Kolefnishlutlaus

Svona verðum við kolefnishlutlaus árið 2025

Aðgerðaáætlun til ársins 2030

Við verðum kolefnishlutlaus árið 2025 – sem þýðir  binding kolefnis verður a.m.k. jafn mikil og losun þess. En það er ekki nóg og við ætlum að ganga lengra. Með þessu viljum við leggja okkar af mörkum í baráttunni við loftslagsbreytingar, sem eru eitt mest aðkallandi viðfangsefni mannkyns.

Til að ná þessum áfanga höfum við gert aðgerðaáætlun sem byggir á kortlagningu á kolefnisspori fyrirtækisins, sem farið hefur fram undanfarin ár. Aðgerðaáætlunin okkar nær til ársins 2030 og þá verður binding Landsvirkjunar umfram losun á við losun alls innanlandsflugs á Íslandi árið 2018. Hér er hægt að nálgast upplýsingar um þær aðgerðir sem farið verður í til að ná markmiðum áætlunarinnar.  

Forgangsröðun við mótun aðgerðaáætlunar var: 1. Að fyrirbyggja nýja losun – 2. Að minnka núverandi losun – 3. Mótvægisaðgerðir 

 

Ef við getum fyrirbyggt nýja losun þurfum við ekki að minnka losun.  

Ef við getum minnkað núverandi losun þá þurfum ekki að binda á móti þeirri losun. 

  

Innra kolefnisverð 

Okkar megintæki við ákvarðanatöku er innra kolefnisverð. Það þýðir að losun – eða öllu heldur framtíðarkostnaður vegna losunar – er reikninn í allar stærri fjárhagsákvarðanir, allt frá innkaupum á rekstrarvörum upp í val á nýjum virkjanakostum.

Innra kolefnisverð okkar byggir á mikilli gagnaöflun og greiningarvinnu. Með því er settur verðmiði á losun hvers tonns koltvíoxíðs (CO2) og annarra gróðurhúsalofttegunda í rekstri fyrirtækisins. Kostnaður vegna losunar verður því sýnilegur þeim sem taka ákvarðanir innan fyrirtækisins. Kolefnisverðið myndar þannig hvata til að setja í forgang lausnir í fjárfestingum og ákvörðunum í rekstri sem draga úr losun. Innleiðing innra kolefnisverðs hefur þegar farið fram. 

Kolefnisverð Landsvirkjunar árið 2020 er 33 $/tonn CO2. En hvernig er það reiknað? Verðið endurspeglar kostnað þeirra úrræða sem okkur standa til boða til að ná markmiði um kolefnishlutleysi. 

Fyrirbyggjum nýja losun

Mikilvægt er að leggja áherslu á að fyrirbyggja nýja losun, enda er það skynsamlegasta nýtingin á þeim tíma og fjármunum sem við búum yfir. Með því að fyrirbyggja eins mikið og unnt er af nýrri losun spörum við okkur að þurfa svo að minnka losunina eða binda á móti henni. Hér er því meira horft til framtíðar – að huga að framkvæmdum og starfsemi okkar til næstu ára og áratuga með lágmörkun losunar í huga.

Til að geta tekið upplýsta ákvörðun við kaup á vörum og þjónustu verður þar sem hægt er horft til birgja sem geta sýnt fram á kolefnisspor sinna vara og þjónustu. Við munum því þar sem hægt er leggja áherslu á kaup á umhverfisvottuðum vörum og þjónustu.

Við munum einnig gera auknar kröfur til verktaka til samræmis við þær kröfur sem við setjum okkur sjálfum. Til dæmis hvað varðar val á vinnuvélum og að notkun á jarðefnaeldsneytis verði lágmörkuð.

Aukin áhersla verður lögð að lágmarka á kolefnisspor við hönnun og framkvæmdir. Sem dæmi má nefna:

  • Með bættri hönnun og aðgerðum við framkvæmdir má fyrirbyggja losun og draga þannig úr kolefnisspori viðkomandi framkvæmdar.

  • Við hönnun nýframkvæmda og viðhaldsverkefna  verður í auknum mæli tekið mið af kolefnisspori. Byggt á niðurstöðum vistferilgreininga hefur þegar verið tekin ákvörðun um að minnka notkun á steypu og huga að magni sements í þeirri steypu sem notuð er. En steypa er einn stærsti áhrifaþáttur kolefnisspori nýrra vatnaaflsvirkjana.

  • Við útfærslu lónstæða og val á jarðhitasvæðum verði hugað að framtíðarlosun, en losun frá jarðhitavinnslu og lónum eru stærstu losunarþættir í rekstri fyrirtækisins.

  • Framkvæmdir og framkvæmdasvæði verði skipulögð með það í huga að koma eins og kostur er í veg fyrir notkun jarðefnaeldsneytis. Sem dæmi má nefna  við val á borum, vinnuvélum, staðsetningu efnistökusvæða og skipulag ferða til og frá verkstað.

  • Við val á birgjum verður einkum horft til birgja sem geta sýnt fram á kolefnisspor sinna vara. 

  • Fræðsla miðuð verkefnisstjórum og ráðgjöfum um hvernig hægt er að fyrirbyggja losun. 

Drögum úr losun 

Í rúman áratug höfum við safnað upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi okkar og er þessi upplýsingasöfnun til viðbótar við aðrar rannsóknir á umhverfisáhrifum okkar. Með því að vinna úr þessum gögnum getum við fundið þá þætti þar sem við getum haft mest áhrif á losun með sem hagkvæmustum hætti. Vinna við að ná losunarmarkmiðunum er þegar hafin og í sumum tilfellum vel á veg komin. Nánari upplýsingar um losun og umhverfisáhrif má finna í ársskýrslu okkar hér. 

