Landsvirkjun

Stefna okkar um samfélagslega ábyrgð hefur verið í endurskoðun að undanförnu og er ný stefna um sjálfbærni í undirbúningi. Markmiðið með því að endurskoða stefnuna er meðal annars að auðvelda mat á þróun, umfangi, stöðu og áhrifum fyrirtækisins með tilliti til sjálfbærni. Áhersla er lögð á lengri tíma sýn sem unnið verður að með skemmri og lengri tíma markmiðum í helstu áhersluflokkum.

Árleg markmið sem sett hafa verið í sex flokkum verða lögð af og ný markmið sem tengjast helstu efnisflokkum nýrrar stefnu um sjálfbærni verða sett í staðinn, þegar stefnan hefur verið fullmótuð.

Ný stefna um sjálfbærni mun taka mið af nýjum áherslum í málaflokknum, svo sem innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt er stefnt á innleiðingu valinna GRI vísa til þess að styðjast við í markmiðasetningu og skýrslugjöf í tengslum við sjálfbærni. Vinna við mikilvægisgreiningu fer nú fram innan fyrirtækisins og í samvinnu við helstu hagaðila. Niðurstöður samráðsins verða hafðar til hliðsjónar við endurskoðun stefnunnar, markmiðasetningu og val á GRI vísum.

  • Með því að halda jafnvægi á milli efnahags, umhverfis og samfélags í rekstrinum getum við stuðlað að aukinni sjálfbærni.

Stjórnarhættir

Við störfum eftir ábyrgum stjórnarháttum og fylgjum siðareglum fyrirtækisins í störfum okkar.

2018

Mannréttindastefna

Samhliða endurskoðun á jafnréttis-, jafnlauna- og starfsmannastefnu Landsvirkjunar verður sett mannréttindastefna.

Styrking varna gegn ólöglegum eða ósiðlegum viðskiptaháttum

Fræðsluefni um ólöglega, eða ósiðlega, viðskiptahætti verður þróað og ferlar innleiddir til að sporna gegn þeim (t.d. spillingu og mútum). Starfsmenn munu fá leiðbeiningar og fræðslu um málaflokkinn.

Stefna um uppljóstrun (whistle blowing)

Í samræmi við styrkingu varna gegn ólöglegum eða ósiðlegum viðskiptaháttum verður stefna um uppljóstrun þróuð og innleidd á árinu. Markmið stefnunnar er að auðvelda starfsmönnum Landsvirkjunar að varpa ljósi á ósiðlegt eða ólöglegt athæfi innan fyrirtækisins án þess að eiga á hættu að hljóta refsingu fyrir.

2017

Mannréttindastefna

Aukin krafa um ófjárhagslega upplýsingagjöf, þar sem sérstaklega er kveðið á um umfjöllun um stefnu í mannréttindamálum, er gerð til fyrirtækja í nýjum lögum um ársreikninga. Landsvirkjun mun á árinu 2017 endurskoða stefnu sína í jafnréttismálum með tilliti til mannréttinda eða setja sér stefnu í mannréttindamálum.

Staða í lok árs 2017
Undirbúningsvinna að gerð stefnu Landsvirkjunar varðandi mannréttindi stóð yfir á árinu 2017 en er ekki lokið. Mannréttindastefna hefur því ekki verið gefin út en stefnt er að útgáfu hennar á árinu 2018.

2016

Áframhaldandi stuðningur við UN Global Compact

Landsvirkjun styðst við tíu grundvallarviðmið UN Global Compact, hnattræns samkomulags Sameinuðu þjóðanna um siðferði og ábyrgð í viðskiptum. Landsvirkjun er búin að skila framvinduskýrslu til stofnunarinnar í ár, í annað sinn frá því að fyrirtækið gerðist aðili að samkomulaginu í nóvember 2013.

Samkomulagið felur í sér skuldbindingu til að virða og innleiða tíu reglur um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu –og gera í árlegri framvinduskýrslu grein fyrir lykilverkefnum fyrirtækisins sem snerta á þessum málaflokkum.

Framvinduskýrslan var gefin út á sama tíma og ársskýrsla fyrirtækisins, og mun svo verða eftirleiðis. Er það gert m.a. til samræmingar á meginferlum fyrirtækisins og markmiðasetningu.

2015

Endurskoða meginferla

Meginferli Landsvirkjunar voru endurskoðuð á árinu 2015. Áhersla var lögð á að tryggja samfellda ábyrgð, auka sveigjanleika og einföldun stjórnunarkerfis Landsvirkjunar. Afrakstur þessarar endurskoðunar er að auðveldara er nú að greina starfsemi fyrirtækisins út frá markmiðum, virði og áhættu ásamt því að auðvelda ferli stöðugra umbóta og tryggja virkni stjórnunarkerfisins.

2014

Innleiða eigendastefnu í starfsemina

Í ágúst 2012 kom út á vegum fjármálaráðuneytisins almenn eigendastefna ríkisins sem gildir um hlutafélög og sameignarfélög í ríkiseigu. Landsvirkjun hafði það að markmiði á árinu 2014 að gera þær umbætur í starfseminni sem nýja eigendastefnan kveður á um og ekki höfðu verið innleiddar í starfsemina nú þegar.

Eigendastefna ríkisins var rýnd og kröfur sem þar komu fram voru bornar saman við starfs- og stjórnarhætti Landsvirkjunar, en stefnan fjallar um stjórn, skipulag, stefnu, framtíðarsýn, rekstur, starfshætti og vinnulag fyrirtækja í eigu ríkisins. Þessi vinna leiddi í ljós að núverandi stjórnar- og starfshættir Landsvirkjunar ná að miklu leyti að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til hlutafélaga og sameignarfélaga í ríkiseigu. Nauðsynlegum úrbótum var komið í farveg og verður innleiðingu þeirra haldið áfram á árinu 2015.

Innleiða UN Global Compact í starfsemi Landsvirkjunar

Landsvirkjun gerðist aðili að viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð – UN Global Compact – í nóvember 2013.

Aðildin felur í sér skuldbindingu til að virða og innleiða tíu reglur um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu –og gera í árlegri framvinduskýrslu grein fyrir lykilverkefnum fyrirtækisins sem snerta á þessum málaflokkum. UNGC.

Á árinu 2014 unnum við að því að gera umbætur í starfsemi okkar miðað við tíu viðmið Global Compact og í nóvember 2014 skiluðum við fyrstu framvinduskýrslu okkar til Global Compact um árangur á sviði samfélagsábyrgðar. Skýrslan: UN Global Compact - Communication on Progress

Virðiskeðjan

Við vinnum með viðskiptavinum og birgjum sem sýna ábyrga stjórnarhætti.

2018

Endurskoðun siðareglna birgja

Siðareglur birgja verði endurskoðaðar.

