Raforkumarkaður í mótun

Sérkenni Íslands - 100% endurnýjanleg orka

Orkumál eru í brennidepli víða um heim sökum loftslagsbreytinga en losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum má að miklu leyti rekja til mengandi raforkuvinnslu úr jarðefnaeldsneyti. Viðspyrna þjóða heimsins með samþykki Parísarsamningsins, sem miðar að því að halda hlýnun jarðarvel innan við 2°C og eins nálægt 1.5°C og mögulegt er, kallar á beislun orkulinda sem ekki hafa í för með sér losun.

Endurnýjanleg orka gegnir því lykilhlutverki í baráttunni við loftslagsbreytingar sem er eitt mest aðkallandi viðfangsefni íbúa jarðar og endurspeglast það í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Stærsta framlag Íslendinga til loftslagsmála er orkuvinnsla endurnýjanlegrar orku, bæði til almennra nota og til framleiðslu. Í endurnýjanlegu orkunni felast því mikil verðmæti. 

Íslenski raforkumarkaðurinn skiptist í tvo aðskilda undirmarkaði - almennan markað og stórnotendamarkað. Stórnotendur nota um 80% af raforkunni á Íslandi, fyrirtæki um 15% og heimili um 5%.

Raforkuvinnsla úr endurnýjanlegum orkugjöfum er háð náttúruöflum svo gera þarf ráðstafanir til að tryggja næga afhendingu rafmagns á Íslandi þegar rennsli í ám er lítið eða skortur er á jarðgufu.

Viðburðir um raforkumarkað í mótun

Skipulag íslenska markaðarins

Raforka er skilgreind sem markaðsvara og samkeppni ríkir á markaðinum. Jafnframt gilda almennar samkeppnisreglur um sölu rafmagns á Íslandi. Orkufyrirtækjum í opinberri eigu er því óheimilt að selja raforku undir kostnaðarverði. Eftirlitsstofnun EFTA fylgist með því að reglum sem gilda um raforkumarkaði innan evrópska efnahagssvæðisins sé fylgt.

Samkeppnishluti markaðarins

Íslenski raforkumarkaðurinn hefur verið skipulagður að evrópskri fyrirmynd.

Raforka er skilgreind sem markaðsvara og samkeppni ríkir á markaðinum. Jafnframt gilda almennar samkeppnisreglur um sölu rafmagns á Íslandi.

Þrjú fyrirtæki eru ráðandi í vinnslu raforku hér á landi; Landsvirkjun, Orka náttúrunnar og HS Orka og vinna þau um 97% af raforkunni á Íslandi.

Sérleyfishluti markaðarins

Flutningur og dreifing rafmagns er sérleyfisskyld sem þýðir að ákveðnar reglur gilda um tekjur og verðlagningu til að vernda neytendur. 

Landsnet sér um að flytja orku frá virkjunum á milli landshluta til stórnotenda eða dreifiveitna.

Dreifiveitur skipta landinu á milli sín og hver og ein sér um að afhenda rafmagn til heimila og fyrirtækja á sínu svæði. Sömu reglur gilda um verðlagningu dreifiveitna og Landsnets. Það þýðir að ekki er leyfilegt að fara yfir ákveðin tekjumörk sem skilgreind eru af Orkustofnun.

Stórnotendur og almennir notendur

Talsverður munur er á almennum markaði og stórnotendamarkaði raforku þegar kemur að samkeppni. Á almennum markaði ríkir innlend samkeppni þar sem smásölufyrirtæki keppa sín á milli við að fá til sín íslenska viðskiptavini. Á stórnotendamarkaðinum keppa íslensk orkufyrirtæki á alþjóðlegum markaði um viðskipti við stórnotendur sem eru að velja á milli Íslands og annarra landa.

Er ég stórnotandi?

Til þess að teljast stórnotandi þarf notandi samkvæmt raforkulögum að nota 80 GWs á ári (um 10 MW) á einum og sama staðnum. Þessir notendur tengjast svo beint við flutningskerfi Landsnets og fá orkuna afhenta þaðan á hárri spennu.

Ef ég er ekki stórnotandi?

Á almennum markaði eru þeir notendur sem nota minna en 80 GWs á sama staðnum, bæði heimili og fyrirtæki. Þessir aðilar fá orkuna afhenta frá dreifiveitum á lágri spennu. Áður hafa dreifiveiturnar fengið orkuna afhenta frá flutningskerfi Landsnets.

Mismunandi þarfir almennra notenda og stórnotenda

Eftirspurn almennra notenda annars vegar og stórnotenda hins vegar er ólík. Notendur á almennum markaði hafa mjög breytilegar þarfir á meðan stórnotendur eru almennt með jafna notkun allt árið. Af þessum sökum er vöruframboð ólíkt á þessum tveimur mörkuðum.

Stórnotendur á Íslandi starfa á alþjóðlegum markaði með sína vöru og þjónustu. Það afurðaverð sem þeir fá ræðst af heimsmarkaðsverði. Svipað má segja um þau íslensku orkufyrirtæki sem eru í viðskiptum við áðurnefnda stórnotendur en þau kjör sem íslensk raforkufyrirtæki bjóða verða að vera samkeppnishæf í alþjóðlegu samhengi. 

Stórnotendur á Íslandi hafa komið hingað á mismunandi tímum og rafmagnssamningar því gerðir á mismunandi tímum. Margir þeirra hafa einnig ákveðið að stækka síðar á Íslandi. Þessi fyrirtæki eru flest í eigu alþjóðlegra fyrirtækja með starfsemi víða um heim. Þau ákveða á viðskiptalegum forsendum í hvaða löndum þau staðsetja sig.

Heildsala og smálsala

Hlutdeild okkar á almennum markaði í gegnum heildsölumarkað er breytileg eftir árum en að meðaltali kemur um helmingur orkunnar á almennum markaði frá okkur. Orka náttúrunnar og HS Orka koma næst á eftir okkur í markaðshlutdeild. Almennir notendur eru ekki færir um að taka við rafmagni beint af flutningskerfi Landsnets og því veita dreifiveitur rafmagni af háspennulínum flutningskerfisins inn til viðkomandi notanda í gegnum dreifikerfið.

Heildsöluverð okkar hefur lækkað

Í skýrslu Eflu um raforkuverð á Íslandi kemur fram verðþróun á raforku á almennum markaði. Þar sést að heildsöluverð okkar til almennra notenda hefur lækkað um 16% á föstu verðlagi 2006-2018. Á sama tíma hefur smásöluverð raforku til fyrirtækja lækkað um 3%
á föstu verðlagi og smásöluverð raforku til heimila hefur hækkað um 10% umfram verðlag.

Raforkukostnaður heimila og fyrirtækja samkeppnishæfur

Evrópska hagstofan, Eurostat, birtir árlega gögn um raforkukostnað mismunandi notenda. Séu gögn fyrir árið 2018 skoðuð sést að heimili og fyrirtæki á Íslandi eru með lægsta raforkukostnaðinn af öllum Norðurlöndunum.

Raforkukostnaður stórnotenda á Íslandi samkeppnishæfur

Samkeppnishæfni raforkuverðs hjá okkur er að jafnaði mikil. Ef meðalverðið til stórnotenda er borið saman við verð á heildsölumarkaði raforku á Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi sést að okkar verð hefur verið mjög samkeppnishæft. Einnig er mun meiri breytileiki í verði erlendis.