Landsvirkjun

Heildsölumarkaður

Heildsölumarkaður

Landsvirkjun selur um 85% raforku sinnar beint til viðskiptavina í orkufrekum iðnaði en um 15% orkunnar eru seld á heildsölumarkaði. Heildsölumarkaður raforku er vettvangur viðskipta með raforku á milli raforkusala. Landsvirkjun selur raforku á heildsölumarkaði til sölufyrirtækja sem selja svo raforku áfram til endanotenda, bæði fyrirtækja og heimila.

Sölufyrirtæki selja raforku eða annast raforkuviðskipti, hvort sem er í heildsölu til annarra orkusala eða í smásölu til endanotenda. Sex sölufyrirtæki kaupa raforku af Landsvirkjun. Sölufyrirtækin kaupa hluta orku sinnar af Landsvirkjun en vinna einnig hluta í eigin virkjunum. Samkeppnismarkaður hefur verið um vinnslu og sölu á raforku frá árinu 2005.

Rafmagnsreikningurinn

Rafmagnsreikningurinn

Kostnaður vegna rafmagnsnotkunar heimila og lítilla eða meðalstórra fyrirtækja samanstendur af þremur þáttum: Rafmagninu sjálfu, kostnaði vegna dreifingar þess og opinberum gjöldum.


   

Myndin sýnir hvernig mánaðarlegur rafmagnsreikningur meðalheimila lítur út. Flest heimili eru kynt með heitu vatni en á þeim svæðum þar sem það stendur ekki til boða er rafmagn notað til kyndingar (rafhitun). Ríkissjóður niðurgreiðir hluta rafmagnskostnaðar hjá þeim heimilum sem þurfa að nota rafhitun.

Til viðbótar við þessa þrjá liði leggja dreifiveiturnar á sérstakt fastagjald sem eru mismunandi eftir því um hvaða dreifiveitu ræðir. Verðgögn eru fengin af vef Orkuseturs. Gögn um rafmagnsnotkun heimila eru fengin frá Orkustofnun.


Rafmagnsreikningar í nágrannalöndum 

Rafmagnsreikningar heimila í öðrum löndum samanstanda af sömu meginþáttunum og á Íslandi en hlutfall þessar þriggja þátta er mismunandi milli landa. Myndin að neðan sýnir samanburð á kostnaði heimila á Íslandi vegna rafmagns við það sem gerist í nágrannalöndum okkar, í krónum á kílóvattstund. Rafmagnsreikningur íslenskra heimila er lægri en heimila í þessum samanburðarlöndum.

Við samanburðinn er notast við meðaltalsgengi Seðlabanka Íslands. Niðurstöðurnar byggja á gögnum frá Eurostat fyrir árið 2015.

Myndin sýnir  kostnað heimila vegna rafmagnsnotkunar í krónum per kílowattstund.

Orkuvinnslukerfið

Orkuvinnslukerfið

Landsvirkjun vinnur allt sitt rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum, vatni, jarðvarma og vindi. Hlutur vatnsafls er um 96% af allri vinnslu Landsvirkjunar og hlutur jarðvarma er 4%. Tvær vindmyllur voru settar upp í tilraunaskyni árið 2012 en hlutur vindafls í orkuvinnslu Landsvirkjunar gæti aukist í framtíðinni.

Á sumrin safnar Landsvirkjun úrkomu og leysingavatni af jöklum landsins í uppistöðulón á hálendinu. Vatnsaflsstöðvar nýta svo fallþunga vatnsins til að knýja hverfla sem vinna rafmagn. Að vetri til þegar innrennsli í lónin minnkar vegna kulda fer vatnsborð þeirra lækkandi fram að næsta vori. Á þennan hátt virka uppistöðulónin sem stór rafhlaða fyrir íslenskt raforkukerfi. Stjórnun raforkuvinnslu vatnsaflsvirkjana felst í að hámarka vatnsnýtinguna við allar aðstæður.

Orkuvinnslugeta vatnsaflskerfisins er háð duttlungum náttúrunnar. Á köldum og þurrum sumrum safnast minna af vatni í uppistöðulónin en þegar heitt er í veðri og úrkoma er mikil. Veðurskilyrði á Íslandi eru breytileg meðan lítill breytileiki er á raforkunotkun innan ársins. Afhendingargeta raforkukerfisins tekur mið af þurrum og óhagstæðum vatnsárum. Það leiðir af sér að drjúgur hluti vatns lendir á yfirfalli á hefðbundnu ári, þ.e. rennur framhjá virkjun til sjávar þegar lónin eru orðin full seinni part sumars. Myndin hér að neðan sýnir dæmigerðar árstíðasveiflur á nokkurra ára tímabili í vatnsstöðu lóns.Sveigjanleiki í orkuafhendingu

Landsvirkjun selur forgangsorku sem er ávallt afhent sölufyrirtækjum, bæði í slökum og góðum vatnsárum. Landsvirkjun selur jafnframt skerðanlega orku sem fyrirtækinu er heimilt að skerða afhendingu á, meðal annars þegar veður er óhagstætt. Þegar grípa þarf til skerðinga geta þær staðið yfir um nokkurra mánaða skeið yfir vetrarmánuðina á meðan vatnsstaða í lónum batnar. Sölufyrirtæki semja um að ákveðinn hluti raforkukaupa þeirra sé  skerðanleg orka og fá þann hluta raforkunnar á talsvert betri kjörum en forgangsorku.