2017

Græn skref

Græn skref snúast um að efla vistvænan rekstur með kerfisbundnum hætti. Aðgerðirnar miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi og hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi starfsmanna og draga úr rekstrarkostnaði.

Staða í lok árs 2017
Á árinu var lokið við að innleiða Græn skref tvö og þrjú á Akureyri og í Reykjavík. Einnig var tekið upp það verklag sem fellur undir skref fjögur en þær aðgerðir hafa enn ekki verið teknar út af Umhverfstofnun. Sú breyting var gerð á árinu 2017 að aðgerðir grænna skrefa eru nú hluti af umhverfisúttektum á öllum starfsstöðvum Landsvirkjunar.

Kortlagning virðiskeðju

Siðareglur, sem birgjar og þjónustuaðilar undirgangast í samstarfi sínu við Landsvirkjun, eru hluti af daglegri starfsemi fyrirtækisins. Á árinu 2017 verður leitast við skapa aukna yfirsýn yfir þau samfélagslegu áhrif sem birgjar hafa. Er þá meðal annars horft til loftslagsmála og bruna á jarðefnaeldsneyti.

Staða í lok árs 2017
Í samstarfi við ráðgjafa voru gerðar tillögur að kröfum sem Landsvirkjun gæti sett fram í samningum við verktaka með það að markmiði að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á verktíma. Það er eitt af stefnumiðum fyrirtækisins að lágmarka notkun jarðefnaeldsneytis í starfseminni og vill það einnig stuðla að því að aðrir geti gert slíkt hið sama. Skoðað var hvernig hægt væri að lágmarka notkun jarðefnaeldsneytis á verkstað og þá með sérstakri áherslu á vinnuvélar. 

2016

Græn skref

Landsvirkjun náði að uppfylla fyrsta skrefið af fjórum í Grænum skrefum Umhverfisstofnunar en í því felast ýmsar aðgerðir til að draga úr sóun auðlinda og gera skrifstofustarfsemi umhverfisvænni. Sjá: Græn skref Landsvirkjunar.pdf

2015

Innleiðing vistvænna innkaupa

Landsvirkjun vill vinna með viðskiptavinum og birgjum sem sýna ábyrga stjórnarhætti.

Landsvirkjun gerðist í desember 2014 stofnaðili að Vistvænum Innkaupum sem er innkaupanet á vegum umhverfisstofnunar. Á árinu 2015 var byrjað að gera breytingar á innkaupaferlum Landsvirkjunar í þeim tilgangi að auka hlutfall umhverfisvænna vara í innkaupum fyrirtækisins. Með því stigum við okkar fyrstu sýnilegu skref í að gera innkaup Landsvirkjunar vistvæn og fylgja þannig eftir áherslum okkar í umhverfismálum og samfélagsábyrgð.

2014

Semja og innleiða stefnu um heilindi í viðskiptum

Einn liður í því að stuðla að aukinni samfélagsábyrgð í rekstri er að hvetja til slíkra vinnubragða hjá samstarfsaðilum. Á árinu 2014 settum við okkur það markmið að semja og innleiða stefnu um heilindi í viðskiptum.

Stefnan hefur litið dagsins ljós og verður innleidd í verkferli sem tengjast viðskiptavinum Landsvirkjunar á árinu 2015.

Stefna um heilindi í viðskiptum (PDF)

Innleiða siðareglur fyrir birgja og þjónustuaðila

Á árinu 2014 var settur saman verkefnishópur sem hafði það markmið að búa til siðareglur birgja sem byggja á siðareglum starfsmanna og viðmiðum UN Global Compact um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu. Með þessari vinnu er Landsvirkjun að leggja fram skýrar leiðbeiningar til birgja og þjónustuaðila um til hvers er ætlast til þeirra m.t.t. heilbrigðra starfs- og stjórnarhátta. Reglurnar hafa litið dagsins ljós og verða innleiddar í verkferli tengd birgjum og þjónustuaðilum á árinu 2015.

Siðarreglur birgja Landsvirkjunar (pdf)

 

Umhverfismál

Við leggjum áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, vinnum samkvæmt viðurkenndum alþjóðlegum starfsháttum og lágmörkum umhverfisáhrif í starfsemi fyrirtækisins.

2018

Markmið umhverfisstefnu

Sjá markmið umhverfisstefnu Landsvirkjunar:

https://www.landsvirkjun.is/samfelag-og-nattura/umhverfisstefna 

2017

Upplýsingar um losun Landsvirkjunar til The Carbon Disclosure Project samtakanna (CDP)

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember 2015 skrifaði Landsvirkjun undir yfirlýsinguna „Caring for Climate“. Með þátttöku sinni í verkefninu skuldbatt Landsvirkjun sig til að birta og upplýsa um framvindu varðandi þau markmið sem fyrirtækið setti sér í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Á árinu 2016 skilaði Landsvirkjun í fyrsta skipti inn skýrslu um kolefnislosun sína til félagasamtakanna The Carbon Disclosure Project (CDP).

Staða í lok árs 2017
Landsvirkjun skilaði inn skýrslu um kolefnislosun sína og aðgerðir í loftslagsmálum til CDP í annað sinn á árinu 2017.

Samkvæmt endurgjöf CDP er Landsvirkjun komin vel af stað í vinnu sinni í loftslagsmálum („awareness“). Í endurgjöfinni nefnir CDP að eftirfarandi aðgerðir gætu styrkt vinnu og bætt árangur Landsvirkjunar í loftslagsmálum:

  • Taka mið af leiðbeiningum SBTI (Science Based Targets initiative) við setningu markmiða um minni kolefnislosun
  • Innleiðing innra verðs fyrir kolefni
  • Styrkja upplýsingagjöf með hliðsjón að leiðbeiningum samtakanna CDSB (Climate Disclosure Standards Board).

Landsvirkjun mun hafa endurgjöf CDP til hliðsjónar við áframhaldandi vinnu í loftslagsmálum. 

Endurskoðuð stefna Landsvirkjunar um orkuskipti í samgöngum

Á árinu 2012 samþykkti Landsvirkjun stefnu um orkuskipti í samgöngum og á árinu 2013 var samþykkt samgöngustefna. Báðar þessar stefnur lýsa yfir stuðningi við að draga úr áhrifum samgangna á umhverfi og andrúmsloft, með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og með orkuskiptum í samgöngum.

Stuðningur við orkuskipti hefur aukist í íslensku samfélagi og umræða aukist. Því er tímabært að endurskoða stefnurnar og gera tillögu sem miðar að þeim tækifærum sem nú hafa skapast. Landsvirkjun mun áfram leitast við að stuðla að orkuskiptum í samgöngum, bæði í eigin starfsemi og í samstarfsverkefnum.

