Spurningar og svör

Sæstrengurinn

Mikil tækifæri geta falist í sæstreng fyrir Landsvirkjun og Ísland og veigamiklar röksemdir hníga að því að taka þennan kost til alvarlegrar skoðunar. Í fyrsta lagi myndi Ísland rjúfa einangrun sína með tengingu til Evrópu sem gerði Landsvirkjun kleift að selja rafmagn á hagstæðu verði á nýjan markað með aðrar þarfir en áður hefur þekkst hérlendis. Arður íslensku þjóðarinnar af náttúruauðlindunum gæti þannig aukist á sama hátt og þegar íslenskur fiskur er seldur á nýja markaði. Í öðru lagi myndi sæstrengur gera Íslendingum kleift að sýna aukna ábyrgð með því að bæta til muna nýtingu þegar virkjaðra auðlinda. Um þriðjungur þeirrar orku sem færi um sæstreng er þegar til í kerfinu og mun þessi orka, sökum orkuöryggissjónarmiða, áfram vera ónýtt svo lengi sem raforkukerfið er einangrað. Í þriðja lagi myndi orkuöryggi Íslands batna, þar sem hægt yrði að flytja inn rafmagn ef ófyrirséðar aðstæður sköpuðust í raforkukerfinu. Í fjórða lagi gæti sæstrengur verið þáttur í sameiginlegu verkefni alþjóðasamfélagsins við að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda, með því að nýta betur endurnýjanlegar orkuauðlindir Íslands í stað orkugjafa sem fylgir meiri mengun.

Það eru góðar vísbendingar um að það sé raunhæft. Sérfræðingar telja að tæknin sé nú til staðar til að leggja slíkan sæstreng eftir miklar framfarir undanfarin ár og áratugi.  Sterkar vísbendingar eru um að verkefnið sé arðbært fyrir þá sem taka þátt í því að því gefnu að forsendur um stuðning breskra yfirvalda við verkefnið standast. Einnig gefa rannsóknir til kynna að sæstrengur geti orðið þjóðhagslega hagkvæmur fyrir Ísland, en slíkt er auðvitað háð þeim viðskiptakjörum sem nást við mögulega mótaðila í Bretlandi. Það þarf að skoða sæstrenginn enn betur með breskum stjórnvöldum og fleirum til að komast að  endanlegri niðurstöðu um hvort hann sé raunhæfur.

Í heildina er fjárfestingarkostnaður sæstrengsverkefnisins um 800 milljarðar króna samkvæmt skýrslu Kviku og Pöyry. Sá kostnaður skiptist að mestu milli sæstrengsins sjálfs annars vegar og virkjanaframkvæmda hins vegar. Til viðbótar er kostnaður við styrkingu íslenska flutningskerfisins talinn með. Landsvirkjun telur útilokað að Íslendingar standi einir undir fjárfestingu í sæstreng. Erlendir aðilar og bresk stjórnvöld þyrftu að koma þar að og taka á sig verulegan hluta þeirrar áhættu sem verkefninu fylgir. Til að setja kostnaðinn í samhengi er verg landsframleiðsla á Íslandi rúmlega 2.000 milljarðar króna á ári svo verkefnið er risavaxið á íslenskan mælikvarða. Á hinn bóginn eru Bretar að vinna að mörgum sambærilega stórum eða stærri innviðaverkefnum, svo sem kjarnorkuveri við Hinkley Point (3.628 milljarðar króna), nýrri flugbraut við Heathrow (3.749 milljarðar króna) og HS2 hraðlestakerfinu til London (11.087 milljarðar króna). Bretar hafa því ekki sérstakar áhyggjur af stærðargráðu fjárfestingar í sæstrengnum.

Já, orkuöryggi Íslands mun aukast verulega. Ef til náttúruhamfara kæmi sem takmörkuðu innlenda raforkuvinnslu gæti innflutt rafmagn minnkað mögulegan skaða. Þar að auki væri hægt að koma í veg fyrir takmörkun á afhendingu raforku vegna þurrka og óhagstæðs vatnsbúskapar. Íslensk heimili og fyrirtæki yrðu því betur varin fyrir atburðum af þessu tagi.

Í núverandi áætlunum um sæstreng er ekki verið að horfa til þess að Landsvirkjun eða íslenska ríkið leggi sæstrenginn.  Sæstrengurinn verður því eingöngu að veruleika ef erlendir eða aðrir þriðju aðilar fást til að taka drjúgan hluta af áhættunni, t.d. framkvæmdaáhættu vegna lagningar sæstrengs, ábyrgð vegna bilana og tryggingu á lágmarksverði á rafmagninu. Íslendingar eru í ágætri aðstöðu til að semja um áhættudreifinguna ef til slíkra viðræðna kemur. Sæstrengurinn verður ekki lagður ef áhætta Íslendinga reynist óásættanleg.

