Landsvirkjun

Upprunaábyrgðir

Upprunaábyrgðakerfið gerir kaupendum raforku í Evrópu kleift að styðja við vinnslu á endurnýjanlegri orku. Kerfinu er ætlað að vera fjárhagslegur hvati fyrir orkufyrirtæki til endurnýjanlegrar orkuvinnslu með það að markmiði að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku í Evrópu og þar með hafa jákvæð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda.

Með því að kaupa upprunaábyrgðir geta raforkunotendur á Íslandi og í Evrópu, jafnt heimili sem fyrirtæki, fengið raforkunotkun sína vottaða sem endurnýjanlega samkvæmt alþjóðlegum staðli. Upprunaábyrgðir eru notaðar til að uppfylla skilyrði fjölda alþjóðlegra umhverfismerkja og getur slík vottun opnað markaðstækifæri fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri markaðssetningu á vörum og þjónustu. Hér fyrir neðan má sjá dæmi um þekkt alþjóðleg fyrirtæki sem m.a. nýta sér upprunaábyrgðir sem leið að markmiðum umhverfisstefnu sinnar. Frekari upplýsingar má finna með því að smella á hvert vörumerki fyrir sig.

Eina viðurkennda vottunin fyrir endurnýjanlega raforku

Aðgengi raforkunotenda í Evrópu að endurnýjanlegri orku er mjög mismunandi. Margir íbúar og fyrirtæki eru nálægt kolaorkuverum þar sem hvorki er vatnsafl né vindasamt eða sólríkt. Einnig getur verið að erfitt sé að reisa endurnýjanleg orkuver vegna bágborins raforkuflutningskerfis. Þetta gerir raforkukaupendum erfitt fyrir sem vilja styðja endurnýjanlega orkuvinnslu en hafa ekki tækifæri til þess í eigin nágrenni.

Af þessum ástæðum var upprunaábyrgðakerfið hannað þannig að allir raforkunotendur hafa kost á að styðja endurnýjanlega orkuvinnslu hvar sem er í Evrópu, óháð staðsetningu notanda og fá þannig raforkukaup sín vottuð sem endurnýjanleg.  Upprunaábyrgðir eru sjálfstæð söluvara, óháð afhendingu á raforkunni sjálfri. Myndin hér að neðan sýnir flæði raforku um flutningkerfi annars vegar og upprunaábyrgða um skráningarkerfi hins vegar.

Alþjóðlegar umhverfisvottanir

Á mörkuðum erlendis sem hérlendis eru fyrirtæki í auknum mæli að setja sér og móta umhverfisstefnu sem snýr að virðiskeðju þeirra, í mörgum tilfellum án þess að um það sé gerð krafa í lögum. Þannig aukast stöðugt kröfur framleiðenda af ýmsu tagi um að aðilar sem þeir eru í viðskiptum við styðji við umhverfismál á borð við endurnýjanlega orkuvinnslu og not til þess alþjóðlega viðurkennda staðla.

Í þessu samhengi eykst notkun upprunaábyrgða í fjölda umhverfismerkja sem staðfesting á stuðningi við aukna sjálfbærni orkuöflunar og minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Evrópusambandið styðst í auknum mæli við upprunaábyrgðir sem hæfniskröfu fyrir þátttöku í opinberum útboðsferlum innan sambandsins og geta fyrirtæki á Íslandi uppfyllt slíkar hæfniskröfur þar sem Ísland tekur þátt í upprunaábyrgðarkerfinu.

Umhverfismerki geta veitt fyrirtækjum sem kaupa upprunaábyrgðir aðgang að nýjum mörkuðum og aukið verðmæti söluvara því margir neytendur eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir vörur sem bera alþjóðlega viðurkennd og virk umhverfismerki. Hér fyrir neðan má finna nokkur af þeim umhverfismerkjum sem meðal annars nota upprunaabyrgðir sem hluta af viðmiðum sínum. Með því að smella á hvert merkin má lesa um viðmið sem notuð eru.

Fyrir nánari upplýsingar er hægt að senda fyrirspurn

Kerfið á Íslandi

Með innleiðingu upprunaábyrgða á Íslandi 2011 varð landið aðili að viðskiptakerfi Evrópu með upprunaábyrgðir og opnaði það raforkunotendum á Íslandi möguleika að fá raforkukaup sín vottuð samkvæmt alþjóðlegum staðli og þar með einnig stuðning sinn við endurnýjanlega raforkuvinnslu. Þessi innleiðing hafði þær afleiðingar í för með sér að raforkunotkun á Íslandi sem ekki er vottuð með upprunaábyrgðum tekur tillit til reiknaðrar heildarsamsetningar raforkuvinnslu í Evrópu. Þess vegna geta verið á rafmagnsreikningum sumra raforkunotenda á Íslandi orkugjafar sem ekki eru tengdir inn á raforkukerfi Íslands.

Hlutverk aðila í viðskiptakerfi með upprunaábyrgðir er skilgreint með skýrum hætti í raforkulögum nr. 30/2008 og með reglugerð nr. 757/2012, í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins 2009/28/EB. 

Landsnet hefur það hlutverk að annast útgáfu upprunaábyrgða á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum og hefur eftirlit með því að fjöldi upprunaábyrgða sem gefinn er út komi heim og saman við magn orku sem unnið hefur verið.

Orkustofnun staðfestir að upprunaábyrgðir sem gefnar eru út fyrir vinnslu á Íslandi séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða á Íslandi. Orkustofnun hefur eftirlitshlutverk með viðskiptakerfinu á Íslandi og ber ábyrgð á því að reikna almenna yfirlýsingu fyrir Ísland hvert ár, þ.e. samsetningu vottaðrar og óvottaðrar raforkunotkunar á Íslandi með tilliti til samsetningu á raforkuvinnslu í Evrópu. Stofnunin birtir niðurstöðurnar fyrir hvert ár á heimasíðu sinni.