Staða í lok árs 2017

Gerð var tillaga að hreinorkustefnu Landsvirkjunar, sem sameinar tvær fyrri stefnur fyrirtækisins varðandi orkuskipti í samgöngum og samgöngustefnu, og var hún samþykkt í framkvæmdastjórn Landsvirkjunar. Eitt af verkefnunum sem ráðist var í á árinu 2017 var fjölgun rafbíla á Þjórsársvæðinu yfir sumartímann, samhliða ráðningu sumarstarfsfólks, í stað leigu á díselbílum eins og tíðkast hefur. Reynslan af þessari nýbreytni leiddi eftirfarandi í ljós:

  • Losun koltvísýrings dróst saman um 7,9 tonn CO2 miðað við sama tíma árið 2016
  • 3.000 lítrar af eldsneyti spöruðust á árinu 2017
  • Aukin notkun rafbíla í starfsemi Landsvirkjunar á landsbyggðinni er raunhæfur kostur

Skógrækt í Skálmholtshrauni

Skálmholtshraun í Flóa er í eigu Landsvirkjunar og um nokkurt skeið hefur verið unnið að undirbúningi að skógrækt á jörðinni. Er þar um breytta landnotkun að ræða og breyta þarf aðalskipulagi svo að af verkefninu geti orðið. Í breytingunni felst að land jarðarinnar verður flokkað með tilliti til landbúnaðarnota. Ljóst er að til staðar er umtalsvert land sem hentar til skógræktar.

Staða í lok árs 2017
Ekki hefur verið gengið frá endurskoðuðu aðalskipulagi fyrir Flóahrepp en meginhluti jarðarinnar Skálmholtshraun er frá fyrri tíð skilgreindur sem landbúnaðarland. Á árinu 2017 var unnið að undirbúningi skógræktar á jörðinni. Leitað verður eftir samstarfsaðila á svæðinu um framkvæmd skógræktarinnar og er stefnt að því að hún hefjist á árinu 2018.

2016

Orkuvinnsla í sátt við umhverfi og samfélag

Landsvirkjun er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO 14001 og vinnur markvisst að því að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar. Í grænu bókhaldi Landsvirkjunar er gerð grein fyrir tölulegum upplýsingum um umhverfisáhrif vegna starfsemi fyrirtækisins en það er að finna í árskýrslu 2016.

Á árinu 2016 urðu 13 umhverfisatvik og tengdust þau öll framkvæmdum á vegum Landsvirkjunar, þ.e. við jarðboranir við Kröflustöð, við byggingu Þeistareykjavirkjunar og stækkun Búrfellsvirkjunar. Markmið Landsvirkjunar er starfsemi án umhverfisatvika og hafa atvikin verið fá eða engin á undanförnum árum. Rekja má þessa fjölgun atvika m.a. til vitundarvakningar meðal starfsmanna verktaka og vilja þeirra til að standa vel að umhverfismálum.

Kolefnishlutlaus starfsemi

Kolefnisspor Landsvirkjunar lækkaði um 13% frá fyrra ári. Í samræmi við undirritun Caring for Climate verkefnið, og skráð markmið í NAZCA (Non-State Actor Zone for Climate Action), skilaði Landsvirkjun í fyrsta skipti skýrslu um kolefnislosun sína til CDP (áður "the Carbon Disclosure Project").

2015

Athugun á vinnslu vistvæns eldsneytis úr umframorku og útblæstri

Í verkefninu hafa verið skoðaðir ítarlega möguleikar þess að nýta koltvísýring frá jarðvarmavirkjunum ásamt umframorku til framleiðslu vistvæns eldsneytis. Sérstök áhersla var í verkefninu að skoða leiðir til hreinsunnar koltvísýrings frá aflstöðvum Landsvirkjunar en slíkt er grunnforsenda þess til að hægt sé að nýta gasið til áframhaldandi vinnslu. Rannsóknir leiddu í ljós að tæknilega er slíkt mögulegt og á samkeppnishæfu verði þó þörf sé á tæknilegri aðlögun til að hægt sé að nýta strauma frá jarðhitasvæðum í fyrrgreint feril.

Nýting á ótryggri orku til rafgreiningar er möguleg í góðum vatnsárum og sérstaklega með nýrri tækni rafgreina sem komu á markað fyrir um ári síðan. Greining leiddi í ljós að óraunhæft er að nýta ótrygga orku eingöngu til slíkrar framleiðslu þar sem líkur á að hægt sé að útvega raforku í slíka vinnslu er bundin við tiltölulega fáa mánuði á ári. Rannsóknir á þessu sviði munu halda áfram í samstarfi við innlenda og erlenda aðila.

Uppgræðsla í kringum Þeistareyki

Unnið var markvisst að uppgræðsluaðgerðum árið 2015. Umsjón verkefna er á hendi Landgræðslunnar og garðyrkjustjóra Norðurþings og unnið er í nánu samráði við landeigendur.

Sáð var í vegskeringar, námur og endurheimtarsvæði. Auk þess var plantað í lúpínusvæði innan landgræðslugirðingar og í skeringar næst Húsavík. Dreift var 48,2 tonnum af tilbúnum áburði og 3.080 kg af fræi sáð. Settar voru niður 45.070 plöntur, mest af birki og lerki en einnig víðir.

Drögum úr losun vegna samgangna starfsmanna og fyrirtækis – og hvetjum aðra til að gera slíkt hið sama

Á árinu 2015 var unnið að ýmsum verkefnum með nýja samgöngustefnu að leiðarljósi.

Til þess að hvetja starfsmenn fyrirtækisins til að nýta umhverfisvænar samgöngur bæði í og utan vinnu, voru keypt rafhjól sem eru aðgengileg starfsmönnum í Reykjavík og á Akureyri til láns. Á árinu var einnig byrjað að bjóða starfsmönnum að gera samgöngusamning við fyrirtækið.

Starfsmönnum sem koma á eigin rafbíl til vinnu fjölgar stöðugt og voru settar upp innstungur á starfsmannabílastæði fyrirtækisins þar sem rafbílaeigendur hafa forgangsaðgang að bestu stæðunum og geta jafnframt hlaðið bíla sína frítt yfir daginn.

Umhverfisvænum bílum í bílaflota Landsvirkjunar fjölgaði á árinu og eru rafbílar nú orðnir sex talsins og tvíorkubílarnir tveir. Í lok ársins slóst Landsvirkjun í hóp með fjögur þúsund öðrum aðilum sem hafa skráð loftslagstengd markmið sín hjá NAZCA (Non-State Actor Zone for Climate Action) sem hefur það að markmiði að hraða samstarfi til að bregðast við loftslagsvandanum. Með undirritun þessari er fyrirtækið skuldbundið til að sjá til þess að fjórðungur bílaflota þess verði knúinn með rafmagni árið 2020.