Helst kemur til greina að leggja sæstreng frá austurhluta Íslands til norðurhluta Bretlands. Það eru nokkrir landtökustaðir sem koma til greina en það liggur ekki fyrir endanlega hverjir eru bestir. Strengurinn yrði yfir 1.000 km langur og líklega færi hann dýpst niður á um 1.000 metra dýpi á stuttum kafla. Ef ákvörðun væri tekin um lagningu strengsins á næstu 2-3 árum kæmist hann í gagnið eftir 2025.

Hún yrði að öllum líkindum um 1.000 MW. Stærstu sæstrengir sem eru til í dag eru um 2.000 MW. Til samanburðar gerir Landsvirkjun ráð fyrir að raforkukerfi Íslands yrði um eða yfir 4.000 MW ef sæstrengsverkefnið verður að veruleika.

Það er óvíst- raunar er óvíst hvort slík ákvörðun verður tekin. Í fyrsta lagi gæti það komið til eftir 2-3 ár. Það á enn eftir að fá sérfræðinga til að kanna betur tæknilega og fjárhagslega atriði til hlítar til að skera endanlega úr um stóra óvissuþætti.
Sameiginlegur vinnuhópur forsætisráðherra Íslands og Bretlands kannaði möguleika á sæstreng og lauk þeirri vinnu í júlí 2016. Niðurstaðan var sú að stjórnvöld beggja landa hafa áhuga á lagningu sæstrengsins en ákveðnum mikilvægum spurningum er þó ósvarað, m.a. hvernig á að fjármagna hann og hver ber ábyrgð á stærstu áhættuþáttum. Vegna umfangs verkefnisins er nauðsynlegt að breið samstaða náist um það á Íslandi.

Bretland hefur áhuga á þeirri stýranlegu vatnsorku sem Ísland hefur að bjóða. Bretar vilja tryggja orkuöryggi sitt til lengri tíma og það er lykilatriði að sú orka komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum eins og Ísland hefur uppá að bjóða. Að auki eru vísbendingar um að sæstrengur til Íslands gæti verið hagkvæmari leið fyrir Breta að tryggja orkuöryggi sitt en aðrar leiðir sem í boði eru. Að lokum eru Bretar líka þátttakendur í Parísarsamkomulaginu um minnkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda og íslenskur sæstrengur aðstoðar við að ná þeim markmiðum.

Sökum umfangs verkefnisins, stærðargráðu fjárfestinga og ýmiss konar áhættu munu erlendir aðilar að öllum líkindum eiga og reka strenginn. Þó er ekkert sem kemur í veg fyrir að íslenskir aðilar taki þátt í þeirri fjárfestingu ef áhugi er á. Landsvirkjun mun hvorki eiga né reka sæstrenginn heldur eingöngu vinna hluta þess rafmagns sem fer um hann.

Nei, arðurinn af sæstrengsverkefninu skiptist á milli eigenda sæstrengsins og eigenda raforkuvinnslunnar á Íslandi. Hvernig sú skipting yrði fer eftir því hvernig samningar nást milli aðila. Á Íslandi er raforkuvinnslan að mestu leyti í eigu íslensku þjóðarinnar í gegnum eignarhlut ríkisins í Landsvirkjun og eignarhluti borgar, sveitarfélaga og lífeyrissjóða í öðrum orkufyrirtækjum svo nánast allur arður mun á endanum renna til samfélagins.

Það eru nú þegar til sæstrengir milli ýmissa landa sem eru sambærilegir við sæstrenginn sem lagður yrði á milli Íslands og Bretlands. Til eru strengir sem byggja á sömu tækni, liggja á meira dýpi, eru með meiri flutningsgetu. Strengurinn yrði þó sá lengsti í sjó, þ.e. yfir 1.000 km, en mun lengri strengir hafa þó verið lagðir á landi. Til samanburðar er fyrirhugaður sæstrengur milli Danmerkur og Bretlands um 760 km langur og fyrirhugaður sæstrengur milli Noregs og Bretlands verður um 720 km langur.

Landsvirkjun áætlar að sæstrengur yrði í notkun 95% tímans. Strengurinn yrði þó ekki alltaf í fullri nýtingu og stundum væri verið að  flytja raforku inn til Íslands en ekki út. Slíkur sveigjanlegur flutningur hentar Bretum vel því raforkunotkunin þar er talsvert breytilegri en hér þekkist auk þess sem þarlend raforkuvinnsla er ófyrirsjáanlegri en hér er. Bretar vilja því geta keyrt sæstrenginn upp og niður eftir þörfum og nýta þannig verðmætan sveigjanleika vatnsafls Íslands. Af þessu leiðir að sæstrengur hefur ýmsa ákjósanlega kosti sem gera hann að öðruvísi viðskiptavini en hefðbundin stóriðja.

