- Við þurfum meiri græna orku

- Heimilin verða að ganga fyrir

- Við getum ekki afhent rafmagn sem ekki er til

- Orkan fyrir almenning má ekki renna annað

- Landsvirkjun hefur aukið orkuvinnslu og bætir við á næstu árum

Tryggjum heimilum örugga orku

Mikil eftirspurn er eftir raforku á Íslandi. Íslensk heimili hafa hingað til ekki þurft að hafa áhyggjur af raforkunni. Hún hefur verið trygg og örugg.

Öll almenn fyrirtæki hafa líka getað stólað á örugga raforku, hvort sem það eru hárgreiðslustofur, bílaverkstæði, sjávarútvegsfyrirtæki, tryggingarfélög, ljósmynda- eða arkitektastofur, bifreiðaumboð, hótel eða veitingastaðir.

Landsvirkjun hefur þurft að vísa frá mörgum góðum fyrirtækjum því við eigum ekki þá raforku sem þau þurfa fyrir starfsemi sína. Það mun ekki breytast nema græn orkuvinnsla aukist. Græn orkuvinnsla eykst ekki fyrr en næstu virkjanir komast í gagnið.

Miðað við stöðuna núna er líklegast að það verði vindorkuver árið 2026 og vatnsaflsstöðin Hvammsvirkjun árið 2028.

Tveir ólíkir markaðir

Heimilin og fyrirtækin hafa verið örugg vegna þess að þau hafa ekki þurft að keppa um raforkuna við stórnotendur raforku. Þessir stórnotendur eru allir með langtímasamninga um raforkukaup. Þar er fyrirsjáanlegt hversu mikla orku þarf og ef/þegar eitthvað breytist í þeim efnum er tekið á því í sérstökum samningum. Raforkan á Íslandi er því í raun seld á tveimur ólíkum mörkuðum, annars vegar á alþjóðlegum samkeppnismarkaði með langtímasamningum við stórnotendur og hins vegar til heimila/almennra fyrirtækja.

Heimilin og almenn fyrirtæki kaupa raforku af sölufyrirtækjum. Sum þessara sölufyrirtækja eru sjálf með raforkuvinnslu, en önnur ekki. Öll kaupa þau raforku á svokölluðum heildsölumarkaði, þar sem framleiðendur orku selja raforku og sölufyrirtækin koma henni áfram til landsmanna. Um 20% raforkumarkaðar á Íslandi er þessi sala til almennings, en um 80% allrar orkuvinnslu fer í að standa við samninga við stórnotendur. Hlutdeild Landsvirkjunar á almenna markaðnum nemur um 50%.

Hvað gerist ef orkuframleiðendur hætta að selja framleiðslu sína inn á heildsölumarkaðinn, en selja orkuna þess í stað til hæstbjóðanda?

Svarið er einfalt: Heimilin og öll almennu fyrirtækin sem almenningur rekur og starfar hjá fá ekki næga orku til að halda starfsemi sinni áfram.

Erum við sátt við það?

Leki á milli markaða

Landsvirkjun er eina raforkufyrirtækið sem hefur aukið framleiðslu marktækt sl. áratug.

Við höfum ávallt einsett okkur að selja ekki meiri orku til stórnotenda nema þeirrar orku sé aflað sérstaklega.

Við tökum þá orku ekki af almennum markaði.

  • Við erum líklega eina orkufyrirtækið sem eykur framboð á orku á næstu árum.

    Sala okkar til stórnotenda dregst saman um 200 GWst milli 2022 og 2023. Á sama tíma hafa aðrir framleiðendur aukið sölu til stórnotenda um 100 GWst. Þeir hafa samt ekki aukið orkuvinnsluna, en hins vegar hafa þeir á sama tíma keypt meiri orku á almennum markaði.

    Aukin orkusala til stórnotenda, án þess að aukin orkuöflun komi á móti, ógnar raforkuöryggi heimila og minni fyrirtækja. Raforkan sem áður var í boði á almennum markaði er þá farin að renna til stórnotendanna. Er eðlilegt að heimilin og flestir vinnustaðir landsins keppi við stórnotendur um rafmagnið?

    Við vitum af reynslu fyrri ára og með því að rýna í framtíðina að eftirspurnin á almenna markaðnum eykst árlega um 2-3%. Þegar skyndilegur kippur verður í eftirspurn á þeim markaði hljótum við að leita skýringa. Landsvirkjun lét Orkustofnun vita þegar eftirspurn eftir orku okkar á almennum markaði jókst skyndilega um 25% sl. haust. 25% aukning eftirspurnar á markaði sem við vitum að vex í raun um 2-3% á ári veldur áhyggjum.

    Byggt á gögnum frá Landsneti, Netorku og Landsvirkjun
    Byggt á gögnum frá Landsneti, Netorku og Landsvirkjun

    (Myndin byggir á gögnum frá Landsneti, Netorku og Landsvirkjun)

    Heimili og fyrirtæki þurfa ekki skyndilega 25% meiri orku en hingað til. Orkan fer annað. Ef fram fer sem horfir sitja heimilin eftir með sárt ennið, raforkulaus. Þau geta ekki keppt við öflug fyrirtæki um raforkuauðlindina, sem nú er takmörkuð.