Með það fyrir augum að hvetja aðra til að nota umhverfisvænar samgöngur og til þess að auka öryggi þeirra sem nota hjólreiðar sem samgöngumáta tók Landsvirkjun, ásamt fleiri fyrirtækjum, þátt í verkefninu Hjólabætum Ísland sem miðar að því að auka öruggi hjólareiðamanna í Reykjavík og nágrenni.

2014

Betri nýting auðlinda – greining á fjölnýtingartækifærum jarðvarma og aukinni nýtingu vatnsafls

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er mikilvægur þáttur í rekstri fyrirtækisins og gerir þá kröfu til okkar að auðlindirnar sem okkur er treyst fyrir séu nýttar á sem bestan hátt. Við erum stöðugt að meta og þróa þann tæknibúnað sem við búum yfir og kanna mögulegar aðgerðir til að nýta auðlindirnar betur og á hagkvæmari hátt.

Á árinu 2014 var ákveðið að gera sérstaka greiningu á því hvaða tækfæri liggja í nýtingu á jarðvarma til annarra nota en raforkuvinnslu. Í fjölnýtingu felst  að nýta vatn, gufu og gös frá virkjunum til ýmissa nota svo sem til iðnaðar, ræktunar og ferðamennsku. Einnig var skoðað hvort bæta mætti nýtingu þeirrar raforku sem hægt er að framleiða í raforkukerfinu í góðum vatnsárum.

Greiningin leiddi í ljós að spennandi tækifæri eru til staðar hvað varðar fjölnýtingu jarðvarma á starfssvæðum Landsvirkjunar á Norðausturlandi, þá sérstaklega í ræktun, áframvinnslu matvæla og eldsneytisvinnslu úr koltvísýringi og umframorku.

Landsvirkjun mun vinna áfram að fjölnýtingu og hefur í framhaldi af þessu verkefni verið skipaður sérstakur verkefnisstjóri sem hefur það hlutverk að leggja grunn að fjölnýtingu jarðvarma í starfsemi Landsvirkjunar á Norðausturlandi.

Heildstæð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Landsvirkjun hefur lengi mælt og áætlað losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og bindingu kolefnis frá fyrirtækinu og haldið kolefnisbókhald frá árinu 2007 sem skoða má í umhverfisskýrslu Landsvirkjunar. Um þessar mundir losar Landsvirkjun 30-35 þúsund tonn CO2-ígildi umfram það sem er bundið samkvæmt kolefnisbókhaldi fyrirtækisins. Engar kvaðir eru um kolefnisjöfnuð fyrirtækja á Íslandi, en ákveðið var að setja fram heildstæða aðgerðaáætlun á árinu 2014 sem mikilvægan lið í að axla umhverfis- og samfélagsábyrgð.

Áætlunin sem nær til ársins 2020 er tvíþætt. Hún felur annars vegar í sér aðgerðir til að minnka losun og hins vegar aðgerðir til að binda það sem út af stendur. Vegna þess að aðgerðir til bindingar byrja að skila árangri um það bil tíu árum eftir að þær hefjast, er gert ráð fyrir því að þær skili jafnvægi í kolefnisbúskap fyrirtækisins um 2030. Náist markmið áætlunarinnar er gert ráð fyrir að Landsvirkjun nái að draga úr losun og auka bindingu sem bætir stöðu jöfnuðar um 50% árið 2020 frá því sem hún var 2012.

Í tengslum við gerð áætlunarinnar stóð Landsvirkjun fyrir opnum fundi um ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum þann 4. mars 2015 en upptöku af fundinum má sjá hér.

Við setjum okkur samgöngustefnu og vinnum að orkuskiptum í samgöngum

Landsvirkjun hefur um árabil staðið fyrir fjölbreyttum aðgerðum til þess að draga úr umhverfisáhrifum í rekstri fyrirtækisins.

Á árinu 2014 var sérstök áhersla lögð á orkuskipti í samgöngum og markaði fyrirtækið sér samgöngustefnu:

“Það er stefna Landsvirkjunar að draga úr áhrifum samgangna á umhverfi og andrúmsloft með því að

  • draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á farartæki í eigu fyrirtækisins;
  • bæta fyrir óhjákvæmilega losun með kolefnisbindingu í gróðri;
  • vera virkur þátttakandi í orkuskiptaáætlun fyrir Ísland.”

Snemma á árinu bættust við tveir rafbílar í bílaflota fyrirtækisins þar sem eldri jarðefnaeldsneytisbílum á aflstöðvum Landsvirkjunar í Fljótsdal og í Soginu var skipt út fyrir rafbíla. Reynslan af þessum bílum, sem eru af gerðinni Nissan Leaf, er góð og er það stefna Landsvirkjunar að rafbílar séu skoðaðir sem valkostur við endurnýjun bíla í starfsemi fyrirtækisins þar sem þeir geta hentað.

Í september 2014 tók Landsvirkjun, ásamt samstarfsaðilum, þátt í að halda ráðstefnu um orkuskipti í samgöngum sem skipulögð var af Grænu orkunni.

Samfélagið

Við leggjum áherslu á gott samstarf við samfélagið með því að stuðla að gegnsæjum vinnubrögðum og gagnvirku upplýsingaflæði og stuðlum að því að samfélagið njóti góðs af starfsemi Landsvirkjunar.

2018

Samráð við hagsmunaaðila

Samhliða endurskoðun stefnu um samfélagsábyrgð á árinu verði hafin innleiðing á völdum GRI vísum, sem gerir markmiðasetningu og skýrslugjöf tengda samfélagsábyrgð fyrirtækisins hnitmiðaðri. Endurgjöf verður sótt til helstu hagsmunaaðila varðandi áherslur í stefnu um samfélagsábyrgð og val á GRI vísum.

2017

Samtal og samráð

Á árinu 2015 hófst umfangsmikil vinna innan Landsvirkjunar sem miðaði að því að bæta samskipti við hagsmunaaðila, auka gagnkvæman skilning þar á milli og samstöðu um mikilvæga þætti í verkefnum og starfsemi fyrirtækisins. Á árinu 2017 verður þessari vinnu haldið áfram. Annars vegar verða settir á fót þverfaglegir samráðshópar innan fyrirtækisins og hins vegar verður enn frekar leitast við að efla samtal og samráð við hagsmunaaðila með ýmsum hætti.

Staða í lok árs 2017
Í upphafi árs voru skilgreindir níu samráðshópar innan Landsvirkjunar þar sem hver hópur fékk eitt áhersluverkefni til að vinna að. Viðfangsefnin voru af ólíkum toga en sem dæmi má nefna verndun miðhálendisins, loftslagsmál og orkuþörf samfélagsins til framtíðar. Fólst vinna hópanna meðal annars í því að taka upp samtal og samráð við hagsmunaaðila tengda efninu. Því var til að mynda talað við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og viðskiptavini.

Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi

Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi er samstarfsverkefni við hagsmunaaðila á áhrifasvæði framkvæmda við Þeistareykjavirkjun og iðnaðaruppbyggingu að Bakka. Þekkingarnet Þingeyinga fer með verkefnastjórn og heldur utan um verkefnið. Í breiðu samráði voru mótaðir vísar, með tilliti til sjálfbærni, til að fylgjast með þróun á svæðinu.

Vinna við gerð vefsíðu og uppsetningu mun fara fram árinu 2017. Í árslok er gert ráð fyrir að vinnu við öflun gagna vegna ársins 2015 og 2016 verði lokið og gögnin komin í skýran búning til birtingar á vefsíðu verkefnisins.

Staða í lok árs 2017
Undirbúningur að vefsíðu verkefnisins hófst í febrúar og tillaga að vef var kynnt stýrihópi á fundi í október. Stýrihópur lagði til að lénið www.gaumur.is yrði notað fyrir verkefnið og þá með vísan til þess að gefa einhverju gaum eða gaumgæfa. Samhliða undirbúningi vefsins var gagnasöfnun haldið áfram og úrvinnsla gagna. Upphaflega var gert ráð fyrir að umfang gagnasöfnunarinnar næði yfir árin 2015 og 2016 en úr varð að gögn verða sótt aftur til ársins 2011, þar sem því verður við komið án aukins tilkostnaðar.

Sjá nánari umfjöllun í ársskýrslu

Arður greiddur til eiganda

Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Ein af þeim leiðum til að standa undir þessu hlutverki er að greiða arð af starfsemi fyrirtækisins. Árlega greiðir Landsvirkjun arð til eiganda síns sem er íslenska ríkið. Upphæð arðgreiðslunnar er breytileg milli ára og er ákveðin af stjórn á aðalfundi Landsvirkjunar.

Staða í lok árs 2017
Á aðalfundi Landsvirkjunar í apríl var samþykkt tillaga stjórnar um arðgreiðslu til eigenda að fjárhæð 1,5 milljarðar króna fyrir árið 2016.

2016

Samtal við hagsmunaaðila

Á árinu 2016 var unnið að frekari þróun sniðmáts varðandi samskiptaáætlanir. Í slíkum áætlunum erum tímasett samskipti við aðila s.s. sveitarfélög, eftirlitsaðila, varðandi umhverfismál, við einstaklinga og félög, fyrirtæki,  starfsfólk og almenna íbúafundi. Á árinu 2016 voru gerðar samskiptaáætlanir fyrir allar aflstöðvar í rekstri, virkjunarkosti í framkvæmd og undirbúningi.  

Hlutverk í atvinnusköpun

Landsvirkjun hefur alla tíð lagt áherslu á uppgræðslu landsins og skógrækt. Í kjölfarið að fyrsta virkjun fyrirtækisins, Búrfellsvirkjun, hóf að framleiða rafmagn árið 1969 voru ráðnir unglingar til starfa í sumarvinnu við gróðursetningu og sáningu.

„Margar hendur vinna létt verk“ er verkefni sem Landsvirkjun hefur staðið fyrir um áratugaskeið. Þar geta einstaklingar á aldrinum 16–20 ára sótt um sumarvinnu og félagasamtök óskað eftir vinnuframlagi þeirra til umhverfismála. Þetta er mikilvægt framlag til atvinnumála skólafólks sem einnig fær þá tækifæri til að kynnast starfsemi fyrirtækisins. Einnig ræður Landsvirkjun til starfa fjölda háskólanema í sumarvinnu við verkefni ýmsu tagi.

Á árinu 2016 hófst undirbúningur fyrir ráðningar sumarstarfsfólks á árinu 2017 með það að markmiði að störfin höfði til breiðari hóps ungs fólks. Fyrirtækið vill leitast við að endurspegla þá fjölbreyttu samfélagsgerð sem við búum við.

Arður greiddur til eiganda

Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Ein af þeim leiðum til að standa undir þessu hlutverki er að greiða arð af starfsemi fyrirtækisins. Árlega greiðir Landsvirkjun arð til eiganda síns sem er íslenska ríkið.
Upphæð arðgreiðslunnar er breytileg milli ára og er ákveðin af stjórn á aðalfundi Landsvirkjunar.

2015

Samtal á afmælisári Landsvirkjunar – enn fleiri opnir fundir

Haldnir voru 10 opnir fundir um málefni sem snerta starfsemi Landsvirkjunar í víðum skilningi. Markmið þeirra var að upplýsa og eiga samtal við hagsmunaaðila um ýmsa þætti sem varða orkuvinnslu og samfélagsábyrgð. Sem dæmi má nefna fundi um ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum, gagnaver, nýsköpun í orkugeiranum auk ársfundar.

Mótun sjálfbærnivísa á Norðurlandi

Á árinu 2015 var sjálfbærniverkefnið á Norðurlandi endurvakið í samvinnu við sveitarfélögin á svæðinu og Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Einnig eiga nú aðild að því Landsnet, PCC og hagsmunasamtök í ferðaþjónustu.

Þekkingarnet Þingeyinga var ráðið til að halda utan um verkefnið og mótun sjálfbærnivísa. Unnið hefur verið að mótun vísa á árinu. Árið 2016 er áformað að leita til fagaðila á sviði umhverfis, efnahags og samfélags varðandi mótun og val á sjálfbærnivísa og í framhaldinu hafa opið samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila.

Arður greiddur til eigenda

Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Ein af þeim leiðum til að standa undir þessu hlutverki er að greiða arð af starfsemi fyrirtækisins. Árlega greiðir Landsvirkjun arð til eiganda síns sem er íslenska ríkið. Upphæð arðgreiðslunnar er breytileg milli ára.

2014

Halda að minnsta kosti fimm opna fundi með hagsmunaaðilum árið 2014

Við höfum sett okkur þá stefnu að stuðla að opnum samskiptum við hagsmunaaðila og stundum þar af leiðandi margvíslega upplýsingamiðlun af starfsemi fyrirtækisins, meðal annars með fréttaflutningi og útgáfu árs- og umhverfisskýrslna.

Mikilvægur hluti þeirrar stefnu eru opnir fundir Landsvirkjunar. Von okkar er sú að þannig stuðlum við að betri þekkingu okkar á áhyggjum og væntingum hagsmunaaðila gagnvart fyrirtækinu og starfsemi þess og gefum um leið hagsmunaaðilum okkar færi á að kynnast starfseminni betur.

Á árinu 2014 setti Landsvirkjun sér það markmið að halda að minnsta kosti fimm opna fundi með hagsmunaaðilum. Við fórum fram úr því markmiði á árinu en haldnir voru alls sex opnir fundir á vegum Landsvirkjunar árið 2014. Tveir fundir voru haldnir í Reykjavík og fjórir á landsbyggðinni, bæði á starfsstöðvum og fyrirhuguðum framkvæmdasvæðum.

