Landsvirkjun

Jarðvarmastöðin á Þeistareykjum er nýjasta aflstöð Íslendinga. Stöðin var gangsett þann 17.nóvember 2017 og nú efnir Landsvirkjun til hugmyndasamkeppni um verk sem staðsett verður í víðáttumikilli náttúru Þeistareykja. 

Hverju er leitað að?

Í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands er óskað eftir tillögum að hönnuðu verki eða listaverki sem sett verður upp í nágrenni Þeistareykjastöðvar.

Hugmyndasemkeppnin verður í tveimur hlutum. 

Í fyrri hluta samkeppninnar velur dómnefnd úr innsendum tillögum, þrjár til fimm tillögur, inn í seinni hluta samkeppninnar. Ekki er greitt fyrir þátttöku í fyrri hluta samkeppninnar. Sjá nánari upplýsingar í samkeppnislýsingu. 

Verkefnið felst í því að gera tillögu að verki sem sett verður upp í nágrenni Þeistareykjastöðvar. Verkið þarf að falla vel að umhverfinu og má tengjast náttúru og sögu staðarins. Kostur er að verkið undirstriki sérstöðu svæðisins, auki á upplifun og hvetji til þátttöku þeirra sem þar eiga leið um. Skilyrði er að hægt sé að útfæra tillöguna í fullri stærð og að hún taki tillit til endingar og viðhalds.

Staðsetning verksins er frjáls að svo miklu leyti sem aðstæður leyfa. Efnisval og frágangur verka þarf að taka mið af umhverfi sínu og því hvetjum við þátttakendur til að kynna sér vel veður- og náttúrufar staðarins.

Tillögum í fyrri hluta keppninnar skal skila fyrir kl. 16 þann 1. júní 2018.

 

Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum

Virkt eldfjallasvæði hefur mótað sérstæða náttúru Þeistareykja. Þar er að finna fjölbreyttar jarðmyndanir og útfellingar ásamt gufu- og leirhverum. Þeistareykir eru taldir með merkari minjasvæðum á landinu og eiga sér langa sögu um búsetu og nytjar.

 

Á yfirlitsuppdrætti hér til hliðar eru merktar tvær ákjósanlegar staðsetningar með tilliti til ásýndar og aðstæðna. Aðrar staðsetningar eru háðar samþykki sveitarfélagsins í samræmi við skipulagsskilmála á viðkomandi svæði. Vegna öryggis og náttúruverndar koma skyggð svæði á yfirlitsuppdrætti ekki til greina.

Viðhengi:

Leiðsögn um svæðið

Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið miðvikudaginn 16. maí. Þátttakendur standa sjálfir undir ferðakostnaði. Nauðsynlegt er að skrá sig, í forminu hér til hliðar, fyrir klukkan 12 á hádegi þriðjudaginn 15.maí. 

Áhugasamir geta skráð sig hér

Hverjir geta tekið þátt?

Samkeppnin er opin hönnuðum, arkitektum, landslagsarkitektum og listamönnum. Skal sá aðili koma fram fyrir hönd teymisins og vera ábyrgur fyrir þátttöku þess.

Nánari upplýsingar um skilmála og fyrirkomulag ásamt ítarlegri verklýsingu má lesa í samkeppnislýsingu og á vef Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Fyrirspurnir skal senda á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is. Keppnisritari er Haukur Már Hauksson, grafískur hönnuður.

 

Dómnefnd

Vegna forfalla tekur Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkfræðingur, sæti fyrir hönd Landsvirkjunar í dómnefnd í fyrri hluta keppninnar í stað Bjarkar Guðmundsdóttur, landslagsarkítekts, sjá samkeppnislýsingu.

 

Úrslit

Stefnt er að tilkynningu um niðurstöður úr fyrri hluta keppninnar þann 18. júní 2018 og seinni hluta samkeppninnar 12. september 2018. Heildarverðlaunafé er 3,4 milljónir króna sem dómnefnd mun deila á milli vinningstillagna. 

Niðurstöður úr fyrri hluta keppninnar - birt 18. júní 

Alls bárust tuttugu og þrjár tillögur í hugmyndasamkeppni að hönnuðu verki, eða listaverki, í nágrenni Þeistareykjastöðvar. Fjórar tillögur hafa verið valdar til frekari útfærslu í seinni hluta keppninnar.

Höfundar þeirra eru:

  • Ástríður Birna Árnadóttir arkitekt og Karitas Möller arkitekt
  • Jón Grétar Ólafsson arkitekt
  • Kristján Breiðfjörð Svavarsson landslagsarkitekt, Röðull Reyr Kárason myndlistarmaður og Snorri Þór Tryggvason arkitekt
  • Narfi Þorsteinsson grafískur hönnuður, Adrian Freyr Rodriguez vélaverkfræðingur, Stefán Óli Baldursson myndlistarmaður og Jóhann Ísak Pétursson jarðfræðingur

Í dómnefnd sátu: Egill Egilsson iðnhönnuður, Ivon Stefán Cilia arkitekt og Jóhanna Harpa Árnadóttir verkfræðingur