Upplýsingaöryggisstefna

Núgildandi upplýsingaöryggisstefna var samþykkt af stjórn Landsvirkjunar í janúar 2023.

Tilgangur

Landsvirkjun leggur mikla áherslu á upplýsingavernd og öryggi upplýsingakerfa með það að markmiði að tryggja samfellda þjónustu. Landsvirkjun hlítir þeim kröfum sem gerðar eru til fyrirtækisins og hefur stöðugar umbætur að leiðarljósi.

Upplýsingaöryggisstefna

Við gætum þess í hvívetna að tryggja hámarksöryggi okkar mikilvægustu kerfa með það að markmiði að tryggja samfelldan rekstur og koma í veg fyrir rof á afhendingu þjónustu til viðskiptavina fyrirtækisins og annarra hagaðila.

Við stuðlum að öryggi kerfa og gagna með því að starfrækja vottað stjórnunarkerfi upplýsingaöryggis skv. ISO/IEC 27001. Áhættustýringu er beitt til að meta og meðhöndla áhættuþætti og við framkvæmum reglulegar prófanir til að tryggja gæði stýringa og varnarkerfa. Formlegt verklag er haft við rekstur, aðgangsstýringar og breytingar á aðstöðu, búnaði og kerfum.

Við leggjum ríka áherslu á fræðslu, samráð og samvinnu við starfsfólk Landsvirkjunar og stuðlum að virkri öryggisvitund starfsfólks, þjónustuaðila, viðskiptavina og gesta. Þá tökum við virkan þátt í samráði á vegum stjórnvalda og annarra faghópa um net- og upplýsingaöryggi.