Þeir sem kaupa skerðanlega orku geta þannig valið að kaupa ódýrari raforku á meðan hún býðst en skipta síðan yfir í aðra orkugjafa, s.s. olíu, þegar veðurfar á Íslandi krefst þess. 

Heildsölusamningar

Heildsölusamningar

Sölufyrirtæki áætla notkun viðskiptavina sinna til að tryggja að þau hafi aðgang að samsvarandi magni raforku til afhendingar. Viðskiptavinir Landsvirkjunar á heildsölumarkaði hafa val um hvaða samsetningu raforkusamninga þeir kaupa sem viðbót við eigin vinnslu. 


Forgangsorka

Grunnorka: Kaup á sama magni forgangsorku (MWst) allar klukkustundir sólarhringsins allt árið. Grunnorka hentar þeim sem hafa stöðuga notkun til lengri tíma. Verð grunnorku er í krónum á megawattstund (kr/MWst) og er það sama alla mánuði ársins.

Breytileg orka: Kaup á breytilegu magni forgangsorku (MWst) innan umsamdra aflmarka (MW) í einn mánuð. Breytileg orka hentar þeim sem hafa breytileika í notkun innan mánaðar, t.d. á milli dags og nætur. Verð breytilegrar orku er tvískipt, annars vegar orkugjald í krónum á megawattstund (kr/MWst) og hins vegar aflgjald í krónum á megawatt á mánuði (kr/MW/mán). Orkugjald og aflgjald geta verið mismunandi milli mánaða.

MánaðarblokkKaup á sama magni forgangsorku (MWst) allar klukkustundir sólarhringsins í einn mánuð. Mánaðarblokk hentar þeim sem hafa stöðuga notkun innan mánaðar en breytilegt álag milli mánaða. Verð mánaðarblokka er í krónum á megawattstund (kr/MWst) og getur verið mismunandi milli mánaða.

Skammtímakaup: Kaup á stökum klukkustundum af forgangsorku (MWst) með minnst 125 mínútna fyrirvara. Skammtímakaup henta t.d. vel til að mæta skammtíma afltoppum eða óvæntum sveiflum í notkun. Verð í skammtímakaupum er í krónum á megawattstund (kr/MWst) og getur verið mismunandi milli klukkustunda.


Skerðanleg orka

Skerðanleg orka til kyntra veitna: Kaup á skerðanlegu rafmagni þar sem Landsvirkjun getur fyrirvaralítið hætt afhendingu, t.d. vegna bilana í virkjunum (skerðingar eiga sér stað með minna en klukkustundar fyrirvara) eða vegna slæmrar vatnsstöðu (skerðingar í nokkrar vikur/mánuði í senn). Samið er til heils árs í senn. Notandi skuldbindur sig til að nota aðra orkugjafa eða hætta raforkunotkun, komi til skerðingar. Raforkunotkun þarf að vera innan ákveðins hámarksafls og áætlun er gerð um orkunotkun.

Skerðanleg orka til iðnaðar: Skammtímasamningur um kaup á skerðanlegu rafmagni þar sem Landsvirkjun getur fyrirvaralítið takmarkað eða hætt afhendingu. Samið er til nokkurra mánaða í senn. Þar sem afhending fer að mestu leyti eftir vatnsstöðu í lónum Landsvirkjunar getur komið upp sú staða að engir slíkir samningar séu í boði einhvern tíma. Notandi skuldbindur sig til að nota aðra orkugjafa eða hætta raforkunotkun komi til skerðingar á meðan samningurinn er í gildi. Raforkunotkun þarf að vera innan ákveðins hámarksafls sem Landsvirkjun er frjálst að takmarka. Kaupandi þarf ekki að skuldbinda sig til að kaupa lágmarksmagn af raforku og hentar það vel þar sem þörfin er óviss.
Til viðbótar við þessa samninga tekur Landsvirkjun reglulega þátt í útboðum stærri raforkukaupenda, t.d. fyrir 
flutningstöp, reiðuafl, reglunarafl og jöfnunarorku hjá Landsneti.

Heildsöluverð

Heildsöluverð

Verð í heildsölumarkaðssamningum á milli Landsvirkjunar og viðskiptavina mótast af eftirspurn og af því hversu fyrirsjáanlegt og sveigjanlegt selt magn er.  


Sögulegt meðalverð á heildsölusamningum Landsvirkjunar

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá þróun á meðalverði á heildsölusamningum Landsvirkjunar frá árinu 2006, á verðlagi ársins 2017. Verð hefur verið nokkuð stöðugt og raunverð á forgangsorku er nú lægra en árið 2006.

Árið 2006 voru meðaltekjur af sölu forgangsorku 5,6 kr/kWst á verðlagi ársins 2017 en voru 4,6 kr/kWst árið 2017.


 
 

Listaverð samninga á heildsölumarkaði 2019

Myndin hér að neðan sýnir listaverð í þeim heildsölusamningum sem Landsvirkjun mun bjóða upp á árið 2019 á verðlagi ársins 2018. Verð hverrar vöru ræðst af eiginleikum hennar. Aukinn sveigjanleiki viðskiptavinar er dýrari en minni sveigjanleiki og minni afhendingarskylda Landsvirkjunar er ódýrari en þar sem farið er fram á fulla afhendingu.

Einnig er verðið mismunandi eftir mánuðum. Sá verðmunur skýrist af væntingum um framboð, eftirspurn og öðrum verðmyndandi þáttum.