Landsvirkjun

Veigamikill þáttur starfseminnar

Umhverfisrannsóknir eru veigamikill þáttur í starfsemi okkar en við fylgjumst náið með fjöldamörgum umhverfisþáttum sem hafa áhrif á starfsemi okkar og rekstur virkjana.

Umhverfisrannsóknir gegna mikilvægu hlutverki í fyrstu athugunum á virkjunarkostum og mótun tilhögunar einstakra verkefna og stefnum við að því að vægi þeirra á frumstigum muni aukast.

Fiskistofnar í Þjórsá

Gerð hefur verið skýrsla um helstu einkenni fiskistofna í Þjórsá, breytingar í gegnum tíðina, áhrif fyrirhugaðra virkjana og mótvægisaðgerðir sem lagt er til að ráðist verði í, verði ákveðið að reisa fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár.

Lesa nánar

Hávaði

Hávaði er skilgreindur sem óæskilegt hljóð sem stafar meðal annars frá athöfnum fólks, umferð eða atvinnustarfsemi. Hljóðstyrkur er mældur í desíbelum (dB) eða desíbel A (dB(A)) sem líkir eftir næmni mannseyra.

Orkuvinnslusvæði eru skilgreind sem iðnaðarsvæði en mörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi á iðnaðarsvæðum eru 70 dB(A) á lóðarmörkum samkvæmt reglugerð um hávaða. Í nágrenni jarðvarmavirkjana Landsvirkjunar liggja iðulega vinsælir ferðamannastaðir, jafnvel innan skilgreindra iðnaðarsvæða. Ekki eru til í reglugerðum skilgreind mörk fyrir hávaða á útivistarsvæðum. Landsvirkjun leitast við að halda hljóðstigi á þessum stöðum undir 50 dB(A) sem er jafngildishljóðstig hávaðamarka á íbúðarsvæðum.

Við jarðvarmavinnslu eru það vélar og búnaður aflstöðva sem helst valda hávaða sem og blástur gufu út í andrúmsloftið við afkastamælingar á borholum. Hljóðstig á hverjum tíma fer því eftir fjölda hola í blæstri og fjölda véla í vinnslu, auk veðurfars. Árlegar mælingar á hljóðstigi frá jarðvarmavinnslu eru gerðar á fyrirfram skilgreindum mælipunktum, auk þess sem mælingar eru gerðar við borholur samhliða afkastamælingum, en hljóðdeyfar eru á öllum borholum. Hver mæling stendur yfir í fjórar mínútur og því getur bílaumferð haft áhrif á hljóðstigsmælingarnar. Hafa ber í huga að hér er um stakar mælingar að ræða sem gefa vísbendingar um hljóðstig á svæðinu en útiloka ekki að hljóðstig geti verið hærra eða lægra á öðrum tímum.

Jöklar

Landsvirkjun nýtir leysingavatn frá jöklum til raforkuvinnslu og eru jöklarannsóknir og þekking á jöklum landsins fyrirtækinu mikilvægar. Undanfarin 30 ár hefur verið samstarf milli Landsvirkjunar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands um rannsóknir og sköpun þekkingar á jöklum. Meðal verkefna á þeim tíma er kortlagning allra helstu jökla landsins, bæði af yfirborði og botni jöklanna en slík kort eru mikilvæg til að meta breytingar og skilja hegðun jöklanna. Skipulagðar mælingar og rannsóknir á afkomu Vatnajökuls hófust árið 1992 og á Langjökli árið 1997.

Mælingar á orkuþáttum sem valda leysingu hófust 1994 en sem dæmi um þessa orkuþætti eru geislun, hiti og vindur. Þessar mælingar hafa veitt innsýn í tengsl milli veðurþátta og afkomu jöklanna og hefur þekkingin nýst, ásamt rannsóknum á líklegum loftslagsbreytingum, til að spá fyrir um þróun jöklanna á næstu árum og áratugum. Slíkar spár hafa auðveldað ákvarðanir um rekstur vatnsaflsvirkjana Landsvirkjunar, en samfara rýrnun jöklanna hefur afrennsli frá þeim aukist.

Vatnafar

Landsvirkjun fylgist náið með vatnafari á starfs- og rannsóknarsvæðum fyrirtækisins. Tilgangurinn er fjölþættur en honum má skipta í þrjá meginþætti: 

  • Eftirlit með rennsli til virkjana og vatnshæðum lóna svo nýting vatns sé hámörkuð og bestur mögulegur rekstur virkjana tryggður.
  • Mælingar á rennsli, stöðu grunnvatns í tengslum við virkjanaframkvæmdir svo meta megi áhrif mannvirkja á umhverfið.
  • Mælingar á rannsóknasvæðum til mats á orkuvinnslu.

Gagnasöfnunartæki eru við hverja mælistöð og vista mælingar. Fjarkskiptabúnaður við gagnasöfnunartækið sér svo um að gögnin rati í gagnagrunn Landsvirkjunar til frekari úrvinnslu. Tíðni gagnasöfnunar er breytileg eftir mikilvægi mælistaðar en víða eru gögn tengd í rauntíma við gagnagrunn. 