Bilanir á sæstreng sem orsaka truflun á rekstri geta verið af ýmsu tagi. Ef bilunin er alvarleg þarf e.t.v. að gera við með því að skipta út hluta hans en þá þarf að taka hann úr rekstri í nokkurn tíma, mögulega nokkra mánuði. Það tekur oftast nokkurn tíma að finna hvar bilunin er og meta hvernig best sé að standa að viðgerð. Hver ber fjárhagslega ábyrgð á bilunum fer eftir því hvernig samningar nást vegna sæstrengsins. Ekkert liggur fyrir um það ennþá en Landsvirkjun vill að stærstur hluti þeirrar ábyrgðar falli á aðra en fyrirtækið eða Íslendinga.

Já, hægt yrði að flytja raforku bæði til og frá Íslandi. Það eykur orkuöryggi Íslands þar sem flytja mætti inn raforku ef raforkuvinnsla á Íslandi raskast vegna t.d. náttúruhamfara eða erfiðra vatnsára. Einnig mætti flytja inn orku þær stundir sem raforkuverð er lágt í Bretlandi, t.d. sökum mikillar orkuvinnslu með vindi, og selja aftur á hærra verði síðar. Þetta er svipað og Noregur gerir nú þegar með sæstrengjum sínum til Hollands og Danmerkur. 

Sala á rafmagni um sæstrenginn

Samkvæmt skýrslu Kviku og Pöyry getur sæstrengur reynst þjóðhagslega hagkvæmur og þar með betri kostur fyrir Ísland en að halda landinu áfram einöngruðu. Þetta er vegna þess að sæstrengur gerir Íslendingum kleift að skapa meiri verðmæti úr rafmagninu okkar en hægt er í einangruðu raforkukerfi. Vatnsafl er verðmætasta raforkuauðlind veraldar í fyrsta lagi vegna þess að það er hægt að auka/minnka orkuvinnslu mjög hratt, í öðru lagi vegna þess að það er svo auðvelt að nota uppistöðulón sem risastórar rafhlöður og í þriðja lagi vegna þess að orkuvinnslan er sjálfbær og endurnýjanleg. Þetta eru eiginleikar sem kol, gas, kjarnorka, vindur og sól búa ekki yfir. Á Íslandi er hlutfallslega mun meira af vatnsafli en í flestum öðrum löndum og með sæstreng tækist að gera enn meira úr þeim verðmætum. Sæstrengsverkefnið felur því ekki eingöngu í sér útflutning á rafmagni heldur útflutningur á þjónustu sem við getum veitt vegna vatnsaflsins sem við eigum hérlendis. Samkvæmt skýrslu ráðuneytisins tekst okkur ekki að raungera sömu verðmæti hérlendis án þess að tengjast öðrum raforkumörkuðum sem hafa meiri þörf fyrir sveigjanlega raforkuvinnslu.

Sæstrenginn má bera saman við íslenskan sjávarútveg. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sækja stöðugt á nýja markaði til þess að selja íslenskan fisk á sem bestum verðum. Áður fyrr var verðlitlum afskurði og hliðarafla hent eða hann sendur í bræðslu, en með þrotlausri vinnu hefur Íslendingum tekist að finna kaupendur að skötusel, þorskhausum og fiskroði. Þannig hefur tekist að auka útflutningsverðmæti jafnvel þó fiskafli fari minnkandi í tonnum talið. Sæstrengur getur á sama hátt bætt nýtingu Íslendinga á orkuauðlindum okkar. Í dag flytja Íslendingar út rúmlega 98% af fiskinum sem veiðist við Ísland og um 80% af raforkunni eru seld til erlendra stóriðjufyrirtækja.

Raforkan yrði að líkindum seld orkufyrirtækjum, endanotendum raforku og/eða á opinn raforkumarkað í Bretlandi. Kaupendur gætu því orðið nokkrir aðilar eða mörg hundruð. Einhverjir samningar gætu orðið til lengri tíma (margra ára) á meðan annað rafmagn kynni að vera selt með mun minni fyrirvara. 

Það er háð samningum við bresk stjórnvöld en sýnilegt er að  ákveðið lágmarksverð þarf til að réttlætanlegt sé að ráðast í sæstrengsverkefnið. Niðurstöður viðræðuhóps Bretlands og Íslands voru þær að Bretland hefði áhuga á að kanna málið frekar þrátt fyrir óvissu þætti. Ef verkefnið verður tekið yfir á næsta stig og kannað frekar er viðskiptamódel einn af þeim mögulegum þáttum til skoðunar.

Allir áhugasamir seljendur á Íslandi ættu að hafa aðgang að sæstrengnum. Þannig gætu smærri aðilar, t.d. bændavirkjanir, selt raforku um strenginn ef þeir hafa áhuga.

