Líffræðileg fjölbreytni

Hvað er líffræðileg fjölbreytni?

Hugtakið líffræðileg fjölbreytni vísar til fjölbreytileika alls lífs á jörðinni, hvort heldur innan tegunda (erfðafræðilegur breytileiki), milli þeirra (tegundabreytileiki) eða milli vistkerfa. Þannig er líffræðileg fjölbreytni ekki eingöngu fjöldi tegunda, heldur líka breytileiki innan tegundarinnar, tegundasamsetning innan vistkerfa og samsetning vistkerfa í landslagsheildum.

Líffræðileg fjölbreytni er nauðsynleg til að viðhalda heilbrigði vistkerfa og virkni þeirra og er þar með undirstaða margvíslegrar vistkerfaþjónustu sem mannkynið reiðir sig á.

Þessi þjónusta náttúrunnar er í raun forsenda lífsgæða okkar og veitir okkur aðgang að fæðu, vatni, hreinu lofti, eldsneyti og byggingarefni. Þjónustan getur líka falist í frævun nytjaplantna, flóðavörnum og náttúruupplifun.