Áralangar mælingar á vatna- og veðurfari hafa opnað möguleika á gerð rennslislíkana fyrir vatnasvið á starfssvæðum fyrirtækisins. Rennslislíkönin hafa svo aftur gert Landsvirkjun kleift að spá fyrir um breytingar á rennsli vegna hlýnunar andrúmslofts sem er veigamikill þáttur í undirbúningi fyrirtækisins fyrir framtíðina.

Kolefnisspor

Kolefnisspor er mælikvarði sem notaður er til þess að sýna áhrif athafna mannsins á loftslagsbreytingar. Landsvirkjun notast við þá skilgreiningu að kolefnisspor lýsi árlegri losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi fyrirtækisins þegar dregin hefur verið frá áætluð kolefnisbinding á vegum þess.

Útstreymi frá jarðvarmavirkjunum

Háhitasvæði á Íslandi eru öll tengd virkum eldstöðvum og varmastreymi inn á svæðin kemur úr fremur grunnstæðum kvikuinnskotum eða kvikuþróm. Kólnandi kvikuinnskot losa frá sér kvikugös, sem flest eru léttari en vatn og gufa og leita því upp að yfirborðinu. Mörg þeirra hvarfast við efni í jarðhitavatninu eða bergi og falla út sem útfellingar. Kvikugösin eru að stærstum hluta koltvísýringur, oft í kringum 60­-95% af massahlutfalli gass, þá brennisteinsvetni (H2S), sem getur verið frá 1-­20%, en aðrar gastegundir eru í umtalsvert minna magni, þar á meðal er örlítið af gróðurhúsalofttegundinni metan (CH4). Álitamál er hvort líta beri á útstreymi GHL frá jarðvarmavirkjunum sem losun af mannavöldum eða náttúrulegt útstreymi frá svæðinu.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá lónum

Við myndun uppistöðulóna fer gróður og jarðvegur undir vatn og við niðurbrot (rotnun) lífrænna efna í gróðri og jarðvegi myndast koltvísýringur, metan og glaðloft.

Jarðhitaforðinn

Landsvirkjun rekur tvö jarðhitaorkuver. 60 MW í Kröflu og 3 MW í Bjarnarflagi.

Áður en ráðist er í uppbygginu á jarðhitasvæðum liggja að baki ítarlegar rannsóknir á eðli og uppbyggingu jarðhitasvæðanna ásamt rannsóknum á ýmsum umhverfisþáttum og mat á vinnslugetu þeirra. Landsvirkjun hefur það að leiðarljósi að nýta jarðhita á sjálfbæran og ábyrgan hátt og að ekki sé of ákaft gengið á vatnsforða jarðhitakerfisins heldur sé nýting í góðu jafnvægi við innrennsli grunnvatns inn í kerfið. Ítarlega er fylgst með ástandi jarðhitageymisins með mælingum á hita og þrýsting í borholum ásamt því að efnafræði vökvans er rannsökuð reglulega. Náið er fylgst með yfirborði jarðhitasvæða með kortlagningu hvera, auk þess sem grunnvatn og yfirborðsvatn er rannsakað reglulega.

Landsvirkjun rekur ásamt samstarfsaðillum víðtækt net skjálftamæla til að kortleggja jarðskjálfta á jarðhitasvæðum.

Jarðhitavökvinn sem ekki er nýttur beint til rafmagnsframleiðslu er skilinn frá og er hluta hans dælt aftur niður í jarðhitageyminn. Hlutfall vatns og gufu er breytilegt eftir borholum og þeim svæðum sem þær eru staðsettar á. Orkuríkustu borholurnar gefa af sér nær einungis gufu en borholur sem eru kaldari gefa af sér hærra hlutfall vatns og nýtast því verr til rafmagnsframleiðslu.

Losun út í andrúmsloftið

Loftslagsbreytingar má rekja til losunar gróðurhúsalofttegunda (GHL) í andrúmsloftið, meðal annars vegna brennslu jarðefnaeldsneytis og ýmiss konar landnýtingar. Ísland er aðili að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, svokölluðum Loftslagssamningi, en með honum hefur Ísland skuldbundið sig til að grípa til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Því er það markmið Landsvirkjunar að draga úr losun GHL.

Við raforkuvinnslu Landsvirkjunar losna gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið, meðal annars vegna brennslu jarðefnaeldsneytis í bifreiðum og tækjum, losunar vegna flugferða, brennslu og urðunar úrgangs sem og losunar sem tengist raforkuvinnslunni beint. Bein losun vegna raforkuvinnslu er til að mynda losun GHL frá lónum, útstreymi frá jarðvarmavirkjunum og losun frá rafbúnaði. Þá á sér einnig stað útstreymi annarra loftegund en GHL frá jarðvarmavinnslu sem geta haft neikvæð áhrif á menn og lífríki.

Landsvirkjun heldur bókhald um losun GHL sem birt er í árlegri umhverfisskýrslu fyrirtækisins.