Já. Með tilkomu sæstrengs verður hægt að nýta orkukosti á borð við vindorku og bændavirkjanir sem að öðrum kosti verða líklega ekki nýttir í bráð vegna þess hversu kostnaðarsamir þeir eru. Verulegur hluti orkunnar sem færi um sæstrenginn gæti komið frá virkjunum af þessu tagi að því gefnu að leyfisveitingarferli og reglugerðarumhverfið geri það mögulegt. Í Noregi hefur orðið mikill vöxtur í byggingu bændavirkjana eftir lagningu sæstrengja þar í landi.

Raforkuverð hafa lækkað verulega í Evrópu á undanförnum þremur árum og eru nú líklega of lág til að sæstrengurinn borgi sig á þeim einum saman. Þar sem sæstrengurinn er margra áratuga verkefni þarf að horfa til framtíðar til að meta hvort lága verðið er líklegt til að verða áfram ráðandi. Það er Breta að framkvæma slíkt mat á þeim forsendum sem þeim þykja réttastar. Að því loknu gætu bresk stjórnvöld ákveðið að tryggja sæstrengnum nauðsynlegt lágmarksverð til margra ára ef það telst þjóðhagslega hagkvæmt fyrir Bretland. Í dag liggur ekki fyrir hvort eða hvernig slíkum stuðningi gæti verið háttað en Bretar hafa lýst sig reiðubúna til að skoða það nánar í viðræðum við íslensk stjórnvöld.

Orkan og virkjanir á Íslandi

Miðað við útfærslu Landsvirkjunar er líklegt að um 5,7 TWst af raforku yrðu seldar á meðalári til 1.000 MW sæstrengs. Til að mæta þeirri eftirspurn þyrfti um 5,8 TWst af raforkuvinnslu því eitthvað af rafmagni tapast á leiðinni til strengsins.


Sú sviðsmynd sem Landsvirkjun hefur mest unnið með gerir ráð fyrir að um 2,1 TWst af rafmagni gætu komið frá hefðbundnum vatnsaflsstöðvum og jarðvarmavirkjunum en 1,9 TWst væru umframorka sem fer til spillis í dag vegna þess að íslenska raforkukerfið er einangrað. Þannig renna t.d. milli 10-20% af vatni sem Landsvirkjun gæti nýtt í sjóinn í meðalári því Íslendingar þurfa að miða vinnslugetu við verstu vatnsár. Annað dæmi um umframorku er rafmagn sem stóriðjufyrirtækin eiga rétt á að fá afhenta en nýta þó ekki í öllum árum. Að síðustu má gera ráð fyrir að 1,8 TWst kæmu frá orkukostum sem byggja á þekktum tæknilausnum en eru of dýrir til þess að ráðist væri í þá, t.d. vindorka, lágvarmavirkjanir og bændavirkjanir. Þannig gætu skapast tækifæri fyrir smærri orkufyrirtæki til að vinna og selja orku.

Í núgildandi bið- og nýtingarflokki rammaáætlunar eru nægir orkukostir til að mæta bæði orkuþörf sæstrengs og aukningar á raforkunotkun á Íslandi á næstu áratugum, bæði hjá almenningi og nýjum iðnaði. Að auki er um þriðjungur orkunnar sem sæstrengur getur notað nú þegar aðgengileg en í dag er ekki hægt að nýta þessa orku sökum einangrunar íslenska raforkukerfisins. Þriðjungur orkunnar kæmi frá orkukostum í rammaáætlun (aðallega úr núverandi nýtingarflokki) og afgangurinn frá nýjum orkukostum sem eru of dýrir til að þeir séu nýtanlegir með góðu móti á Íslandi, s.s. vindorka, lágvarmavirkjanir og bændavirkjanir. 

Já, óhjákvæmilegt verður að reisa nýjar aflstöðvar. Þar er horft til ýmissa kosta úr nýtingarflokki rammaáætlunar og stækkana á gömlum aflstöðvum til að sinna orkuþörf strengsins. Landsvirkjun gerir ekki ráð fyrir að þörf sé á nýjum stórum vatnsaflsvirkjunum.
Landsvirkjun gerir ráð fyrir að reisa þurfi 2-3 nýjar miðlungsstórar eða minni vatnsafls- eða jarðvarmastöðvar fyrir sæstreng með um 200 MW af afli. Uppbygging nýrrar vindorku gæti numið 400 MW. Þá er einnig gert ráð fyrir viðbótum við núverandi stöðvar þannig að aflgeta þeirra aukist um nálægt 500 MW. Aukning á aflgetu af þessu tagi hefur lítil umhverfisáhrif þar sem einungis er um að ræða breytta útfærslu á núverandi mannvirkjum.