Orkusalar selja upprunaábyrgðir og hafa upplýsingaskyldu gagnvart viðskiptavinum sínum hvað vottun raforkusölu varðar. Raforkusölum sem ekki hafa látið upprunaábyrgðir fylgja með raforku til viðskiptavina sinna er skylt að birta viðskiptavinum almenna yfirlýsingu Orkustofnunar sem staðfestir reiknaða samsetningu raforkusölu á Íslandi. Hins vegar skulu raforkusalar sem sjálfir nota upprunaábyrgðir fyrir raforkunotkun viðskiptavina sinna upplýsa um uppruna í sértækum yfirlýsingum til viðskiptavina sinna. Raforkunotendur sem sjálfir nota upprunaábyrgðir fá hvorki almenna né sértæka yfirlýsingu senda og fá í staðinn staðfestingu á endurnýjanlegri raforkusölu á raforkureikningi sínum.

Spurningar og svör

Hvers vegna selur Landsvirkjun upprunaábyrgðir?

Fyrirtæki vilja fá vottun á sjálfbærni á þeim vörum sem þau framleiða, þar með talið að framleiðslan á vörunum styðji við og styrki uppbyggingu á endurnýjanlegri orkuvinnslu. Neytendur gera auknar kröfur um að framleiðendur geti sýnt fram á vottaða framleiðslu. Kröfur neytenda skila sér í að upprunaábyrgðir eru verðmæt söluvara fyrir íslensk orkufyrirtæki.

Hvað er tvítalning?

Upprunaábyrgðir gera raforkunotendum kleift að lýsa yfir að þeir noti endurnýjanlega orku. Geri raforkunotendur tilkall til notkunar endurnýjanlegrar orku án upprunaábyrgða er um tvítalningu að ræða. Þetta á við jafnvel þó að öll orkuvinnsla á Íslandi sé endurnýjanleg og Ísland ótengt öðrum raforkukerfum.

Hafa upprunaábyrgðir neikvæð áhrif á ímynd Íslands?

Markmið upprunaábyrgðakerfisins er jákvætt, þ.e. að stuðla að aukinni hlutdeild endurnýjanlegrar orku í Evrópu. Möguleikinn á því að kerfið hafi neikvæð áhrif á ímynd Íslands er tengdur umræðu um tvítalningu, þ.e. ef fyrirtæki segjast nota endurnýjanlega orku án þess að kaupa upprunaábyrgðir. Íslenskir raforkunotendur hafa tækifæri til að votta alla sína raforkunotkun sem endurnýjanlega, hvort heldur sem er með innlendum eða erlendum upprunaábyrgðum, samkvæmt alþjóðlegu vottunarkerfi og var sá möguleiki ekki fyrir hendi áður en upprunaábyrgðakerfið var innleitt á Íslandi. 

Nýtast upprunaábyrgðir til þess að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku í heiminum á kostnað vinnslu með jarðefnaeldsneyti?

Tilgangur upprunaábyrgðakerfisins er að auka hlut endurnýjanlegrar orkuvinnslu í heiminum. Með upprunaábyrgðum er líklegra að meira byggist upp af endurnýjanlegri orkuvinnslu en ella. Það á jafnt við á Íslandi sem annars staðar.

Er upprunaábyrgðakerfið „hvítþvottakerfi“/”syndaaflausnakerfi”?

Nei. Íbúar Evrópu hafa misgóðan aðgang að endurnýjanlegri orku í nágrenni sínu. Kerfið býður þessum aðilum að taka þátt í uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuvinnslu jafnvel þó það sé annars staðar en í næsta nágrenni við viðkomandi. Það er ekki hvítþvottur heldur heiðarleg tilraun að gera öllum kleift að taka þátt í þessari nauðsynlegu uppbyggingu sem alþjóðasamfélagið vill að eigi sér stað, þar með talið við á Íslandi.

Er eðlilegt að markaðssetja endurnýjanlega orku ef kaupendur orkunnar geta ekki um leið fengið vottorð fyrir því að þeir séu að kaupa endurnýjanlega orku?

Öll raforka sem Landsvirkjun vinnur kemur úr vatnsafli, vindi og jarðvarma. Allir kaupendur raforku úr vinnslu Landsvirkjunar geta fengið raforkukaup sín vottuð með upprunaábyrgðum. Það á við um viðskiptavini Landsvirkjunar í stóriðju, jafnt sem fyrirtæki sem selja raforku til almennrar notkunar hjá fyrirtækjum og heimilum.

Hver er sérstaða Íslands ef allir geta keypt upprunaábyrgðir og þannig gert tilkall til endurnýjanlegrar orku án tillits til staðsetningar?

Á Íslandi geta orkufyrirtæki tryggt viðskiptavinum vottun á orkuvinnslu langt fram í tímann. Þetta er ákveðin sérstaða Íslands í ljósi þess að öll raforkuvinnsla er hér endurnýjanleg. Auk þess vilja mörg fyrirtæki tengjast ímynd Íslands um endurnýjanleika og sjálfbærni, en þar hefur Ísland náð öfundsverðum árangri.

Er sanngjarnt að láta íslenska raforkunotendur, s.s. garðyrkjubændur, greiða sérstaklega fyrir að votta raforkunotkun sína?

Það kostar að reka vottunarkerfi af þessu tagi. Þess vegna er sanngjarnt að þeir sem fá vottun, sem er verðmæt, greiði eitthvað fyrir hana. Hins vegar þarf að tryggja garðyrkjubændum aðgang að vottuninni og orkufyrirtækin hafa lýst sig reiðubúin til samstarfs í þeim efnum.