Heildsölumarkaður

Heildsölumarkaður

Heildsölumarkaður raforku er vettvangur viðskipta með raforku á milli raforkusala. Landsvirkjun selur ekki rafmagn beint til heimila eða smærri fyrirtækja heldur á heildsölumarkaði til sölufyrirtækja, sem selja það áfram til endanotenda. Um 2,1 TWst eða 15% af rafmagnssölu Landsvirkjunar fer fram með þessum hætti. Mikill vöxtur hefur verið í eftirspurn eftir heildsölurafmagni frá Landsvirkjun síðastliðin ár. Upprunaábyrgðir, sem votta raforkunotkunina sem endurnýjanlega, fylgja með allri sölu á rafmagni frá Landsvirkjun í heildsölu.

Á árinu 2003 voru sett ný raforkulög (nr. 65/2003), en markmið laganna er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og taka lögin til vinnslu, flutnings, dreifingar og viðskipta með raforku. Lögunum er m.a. ætlað að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku.

Tvö ný fyrirtæki á heildsölumarkaði hafa tekið til starfa á síðustu misserum, Íslensk orkumiðlun og Orka heimilanna, og bættust þar með í hóp viðskiptavina Landsvirkjunar. Viðskiptavinir eru því átta talsins, en hin fyrirtækin eru Orkusalan, Orka náttúrunnar, HS Orka, Fallorka, Orkubú Vestfjarða og Rafveita Reyðarfjarðar. Sum þessara fyrirtækja vinna einnig rafmagn í eigin aflstöðvum.

Landsvirkjun innleiddi nýtt samningsfyrirkomulag á heildsölumarkaði í byrjun árs 2017, með það að augnamiði að nýta sem best þær náttúruauðlindir sem fyrirtækinu er treyst fyrir. Þá hefur verið lögð áhersla á að verð endurspegli betur kostnað við framleiðslu á mismunandi vörum inn á heildsölumarkað og að fjölga vöruflokkum til hagkvæmni fyrir viðskiptavini og raforkukerfið í heild sinni. Í kjölfarið hefur aflskuldbinding Landsvirkjunar minnkað umtalsvert og skammtímakaup á rafmagni aukist. Bætt nýting raforkukerfisins með þessum hætti hefur í för með sér betri nýtingu á auðlindum.

Heildsöluverðlisti fyrir 2019

Heildsölusamningar

Heildsölusamningar

Landsvirkjun mun fyrir árið 2019, bjóða viðskiptavinum í heildsölu samskonar vöruframboð og undanfarin ár. Allir samningar eru til eins árs nema grunnorkusamningar, sem eru í boði til allt að fimm ára. Viðskiptavinir í heildsölu hafa frest til 1. nóvember 2018 til þess að skila inn óskum um orkukaup fyrir næsta ár. Ef eftirspurn eftir heildsölurafmagni fyrir næsta ár er meira en það rafmagn sem Landsvirkjun býður, áskilur fyrirtækið sér rétt til að fara í nýtt söluferli svo sem úthlutun eða uppboð. Landsvirkjun mun áfram bjóða uppá skammtímakaup á rafmagni í gegnum viðskiptavef.


Forgangsorka

Grunnorka: Kaup á sama magni forgangsorku (MWst) allar klukkustundir sólarhringsins allt árið. Grunnorka hentar þeim sem hafa stöðuga notkun til lengri tíma. Verð grunnorku er í krónum á megawattstund (kr/MWst) og er það sama alla mánuði ársins.

Breytileg orka: Kaup á breytilegu magni forgangsorku (MWst) innan umsamdra aflmarka (MW) í einn mánuð. Breytileg orka hentar þeim sem hafa breytileika í notkun innan mánaðar, t.d. á milli dags og nætur. Verð breytilegrar orku er tvískipt, annars vegar orkugjald í krónum á megawattstund (kr/MWst) og hins vegar aflgjald í krónum á megawatt á mánuði (kr/MW/mánuði). Orkugjald og aflgjald geta verið mismunandi milli mánaða.

MánaðarblokkKaup á sama magni forgangsorku (MWst) allar klukkustundir sólarhringsins í einn mánuð. Mánaðarblokk hentar þeim sem hafa stöðuga notkun innan mánaðar en breytilegt álag milli mánaða. Verð mánaðarblokka er í krónum á megawattstund (kr/MWst) og getur verið mismunandi milli mánaða.

Skammtímakaup: Kaup á stökum klukkustundum af forgangsorku (MWst) með minnst 125 mínútna fyrirvara. Skammtímakaup henta t.d. vel til að mæta skammtíma afltoppum eða óvæntum sveiflum í notkun. Verð í skammtímakaupum er í krónum á megawattstund (kr/MWst) og getur verið mismunandi milli klukkustunda.


