Samningar við Norðurál

Landsvirkjun styður aukið gagnsæi á íslenskum raforkumarkaði og fagnar því að trúnaði sé aflétt af rafmagnssamningum stórnotenda.

Sköpum viðskiptavinum okkar alþjóðlega sérstöðu

Landsvirkjun býður viðskiptavinum sínum raforku með eitt lægsta kolefnisspor í heimi, samkeppnishæft raforkuverð og rafmagnssamninga til langs tíma. Þetta skapar viðskiptavinum Landsvirkjunar alþjóðlega sérstöðu. Landsvirkjun og Norðurál hafa gert milli sín samkomulag um að aflétta trúnaði af rafmagnssamningum milli fyrirtækjanna tveggja. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt er gert í samningum Landsvirkjunar og er það von okkar að birtingin styðji við og auki opinbera og opna umræðu um orkumál á Íslandi.

Þegar kemur að rafmagnssamningum við stórnotendur á Íslandi er mest fjallað um raforkuverðið sjálft enda miklir fjárhagslegir hagsmunir undir. Þegar kemur að raforkuverði í samningunum milli Landsvirkjunar og Norðuráls eru nokkur lykilatriði sem vert er að draga fram:

Langtíma rafmagnssamningar Landsvirkjunar og Norðuráls eru tveir og hafa þeir lengst af verið tengdir álverði.

Álverðstengingar án verðgólfs í rafmagnsamningum eru arfleifð liðins tíma og ákvörðun um tengingarnar byggði á spám um álverð sem ekki raungerðust. Rafmagnssamningar með slíkar tengingar hafa ekki staðist væntingar Landsvirkjunar og raforkuverð þeirra hefur verið undir kostnaðarverði Landsvirkjunar.

Raforkuverð annars samningsins við Norðurál tók miklum breytingum 2019 þegar raforkuverð hans var tengt verði á Nord Pool, raforkumarkaði Norðurlandanna, í stað álverðs. Sá markaður er mjög sveiflukenndur en samningurinn hefði skilað Landsvirkjun hærra raforkuverði að meðaltali en eldri rafmagnssamningurinn. Með tengingu við Nord Pool fær Landsvirkjun sambærilegt raforkuverð og önnur orkufyrirtæki á Norðurlöndunum.

Tveir langtímasamningar

Landsvirkjun selur raforku til Norðuráls samkvæmt tveimur langtímasamningum, auk sölu til skamms tíma eftir atvikum. Langtímasamningarnir eru tengdir markaðsverði, án verðgólfs eða verðþaks og Norðurál hefur ekki lagt fram ábyrgðir í tengslum við raforkukaup.

Samningur 1 (161 MW) var gerður árið 1997 þegar álverið hóf starfsemi sína á Grundartanga og var orkumagn samningsins minna en það er í dag. Raforkuverðið var upphaflega tengt álverði og var miðað við að Landsvirkjun afhenti rafmagnið við álverið. Flutningskostnaður var þannig innifalinn í raforkuverðinu, enda rak Landsvirkjun þá flutningskerfið, sem Landsnet rekur nú. Árið 2016 var samið um framlengingu samningsins til ársins 2023 og breytingar á samningum tóku gildi í nóvember 2019. Stærstu breytingarnar sneru að raforkuverði og fólust í því að tenging raforkuverðs við álverð var afnumin og var raforkuverðið í stað þess tengt verði á Nord Pool, raforkumarkaði Norðurlandanna. Landsvirkjun hætti árið 2019 að greiða að fullu flutningsgjöld vegna samningsins og aðilar sömdu um að skipta þeim flutningsgjöldum, sem greiða þarf til Landsnets, jafnt á milli sín.

Samningur 2 (25 MW) var gerður árið 2009 í tengslum við stækkun álversins. Sá samningur er tengdur álverði og gildir til ársins 2029. Norðurál greiðir flutningsgjöld vegna samningsins beint til Landsnets. Í samningnum var möguleiki á raforkusölu til Norðuráls umfram upphafleg 25 MW en sú sala var háð skilyrðum sem náðust ekki fyrir tilgreindan tíma og því snýr þessi samningur einungis að sölu á 25 MW og 212 GWst á ári.

Raforkuverð í samningunum tveimur við Norðurál hefur ekki verið viðunandi fyrir Landsvirkjun. Sökum óhagstæðrar þróunar á þeim mörkuðum sem samningarnir eru tengdir við hefur raforkuverð reynst lægra en búist var við þegar samningarnir voru undirritaðir. Væntingar Landsvirkjunar eru þær að raforkuverð á Nord Pool hækki aftur eftir óvenjulegar aðstæður árið 2020 og sögulega lágt verð og Landsvirkjun fái sanngjarnt raforkuverð í þeim samningi sem tengdur er verði raforku á Nord Pool. Þróun verðs á Nord Pool á fyrstu mánuðum ársins 2021 hefur verið með þeim hætti að verðin eru komin á svipaðan stað og þau voru á árunum fyrir 2020. Á grafinu fyrir neðan sést raforkuverð í samningunum tveimur fyrir hvern mánuð samkvæmt verðformúlum þeirra og einnig kemur fram hvert raforkuverðið hefði verið ef viðkomandi markaðstenging hefði verið í gildi (punktalína).