Með tilkomu sæstrengs og samfara styrkingu núverandi virkjana verður hægt að nýta núverandi vatnsafl á Íslandi betur og selja um 1,9 TWst árlega sem annars væri erfitt eða ómögulegt að selja sökum einangrunar raforkukerfisins. Þar á meðal er ótrygg orka sem er eingöngu til staðar í skárri vatnsárum og er því ekki hægt að ábyrgjast afhendingu á í hverju ári. Annað dæmi er ótekin orka sem stórnotendur nýta ekki þrátt fyrir að hafa rétt til þess. Að síðustu má telja óselda orku sem verður yfir lengra tímabil reglulega til í kerfinu þar sem virkjanir bætast almennt við kerfið án þess að að vinnslugeta þeirra sé strax að fullu seld.

Áhrif á íslensk heimili

Raforkuverð myndi líklega hækka. Sé miðað við skýrslu Kviku og Pöyry má gera ráð fyrir að hækkun til meðalheimilis nemi um 8% umfram það sem yrði án sæstrengs, eða sem samsvarar um 550 krónum á mánuði. Áhrifin eru þannig takmarkaðri en sumir hafa haldið fram. Skýrsla Kviku og Pöyry  bendir á að íslensk stjórnvöld geta haft áhrif á þessa verðhækkun, t.d. með því að fella niður virðisaukaskatt á raforkusölu til heimila. Þá yrðu heimili ekki fyrir neinum verðhækkunum. Tekjutapið gætu stjórnvöld unnið til baka með skattlagningu á útflutta raforku eða í gegnum auknar arðgreiðslur frá Landsvirkjun.

Nei. Evrópu er skipt upp í mörg mismunandi verðsvæði vegna takmarkana í háspennutengingum svo það er ekki til neitt eitt samevrópskt verð. Þannig eru t.d. fimm mismunandi verðsvæði í Noregi.
Þegar íslenskur sæstrengurinn er fulllestaður af rafmagni er ekki hægt að selja meira rafmagn um hann. Eftir það eru áhrif hans á íslenskan raforkumarkað lítil.

Skýrsla Kviku og Pöyry bendir á að íslensk stjórnvöld geta haft áhrif á þessa verðhækkun, t.d. með því að fella niður virðisaukaskatt á raforkusölu til heimila. Þá yrðu venjuleg heimili með hitaveitu ekki fyrir neinum verðhækkunum og til að eyða öllum áhrifum á rafhituð heimili mætti niðurgreiða rafmagnsnotkunina meira en gert er nú. Tekjutapið gætu stjórnvöld unnið til baka með skattlagningu á útflutta raforku eða í gegnum auknar arðgreiðslur frá Landsvirkjun.

Raforkuverð til heimila á köldum svæðum mun líklega hækka. Sé miðað við skýrslu Kviku og Pöyry má gera ráð fyrir að hækkunin til heimilis sem notar rafhitun til kyndingar nemi um 10-16% umfram það sem yrði án sæstrengs, eða sem samsvarar um 2.900-3.400 krónum á mánuði. Ef vilji er til þess geta stjórnvöld gripið til ráðstafanna til að koma í veg fyrir þessi áhrif.

Þjóðhagsleg áhrif 

Samkvæmt skýrslu Kviku og Pöyry mun sala raforku um sæstreng reynast Íslandi þjóðhagslega hagkvæm. Þá er talið að ábatinn fyrir Ísland í heild sé um 217 milljarðar króna og að árleg hækkun landsframleiðslu verði um 1,2-1,6% miðað við það að enginn sæstrengur sé lagður. Samkvæmt skýrslunni fylgir sæstreng ýmis atvinnustarfsemi og mun atvinnuleysi vera minna á Íslandi en án sæstrengs. Einnig er ljóst að orkuöryggi og áhættudreifing stóreykst í landinu sem dregur úr neikvæðum efnahagslegum afleiðingum ófyrirséðra atburða í íslenska raforkukerfinu.

Ef hugmyndir stjórnvalda um slíkan sjóð ná fram að ganga má reikna með því. Rætt hefur verið um að arðgreiðslur Landsvirkjunar renni í slíkan sjóð. Aðrir skattar og auðlindagjöld tengd sæstreng gætu einnig gert það. 

Samkvæmt skýrslu Kviku og Pöyry yrði atvinnuleysi minna á Íslandi ef sæstrengur verður lagður. Þetta á sérstaklega við á framkvæmdatímanum þar sem mikill fjölda starfa skapast. Erfiðara er að bera saman störfin á rekstrartíma en reikna má með að ýmis störf verði til í tengslum við rekstur, viðhald og eftirlit sæstrengs og nýrra virkjana auk þess sem ýmis fjölbreytt og sérhæfð störf yrðu til í kringum bein viðskipti Íslendinga á alþjóðlegum orkumörkuðum. Aukin verðmætasköpun býr einnig í haginn fyrir aukna nýsköpun og tengd störf.

