsvirkjun hefur ásamt Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Landbúnaðarháskóla Íslands stofnað verkefnið Orkídea sem einmitt hefur þá áherslu að vinna að nýjum tækifærum á svæðinu á sviði orkutengdrar matvælaframleiðslu og hjálpa sveitarfélögum við að þróa tækifæri til atvinnusköpunar í slíkum greinum. Einnig býr Landsvirkjun yfir áratuga reynslu við að vinna með fyrirtækjum í staðarvali atvinnuuppbyggingar og erum við tilbúin til að miðla af þeirri reynslu.

Umhverfi

  • Árin 2001-2003 var unnið mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar. Umhverfisþættir sem metnir voru eru; sjónræn áhrif, vatnafar, lífríki Þjórsár, náttúruminjar, gróðurfar, fuglalíf, fornleifar, landnotkun, samgöngur, hljóðvist, ferðaþjónusta og útivist, íbúaþróun og atvinnulíf.

    Skipulagsstofnun féllst á framkvæmdina og taldi að hún myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að teknu tilliti til fimm skilyrða sem stofnunin setti. Úrskurðurinn var kærður til umhverfisráðherra og staðfestur af umhverfisráðuneytinu í apríl 2004 með tveimur viðbótarskilyrðum. Síðan hefur Landsvirkjun unnið að því að uppfylla skilyrðin sem taka til undirbúnings, framkvæmdar og rekstrar virkjunarinnar.

    Framkvæmdir voru ekki hafnar 10 árum frá því að úrskurður Skipulagsstofnunar frá 2003 um mat á umhverfisáhrifum lá fyrir. Að auki hafði hönnun virkjunar þá tekið breytingum, t.d. hafði inntakslón minnkað og fallið hafði verið frá almennri akstursleið yfir stíflu. Í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 óskuðu því framkvæmdaleyfisveitendur; sveitarfélagið Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Rangárþing ytra, eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða skyldi matsskýrslu í heild eða að hluta. Árið 2015 ákvað Skipulagsstofnun að ekki væru forsendur til að fara fram á endurskoðun á matsskýrslu í heild skv. 12. gr. laganna, en að endurskoða skyldi mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar að hluta, þ.e. á ferðaþjónustu og útivist annars vegar og á landslag og ásýnd lands hins vegar.

    Ákvörðun Skipulagsstofnunar var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í febrúar 2018 hafnaði nefndin kröfum kærenda um ógildingu ákvörðunar stofnunarinnar.

    Matsskýrsla og rannsóknir sem lágu til grundvallar við mat á áhrifum á þá tvo umhverfisþætti sem voru endurskoðaðir voru unnar á árunum 2016-2017. Álit Skipulagsstofnunar lá fyrir í mars 2018. Hún telur að matsskýrsla Landsvirkjunar og Landsnets uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt. Í álitinu segir að framkvæmdaþættir séu mjög umfangsmiklir og ljóst að ásýnd og yfirbragð á stóru svæði komi til með að taka miklum breytingum með tilkomu virkjunarinnar. Stofnunin telur áhrif virkjunarinnar á landslag verða verulega neikvæð og að fyrirhugaðar framkvæmdir séu líklegar til að hafa talsvert neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu vegna þeirra breytinga sem muni verða á upplifun ferðamanna og þeirra sem stunda útivist á svæðinu. Stofnunin undirstrikar mikilvægi þeirra mótvægisaðgerða sem Landsvirkjun og Landsnet leggja til í matsskýrslu.

  • Nei. Við ákvörðun um hvort endurtaka þyrfti matið í heild eða að hluta tók Skipulagsstofnun tillit til hins breytta lagaramma.

    Á árunum 2001-2003 var unnið mat á umhverfisáhrifum fyrir allt að 150 MW virkjun við Núp, Hvammsvirkjun og Holtavirkjun. Skipulagsstofnun féllst á framkvæmdina í ágúst 2003 og var úrskurðurinn staðfestur af umhverfisráðherra í apríl 2004. Hefjist framkvæmdir ekki innan 10 ára getur Skipulagsstofnun ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu í heild eða að hluta, hafi forsendur breyst verulega á þeim tíma sem liðið hefur frá því að álit lá fyrir.