Arður greiddur til eigenda

Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Ein af þeim leiðum til að standa undir þessu hlutverki er að greiða arð af starfsemi fyrirtækisins. Árlega greiðir Landsvirkjun arð til eiganda síns sem er íslenska ríkið. Upphæð arðgreiðslunnar er breytileg milli ára.

Mannauður

Við vinnum eftir ábyrgri stefnu í heilsu-, öryggis- og starfsmannamálum sem eiga að tryggja vellíðan, öryggi og jafnrétti starfsfólks.

2018

Innleiðing aðgerðaáætlunar jafnréttismála

Aðgerðaáætlun jafnréttismála verði innleidd.

2017

Hlutfall kvenkyns stjórnenda hærra en 30%

Stefna Landsvirkjunar er að gæta fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla og að starfsmenn njóti jafnra tækifæra óháð kyni. Fyrirtækið hefur sett sér jafnréttisstefnu og starfandi er jafnréttisnefnd. Á tveggja ára fresti er gerð framkvæmdaáætlun jafnréttismála með skilgreindum markmiðum. 

Staða í lok árs 2017
Markmið Landsvirkjunar fyrir 2017 um að hlutfall kvenkyns stjórnenda sé hærra en 30% náðist á árinu.

Úttekt á aðgengi

Stjórnendur Landsvirkjunar eru meðvitaðir um að horfa þarf til þess að auka fjölbreytileika í röðum starfsmanna. Eitt af markmiðum ársins 2017 á sviði mannauðsmála er að gerð verði úttekt á aðgengi fyrir fatlaða og mat á starfsaðstöðunni í víðu samhengi á aðalskrifstofum fyrirtækisins að Háaleitisbraut 68.

Staða í lok árs 2017
Á árinu 2017 var gerð úttekt á öllum starfsstöðum Landsvirkjunar með tilliti til aðgengis kynjanna en ekki varð af slíkri úttekt með tilliti til aðgengis fatlaðra á Háaleitisbraut 68. Stefnt er að því að ljúka slíkri úttekt á árinu 2018.

Árleg slysatíðni sé 0

Landsvirkjun rekur núllslysastefnu og er eitt af markmiðum fyrirtækisins 0 fjarveruslys eigin starfsmanna.

Staða í lok árs 2017
Á árinu 2017 voru engin fjarveruslys hjá starfsmönnum Landsvirkjunar.

2016

Hlutfall kvenkyns stjórnenda hærra en 30%

Markmið um hlutfall kvenkyns stjórnenda yrði hærra en 30% náðist ekki.

Sömu laun fyrir jafn verðmæt störf

Karlar og konur sem starfa hjá Landsvirkjun fá greidd sömu laun, og sömu kjör, fyrir sömu störf. Því er þess sérstaklega gætt að konur og karlar fái sömu laun og njóti sömu kjara fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf. Markmið ársins 2016 er að launamunur kynja fyrir sömu eða jafnverðmæt störf sé innan við 1%. Staðfesting á því er fengin með jafnlaunaúttekt alþjóðlega fyrirtækisins Pwc sem veitir nákvæma greiningu á stöðu launamála eftir kyni. Jafnlaunaúttekt PwC sýndi að launamunur kynjanna er innan við 1% hjá Landsvirkjun.

Árleg slysatíðni sé 0

Landsvirkjun vill vera í farabroddi á sviði öryggis- heilsu- og vinnuverndarmála. Stefna fyrirtækisins í málaflokknum er slysalaus starfsemi og vellíðan á vinnustað.

Eitt fjarveruslys varð á árinu.

2015

Endurskoðun jafnréttisstefnu Landsvirkjunar og gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar jafnréttismála

Á árinu 2015 var skipuð ný jafnréttisnefnd sem setti fram endurskoðaða framkvæmdaáætlun jafnréttismála. Framkvæmdaáætluninni á að tryggja eftirfylgni við setta stefnu í málaflokknum. Hér er aðgerðaáætlun jafnréttismála og hér er jafnréttisstefna Landsvirkjunar.

Árleg slysatíðni sé 0

Sá merkilegi áfangi náðist á árinu að starfsmenn náðu 1 milljón vinnustunda án fjarvistarslysa. Þetta er mikið afrek og ekki auðvelt að ná slíkum árangri. Öryggismál eru hins vegar langhlaup án endamarks - verkefni sem aldrei lýkur. Þrátt fyrir þennan góða árangur þá varð töluverð aukning í skráðum slysum milli ára en á árinu 2015 eru skráð 13 slys á fastráðnum starfsmönnum samanborið við 6 árið 2014. Engin alvarleg slys urðu og aðeins eitt fjarvistarslys sem reyndist ekki alvarlegt. Er þetta sami fjöldi og árið 2014. H200-talan er því óbreytt milli ára eða 0,3. Hlufall fjarvista vegna veikinda og/eða slysa er svipað milli ára.

H200 talan sýnir okkur fjölda fjarvistarslysa fyrir hverjar 200.000 vinnustundir.
Talan er reiknuð út frá heildarfjölda vinnustunda og þýðir H200-talan 0,3 að eitt fjarvistarslys varð í starfseminni árið 2015.

2015 2014 2013 2012 2011 2010 2009 2008
0,3 0,3 0,7 0,0 0,4 1,4 1,1 0,4

2014

Auka hlutfall kvenkyns stjórnenda hjá Landsvirkjun í 20% árið 2014

Árið 2011 undirritaði Landsvirkjun Jafnréttissáttmála UN Global Compact og UN Women. Markmið sáttmálans er að stuðla að jafnrétti og eflingu beggja kynja á vinnustaðnum, vinnumarkaðnum og í samfélaginu. Það er stefna Landvirkjunar að gæta fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla og að starfsmenn njóti jafnra tækifæra óháð kyni. Þannig fer Landsvirkjun ekki aðeins að lögum heldur nýtir jafnframt mannauð fyrirtækisins á sem árangursríkastan hátt. Í þessu augnamiði hefur verið unnið mikilvægt starf við að draga úr launamun kynjanna og hefur hann farið úr 12,0% í 1,6% á undanförnum tíu árum. Fyrir þennan árangur hlaut Landsvirkjun Gullmerki PwC árið 2013. Einnig er leitast við að jafna kynjahlutföll innan hinna ýmsu starfa fyrirtækisins. 

Landsvirkjun setti sér markmið um að auka hlutfall kvenkyns stjórnenda á árinu 2014 úr 17% í 20%.

Ráðnir voru fimm nýjir stjórnendur á árinu 2014, þrír karlmenn og tvær konur. Þá lét einn stjórnandi af störfum á árinu án þess að ráðið væri í stöðuna. 

