Kolefnisspor af raforkuvinnslu okkar er mjög lágt
Kolefnisspor af raforkuvinnslu Landsvirkjunar er mjög lágt í alþjóðlegu samhengi. Í grænum sáttmála Evrópusambandsins (e. EU Green Deal) er raforkuvinnsla með vatnsafli og jarðvarma flokkuð sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum ef kolefniskræfni hennar er undir 100 g CO2 ígildi á hverja kWst, að uppfylltum skilyrðum um sjálfbæra raforkuvinnslu. Til samanburðar hefur Landsvirkjun sett sér markmið um að kolefniskræfni raforkunnar sem fyrirtækið framleiðir verði alltaf að vera undir 4 g CO2 á hverja kW. Þetta markmið er langt undir viðmiði Evrópusambandsins og raforkuvinnsla Landsvirkjunar flokkast því sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum.
Við verðum kolefnishlutlaus árið 2025. Það þýðir að binding kolefnis verður a.m.k. jafn mikil og losun þess. Til að ná þessum áfanga höfum við gert loftslagsáætlun sem byggir á ítarlegri kortlagningu á kolefnisspori fyrirtækisins. Loftslagsáætlunin okkar var samþykkt árið 2019 og nær til ársins 2030.
Forgangsröðun
Við höfum sett upp forgangsröðun aðgerða okkar í loftslagsmálum sem hjálpar okkur að ná sem mestum árangri í loftslagsmálum á sem hagkvæmastan hátt:
- Koma í veg fyrir nýja losun
- Draga úr núverandi losun
- Mótvægisaðgerðir
Loftslagsáætlunin okkar tekur til fjölmargra þátta í starfsemi fyrirtækisins og felur í sér tölusett markmið um hvern þátt. Það er mikilvægt svo að hægt sé að tryggja stöðuga eftirfylgni með framgangi þeirra aðgerða sem gripið er til og jafnframt mæla árangurinn sem af þeim hlýst.
Upplýsingar um losun fyrirtækisins og hvernig okkur gengur að ná markmiðum okkar má finna í loftslagsbókhaldi og loftslagsmælaborði.