Umhverfisstefna

Umhverfisstefna

Landsvirkjun er í fararbroddi á sviði umhverfismála og stuðlar að sjálfbærri þróun í samfélaginu. Fyrirtækið leggur áherslu á að þekkja umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitast við að draga úr þeim.

Stefnumið

 • Betri nýting auðlinda
  Hönnun nýrra virkjanakosta, breytingar á virkjunum og rekstur þeirra taki ávallt mið af sem bestri nýtingu auðlindanna.
  Styðjast við alþjóðlega matslykilinn HSAP við þróun, hönnun og rekstur orkuvinnslunnar.
  Nýta hugmyndafræði vistferilgreininga (LCA) til að bæta nýtingu auðlinda og draga úr umhverfisáhrifum.
  Stunda vistvæn innkaup og gera kröfur til birgja og þjónustuaðila í umhverfismálum.
  Flokka, endurnýta og/eða endurvinna úrgang. ­
 • Kolefnishlutlaus starfsemi
  Vinna markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna jafnframt að kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.
  Stuðla að orkuskiptum í samgöngum og fylgja samgöngustefnu fyrirtækisins.

 • Starfsemi í sátt við náttúru og ásýnd
  Stuðla að viðhaldi náttúrulegs fjölbreytileika og lágmarka rask.
  Stuðla að endurheimt vistkerfa og fylgja vistheimtarstefnu fyrirtækisins.
  Fylgja stefnu fyrirtækisins um útlit mannvirkja og landmótun.
 • Samtal við hagsmunaaðila
  Vinna samkvæmt hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, m.a. með virku samtali og þátttöku í samstarfsverkefnum með hagsmunaaðilum.
  Stuðla að opinni og málefnalegri umræðu og gera grein fyrir árangri fyrirtækisins í umhverfismálum.

 • Starfsemi án umhverfisatvika
  Starfa eftir vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi skv. ISO 14001.
  Skilgreina umhverfisþætti starfseminnar, stýra þeim og vakta árangur.
  Tryggja að öllum lagalegum kröfum á sviði umhverfismála sé fullnægt og setja strangari kröfur eftir því sem við á.
  Vinna markvisst að forvörnum og umbótum, m.a. með rannsóknum, markmiðasetningu og með skráningum og úrvinnslu ábendinga.
  Leggja áherslu á að starfsfólk fyrirtækisins og aðrir sem vinna fyrir það hafi yfir að ráða hæfni og þekkingu til að framfylgja umhverfisstefnu fyrirtækisins.

Umhverfisskýrslur

Umhverfisskýrslur

Sjálfbær nýting auðlinda

Sjálfbær nýting auðlinda

Landsvirkjun er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðastaðlinum ISO 14001 og hefur farið í gegnum ferli sem felur í sér stefnumótun á sviði umhverfismála og ítarlega skoðun á hvaða umhverfisáhrif starfsemi fyrirtækisins hefur. Frá árinu 2006 hefur fyrirtækið gefið út árlegar umhverfisskýrslur þar sem ítarlega er fjallað um umhverfisstjórnunarkerfið, vöktun umhverfisþátta og markmið fyrirtækisins í umhverfismálum. Lögð er áhersla á heiðarlega og opinskáa framsetningu gagna um árangur fyrirtækisins í umhverfismálum sem stuðla að opinni og málefnalegri umræðu um málaflokkinn.

Landsvirkjun leggur mikla áherslu á að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti, með tilliti til áhrifa á efnahag, samfélag og umhverfi. Viðkvæm jarðhitasvæði er nauðsynlegt að byggja upp í þrepum og gefa tíma til þess að bregðast við nýtingu. Í vatnsaflsvirkjunum er leitast við að hámarka nýtingu auðlindarinnar að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða sem miða að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Landsvirkjun leggur áherslu á að efla samráð og samstarf við hagsmunaaðila á svæðum þar sem uppbygging er fyrirhuguð og tryggja sem besta sátt um ný verkefni.