Í upphafi árs var hlutfall kvenkyns stjórnenda hjá Landsvirkjun 17%. Í lok árs hefur talan hækkað upp í 19% og markmið ársins því ekki náðst þó hlutfallið hafi hækkað frá því sem var.

Í framhaldi af þessu verkefni, þar sem sett markmið náðist ekki, mun jafnréttisnefnd Landsvirkjunar fara yfir jafnréttismál hjá fyrirtækinu og verður sagt frá því verkefni í tengslum við samfélagsábyrgðarverkefni ársins 2015.

Árleg slysatíðni sé 0

Hjá Landsvirkjun skiptir öryggi starfsmanna okkur miklu máli. Vinnulag og áhættumat okkar miðar að því að koma í veg fyrir slys og störfum við eftir s.k. núllslysastefnu. Við fylgjumst grannt með virkni öryggisstarfsins og skráum öll atvik og slys.

H200 talan sýnir okkur fjölda fjarvistarslysa fyrir hverjar 200.000 vinnustundir.

Skilgreining á fjarvistarslysi er slys þar sem starfsmaður er fjarverandi a.m.k. einn dag auk slysadagsins sjálfs. Eingöngu er átt við slys sem eiga sér stað á vinnustað. Talan er reiknuð út frá heildarfjölda vinnustunda og þýðir H200-talan 0,3 að eitt fjarvistarslys varð í starfseminni árið 2014.

2014201320122011201020092008
0,3 0,7 0,0 0,4 1,4 1,1 0,4

Miðlun þekkingar

Við sköpum virði fyrir atvinnulíf og samfélag með því að deila þekkingu og stuðla að nýsköpun.

2018

Áframhaldandi samstarf við Jafnréttisskóla SÞ

Landsvirkjun á gott samstarf við háskóla- og fræðasamfélagið. Á árinu 2017 bauð Landsvirkjun Jafnréttisskóla SÞ, sem heyrir undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands, í heimsókn. Markmið skólans er að þjálfa fólk til starfa í tengslum við jafnréttismál í þróunarlöndum og samfélögum sem verið er að byggja upp eftir átök. Rekstur Jafnréttisskólans er liður í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.

2017

Miðlun þekkingar um loftslagsmál

Landsvirkjun vill stuðla að aukinni vitund almennings um áhrif loftslagsbreytinga og ábyrgð Íslands í hnattrænu samhengi. Það verður gert með miðlun af ýmsu tagi, svo sem opnum fundum, útgefnu efni, samtali og hvatningu til málefnalegrar umræðu um loftslagsmál.

Staða í lok árs 2017
Landsvirkjun stóð fyrir opnum fundi í marsmánuði þar sem kynntar voru áherslur fyrirtækisins á Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna en Landsvirkjun leggur áherslu á Heimsmarkmið 5 um jafnrétti kynjannar, Heimsmarkmið 13 um verndun jarðar (loftslagsmál), og Heimsmarkmið 7 um sjálfbæra orku. Þá tók forstjóri fyrirtækisins þátt í umræðu um loftslagsmál á vettvangi Verkfræðingafélags Íslands og á þingi Samorku á vormánuðum. Á Arctic Circle Assembly ráðstefnunni, sem haldin var í Hörpu dagana 13.–15. október, stóð Landsvirkjun svo fyrir málstofu sem bar titilinn „Adapting Power Production to a Changing Climate“.

Haustfundur Landsvirkjunar, sem var haldinn 2. nóvember, var fjölsóttur en umfjöllunarefnið var verðmæti endurnýjanlegrar orku. Framsögumenn gerðu grein fyrir því hver áhrif loftslagsbreytinga hafa verið á orkuvinnslu og nýtingu íslenska kerfisins, hvernig endurnýjanleg orka er orðin eftirsóttari um allan heim og hvernig nýta má hana á ábyrgan og sjálfbæran hátt.

OrkuRannsóknir Kynntar Almenningi (ORKA)

Unnið verður að gerð námsefnis um orkumál, til að kynna orkurannsóknir fyrir almenningi og fjalla um sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda, með áherslu á nýsköpun og tækni og fjölbreytni starfa í orkugeiranum. Verkefnið er samstarfsverkefni Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar og Náttúruvísinda á nýrri öld við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Lögð verður áhersla á læsi, sköpun og sjálfbærni. Viðfangsefnin tengjast flest hugmyndum um sjálfbærni og verða öllum aðgengileg, nemendum sem og almenningi, á vef NaNO án endurgjalds.

Staða í lok árs 2017
Gagnabankinn Náttúruvísindi á nýrri öld, NaNO, er settur upp af Menntavísindasviði Háskóla Íslands en verkefnabankinn er fyrir starfandi kennara í grunn- og framhaldsskólum sem koma að náttúrufræði- og/eða raunvísindakennslu. Efnið í gagnabankanum er samið af starfandi kennurum fyrir starfandi kennara og er námsefnið  með öllu frjálst til afnota. Sótt var um styrk úr Orkurannsóknarsjóði til að skrifa námsefni um orkumál og kynna orkurannsóknir fyrir almenningi. Vegna breyttra aðstæðna hjá aðstandendum verkefnisins var ekki unnt að hefjast handa á árinu en það er ráðgert á árinu 2018.

2016

Rannsóknir og nýsköpun

Landsvirkjun styður við nýsköpun með ýmsum hætti. Eitt af þeim verkefnum sem að fyrirtækið tekur þátt í er viðskiptasmiðjan Startup Energy Reykjavík (SER) sem stofnuð var árið 2014. Í gegnum viðskiptasmiðjuna styður Landsvirkjun við sprotafyrirtæki í orkugeiranum með beinum fjárfestingu en einnig með öðrum aðferðum, s.s. ráðgjöf og leiðbeiningum.

Í gegnum Orkurannsóknarsjóð Landsvirkjunar eru árlega styrktir námsmenn, rannsóknarverkefni, stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar sem vinna að því efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála.

Framlög í Orkurannsóknarsjóð voru aukin um 3,5% á árinu.

Mótun sjálfbærnivísa á Norðurlandi

Á vegum Landsvirkjunar eru yfirstandandi framkvæmdir á Norðausturlandi við byggingu Þeistareykjavirkjunar. Uppbygging á svæðinu hefur verið undirbúin um árabil og hafði fyrirtækið frumkvæði að verkefni sem fengið hefur nafnið Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi.

Sjálfbærniverkefnið er samfélagsverkefni sem hefur það að markmiði að fylgjast með þróun samfélags, umhverfis og efnahags á svæðinu frá Vaðlaheiði í vestri að Jökulsá á Fjöllum í austri. Það svæði mun líklega verða fyrir einna mestum áhrifum vegna uppbyggingar Þeistareykjavirkjunar, iðnaðarframkvæmda á Bakka sem og auknum umsvifum í ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum.