Í trausti öruggrar orku

Erindi Tinnu Traustadóttur á ársfundi Landsvirkjunar 2023

Raforkuöryggi

Hvert stefnir?

Við hjá Landsvirkjun höfum lengi bent á að orkuöryggi heimila og almennra fyrirtækja sé alls ekki tryggt. Vissulega kveða lög á um að stjórnvöld beri ábyrgð á orkuöryggi, en reglugerð til nánari skýringa á lögunum hefur ekki enn litið dagsins ljós.

Það stefndi í óefni þegar Alþingi tók við sér undir lok síðasta árs. Þá var lagt fram frumvarp sem átti að tryggja orkuframboð á þessum almenna heildsölumarkaði.

Í fyrstu gerði frumvarpið ráð fyrir að Landsvirkjun héldi áfram að tryggja þessum markaði jafnmikla orku og hingað til, þ.e. um 50% þeirrar orku sem hann þarf. Engar kvaðir voru hinsvegar lagðar á önnur orkufyrirtæki.

Raforkuöryggi

Hvaðan á orkan að koma?

Frumvarpið breyttist í meðförum þingsins og nýrri útgáfa þess kvað á um að Landsvirkjun skyldi sjá almenna markaðnum fyrir 73% allrar raforku sem þyrfti, í stað 50%.

Mismunurinn nemur heilli Hvammsvirkjun og einum Búrfellslundi – sem eru enn ekki orðin að veruleika. Þá væntanlegu orku var ætlunin að nota til orkuskipta og almennrar uppbyggingar samfélagsins.

Vísað var til þess að Landsvirkjun, orkufyrirtæki þjóðarinnar, framleiddi 73% alls rafmagns á landinu og því eðlilegt að fyrirtækið sæi almenna markaðnum fyrir sama hlutfalli.

Kveikja frumvarpsins var hins vegar að stjórnvöld sáu að eftirspurn eftir orku væri nú meiri en framboðið og því væri raunveruleg hætta á að heimilin og almennu fyrirtækin fengju ekki þá orku sem þau þyrftu. Landsvirkjun hefur bundið stóran hluta orkuvinnslu sinnar í samningum, enda ber okkur skylda til að hámarka afraksturinn af orkuauðlindinni sem okkur er trúað fyrir. Við höfum samt alltaf lagt mikla áherslu á að sinna almenna markaðnum. Landsvirkjun er orkufyrirtæki þjóðarinnar og vill sinna þeim markaði vel.

Þegar öll orkufyrirtæki geta selt alla orku sem þau framleiða og eftirspurnin er enn meiri, þá getur Landsvirkjun ekki brugðist við kröfu um að fyrirtækið leggi fram miklu meiri orku á almenna markaðinn en hingað til.

Við höfum margoft vakið athygli á að orkan sé einfaldlega á þrotum, á sama tíma og við höfum staðið í áralöngu, jafnvel áratugalöngu umsóknarferli um nýja virkjanakosti. Engin ný orka bætist við hjá okkur fyrr en eftir 3-4 ár.

Raforkuöryggi

Lögbrot eða samningsbrot

Ef þessi yrði niðurstaðan, þ.e. að Landsvirkjun yrði gert að stórauka sinn hlut á almenna markaðnum án þess að orkuvinnsla fyrirtækisins hafi aukist, þá kemur upp erfið staða. Við eigum ekki þá orku tiltæka. Hvaðan á að taka hana? Frá stórnotendum sem við höfum gert bindandi langtímasamninga við? Slíkt samningsbrot myndi kalla á skaðabætur frá orkufyrirtæki þjóðarinnar og skaða orðspor okkar á alþjóðavettvangi.

Niðurstaðan er sú að það er ekki hægt að afhenda orku sem ekki er til. Ákvæði um að Landsvirkjun skyldi ábyrgjast 73% framboðsins myndi líka draga úr ábyrgð allra hinna orkuvinnslufyrirtækjanna að setja orku inn á almenna markaðinn. Þau þyrftu ekki lengur að standa skil á 50% orkunnar samanlagt heldur aðeins 27%.

Hvert myndi sú raforka renna, ef ekki væri nein skylda til að setja hana til almennings heldur orkuvinnslufyrirtækjunum þvert á móti heimilað að selja hana öðrum? Er eðlilegt, þegar orkuskortur blasir við, að stjórnvöld gefi minni orkuvinnslufyrirtækjunum frítt spil til að gera nýja langtímasamninga við stórnotendur, á kostnað almennings?

Mörkin lögmannsstofa tók saman minnisblað fyrir Landsvirkjun um frumvarpið og áhrif þess sem hægt er að lesa hér.

Stjórnvöld bera ábyrgð

„Raforkuöryggi felst í að notendur hafi aðgang að raforku þegar hennar er þörf og þar sem hennar er þörf, með hliðsjón af almennri stefnumörkun stjórnvalda á hverjum tíma og skilgreindum áreiðanleika og gæðum.

Viðmið fyrir fullnægjandi raforkuöryggi skulu nánar útfærð og skýrð í reglugerð sem ráðherra setur“

(Skilgreining í raforkulögum)

Raforkuöryggi

Viðtal við Tinnu Traustadóttur og Gunnar Guðna Tómasson í Grænvarpinu

Greinar og fréttir um orkuöryggi