Samkvæmt skýrslu Kviku og Pöyry mun tenging til Bretlands leiða til hækkunar raforkuverðs á Íslandi. Þessi hækkun verður á bilinu €6-12/MWst eða 0,85-1,7 kr./kWst. Þá hefur Hagfræðistofnun HÍ bent á að mjög ólíklegt sé að raforkuverð kynni að verða hið sama í Bretlandi og á Íslandi. Þetta er m.a. sökum þess að flutningsgeta strengsins er takmörkuð og að einungis sú flutningsgeta strengs sem ekki er bundin í langtímasamninga mun hafa áhrif á raforkuverð á Íslandi.

Íslenskur iðnaður

Sæstrengur kemur ekki í staðinn fyrir stóriðju á Íslandi heldur yrði hann viðbót og færi vel saman við áframhaldandi uppbyggingu iðnaðar í landinu. Margir af þeim orkukostum sem nýttir væru fyrir sæstreng kæmu að óbreyttu ekki til greina til að styðja við uppbyggingu iðnaðar sökum kostnaðar. Eins og sjá má á skýringarmyndinni að neðan mætti gera ráð fyrir að einungis um þriðjungur þeirrar orku sem seld yrði um sæstreng gæti nýst í innlendri iðnaðaruppbyggingu. Samkeppni sæstrengsins við iðnað á Íslandi er því takmörkuð.

Já, afhendingaröryggi rafmagns til stóriðjunnar mun aukast stórlega þegar hægt verður að flytja inn raforku um sæstreng í neyðartilvikum og sjaldnar þarf að grípa til skerðinga í afhendingu vegna vatnsskorts. Stóriðjufyrirtækin eru með langtímasamninga sem tryggja þeim rafmagn að jafnaði mörg ár fram í tímann og myndi sæstrengur ekki hafa áhrif þar á. Áhrif strengsins á stóriðju við endursamninga yrðu hófleg þar sem það magn sem myndi losna, ef ekki næðust samningar, væri ekki hægt að flytja út um sæstreng nema að litlu leyti þar sem flutningsgeta strengsins er takmörkuð og hann þegar vel lestaður.

Raforkuverð myndi líklega hækka. Sé miðað við skýrslu Kviku og Pöyry má gera ráð fyrir að hækkun til iðnfyrirtækja (utan stóriðju) nemi um 4-11% umfram það sem yrði án sæstrengs. Áhrifin eru þannig takmarkaðri en sumir hafa haldið fram.

Nei, raforkuverð og aðrir skilmálar í gildandi samningum haldast óbreyttir. 

Ferðaþjónusta

Sæstreng fylgja óhjákvæmilega nýjar virkjanir og háspennulínur sem gætu haft áhrif á  ferðamenn sem koma til Íslands. Kannanir hafa sýnt að ferðamenn líta endurnýjanlega orku Íslendinga mjög jákvæðum augum og hefur Landsvirkjun átt í góðu samstarfi við ferðaþjónustuna. Virkjanir Landsvirkjunar hafa í gegnum tíðina opnað aðgang að landsvæðum sem áður var illmögulegt fyrir almenning að ferðast til. Landsvirkjun telur fullvíst að sæstrengur muni hafa jákvæð áhrif á ímynd Íslands í loftslagsmálum og sem leiðandi lands í endurnýjanlegri raforkuvinnslu.

Umhverfisáhrif og loftslagsmál

Umtalsvert af núverandi orkuvinnslu Íslands fer fram á hálendinu og nokkrir virkjunarkostir í núverandi rammaáætlun eru þar einnig. Sæstrengur kallar ekki á stórar vatnsaflsvirkjanir á hálendinu. Háspennulína yfir Sprengisand er heldur ekki nauðsynleg því mögulegt er að byggja upp flutningskerfið með öðrum hætti. Það er val Íslendinga hvernig hálendið er nýtt og hægt er að taka ákvörðun um nýtingu eða vernd óháð lagningu sæstrengs.

Skipta má umhverfisáhrifum sæstrengs í tvennt eftir því hvenær á líftíma strengsins þau eiga sér stað. Umhverfisáhrif vegna lagningar, viðgerða og viðhalds eru að mörgu leyti flóknari og meiri en áhrif vegna reksturs en á móti kemur að þau eru til skemmri tíma og auðveldara að lágmarka þau með réttum mótvægisaðgerðum. Helstu áhrifin eru rask á sjávarbotni, sjónræn áhrif, hávaði, útblástur og úrgangur vegna skipaumferðar og lagningartækja. Áhrif sem verða vegna reksturs strengsins eru helst vegna rafsegulsviðs og hita sem stafa af strengnum en slíkt getur haft áhrif á lífríkið umhverfis strenginn. Með réttri gerð strengs, greftri ofan í hafsbotninn og ekki of mikilli fjarlægð á milli leiðara er þó hægt að draga verulega úr áhrifum á rafsegulsvið og hitastig við strenginn. 