Unnið hefur verið að því að greina væntingar og áhyggjur samfélagsins til þeirrar þróunar. Leitast hefur verið við að greina hvaða þætti hagsmunaaðilar telja mikilvægt að fylgjast með samhliða uppbyggingu og þeim breytingum sem þær kunna að hafa í för með sér. Á þeim grunni verða mótaðir sjálfbærnivísar, sem vaktaðir verða, og þannig fylgjast með þróun, og byggð upp þekkingu, á umhverfis-, efnahags- og samfélagsmálum á svæðinu.

Mótaðir voru 33 sjálfbærnivísar til að fylgjast með á Norðausturlandi og lágu þeir fyrir 1. janúar 2017.

2015

Opna fræðandi orkusýningu í Ljósafossstöð

„Orka til framtíðar / Powering the Future“ er heiti gagnvirkrar orkuvísindasýningar sem formlega var opnuð almenningi 14. ágúst 2015 í Ljósafossstöð í tilefni af 50 ára afmæli Landsvirkjunar. Gagarín og Tvíhorf arkitektar eru hönnuðir sýningarinnar og kom fjöldi fyrirtækja og sérfræðinga að sýningunni. Þemu sýningarinnar er raforkan sjálf, hvaða áhrif hún hefur á okkur og samfélagið.

Sýningin er gagnvirk með áherslu á leik og upplifun, þar sem eðli og eiginleiki raforku birtist í margvíslegum myndum. Sýningargestir eru leiddir inn í heim raforkunnar á nýjan og skapandi máta. Auk þess fræðast gestir um helstu orkuvinnsluaðferðir Landsvirkjunar; vatnsaflsstöðvar, jarðvarmastöðvar og vindmyllur.

Stuðla áfram að nýsköpun í orkugeiranum með stuðningi við orkusprota

Eitt af lykilhlutverkum Landsvirkjunar hvað samfélagsábyrgð varðar er að miðla og deila þekkingu og stuðla með því móti að því að ný þekking eða sköpun verði til í samfélaginu. Á árinu 2015, annað árið í röð, studdi Landsvirkjun viðskiptasmiðju Startup Energy Reykjavík (SER), sem hefur það markmiði að auka verðmætasköpun í orkutengdum iðnaði og þjónustu með fjárfestingum í og stuðningi við sprotafyrirtæki á því sviði. Sjá nánar um verkefnið hér: www.startupenergyreykjavik.com

Frá upphafi 2014 hafa 14 sprotafyrirtæki farið í gegnum viðskiptasmiðju SER og öll utan tveggja eru enn starfrækt. Fyrirtæki tengd SER hafa tryggt sér yfir hálfan milljarð í styrki og fjármögnun á tímabilinu sem er frábær árangur. Landsvirkjun stefnir að því á árinu 2016 að halda áfram stuðningi við SER verkefnið og fylgist áfram með sömu árangursmælikvörðum, eða fjöldi fyrirtækja í SER sem eru enn starfandi ári eftir að SER lýkur og frekari fjármögnun SER sprotafyrirtækja einu ári eftir að viðskiptasmiðju lýkur.

Auka aðgengi almennings að rannsóknum

Landsvirkjun hefur á undanförnum árum bætt aðgang almennings að rannsóknarsskýrslum með því að skrá rafræna útgáfu þeirra í Gegni (landskerfi bókasafna).

Flestar skýrslur sem eru birtar hafa verið á vef fyrirtækisins á árinu 2015 hafa verið gerðar aðgengilegar í Gegni. Til að tryggja að allar skýrslur sem birst hafa á vef fyrirtækisins verði aðgengilegar er gerð úttekt ársfjórðungslega á hvort að misræmi sé á milli birtingar á vef og skráningar í Gegni og bætt úr ef þörf krefur.

2014

Opna fræðandi orkusýningu í Ljósafossstöð

„Orka til framtíðar / Powering the Future“ er heiti gagnvirkrar orkuvísindasýningar sem formlega var opnuð almenningi 14. ágúst 2015 í Ljósafossstöð í tilefni af 50 ára afmæli Landsvirkjunar. Gagarín og Tvíhorf arkitektar eru hönnuðir sýningarinnar og kom fjöldi fyrirtækja og sérfræðinga að sýningunni. Þemu sýningarinnar er raforkan sjálf, hvaða áhrif hún hefur á okkur og samfélagið.

Sýningin er gagnvirk með áherslu á leik og upplifun, þar sem eðli og eiginleiki raforku birtist í margvíslegum myndum. Sýningargestir eru leiddir inn í heim raforkunnar á nýjan og skapandi máta. Auk þess fræðast gestir um helstu orkuvinnsluaðferðir Landsvirkjunar; vatnsaflsstöðvar, jarðvarmastöðvar og vindmyllur.

Stuðla áfram að nýsköpun í orkugeiranum með stuðningi við orkusprota

Eitt af lykilhlutverkum Landsvirkjunar hvað samfélagsábyrgð varðar er að miðla og deila þekkingu og stuðla með því móti að því að ný þekking eða sköpun verði til í samfélaginu. Á árinu 2015, annað árið í röð, studdi Landsvirkjun viðskiptasmiðju Startup Energy Reykjavík (SER), sem hefur það markmiði að auka verðmætasköpun í orkutengdum iðnaði og þjónustu með fjárfestingum í og stuðningi við sprotafyrirtæki á því sviði. Sjá nánar um verkefnið hér: www.startupenergyreykjavik.com

Frá upphafi 2014 hafa 14 sprotafyrirtæki farið í gegnum viðskiptasmiðju SER og öll utan tveggja eru enn starfrækt. Fyrirtæki tengd SER hafa tryggt sér yfir hálfan milljarð í styrki og fjármögnun á tímabilinu sem er frábær árangur. Landsvirkjun stefnir að því á árinu 2016 að halda áfram stuðningi við SER verkefnið og fylgist áfram með sömu árangursmælikvörðum, eða fjöldi fyrirtækja í SER sem eru enn starfandi ári eftir að SER lýkur og frekari fjármögnun SER sprotafyrirtækja einu ári eftir að viðskiptasmiðju lýkur.

Auka aðgengi almennings að rannsóknum

Landsvirkjun hefur á undanförnum árum bætt aðgang almennings að rannsóknarsskýrslum með því að skrá rafræna útgáfu þeirra í Gegni (landskerfi bókasafna).

Flestar skýrslur sem eru birtar hafa verið á vef fyrirtækisins á árinu 2015 hafa verið gerðar aðgengilegar í Gegni. Til að tryggja að allar skýrslur sem birst hafa á vef fyrirtækisins verði aðgengilegar er gerð úttekt ársfjórðungslega á hvort að misræmi sé á milli birtingar á vef og skráningar í Gegni og bætt úr ef þörf krefur.