Nýsköpun

Orkutengd nýsköpun skapar margvísleg tækifæri

Mikil tækifæri liggja í nýsköpun tengdri orkuiðnaði hér á landi. Sú þekking sem skapast hefur á undanförnum árum, þeir innviðir sem byggðir hafa verið upp og það umhverfi sem orðið er til í kringum nýsköpunarfyrirtæki hér á landi eru kjörlendi fyrir frjóar hugmyndir og sköpunarkraft.

Nýsköpun í orkuiðnaði er sívaxandi hluti af starfsemi Landsvirkjunar. Fyrirtækið er leiðandi í sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og stuðlar að aukinni þekkingu, nýsköpun og tækniþróun. Með meiri nýsköpun og aukinni verðmætasköpun nýtum við betur þær auðlindir sem okkur er trúað fyrir og leggjum grunn að sterkara og betra samfélagi.

Landsvirkjun á í margvíslegu samstarfi við fjölmarga aðila: frumkvöðla, háskóla og aðrar menntastofnanir, fyrirtæki og einstaka vísindamenn, innan jafnt sem utan landsteinanna. Að auki stundar Landsvirkjun fjölbreyttar rannsóknir á lífríki landsins, veðurfari, vatnafari, jöklum og jarðfræði.

Startup Energy Reykjavík

Startup Energy Reykjavík (SER) er viðskiptahraðall sem settur var á stofn í desember 2013 og haldinn hefur verið þrisvar sinnum. Samstarfsaðilar Landsvirkjunar í verkefninu eru Arion banki, Nýsköpunarmiðstöð og GEORG og framkvæmd verkefnisins í höndum Jarðvarmaklasans og Icelandic Startups

Í SER er 7 nýsköpunarfyrirtækjum boðið að taka þátt í viðskiptahraðli þar sem boðið er upp á vinnuaðstöðu og aðgang að sérþekkingu í tíu vikur. Samtímis hafa bakhjarlar SER fjárfest í fyrirtækjunum fyrir um 40.000 USD hver. Þá er haldinn fjárfestadagur þar sem fyrirtækin kynna verkefni sín fyrir fjárfestum og eiga þar með aukna möguleika á að láta viðskiptahugmyndir sínar vaxa og blómstra.

Markvisst var unnið að því að fjölga umsóknum af landsbyggðinni í SER 2016, í samvinnu Landsvirkjunar við KPMG, Nýsköpunarmiðstöð og Jarðvarmaklasann. Orkuvinnsla og nýting stórs hluta orku á sér stað utan höfuðborgarsvæðisins, auk þess sem gróska hugmynda er síst minni á landsbyggðinni og mikilvægt er að allir frumkvöðlar séu meðvitaðir um þau tækifæri sem geta falist í SER fyrir góðar hugmyndir og góð teymi. 


 

Góður árangur SER fyrirtækja

Fyrirtæki sem fá tækifæri til að taka þátt í SER nýta það til þróunar á viðskiptahugmyndir sínar, með samtölum við sérfræðinga úr atvinnulífinu og háskólunum á Íslandi. Mörg fyrirtækjanna sem farið hafa í gegnum SER eru enn starfandi í dag og nokkur þeirra hafa náð fjármögnum til lengri tíma. Eitt þessara fyrirtækja er DTEquipment.


 

Dæmisaga úr SER

Sveinn Hinrik Guðmundsson og Karl Ágúst Matthíasson stofnuðu DT Equipment (DTE) árið 2013. DTE er dæmi um fyrirtæki sem nýtti sér SER til þess að þróa vöru úr hugmynd og setja hana í kjölfarið á markað. Fyrirtækið hefur náð góðum árangri og í dag er DTE með tekjustreymi í gegnum ráðgjafavinnu og sex starfsmenn í fullu starfi við þróunarvinnu.

Hefðbundin rannsóknastofutækni sem er notuð til þess að efnagreina ál í framleiðsluferli hjá álbræðslum er þess eðlis að niðurstöður fást ekki fyrr en mörgum klukkutímum eftir að sýnin eru tekin. DTE er að þróa tækjabúnað þar sem niðurstöður greininga fást strax á staðnum, sem hefur bæði sparnað á tíma og peningum í för með sér.

Karl og Sveinn höfðu rætt hugmyndina sín á milli í nokkurn tíma en höfðu ekki komið henni í framkvæmd þegar þeir sáu SER 2014 auglýst. Þeir ákváðu að nota tækifærið, sóttu um og hafa frá því SER 2014 lauk, getað einbeitt sér alfarið að því að þróa hugmyndina áfram.

Í SER 2014 fengu þeir félagar tækifæri til  þess að einbeita sér að þróun viðskiptamódelsins og sækja tækniþekkingu, viðskiptatengsl og aðstoð við þróun viðskiptamódelsins til þeirra fjölmörgu sérfræðinga sem styðja við þátttakendur í SER. Í gegnum þátttöku sína í SER fékk DTE $40.000 fjármögnun auk þess sem fyrirtækið fékk í kjölfarið $288.500 styrk úr Tækniþróunarsjóði sem og styrk frá Nýsköpunarmiðstöð.

Árið 2016 fjárfesti Brunnur Ventures í DTE fyrir $1.100.000. Í dag selur DTE ráðgjöf til iðnaðar á Íslandi, samhliða því sem unnið er að því að fullklára frumgerð greiningarbúnaðarins. Til stendur að hefja prófanir á frumgerð búnaðarins hjá Norðuráli snemma árs 2017 og í framhaldi af því koma búnaðinum í dreifingu víðar.