Landslag (sjónræn áhrif, mannvirki og jarðmyndanir)

Ísland er aðili að Landslagssamningi Evrópuráðsins en upphafið að Landslagssamningum á rætur sínar að rekja til vakningar í umhverfismálum á 19. öld þegar ráðgjafaráð Evrópuráðsins fjallaði um Vandamál Evrópu. Tilurð samningsins kemur síðan í gegnum CMAT (The Council of Europe Conference of Minister responsible for Spatial/Regional Planing) í Bonn og fyrsta heimsþing umhverfismála sem haldið var í Stokkhólmi 1970. Í framhaldi af því og að samfélagslegri kröfu, setti CLARE (Congress of Local and Regional Authorities) 1994 upp drög að sáttmálanum fyrir CMAT. Drögin fóru síðan til umfjöllunar í hinum ýmsu nefndum og til hagsmunaðila Evrópuráðsins. Landslagssamningurinn (The European Landscape Convention) var síðan undirritaður af mörgum Evrópuþjóðum í Flórens árið 2000. Í dag hafa 37 þjóðir undirritað samninginn.

Úrgangur

Hjá Landsvirkjun er leitast við að flokka allan úrgang og koma honum í endurvinnslu og þar með lágmarka magn þess úrgangs sem fer til urðunar eða brennslu.

Helstu umhverfisáhrif vegna urðunar úrgangs eru myndun hauggass sem myndast við niðurbrot lífræns hluta úrgangsins og vegna mengaðs sigvatns sem getur lekið út í umhverfið og mengað grunn- og yfirborðsvatn.  Hauggasið samanstendur af gróðurhúsalofttegundunum metani og koltvísýringi en einnig í litlum mæli af t.d. ýmsum rokgjörnum lífrænum efnum (VOC). Metan er um 50-60% af gasinu en koltvísýringurinn um 40-45%. Áhrif metans eru mikilvirkust, þar sem metan er 25 sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur

Ísland undirritaði Landsslagssamninginn í júlí 2012.  Í samningum er landslag skilgreint sem svæði sem fólk sér og fengið hefur ásýnd og einkenni vegna samspils náttúrulegra og/eða mannlegra þátta. Þar er lögð áhersla á sjálfbæra þróun sem byggð er á jafnvægi og samræmi á milli félagslegra þarfa, efnahagslegrar starfsemi og umhverfislegra þátta.  

Landsvirkjun er þátttakandi í vinnu við að þróa aðferðarfræði er tengist landslagsgreiningu þar sem leggja á mat á gildi íslensks landslags og  áhrif nýframkvæmda á það. Við þróun hinnar íslensku aðferðfræða verður notaður alþjóðlegur gagnagrunnur sem nær yfir viðurkenndar aðferðir fyrir greiningu á landslagi.

Loftgæði

Órjúfanlegur þáttur í nýtingu háhitasvæða eru jarðhitagös sem eru í töluverðum styrk í dýpri hluta jarðhitakerfisins. Gösin eru aðallega koltvísýringur (CO2) og brennisteinsvetni (H2S). Íslensk jarðhitasvæði eru almennt lág í gasi samanborið við jarðhitasvæði víða erlendis.

Vel er fylgst með styrk brennisteinsvetnis í lofti og eru mælar staðsettir í Reykjahlíð og á Eyvindarstöðum í Kelduhverfi.

Reglugerðarmörk brennisteinsvetnis í andrúmslofti miðað við 24 stunda hlaupandi meðaltal má ekki fara yfir 50 µg/m3 en  styrkur brennisteinsvetnis í Reykjahlíð hefur aldrei farið yfir þau mörk.

Landsvirkjun ásamt Orkuveitu Reykjavíkur og HS-Orku hafa hafið samstarf um rannsóknir og þróun á lausnum til að lækka styrk brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum og er þá sérstaklega horft til þess að dæla brennisteinsvetni aftur niður í jarðhitageyminn.

Yfirborðslosun frá jarðvarmavirkjunum

Þétti­ og skiljuvatn (affallsvatn) frá jarðvarmavirkjunum inniheldur þungmálma og næringarefni sem að hluta til eiga uppruna sinn í borholuvökva, en hluti þeirra kemur til vegna tæringar frá vélbúnaði. Náttúrulegur styrkur þessara efna er breytilegur milli staða og er háður til dæmis eldvirkni og grunnvatnsrennsli.

Sé styrkur efnanna of mikill getur yfirborðslosun haft áhrif á lífríki. Til þess að draga úr umhverfisáhrifum vegna förgunar affallsvatns er hægt að dæla vatninu aftur niður í jarðhitageyminn. Við jarðvarmavirkjanir Landsvirkjunar er hluta affalsvatnsins fargað með niðurdælingu en hluta á yfirborði.

Árlega eru gerðar mælingar af óháðum aðila til að vakta áhrif affallsvatnsins. Sýni eru tekin á skilgreindum mælistöðum og fylgst með styrk ákveðinna náttúrulegra efna á borð við arsen.