Rafhlöður

Rafmögnuð verðmætasköpun

Rafbílum fjölgar ört og sú þróun kallar á stóraukna framleiðslu á rafhlöðum, rétt eins og eftirspurn vex jafnt og þétt eftir rafhlöðum í farsíma, tölvur, rafmagnshjól og svo mætti lengi telja. Alþjóðleg rafhlöðufyrirtæki svipast nú um eftir heppilegum framleiðslustöðum í Evrópu og leita leiða til að auka sjálfbærni framleiðslunnar.

Loftslagsbaráttan kallar á grænar rafhlöður, enda þarf heimsbyggðin að fara í orkuskipti. Á næstu árum og áratugum skiptum við bensín- og dísilbílunum út fyrir rafknúna bíla. Ísland hefur sett sér það markmið að vera laust við jarðefnaeldsneyti eftir tæpa þrjá áratugi.

Því er spáð að rafbílasala verði 10 sinnum meiri árið 2030 en nú, eða um 34 milljónir bíla, sem jafnframt þýddi að kolefnisútblástur bíla yrði 6-700 milljónum tonna minni en hann er nú. Kolefnisútblásturinn sem sparast við að koma bílum á rafmagn skiptir ekki einungis máli, heldur skiptir að sjálfsögðu miklu máli fyrir loftslagið að orkan sem notuð er í framleiðslu rafhlaðnanna sé græn. Framlag til loftslagsmála verður því meira eftir því sem framleiðslan á rafhlöðunum er umhverfisvænni.

Við höfum margt að bjóða fyrirtækjum sem framleiða rafhlöður, fyrir utan grænu og hreinu orkuna okkar. Rafhlöðuframleiðsla er orkufrek, mannaflsfrek og þarf stórt landsvæði og aðstæður hér á landi því ákjósanlegar. Þá leggja mörg fyrirtæki áherslu á lágt kolefnisspor framleiðslunnar.

Græna orkan okkar getur tryggt lágt kolefnisspor framleiðslunnar og staðsetning landsins milli Evrópu og Ameríku er einnig styrkur. Ávinningur Íslands væri mikill ef rafhlöðuframleiðsla hæfist hér þar sem fjölbreyttari stoðum væri skotið undir atvinnulíf, með aukinni verðmætasköpun, og um leið tækjum við virkan þátt í orkuskiptum heimsins.

Rafmögnuð verðmætasköpun

Viðskiptaþróunarstjóri