Hagsmunir allra ríkja heimsins eru að færa sig yfir í endurnýjanlega orkugjafa til að spyrna gegn þeirri þróun sem á sér stað í loftslagsmálum. Erlend náttúruverndarsamtök eru almennt hlynnt samtengingu orkukerfa. Með samtengingum minnkar þörf fyrir orkuver vegna bættrar nýtingar og mögulegt er að auka nýtingu á vind- og sólarorku. Samtenging orkukerfa er talin einn mikilvægasti þátturinn í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sæstrengurinn mun draga úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda í heiminum og verður þar með mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftlagsbreytingum. Loftlagsáhrif sæstrengs milli Íslands og Bretlands eru þannig talin mjög jákvæð. Að mati Evrópusamtaka stjórnenda raforkuflutningskerfa í Evrópu (ENTSO-E) mun sæstrengur milli Íslands og Bretlands draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 1-2,9 milljónir tonna á ári. Til samanburðar var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 4,6 milljónir tonna árið 2014. Þessa minnkun á útblæstri má fyrst og fremst rekja til þess að endurnýjanleg raforkuvinnsla á Íslandi kæmi í stað raforkuvinnslu með jarðefnaeldsneyti í Bretlandi.

Á undanförnum árum hefur á lífríki og náttúra á áhrifasvæði sæstrengs verið rannsökuð en lögð er áhersla á að lágmarka öll slík áhrif. Helst gæti sæstrengur haft áhrif á fiskveiðar á Íslandi ef lagning hans ylli mikilli röskun á hrygningarsvæðum eða búsvæðum nytjategunda. Því skiptir val á lagningarleið og staðsetningu landtöku miklu máli. Landtaka austast á landinu myndi þýða að sæstreng þyrfti að þræða um hrygningarsvæði þriggja tegunda (þorsks, sandkola og skrápflúru) á meðan landtaka sunnan- eða suðaustantil myndi þýða að þræða þyrfti hrygningarsvæði þrisvar til fimm sinnum fleiri tegunda. Fyrir margar þessara tegunda (s.s. þorsk) eru botnstrýtur eða hraukar mikilvægir fyrir hrygningu og yrði að leita leiða til að forðast að raska slíkum botnmyndunum. Á leiðinni á milli Íslands og Bretlands eru margvísleg búsvæði en upplýsingar um þau eru af skornum skammti. Þessi svæði þyrfti að kortleggja betur og leita leiða til að sneiða hjá búsvæðum sem eru viðkvæm fyrir raski. 

Já, allir hlutar sæstrengsverkefnisins (t.d. nýjar virkjanir) sem hafa veruleg umhverfisáhrif fara í umhverfismat samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana. Í því lögbundna ferli mun hagsmunaaðilum jafnt sem almenningi gefast tækifæri til að koma athugasemdum á framfæri. 

Háspennulínur og flutningskerfi raforku á Íslandi

Samkvæmt athugunum þarf að styrkja flutningskerfið á Íslandi ef sæstrengur verður lagður og nýjar háspennulínur eru hluti af þeirri styrkingu. Líklegasti landtökustaður sæstrengs er á Austfjörðum og því þyrfti að styrkja eina af eftirtöldum leiðum í raforkukerfinu: austurvæng byggðalínu (Sigalda-Fljótsdalur), vesturvæng byggðalínu (Brennimelur-Fljótsdalur) eða hálendislínu (Langalda að Fljótsdal).Vert er að hnykkja á að verkefnið krefst þess ekki að hálendislína verði lögð.

Það er ekki enn ljóst, eðlilegt er að gera ráð fyrir að notendur sæstrengsins eða eigendur hans greiði fyrir stækkunina. Þessir aðilar gera aftur ráð fyrir að Bretar tryggi lágmarksverð raforku fyrir tiltekið orkumagn ef af sæstrengsverkefni verður og að það verð muni standa undir kostnaði vegna flutningskerfisins og styrkingu þess á Íslandi.

Bretland

Samkvæmt niðurstöðum verkefnisstjórnar sæstrengs er slíkur stuðningur forsenda sæstrengs. Kostnaðar- og ábótagreining á sæstreng til Bretlands leiddi í ljós að verkefnið nær ekki lágmarksarðsemi nema að til komi beinn stuðningur frá breskum stjórnvöldum.  Könnunarviðræður bresku og íslensku ríkisstjórnarinnar leiddu ennfremur í ljós að bresk yfirvöld hafa áhuga á að skoða það nánar, bæði fyrir sæstrenginn sjálfan og raforkuvinnsluna. Verði sæstrengsverkefnið tekið á næsta stig er mögulegt stuðningskerfi einn af þeim þáttum sem líklega verða kannaðir.

Já, það mun að öllum líkindum tefja frekari skoðun á sæstreng á meðan verið er að meta afleiðingarnar af Brexit. T.d. er óljóst hvort/hvernig Bretland muni tengjast sameiginlegum raforkumarkaði Evrópu og varðandi aðgang fjárhagslegum styrkjum sem Evrópusambandið veitir til innviðaverkefna af því tagi sem sæstrengurinn er. Ísland hefur þó áfram aðgang að ýmsum styrkjakerfum í gegnum Evrópska efnahagssvæðið. 

