Vindmyllur

Vindmyllurnar

Vindmyllurnar eru hvor um sig 900 kW og samanlögð raforkuframleiðsla þeirra er áæetluð um 5,4 GWst á ári. Það myndi nægja til að sjá um 1.200 heimilum fyrir rafmagni til daglegra nota.

Lokið var við uppsetningu vindmyllanna í desember 2012 og á næstu misserum safnast upplýsingar um það hvort mögulegt sé að breyta íslenska rokinu í verðmæta auðlind. Rannsóknirnar snúast ekki síst um rekstur vindmylla við séríslenskar aðstæður, ísingu, skafrenning, ösku- og sandfok. Ef vel gengur er markmiðið að vindorkuframleiðsla verði í framtíðinni mikilvæg viðbót við framleiðslu raforku með vatnsafli og jarðvarma. 

Vindmyllurnar tvær á Hafinu eru framleiddar af þýska fyrirtækinu Enercon, sem sérhæfir sig í framleiðslu vindmylla til nota á landi. Um 60% vindmylla í Þýskalandi eru frá Enercon og um 7% vindmylla í heiminum. 

Turninn er 55 metra hár og hver spaði 22 metrar á lengd. Þegar spaðarnir eru í efstu stöðu er heildarhæð myllunnar 77 metrar.

Myndir frá framkvæmdum

Staðsetning

Staðsetning

Norðan við Búrfell er hraunslétta sem kölluð er Hafið. Þrátt fyrir nafnið er Hafið sjötíu kílómetra frá sjó, en þar hefur Landsvirkjun reist tvær vindmyllur í rannsóknarskyni. Vindmyllurnar eru þær langstærstu sem reistar hafa verið á Íslandi og þetta er í fyrsta sinn sem hagkvæmni raforkuframleiðslu með vindorku er könnuð á Íslandi.

Hafið hentar vel til verkefnisins af ýmsum ástæðum. Náttúruleg vindgöng liggja um svæðið og þar er vindhraði í 55 metra hæð frá jörðu að jafnaði 10-12 metrar á sekúndu. Svæðið er fjarri byggð en skammt frá nauðsynlegum innviðum, línum og vegum. Á Hafinu er lítið fuglalíf en nóg pláss fyrir fleiri vindmyllur ef verkefnið mælist vel fyrir.

Ekki er hægt að birta kort

Um verkefnið

Gömul aðferð – nýjasta tækni

Mastur vindmyllanna er stálrör sem mjókkar upp. Þvermál við jörð er um 3,5 metrar og um 1,8 metrar við topp. Efst á mastrinu er framleiðsluhluti rafstöðvarinnar, hverfill og rafali. Í neðsta hlutanum er ýmiss stjórnbúnaður, rofar og spennar. Vindmyllurnar eru hannaðar samkvæmt vindstaðli (wind class) IEC/NVN 1A. Aðkoma að vindmyllunum verður um nýja slóð af Þjórsárdalsvegi nr. 32.

Vindmyllurnar ná fullu afli við 15 metra vindhraða á sekúndu. Gert er ráð fyrir að rafmagnsframleiðsla stöðvist ef vindhraði er minni en 3 metrar á sekúndu. Framleiðsla minnkar ef vindur fer upp fyrir 28 metra á sekúndu og stöðvast alveg ef vindhraði fer upp fyrir 34 metra á sekúndu. Vindmyllurnar eru  tengdar inn á 11 kV jarðstreng sem liggur samhliða Þjórsárdalsvegi nr. 32 að vestanverðu. Jarðstrengir ásamt ljósleiðara eru lagðir meðfram vegslóða sem liggur að vindmyllum til að lágmarka allt jarðrask á svæðinu.

Rannsóknir á vindinum

Skammt suður af Ísakoti (inntaksmannvirkjum Búrfellsstöðvar) höfum við starfrækt sjálfvirka veðurstöð frá árinu 1993. Stöðin mælir vindátt og vindhraða í 10 metra hæð og er gögnum safnað á 10 mínútna fresti. Árið 2011 var reist 50 metra hátt veðurathugunarmastur á söndunum skammt austan Þjórsár, til að afla upplýsinga um vindbreytingar með hæð. Í mastrinu er mældur vindur í 2, 10, 20, 30, 40 og 50 metra hæð og gögnum safnað í hárri tímaupplausn (1 sek). Hiti er einnig mældur í sömu hæðum og að auki raki og loftvægi í 2 metra hæð. Auk þessa sendir LIDAR vindsjá leysigeisla lóðrétt á 20 sek. fresti og nemur vindbreytingar með hæð upp í um 180 metra ofan yfirborðs. Þetta eru samanburðarmælingar til hliðar við veðurmælingar í 50 metra mastrinu, auk þess sem upplýsinga er aflað um vindafar í allt að 100 metra hæð. Einnig var bætt við tveimur veðurathugunarstöðvum sömu gerðar og í Búrfelli. Önnur er á Hafinu nærri háspennulínum Landsnets en hin er niðri í Þjórsárdal á svokölluðum Vikrum austan Þjórsárdalsvegar.

Reynslan fæst með rekstri

Með rannsóknarvindmyllunum fæst dýrmæt reynsla af rekstri vindmylla við íslensk veðurskilyrði. Til dæmis er mikilvægt að afla upplýsinga um magn og tíðni ísingar til að geta metið áhrif hennar á reksturinn. Vindmyllurnar eru í um 250–270 metra hæð yfir sjávarmáli og þótt ekki sé talið að skýjaísingar sé að vænta hér á landi fyrr en í 300–400 metra hæð yfir sjávarmáli er mikilvægt að afla nákvæmra upplýsinga um möguleg áhrif hennar. Einnig er safnað upplýsingum um áhrif á búnað vegna skafrennings, ösku- og sandfoks, sem og áhrifum á fuglalíf og annað dýralíf. Auk þess verður til almenn rekstrarreynsla, sem byggja má á ef farið verður í uppbyggingu á vindorkunýtingu hér á landi í framtíðinni.

Ásýnd

Líkt og öll stór mannvirki hafa vindmyllur óhjákvæmileg áhrif á ásýnd umhverfisins. Varanleg áhrif á heildarásýnd umhverfisins eru þó ekki talin mikil í samanburði við aðra virkjanakosti. Vindmyllur og undirstöður má auðveldlega fjarlægja ef leggja á framleiðsluna niður og þá er landið nær óspillt.

Hljóðvist

Undanfarin ár hefur verið ör þróun í gerð hljóðlátari vindmylla og þar hafa framfarir í hönnun á spöðum leikið stórt hlutverk. Hljóðstyrkur fellur hratt með fjarlægð og því falla hljóðin frá vindmyllunum oft í skugga venjulegra bakgrunnshljóða, árniðar og vindgnauðs. Hljóð frá hverri vindmyllu er allt að 103dB næst henni en aðeins um 45dB í 340 metra fjarlægð.

Vélbúnaður

Enercon sérhæfir sig í framleiðslu vindmylla á landi og framleiðir aðeins gírkassalausar vindmyllur. Kostur gírkassalausra vindmylla er sá að rafallinn framleiðir rafmagn við færri snúninga og slítur því vélbúnaðinum minna. Við þetta eykst líftími vélarinnar og orkutap, hljóðmengun og bilanatíðni minnka verulega.

Heimasíða Enercon >