    Árið 2015 hófst formlegt endurskoðunarferli vegna mats á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar, með aðkomu umsagnaraðila og almennings. Ferlinu lauk í desember 2015 þegar Skipulagsstofnun tók ákvörðun um að endurskoða skyldi mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar að hluta, þ.e. á ferðaþjónustu og útivist og áhrif á landslag og ásýnd lands. Fyrir aðra þætti voru ekki, að mati Skipulagsstofnunar, forsendur til að fara fram á endurskoðun á matsskýrslu skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum.

    Endurskoðuðu mati á umhverfisáhrifum á ferðaþjónustu og útivist og á ásýnd og landslag lauk síðan með áliti Skipulagsstofnunar sem var birt í mars 2018. Mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar hefur því verið endurtekið að því marki sem lög kveða á um.

  • Að hluta, já. Í venjulegum rekstri verður vatnsborð Hagalóns tæpum einum metra yfir gólfi núverandi brúar, þar sem Þjórsárdalsvegur liggur yfir Þverá. Þjórsárdalsvegur vestan Þverár í landi Minni-Núps og Fossness, á um 1,5 kílómetra kafla, fer undir lón ásamt um 150 metra kafla Gnúpverjavegar.

    Rúmlega tveggja kílómetra kafli Þjórsárdalsvegar verður endurbyggður og um fimm kílómetra kafli verður færður nær Þjórsá. Neðsti hluti Gnúpverjavegur verður færður þ.a. gatnamót við Þjórsárdalsveg verða um 200 metrum vestar.

  • Nei, eyjan, sem einnig er kölluð Minninúpshólmi, var friðlýst árið 2011 til að vernda gróskumikinn birkigróður í eyjunni. Landsvirkjun er bundin af friðlýsingarskilmálum hennar, sem m.a. fjalla um að vernda eyjuna fyrir mönnum og ágangi dýra.

    Umhverfisstofnun þarf að samþykkja að aðgerðir til að koma í veg fyrir að fólk fari út í eyjuna séu nægjanlegar. Þá er Þjórsá einnig sauðfjárveikivarnarlína. Það verður rennsli beggja vegna eyjunnar og girðing á báðum bökkum árinnar við eyjuna, en Matvælastofnun mun fara yfir þær girðingar til samþykktar. Einnig verða skilti sem banna fólki að fara út í eyjuna.

Lífríki

  • Varðandi rennslisbreytingar er rétt að hafa í huga að margar dragár á Íslandi með miklum rennslissveiflum eru góðar laxveiðiár. Þar má t.d. nefna Norðurá í Borgarfirði með meðalrennsli 22 m3/s og dæmigert vorflóð sem kemur á tveggja ára fresti 400 m3/s. Annað dæmi sem má nefna er farvegur Tungnaár neðan Sporðöldulóns eftir byggingu Búðarhálsstöðvar. Þar er góð bleikjuveiði í farvegi með rennsli 2-4 m3/s. Ef vél er tekin úr rekstri í Búðarhálsstöð eykst rennslið í um 140 m3/s.

    Ekki er gert ráð fyrir að rennslisbreytingarnar hafi veruleg á lífríki umfram þau áhrif sem stafa af skertu rennsli.

  • Varðandi farveginn frá stíflu og niður fyrir Ölmóðsey skiptir mestu máli fyrir lífríki að tryggja fiskgengd upp ána. Á þessum kafla eru tæp 3% búsvæða fyrir lax í Þjórsá en ofan Hvammsvirkjunar eru um 31% búsvæða fyrir lax í Þjórsá. Fylgst verður með fiskgengd upp ána með teljara í fiskistiga við Hvammsvirkjun. Ef fiskur gengur greiðlega upp farveginn og fiskistigann má búast við að a.m.k. helmingur þeirra laxa sem gengur upp fiskistigann við Búðafoss eiga að ganga upp fiskistigann við Hvammsvirkjun.

    Fylgst verður með seiðabúskap í farveginum neðan stíflu með rafveiðum en 10 m3/s lágmarksrennsli á að vera nægjanlegt til að viðhalda búsvæðum á þessum kafla árinnar.