 

Jarðvarmavinnsla

Áherslan verður lögð á að minnka sem mest losun frá Kröflustöð og verður það gert með hreinsun koltvíoxíðs úr jarðhitagasi. Koltvíoxíðinu verður dælt aftur ofan í jörðina eða nýtt til verðmætasköpunar. Árið 2025 verður losun frá jarðvarmastöðvum okkar 60% minni en árið 2008, þó svo að ný jarðvarmavirkjun hafi verið byggð á Þeistareykjum á tímabilinu.

 

Eldsneytisnotkun

Við erum þegar komin á fullt við að skipta bifreiðum sem nota jarðefnaeldsneyti út fyrir rafbíla og bifreiðar sem nota annað eldsneyti. Hlutfall bíla sem ekki brenna jarðefnaeldsneyti er komið í 22%. Nú verður einnig farið markvisst í að minnka jarðefnaeldsneytisnotkun vinnuvéla, en áætlun okkar gerir ráð fyrir að árið 2030 muni hvorki bifreiðar, stórar eða smáar, né vinnuvélar á okkar vegum brenna jarðefnaeldsneyti. Losunin verði m.ö.o. engin vegna eldsneytislosunar.

Á næstu árum munum við hefja skoðun á því hvernig við getum einnig dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis við rafstöðvar og greina tæknilega möguleika til orkuskipta á varaafli.

Ferðalög starfsfólks 

Við munum fækka flugferðum starfsfólks eins og hægt er og styðja starfsfólk í að nýta umhverfisvæna ferðamáta til að ferðast til og frá vinnu. Árið 2030 verður losun vegna flugferða starfsfólks 30% minni og losun vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu 60% minni en hún var árið 2018Kolefnisspor vegna samgangna starfsfólks er lítill hluti af heildarlosun okkar. Við teljum þó mikilvægt að taka markvisst þátt í verkefni samfélagsins sem snýr að orkuskiptum í samgöngum og breyttum ferðavenjum.

Mótvægisaðgerðir

Við höfum í áratugi stundað landgræðslu og skógrækt, m.a. til að uppfylla skilyrði um mótvægisaðgerðir vegna virkjanaframkvæmda en einnig til að klæða illa gróin svæði gróðri.  Á undanförnum árum hefur áhersla aukist á þátt kolefnisbindingar við endurheimt landgæða og við ætlum að auka þessa bindingu verulega á næstu árum. Stefnt er að því að binding kolefnis verði 60.000 tonn CO2 ígilda árið 2030 og að markmiðinu verði náð með auknum aðgerðum í landgræðslu, endurheimt votlendis og skógrækt 

 

Landgræðsla 

Með landgræðsluaðgerðum er kom í veg fyrir gróður- og jarðvegseyðingu og stuðlað er  uppbyggingu vistkerfa. Markmið þessara aðgerða er ekki síst að bæta landgæði á viðkomandi svæðum og áhersla er lögð á að tryggja sjálfbær vistkerfi, örva náttúrulega ferla og endurheimta líffræðilega fjölbreytni íslenskrar náttúru.  

 

Endurheimt votlendis 

Árið 2019 var votlendi í fyrsta sinn endurheimt sem þáttur í loftslagsaðgerðum okkar. Markmiðið er að aðstæður færist sem næst því sem þær voru fyrir framræsingu. Því er jafnframt lögð áhersla á vakta breytingar í losun gróðurhúsaloftegunda og fylgjast með landnámi gróðurs á svæðinu 

 

Skógrækt 

Markmið skógræktarverkefna okkar hefur verið að skapa skjól, draga úr sandfoki, klæða rýrt og illa farið land gróðri, endurheimta náttúruskóga og jafnframt er áhersla á kolefnisbindingu skóganna.

Við erum öll á sama báti 

Á tímum loftslagsbreytinga varðar losun koltvíoxíðs okkur öll. Aukin hlutdeild endurnýjanlegrar orku er lykilatriði í að minnka kolefnislosun á heimsvísu en flest ríki heims brenna enn jarðefnaeldsneyti með tilheyrandi umhverfisáhrifum Kolefnisspor raforkuvinnslu Landsvirkjunar er nú þegar með því minnsta sem þekkist í heiminum. Það breytir því þó ekki að sporið er til staðar og því rúm til að bæta sig.

Starfsemi okkar mun verða kolefnishlutlaus  árið 2025, þegar hreinsivirki í Kröflu verður gangsett, en hlutleysi er ekki nóg.. Við þurfum öll að gera betur og þess vegna munum við binda meira kolefni en við losum í starfsemi okkar. Árið 2030 verður binding umfram losun á við alla losun innanlandsflugs á Íslandi árið 2018. Minnkun losunar Landsvirkjunar einnar mun alls nema um 3,6% af losunarskuldbindingum Íslands samkvæmt Parísarsáttmálanum.

Að sjálfsögðu þarf meira til að sporna við þróuninni á heimsvísu en að eitt íslenskt orkufyrirtæki nái kolefnishlutleysi, en ef við öll leggjumst á eitt og ef við hjálpumst að – til dæmis með miðlun þekkingar og reynslu – getum við náð meiri árangri en ella.  

Við erum öll á sama báti og þurfum öll að vinna saman.