Skerðanleg orka

Skerðanleg orka til kyntra veitna: Kaup á skerðanlegu rafmagni þar sem Landsvirkjun getur fyrirvaralítið hætt afhendingu, t.d. vegna bilana í virkjunum (skerðingar eiga sér stað með minna en klukkustundar fyrirvara) eða vegna slæmrar vatnsstöðu (skerðingar í nokkrar vikur/mánuði í senn). Samið er til heils árs í senn. Notandi skuldbindur sig til að nota aðra orkugjafa eða hætta raforkunotkun, komi til skerðingar. Raforkunotkun þarf að vera innan ákveðins hámarksafls og áætlun er gerð um orkunotkun.

Skerðanleg orka til iðnaðar: Skammtímasamningur um kaup á skerðanlegu rafmagni þar sem Landsvirkjun getur fyrirvaralítið takmarkað eða hætt afhendingu. Samið er til nokkurra mánaða í senn. Þar sem afhending fer að mestu leyti eftir vatnsstöðu í lónum Landsvirkjunar getur komið upp sú staða að engir slíkir samningar séu í boði einhvern tíma. Notandi skuldbindur sig til að nota aðra orkugjafa eða hætta raforkunotkun komi til skerðingar á meðan samningurinn er í gildi. Raforkunotkun þarf að vera innan ákveðins hámarksafls sem Landsvirkjun er frjálst að takmarka. Kaupandi þarf ekki að skuldbinda sig til að kaupa lágmarksmagn af raforku og hentar það vel þar sem þörfin er óviss.
Til viðbótar við þessa samninga tekur Landsvirkjun reglulega þátt í útboðum stærri raforkukaupenda, t.d. fyrir 
flutningstöp, reiðuafl, reglunarafl og jöfnunarorku hjá Landsneti.

Heildsöluverð

Heildsöluverð

Landsvirkjun leggur áherslu á að verðskrá endurspegli kostnað og að vöruframboð skapi hvata til betri nýtingar auðlindarinnar. Í nýjum verðlista er verð á grunnorku, sem hægt verður að kaupa til allt að fimm ára, óbreytt á föstu verðlagi. Þá er vetrarverð mánaðarblokka og breytilegrar orku einnig óbreytt, en sumarverð hækkar. Þannig endurspeglar verðið kostnað fyrirtækisins við raforkuvinnslu, sem er nú jafnari yfir árið en áður. Aflgjald hækkar á milli ára til þess að endurspegla betur aflkostnað Landsvirkjunar.


Sögulegt meðalverð á heildsölusamningum Landsvirkjunar

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá þróun á meðalverði á heildsölusamningum Landsvirkjunar frá árinu 2006, á verðlagi ársins 2018. Verð hefur verið nokkuð stöðugt og raunverð á forgangsorku er nú lægra en árið 2006


 
 

Listaverð samninga á heildsölumarkaði 2019

Myndin hér að neðan sýnir listaverð í þeim heildsölusamningum sem Landsvirkjun mun bjóða upp á árið 2019. Allt verð er á verðlagi ársins 2018 og hækkar 1. janúar 2019 m.v. vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í desember 2018. Verð hverrar vöru ræðst af eiginleikum hennar.

Aukinn sveigjanleiki viðskiptavinar er dýrari en minni sveigjanleiki og minni afhendingarskylda Landsvirkjunar er ódýrari en þar sem farið er fram á fulla afhendingu.


 
 

Orkuafhending

Sveigjanleiki í orkuafhendingu

Landsvirkjun selur forgangsorku sem er ávallt afhent sölufyrirtækjum, bæði í slökum og góðum vatnsárum. Landsvirkjun selur jafnframt skerðanlega orku sem fyrirtækinu er heimilt að skerða afhendingu á, meðal annars þegar veður er óhagstætt. Þegar grípa þarf til skerðinga geta þær staðið yfir um nokkurra mánaða skeið yfir vetrarmánuðina á meðan vatnsstaða í lónum batnar. 

Sölufyrirtæki semja um að ákveðinn hluti raforkukaupa þeirra sé  skerðanleg orka og fá þann hluta raforkunnar á talsvert betri kjörum en forgangsorku.


Orkuvinnslukerfið

Landsvirkjun vinnur allt sitt rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum, vatni, jarðvarma og vindi. Hlutur vatnsafls er um 96% af allri vinnslu Landsvirkjunar og hlutur jarðvarma er 4%. Tvær vindmyllur voru settar upp í tilraunaskyni árið 2012 en hlutur vindafls í orkuvinnslu Landsvirkjunar gæti aukist í framtíðinni.