  • Á göngutíma seiða að vori og snemma sumars verður seiðafleytan fullopin með rennsli um 35 m3/s. Fylgst hefur verið með niðurgöngutíma seiða á undanförnum árum. Niðurgöngutíminn er að hluta til háður hitastigi árinnar en rannsóknir sýna að seiðin ganga oftast til sjávar frá miðjum maí fram í miðjan júní.

  • Gert er ráð fyrir að aurburður (sandur og fín möl) berist inn í lónið og setjist efst í lóninu. Mælingar benda til að magn aurburðar verði um 50.000 m3/ári. Rúmmál lónsins er 13,2 Gl þannig að lónið myndi fyllast af aur á 260 árum ef set væri ekki fjarlægt reglulega. Miðað hefur verið við að aur verði dælt upp á aðliggjandi bakka þar sem skilgreind hafa verið haugsetningarsvæði.

    Eins og fram hefur komið í umhverfismati og í skýrslum Hafrannsóknastofnunar þá breytast uppeldisskilyrði með tilkomu Hagalóns. Búsvæði lax skerðast en í staðinn batna skilyrði urriða og bleikju. Framburður Þjórsár sest efst í Hagalóni og fellur þar til botns. Framleiðslusvæði jökulskotinna lóna og stöðuvatna eru strandsvæðin (strandvist) og efsta vatnslag lónsins (svifvist) þar sem sólarljós nær niður. Hversu stór þessi svæði eru fer eftir hversu mikill aurburður er. Í Þjórsá neðan við Búrfell hefur talsverður hluti jökulleirsins fallið út í lónum, veitum og vötnum ofar í vatnakerfinu. Því hafa fiskifræðingar metið að í efsta metranum séu þörungar að ljóstillífa og smádýr sem lifa á þeim. Stærri rándýr (t.d. stærri krabbadýr og skordýr) lifa á smádýrum og fiskur er svo í efsta fæðuþrepinu. Framburður sem sest til á dýpi efst í lóninu skerðir lífræna framleiðslu því ekki mikið.

Rennsli

  • Hvammsvirkjun hefur áhrif á rennsli Þjórsár á 10 km kafla frá efsta enda lóns við Yrjasker að frárennsli virkjunarinnar við neðri enda Ölmóðseyjar. Hvammsvirkjun hefur lítil áhrif á rennsli Þjórsár neðan Ölmóðseyjar. Ástæðan er að Hagalón verður með stöðugt vatnsborð, þ.a. vatni sem rennur inn í lónið umfram það sem fer um stöð, verður veitt um flóðvirki beint út í árfarveginn aftur til að vatnsborð lónsins hækki sem minnst. Á sama hátt ef rennsli inn i lónið er minna en virkjað rennsli þá er rennsli um stöð minnkað til að halda uppi vatnsborði lónsins. Með öðrum orðum, rennsli inn i lónið við Yrjasker verður að jafnaði það sama og rennsli í Þjórsá neðan Ölmóðseyjar og á báðum stöðum það sama og það væri án Hvammsvirkjunar.

    Það verður alltaf rennsli í farveginum frá stíflu að frárennsli virkjunarinnar. Rennslið verður þó minna en það er í dag. Það er vegna þess að megnið af vatninu fer úr farvegi Þjórsár, í gegnum aflstöðina og svo aftur út í farveg árinnar tæpum þrem kílómetrum neðar, við Ölmóðsey. Lágmarksrennsli verður alltaf tryggt til að lágmarka áhrif á lífríki.

  • Með virkjun skerðist rennsli á um 2,7 km kafla frá stíflu ofan við Viðey suður fyrir Ölmóðsey. Með hönnun er tryggt 10 m3/s lágmarksrennsli árið um kring á þessum kafla. Seiðafleytan verður opin að hluta til allt árið að tryggja lágmarksrennsli.

  • Nei. Búðafoss, Hestfoss og Urriðafoss eru í farvegi Þjórsár neðan Hvammsvirkjunar. Virkjunin mun ekki hafa áhrif á rennsli í þeim nema ef til bilunar kemur (gerist sjaldnar en árlega og áhrif myndu vara mjög stutt).