Kostnaðarverð, fast raforkuverð og kaupábyrgð

Til margs er að líta þegar meta skal virði rafmagnssamnings og samkeppnishæfni hans. Til viðbótar við raforkuverðið má nefna verðáhættu (t.d. vegna markaðstenginga), magnáhættu fyrir orkusala vegna heimilda kaupanda til að skerða kaup, flutningskostnað raforku, uppsagnarákvæði og síðast en ekki síst ábyrgðir kaupanda fyrir efndum á rafmagnssamningum.

Raforkuverð í samningum Landsvirkjunar þarf að meðaltali að vera yfir kostnaðarverði fyrirtækisins af vinnslu orkunnar. Sala undir því jafngildir eftirgjöf á þeim verðmætum sem þjóðin hefur treyst Landsvirkjun fyrir og er óheimil samkvæmt reglum um ríkisaðstoð, auk þess sem slík sala undir kostnaðarverði getur varðað við samkeppnislög. Það er vegna þess – og til að draga úr verðáhættu – sem Landsvirkjun kýs helst að selja raforku á föstu verði (raforkuverði tengdu neysluverðsvísitölu) sem er tryggt að sé hærra en kostnaðarverð. Einnig er mikilvægt að kaupendur leggi fram trausta ábyrgð sem Landsvirkjun getur nýtt ef ekki er staðið við umsamin orkukaup.

Framtíð rafmagnssamninga Landsvirkjunar við álver

Í eldri samningum við álver var raforkuverð tengt álverði að öllu leyti og ekkert verðgólf til að draga úr áhættu Landsvirkjunar. Við undirritun þeirra voru væntingar um hagstæða þróun álmarkaða. Raunin hefur verið önnur og undanfarna áratugi hefur álverð lækkað og spár gera ekki ráð fyrir álverð nái fyrri hæðum. Virði eldri samninga við álver hefur því verið minna fyrir Landsvirkjun en búist var við og þörf á nýrri nálgun í rafmagnssamningum við álver.

Landsvirkjun leggur áherslu á góða þjónustu við viðskiptavini sína og vill styðja við samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum mörkuðum. Því býður Landsvirkjun nú álverum rafmagnssamninga þar sem raforkuverð er tengt að takmörkuðum hluta við álverð ef þau kjósa slíka verðlagningu umfram fast og fyrirsjáanlegt raforkuverð. Í þessum nýju rafmagnssamningum er raforkuverðið fyrst og fremst fast (verðtryggt gólf) en til viðbótar er lítill hluti þess tengdur álverði. Með þessu móti fær Landsvirkjun raforkuverð sem skilar eðlilegri arðsemi af þeim auðlindunum sem þjóðin treystir henni fyrir og viðskiptavinir njóta lægra raforkuverðs þegar markaðsaðstæður þeirra eru krefjandi.

Farsælt samstarf

Norðurál er þriðji stærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar en fyrirtækin hafa átt í farsælu samstarfi í meira en 20 ár, eða allt frá opnun álversins 1997. Síðan þá hefur álverið stækkað og aukið orkukaup sín frá Landsvirkjun. Norðurál kaupir einnig raforku frá fleiri orkusölum á Íslandi. Á tímabili seldu önnur orkufyrirtæki álverinu raforku í gegnum Landsvirkjun, þar sem hún hafði ein leyfi til að selja raforku til stórnotenda og voru slíkir samningar í gildi allt til ársins 2019. Staðan er nú sú að Landsvirkjun selur Norðuráli um þriðjung af þeirri raforku sem álverið notar og er ekki stærsti orkubirgir þess.

Spurt og svarað

  • Fyrsta val Landsvirkjunar er alltaf fast raforkuverð sem tryggir fyrirsjáanleika fyrir kaupanda og seljanda. Nýir samningar Landsvirkjunar með tengingu við álverð eru verulega ólíkir þeim sem áður voru gerðir og áhætta Landsvirkjunar mun minni. Það felst fyrst og fremst í því að kynnt er til sögunnar verðtryggt verðgólf. Niðurstaðan er sú að raforkuverðið er fyrst og fremst tengt neysluvísitölu og einungis að litlu leyti tengt álverði.

  • Eins og áður segir er fyrsta val Landsvirkjunar alltaf fast raforkuverð. Landsvirkjun hefur gert einn samning með tengingu við NordPool og útilokar ekki að fleiri verði gerðir og yrði þá byggt á reynslu af núverandi samningi, m.a. hvernig megi lágmarka verðáhættu. Slík tenging er þó þeim vandkvæðum bundin að verð á NordPool getur sveiflast mikið og dýrt getur reynst að verja fyrirtækin gagnvart þeim verðsveiflum sérstaklega,því framvirkir samningar eru einungis í boði til fárra ára meðan rafmagnssamningar Landsvirkjunar eru oftast til margra ára.

  • Stöðug lækkun álverðs á heimsvísu er tilkomin vegna harðrar samkeppni milli álvera um allan heim, og hefur innkoma kínverskra álvera haft þar mikil áhrif. Sú þróun hefur lækkað framlegð álvera um allan heim og eru íslensk álver ekki undanskilin. Flest bendir til þess að íslensk álver geti greitt sanngjarnt verð fyrir sína raforku og keppt við erlend álver á sama tíma.

  • Landsvirkjun og Norðurál skrifuðu undir nýjan samning fyrir tímabilið 2024-2026 19. júlí 2021. Samningsaðilar hyggjast aflétta trúnaði eftir þrjú ár, en þangað til er samningurinn trúnaðarmál af viðskiptalegum ástæðum. Sjá nánar hér.

Samningar og viðaukar