Eimur

Jarðvarmavirkjanir Landsvirkjunar eru staðsettar á Norðausturlandi. Til þess að stuðla að bættri nýtingu þeirra orkuauðlinda og aukinni sjálfbærni samfélaga á svæðinu var verkefnið EIMUR sett af stað sumarið 2016.

EIMI er ætlað að styðja við orkutengda nýsköpunar- og rannsóknastarfsemi á svæðinu og að baki verkefninu standa Landsvirkjun, Norðurorka, Orkuveita Húsavíkur og Eyþing, samtök sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Verkefnið er til þriggja ára og hafa bakhjarlar þess lagt til stofnframlag upp á 100 milljónir króna. Auk bakhjarla eiga Íslenski jarðvarmaklasinn og Íslenski ferðaklasinn aðild að verkefninu.

Markmið EIMS er að stuðla að aukinni sjálfbærni samfélaga á svæðinu með bættri nýtingu auðlinda og aukinni þekkingu á samspili samfélags, umhverfis, auðlinda og efnahags. Miklar vonir eru bundnar við að með verkefninu megi leggja grunn að margbreytilegri nýsköpun og þar með atvinnusköpun á svæðinu.  Horft er til þess að til samstarfsins komi aðilar í ferðaþjónustu, iðnaði og framleiðslu hverskonar og rannsóknaraðilar m.a. úr skólasamfélaginu.  Síðast en ekki síst er horft til þess að með þessu starfi verði til fjárfestingartækifæri fyrir jafnt fyrirtæki á svæðinu, fjárfestingarsjóði og aðra fjárfesta jafnt innlenda sem erlenda.

Kröflustöð

Jarðböðin

Margir af fjölsóttustu ferðamannastöðum á landinu byggja á aukaafurðum orkuvinnslu. Þar má t.a.m. nefna Jarðböðin við Mývatn. Vatnið sem rennur í lónið er affallsvatn úr nærliggjandi jarðvarmavirkjun, Bjarnarflagi, og hentar sérlega vel til böðunar vegna efnasamsetningar þess. Lónið sjálft er manngert og er botninn þakinn sandi og litlum steinum. 

Jarðböðin opnuðu árið 2004 og hafa síðan tekið á móti sívaxandi fjölda innlendra og erlendra ferðamanna sem notið hafa þess að baða sig í lóninu, heimsækja gufuböðin sem byggð eru beint ofan á jarðhitasvæði og njóta veitinganna sem boðið er upp á í einstöku umhverfi Mývatnssvæðisins.

Jarðböðin við Mývatn

Charge ráðstefnan

CHARGE var fyrsta alþjóðlega ráðstefnan sem fjallaði um vörumerkjastjórnun (e. branding) í orkuiðnaði. Landsvirkjun var aðalstyrktaraðili ráðstefnunnar sem haldin var í fyrsta sinn í Reykjavík 2016 og árlega síðan. 

Síðustu áratugi hafa miklar breytingar orðið á rekstrarumhverfi hins hefðbundna orkufyrirtækis; opnun og uppskipting raforkumarkaða, tækninýjungar, nýsköpun og almenn vitund og aukin umræða um öflun og nýtingu raforku. CHARGE ráðstefna er kjörinn vettvangur til ess að ræða þessi mál, skiptast á skoðunum og læra af hvort öðru.

Landsvirkjun tekur þátt í ýmiss konar nýsköpunar- og rannsóknartengdu samstarfi auk þess sem fyrirtækið stundar sjálft rannsóknir sem gerðar eru aðgengilegar almenningi og styrkir orkutengdar rannsóknir í samfélaginu. 

Fleiri samstarfsverkefni

Landsvirkjun tekur þátt í ýmiss konar nýsköpunar- og rannsóknartengdu samstarfi auk þess sem fyrirtækið stundar sjálft rannsóknir 

sem gerðar eru aðgengilegar almenningi og styrkir orkutengdar rannsóknir í samfélaginu. 


Orkurannsóknarsjóður

Í gegnum sjóðinn eru árlega styrktir námsmenn, rannsóknarverkefni, stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar sem vinna að því efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála.


Djúpborunarverkefnið (IDDP)

Djúpborunarverkefnið er með stærri orkutengdum nýsköpunarverkefnum sem unnið er að á Íslandi. Verkefnið er alþjóðlegt rannsókna- og þróunarverkefni og ef vel tekst til gæti það opnað nýja möguleika í nýtingu jarðhita á Íslandi og öðrum jarðhitasvæðum í heiminum.

Markmið verkefnisins er að kanna hvort nýting jarðhita á meira dýpi en áður hefur þekkst sé fýsileg.

Vísindamenn okkar eru meðal þeirra sem virkan þátt taka í þessu verkefni en tilraunaboranir hafa farið fram við Kröflu, eina af jarðvarmavirkjunum fyrirtækisins. Frekari umfjöllun um verkefnið má finna hér.


Samstarf við háskólasamfélagið

Landsvirkjun hefur um árabil lagt áherslu á samstarf við háskólasamfélagið til að styðja við þekkingarsköpun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Árið 2013 tóku Landsvirkjun, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands höndum saman um að efla nám og rannsóknir í jarðefnafræði, raforkuverkfræði og öðrum fræðasviðum sem tengjast endurnýjanlegri orku. Samstarfið felur í sér stuðning Landsvirkjunar um 80 milljónir króna til háskólanna tveggja fram til ársins 2018.

Landsvirkjun gerði samstarfssamning við Hagfræðistofunun Háskóla Íslands fyrir árin 2013-2016 um að efla rannsóknir sem snúa að viðskipta- og hagfræðilegum þáttum orkuvinnslu og auka þannig þekkingu og almennan skilning á áhrifum hennar á íslenskt efnahagslíf.