Landsvirkjun

Stefna okkar um samfélagslega ábyrgð hefur verið í endurskoðun að undanförnu og er ný stefna um sjálfbærni í undirbúningi. Markmiðið með því að endurskoða stefnuna er meðal annars að auðvelda mat á þróun, umfangi, stöðu og áhrifum fyrirtækisins með tilliti til sjálfbærni. Áhersla er lögð á lengri tíma sýn sem unnið verður að með skemmri og lengri tíma markmiðum í helstu áhersluflokkum.

Árleg markmið sem sett hafa verið í sex flokkum verða lögð af og ný markmið sem tengjast helstu efnisflokkum nýrrar stefnu um sjálfbærni verða sett í staðinn, þegar stefnan hefur verið fullmótuð.

Ný stefna um sjálfbærni mun taka mið af nýjum áherslum í málaflokknum, svo sem innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt er stefnt á innleiðingu valinna GRI vísa til þess að styðjast við í markmiðasetningu og skýrslugjöf í tengslum við sjálfbærni. Vinna við mikilvægisgreiningu fer nú fram innan fyrirtækisins og í samvinnu við helstu hagaðila. Niðurstöður samráðsins verða hafðar til hliðsjónar við endurskoðun stefnunnar, markmiðasetningu og val á GRI vísum.

  • Með því að halda jafnvægi á milli efnahags, umhverfis og samfélags í rekstrinum getum við stuðlað að aukinni sjálfbærni.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Við styðjum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og höfum við valið þrjú sérstök áherslumarkmið, sem falla vel að starfsemi og áherslum fyrirtækisins. Markmiðin þrjú eru Heimsmarkmið 5 um jafnrétti kynjanna, Heimsmarkmið 7 um sjálfbæra orku fyrir alla og Heimsmarkmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum.

Jafnrétti kynjanna

Á árinu 2018 hófst mótun markmiða og mælikvarða í jafnréttismálum sem byggðist á greiningu jafnréttis og hugmyndavinnu starfsfólks frá haustinu 2017. Í mars 2018 var kynnt þriggja ára aðgerðaáætlun jafnréttis, með mælikvörðum og hópi umbótaverkefna, alls sautján talsins, sem munu færa fyrirtækið nær þeim markmiðum sem sett hafa verið í jafnréttismálum.  Nánari upplýsingar má finna hér

Loftslagsmál

Í framhaldi af þingi aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í París árið 2015 skrifaði Landsvirkjun undir yfirlýsinguna Caring for Climate og skuldbatt sig meðal annars til að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki eigi síðar en árið 2030.

Við höfum verið virkir þátttakendur í umræðum um lausnir í loftslagsmálum og tókum þátt í 24. þingi aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (COP 24) í desember 2018 í Póllandi. Mikill áhugi er erlendis á þeim árangri sem Ísland hefur náð í notkun endurvinnanlegrar orku og við viljum leggja okkar af mörkum til þess að miðla af reynslu og þekkingu á því sviði til þess að sporna við loftslagsbreytingum.

Sjálfbær orka fyrir alla - SEforALL

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 7 fjallar um að tryggja skuli öllu mannkyni aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði eigi síðar en árið 2030.

Við tökum þátt í alþjóðlegum verkefnum í þeim tilgangi að stuðla að samstarfi og miðla af reynslu og þekkingu. Eitt slíkt verkefni er hraðall sem nefnist á ensku People-Centered Accelerator, á vegum samtakanna SEforALL (Sustainable Energy for All). Hraðlinum er ætlað að auka áherslu á kynjajafnrétti, samfélagsþátttöku og valdeflingu kvenna, auk þess að kortleggja hagsmunaaðila og mynda bandalög í þeim tilgangi að stuðla að kerfisbreytingum.

Landsvirkjun hýsti vinnustofu SEforALL í júní 2017, þar sem framkvæmdastjóri samtakanna, Rachel Kyte, var meðal fundargesta.

Helstu stefnur og reglur

Við vinnum með viðskiptavinum og birgjum sem sýna ábyrga stjórnarhætti.