Það er ólíklegt. Þrátt fyrir að Bretland gangi úr Evrópusambandinu mun landið áfram taka þátt í baráttunni við loftlagsbreytingar og hefur orkumálaráðherra Bretlands tekið af öll tvímæli um það. Þá mun Bretland virða skuldbindingar sínar vegna Parísarsamkomulagsins. 

Evrópusambandið hefur sett ýmis sameiginleg markmið fyrir aðildarríki sín í tengslum við loftslagsmál. Það er óljóst hvort/hvenær þau markmið hætta að eiga við um Bretland. Bretar eru áfram skuldbundnir af Parísarsamkomulaginu um aðgerðir í loftslagsmálum en þurfa nú að ákveða hvernig þeir ætla sér að ná markmiðunum, t.d. með eða án samvinnu við önnur Evrópuríki. Orkumálaráðherra Bretlands hefur lýst því yfir að landið muni áfram taka fullan þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Noregur

Stefna Norðmanna í orkumálum er að auðlindir þeirra standi undir sem mestri verðmætasköpun fyrir landið. Þannig versla Norðmenn með raforku við eigin nágrannalönd, bæði um landlínur ogsæstrengi, til að búa til sem mest verðmæti fyrir norskt samfélag. Til viðbótar þá telja Norðmenn þessar tengingar auka orkuöryggi landsins og að auknar tengingar við meginland Evrópu séu mikilvægt framlag í baráttunni við loftlagsbreytingar.

Já, frá Noregi liggja sæstrengir til Hollands og Danmerkur. Strengurinn til Hollands (NorNed) var tekinn í notkun 2007 og hefur ávinningurinn af honum hefur verið verulegur. Búið er að taka ákvörðun um nýja sæstrengi til Bretlands og Þýskalands. Til viðbótar við þessa sæstrengi tengjast Noregur og Svíþjóð um landlínur.

Fjárhagslegur ávinningur Norðmanna hefur verið verulegur og nýting náttúruauðlinda hefur batnað. Auk þess hafa vindorkugarðar og bændavirkjanir risið á mörgum stöðum. Að jafnaði er rafmagn flutt út frá Noregi á hverju ári, en árið 2010 fluttu Norðmenn inn rafmagn til að bregðast við slæmu vatnsári og halda aftur af raforkuverðshækkunum og skerðingum í afhendingu. Vegna þeirra jákvæðu velferðaráhrifa sem nást fram með samtengingu við aðra raforkumarkaði eru Norðmenn að leggja nýja sæstrengi til Bretlands og Þýskalands.

Raforkuverð hefur hækkað lítillega en verð í Noregi eru áfram lægri en víðast hvar staðar í Evrópu. Hagnaður Norðmanna hefur að hluta til verið nýttur til að lækka flutningskostnað rafmagns til norskra neytenda. Greiningar sýna að þær tengingar sem eru í farvatninu í Noregi munu skapa verðþrýsting til hækkunar en samhliða er stefnt að uppbyggingu nýrra virkjana sem á móti myndu skapa verðþrýsting til lækkunar.
Benda má á að norsk heimili nota mun meira rafmagn en þau íslensku því þau eru kynt með rafmagni. Áhrif af hækkun raforkuverðs eru því meiri. Á Íslandi eru langflest heimili kynt með heitu vatni.

Að mörgu leyti má búast við því. Bæði Ísland og Noregur vinna sína raforku aðallega úr vatnsafli, raforkufyrirtæki eru mikið til í eigu almennings, raforkukerfi þeirra hafa verið einangruð og þau hafa byggt upp öflug raforkukerfi þar sem hagsmunir orkufyrirtækja og orkufreks iðnaðar eru samtvinnaðir. Líkur eru á því að sömu jákvæðu velferðaráhrif sjáist á Íslandi með tengingu og hafa greiningar hingað til bent til þjóðhagslegs ábata fyrir íslenskt samfélag.

Annað

Nei, rafvæðing bílaflota Íslands getur átt sér stað samhliða lagningu sæstrengs og fara þessi tvö verkefni vel saman. Orkuþörf rafbílavæðingar er lítil í samanburði við orkuþörf nýs iðnaðar og sæstrengs. Rafbílar á Íslandi gætu því notið góðs af uppbyggingu á innviðum raforkukerfisins sem fylgir sæstreng.

Já, mögulega munu Færeyingar tengjast sæstrengnum og rjúfa þar með einangrun sína líkt og Íslendingar.

Á vefsíðu Landsvirkjunar er að finna skýrslur og fréttir sem tengjast verkefninu. Síðan er uppfærð eftir því sem frekari upplýsingar liggja fyrir.