Upptökur frá ársfundinum 2021

Eftirspurn eftir endurnýjanlegri, grænni orku eykst sífellt. Orkuskipti heimsins á næstu áratugum eru gríðarstórt verkefni. Ísland hefur einsett sér að vera laust við jarðefnaeldsneyti árið 2050 og vera í fararbroddi í loftslagsmálum. Í því felast margar áskoranir í orkuvinnslu, en líka fjölmörg tækifæri til uppbyggingar á nýjum iðnaði. Orkufyrirtæki þjóðarinnar verður leiðandi í þessum umskiptum og byggir þar á sterkum grunni reynslu og þekkingar.

Ársfundurinn fór fram í streymi 23. mars sl. Hér að neðan má nálgast upptökurnar.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra

Horfa á erindi Bjarna Benediktssonar

„Markmið [orkustefnunnar] um uppfyllta orkuþörf öðlast nýja merkingu þegar við lítum til stefnunnar um orkuskipti og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti innan fárra áratuga. Þar er markið sannarlega sett hátt, en það er síður en svo ómögulegt. Til samanburðar rifjaði ráðherra málaflokksins upp hvernig hitaveituvæðingin var á sínum tíma eins konar tunglskot okkar Íslendinga í orkumálum. Svo stórt og metnaðarfullt var það verkefni. Með markmiðum okkar í orkuskiptum má segja að við stefnum á tunglið á ný.

Þar höfum við bæði fararskjóta og flugstjóra til að komast á áfangastað, enda eigum við fjölbreytta, endurnýjanlega orkugjafa, erum rík af þekkingu og við búum að því að vera tiltölulega fámenn þjóð. Við höfum alla burði til að vera ekki bara leiðandi, heldur hreinlega fyrst í heiminum til að ná þessu markmiði. Þetta getum við gert,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á ársfundinum okkar, sem var streymt hér á vefnum.

Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður

Horfa á erindi Jónasar Þórs

„Þegar umfang þessa fordæmalausa veirufaraldurs varð ljóst var bersýnilegt að aðgerða væri þörf í samfélaginu. Landsvirkjun er samfélagslega mikilvægt fyrirtæki og gat því ekki látið sitt eftir liggja. Sem betur fór var fjárhagsleg staða fyrirtækisins nægilega góð til þess að styðja duglega við atvinnulífið á Íslandi og leggja sitt af mörkum til að milda áhrif veirufaraldursins á efnahagslífið.

Niðurgreiðsla skulda síðastliðinn áratug gerði okkur þetta kleift. Í vor tilkynntum við að Landsvirkjun myndi ráðast í ýmis verkefni tengd nýframkvæmdum, endurbótum og viðhaldi á orkuvinnslusvæðum. Einnig var blásið til rannsóknar- og þróunarverkefna á Suðurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum í samstarfi við hagaðila í nærsamfélaginu og verkefnum flýtt á sviði stafrænnar þróunar,“ sagði Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður á ársfundinum okkar, sem var streymt hér á vefnum.

Hörður Arnarson, forstjóri

Horfa á erindi Harðar

„Við lögðum áherslu á að standa með viðskiptavinum okkar á síðasta ári. Það sem gerði okkur það kleift var sterk fjárhagsstaða Landsvirkjunar. Við höfum um langt árabil lagt áherslu á að styrkja hana með því að lækka skuldir fyrirtækisins. Á síðustu tíu árum hafa skuldirnar alls lækkað um 155 milljarða króna, þrátt fyrir að við höfum á sama tíma fjárfest í orkuinnviðum fyrir sambærilega upphæð,“ sagði Hörður Arnarson forstjóri á ársfundinum okkar, sem var streymt hér á vefnum.

Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri

Horfa á erindi Kristínar Lindu

„Við skulum klára orkuskiptin og vera fyrst landa til að gera það. Við þurfum að vera tilbúin og byggja upp innviði fyrir loftslagsvænan ferðamáta. Það eru nefnilega mikil tækifæri í orkuskiptunum fyrir skipaflotann, hvort sem við tölum um fiskiskip, farþegaferjur eða farmflutninga,“ sagði Kristín Linda aðstoðarforstjóri á ársfundinum okkar, sem var streymt hér á vefnum.

Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu

Horfa á erindi Tinnu

„Viðskiptavinirnir eru hornsteinninn í starfsemi okkar og það er því mikilvægt að við lögum starfsemina að breyttum þörfum og gerum okkar til að styðja við viðskiptavini þegar á móti blæs. Skýrsla Fraunhofer staðfestir samkeppnishæfni Landsvirkjunar og Íslands, þegar kemur að raforkuverði. Vöxtur ál- og kísiliðnaðar hér á landi á síðastliðnum tíu árum staðfestir þetta, auk þess sem ný kynslóð viðskiptavina, svo sem gagnaver, hefur verið að hasla sér völl hér á landi. VIðskiptavinaflóran hefur aldrei verið fjölbreyttari. Leiðarljósið okkar til framtíðar verður áfram samkeppnishæfnin og endurspeglast í því hvernig raforkusamningar hafa verið að þróast,“ sagði Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu, á ársfundinum okkar, sem streymt var hér á vefnum.

Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar

Horfa á erindi Ríkarðs

„2020 var árið sem mörg okkar fóru raunverulega að sjá tækifæri í því að bæta samfélagið okkar, umhverfi og efnahag með sókn í orkumálum og grænum lausnum,“ sagði Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar, á ársfundinum okkar, sem var streymt hér á vefnum.

Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis

Horfa á erindi Jónu

„Framlag okkar hjá Landsvirkjun til baráttunnar í loftslagsmálum er margþætt, en losun vegna orkuvinnslu okkar er í raun hverfandi, í samanburði við orkuvinnslu þar sem notast er við jarðefnaeldsneyti. Við höfum nú þegar sparað umtalsverða losun með okkar vatnsafli og jarðvarma og sem dæmi má nefna að varfærið mat sýnir að á síðasta ári var sparnaður í losun vegna starfsemi okkar um 2,7 milljónir tonna, sem jafngildir nánast árlegri losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda.

Til samanburðar er heildarlosun frá starfseminni tæp 50.000 tonn,“ sagði Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis, á ársfundinum okkar, sem var streymt hér á vefnum.