Fjölsóttur ársfundur orkufyrirtækis þjóðarinnar

06.03.2024Fyrirtækið

Ársfundur Landsvirkjunar 2024 var haldinn fyrir fullum Norðurljósasal Hörpu í gær, 5. mars. Yfirskrift fundarins var Orka í þágu þjóðar.

Ársfundurinn fór fram í Norðurljósum í Hörpu
Ársfundurinn fór fram í Norðurljósum í Hörpu

Mikilvægasta fyrirtækið í opinberri eigu

Horfa á upptöku af ársfundinum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra, sem fer með eignarhlut þjóðarinnar í Landsvirkjun, ávarpaði fundinn og óskaði fyrirtækinu, starfsfólki þess og eigendum öllum til hamingju með gríðarsterka rekstrarniðurstöðu orkufyrirtækis þjóðarinnar.

Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að máta allar ákvarðanir í raforkumálum við þjóðaröryggi, við yrðum að vera undirbúin fyrir áföll og högg.

Landsvirkjun væri mikilvægasta fyrirtæki á Íslandi í opinberri eigu.

Bekkurinn var þéttsetinn í Norðurljósum
Bekkurinn var þéttsetinn í Norðurljósum

Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður lagði sérstaka áherslu á uppbyggingu Landsvirkjunar sl. áratug, þegar þrjár virkjanir voru teknar í notkun, að Búðarhálsi, Þeistareykjum og Búrfelli II.

Þær fjárfestingar hefðu stuðlað að endurreisn íslensks efnahagskerfis eftir hrunið sem lá enn eins og mara á þjóðinni.

Fjölbreytt erindi um orkumál og fyrirtækið

Skoða glærukynningar frá fundinum

Hörður Arnarson forstjóri fór yfir vel heppnaða uppbyggingu íslenska raforkumarkaðarins, sem væri öfundarefni annarra þjóða.

Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis, rakti nauðsyn þess að huga ætíð að sem bestri orkunýtni.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á sviði í Hörpu
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á sviði í Hörpu

Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri Fjármála og upplýsingatækni, fór yfir rekstur fyrirtækisins á nýliðnu ári, sem er hið besta í tæplega 60 ára sögu þess.

Loks tíundaði Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Framkvæmda, þau verkefni sem ráðist verður í á næstu árum en gangi allt að óskum verða það Hvammsvirkjun, Búrfellslundur, stækkun Sigöldu og stækkun Þeistareykjastöðvar.

Ársskýrsla komin út

Lesa ársskýrslu 2023

Við hjá Landsvirkjun erum afar ánægð með hversu margir sáu sér fært að koma í Hörpu eða fylgjast með streymi okkar, mbl.is eða visir.is frá fundinum.

Við kappkostum að veita sem bestar upplýsingar um starfsemi okkar og vísum sérstaklega til ársskýrslu 2023 sem er nýkomin út.