2018

Endurskoðun siðareglna birgja

Siðareglur birgja verði endurskoðaðar.

2017

Græn skref

Græn skref snúast um að efla vistvænan rekstur með kerfisbundnum hætti. Aðgerðirnar miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi og hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi starfsmanna og draga úr rekstrarkostnaði.

Staða í lok árs 2017
Á árinu var lokið við að innleiða Græn skref tvö og þrjú á Akureyri og í Reykjavík. Einnig var tekið upp það verklag sem fellur undir skref fjögur en þær aðgerðir hafa enn ekki verið teknar út af Umhverfstofnun. Sú breyting var gerð á árinu 2017 að aðgerðir grænna skrefa eru nú hluti af umhverfisúttektum á öllum starfsstöðvum Landsvirkjunar.

Kortlagning virðiskeðju

Siðareglur, sem birgjar og þjónustuaðilar undirgangast í samstarfi sínu við Landsvirkjun, eru hluti af daglegri starfsemi fyrirtækisins. Á árinu 2017 verður leitast við skapa aukna yfirsýn yfir þau samfélagslegu áhrif sem birgjar hafa. Er þá meðal annars horft til loftslagsmála og bruna á jarðefnaeldsneyti.

Staða í lok árs 2017
Í samstarfi við ráðgjafa voru gerðar tillögur að kröfum sem Landsvirkjun gæti sett fram í samningum við verktaka með það að markmiði að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á verktíma. Það er eitt af stefnumiðum fyrirtækisins að lágmarka notkun jarðefnaeldsneytis í starfseminni og vill það einnig stuðla að því að aðrir geti gert slíkt hið sama. Skoðað var hvernig hægt væri að lágmarka notkun jarðefnaeldsneytis á verkstað og þá með sérstakri áherslu á vinnuvélar. 

2016

Græn skref

Landsvirkjun náði að uppfylla fyrsta skrefið af fjórum í Grænum skrefum Umhverfisstofnunar en í því felast ýmsar aðgerðir til að draga úr sóun auðlinda og gera skrifstofustarfsemi umhverfisvænni. Sjá: Græn skref Landsvirkjunar.pdf

2015

Innleiðing vistvænna innkaupa

Landsvirkjun vill vinna með viðskiptavinum og birgjum sem sýna ábyrga stjórnarhætti.

Landsvirkjun gerðist í desember 2014 stofnaðili að Vistvænum Innkaupum sem er innkaupanet á vegum umhverfisstofnunar. Á árinu 2015 var byrjað að gera breytingar á innkaupaferlum Landsvirkjunar í þeim tilgangi að auka hlutfall umhverfisvænna vara í innkaupum fyrirtækisins. Með því stigum við okkar fyrstu sýnilegu skref í að gera innkaup Landsvirkjunar vistvæn og fylgja þannig eftir áherslum okkar í umhverfismálum og samfélagsábyrgð.

2014

Semja og innleiða stefnu um heilindi í viðskiptum

Einn liður í því að stuðla að aukinni samfélagsábyrgð í rekstri er að hvetja til slíkra vinnubragða hjá samstarfsaðilum. Á árinu 2014 settum við okkur það markmið að semja og innleiða stefnu um heilindi í viðskiptum.

Stefnan hefur litið dagsins ljós og verður innleidd í verkferli sem tengjast viðskiptavinum Landsvirkjunar á árinu 2015.

Stefna um heilindi í viðskiptum (PDF)

Innleiða siðareglur fyrir birgja og þjónustuaðila

Á árinu 2014 var settur saman verkefnishópur sem hafði það markmið að búa til siðareglur birgja sem byggja á siðareglum starfsmanna og viðmiðum UN Global Compact um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu. Með þessari vinnu er Landsvirkjun að leggja fram skýrar leiðbeiningar til birgja og þjónustuaðila um til hvers er ætlast til þeirra m.t.t. heilbrigðra starfs- og stjórnarhátta. Reglurnar hafa litið dagsins ljós og verða innleiddar í verkferli tengd birgjum og þjónustuaðilum á árinu 2015.

Siðarreglur birgja Landsvirkjunar (pdf)