Á sumrin safnar Landsvirkjun úrkomu og leysingavatni af jöklum landsins í uppistöðulón á hálendinu. Vatnsaflsstöðvar nýta svo fallþunga vatnsins til að knýja hverfla sem vinna rafmagn. Að vetri til þegar innrennsli í lónin minnkar vegna kulda fer vatnsborð þeirra lækkandi fram að næsta vori. Á þennan hátt virka uppistöðulónin sem stór rafhlaða fyrir íslenskt raforkukerfi. Stjórnun raforkuvinnslu vatnsaflsvirkjana felst í að hámarka vatnsnýtinguna við allar aðstæður.

Orkuvinnslugeta vatnsaflskerfisins er háð duttlungum náttúrunnar. Á köldum og þurrum sumrum safnast minna af vatni í uppistöðulónin en þegar heitt er í veðri og úrkoma er mikil. Veðurskilyrði á Íslandi eru breytileg meðan lítill breytileiki er á raforkunotkun innan ársins. Afhendingargeta raforkukerfisins tekur mið af þurrum og óhagstæðum vatnsárum. Það leiðir af sér að drjúgur hluti vatns lendir á yfirfalli á hefðbundnu ári, þ.e. rennur framhjá virkjun til sjávar þegar lónin eru orðin full seinni part sumars. Myndin hér að neðan sýnir dæmigerðar árstíðasveiflur á nokkurra ára tímabili í vatnsstöðu lóns.


Rafmagnsreikningurinn

Rafmagnsreikningurinn

Kostnaður vegna rafmagnsnotkunar heimila og lítilla eða meðalstórra fyrirtækja samanstendur af eftirfarandi þáttum: Rafmagninu sjálfu, álagningu sölufyrirtækja, kostnaði vegna flutnings og dreifingar þess sem og opinberum gjöldum: „Dreifing raforku er sérleyfisþáttur og neytendur eru þar í viðskiptum við dreifiaðila á viðkomandi svæði. Hins vegar er sala á raforku á samkeppnismarkaði og hægt að skipta um raforkusala með einföldum hætti. Hér fyrir neðan er dæmi um rafmagnsreikning þar sem sjá má að samanlagður kostnaður vegna rafmagns og álagningar sölufyrirtækja er um 30% af heildar rafmagnsreikningnum. Á nýrri síðu Aurbjargar, geta neytendur borið saman rafmagnsverð.


   

Myndin sýnir hvernig mánaðarlegur rafmagnsreikningur meðalheimila lítur út. Flest heimili eru kynt með heitu vatni en á þeim svæðum þar sem það stendur ekki til boða er rafmagn notað til kyndingar (rafhitun). Ríkissjóður niðurgreiðir hluta rafmagnskostnaðar hjá þeim heimilum sem þurfa að nota rafhitun.

Til viðbótar við þessa þrjá liði leggja dreifiveiturnar á sérstakt fastagjald sem eru mismunandi eftir því um hvaða dreifiveitu ræðir. Verðgögn eru fengin af vef Orkuseturs. Gögn um rafmagnsnotkun heimila eru fengin frá Orkustofnun.


Rafmagnsreikningar í nágrannalöndum 

Rafmagnsreikningar heimila í öðrum löndum samanstanda af sömu meginþáttunum og á Íslandi en hlutfall þessar þriggja þátta er mismunandi milli landa. Myndin að neðan sýnir samanburð á kostnaði heimila á Íslandi vegna rafmagns við það sem gerist í nágrannalöndum okkar, í krónum á kílóvattstund. Rafmagnsreikningur íslenskra heimila er lægri en heimila í þessum samanburðarlöndum.

Við samanburðinn er notast við meðaltalsgengi Seðlabanka Íslands. Niðurstöðurnar byggja á gögnum frá Eurostat fyrir árið 2015.

Myndin sýnir  kostnað heimila vegna rafmagnsnotkunar í krónum per kílowattstund.

Hafa samband

Tengiliðir

Viðskiptastýring er deild innan Markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs. Hlutverk Viðskiptastýringar er rekstur rafmagnssamninga við stórnotendur sem og viðskiptavini í heildsölu. Starfsmenn í Viðskiptastýringu eru reiðubúnir að svara spurningum og aðstoða fyrirtæki sem hafa áhuga á að koma í viðskipti á heildsölumarkaði.


Tinna Traustadóttir

Forstöðumaður, Viðskiptastjórnun

Símanúmer: +354 515 9233
Netfang: heildsala[hja]landsvirkjun.is

Einar Sigursteinn Bergþórsson

Viðskiptastjóri

Símanúmer: +354 515 9089
Netfang: heildsala[hja]landsvirkjun.is