Öryggi umfram allt

03.01.2024Raforkuöryggi

Pistill eftir Hörð Arnarson sem birtist í tímaritinu Áramót í desember 2023

Öryggi umfram allt

Við seljum alla raforku sem við framleiðum og eftirspurnin eykst sífellt. Raforkuvinnslan okkar er stærsti aflgjafi samfélagsins og Landsvirkjun, orkufyrirtæki þjóðarinnar, skilar þjóðinni árlega umtalsverðum arði af orkuauðlindinni. Fyrirtækið er nánast skuldlaust og stendur vel að vígi fyrir þá óhjákvæmilegu uppbyggingu sem fram undan er. Þar hljótum við að leggja höfuðáherslu á að heimili og smærri fyrirtæki, sem geta ekki keppt um raforkuna við stórfyrirtæki, njóti áfram öruggrar orku.

Stærstu viðskiptavinir Landsvirkjunar hafa lengi verið traustar stoðir efnahagslífsins. Orkuskiptin hafa í för með sér að flestar aðrar atvinnugreinar munu reiða sig jafn mikið á raforkuvinnsluna og stóriðjan. Ferðaþjónustan verður rafknúin og sjávarútvegurinn knúinn grænni orku rétt eins og aðrir hlutar atvinnulífsins. Við verðum að auka raforkuvinnsluna til að mæta þessum þörfum og við verðum að gera það á þann veg að hvorki bitni á heimilum né smærri fyrirtækjum.

Forgangsröðun nauðsyn

Í fullseldu kerfi verður ekki hjá því komist að forgangsraða raforkusölu. Kerfið okkar er einstakt því það er ótengt öðrum raforkukerfum og byggir 100% á endurnýjanlegum orkugjöfum. Við getum ekki tekið upp hrein markaðsviðskipti, selt hæstbjóðanda þá orku sem hann vill hverju sinni og bætt okkur svo upp skort með því að sækja meiri orku annað, því við höfum ekki tengingar við önnur kerfi.

Ef við ætlum að tryggja heimilum og smærri fyrirtækjum aðgang að öruggri orku þá verðum við að halda raforkumarkaði þeirra aðskildum frá markaði stórnotenda. Við verðum auðvitað líka að gæta þess að fara ekki offari og semja við nýja stórnotendur um kaup á raforku nema við séum reiðubúin að auka orkuframboð á sama tíma eða t.d. að hætta að selja til eldri stórnotenda. Raforkuvinnslan okkar er ákveðin stærð og við verðum að deila henni á raunhæfan hátt, en ekki af óskhyggju.

Þótt kerfið okkar sé lokað höfum við vissulega innleitt markaðsviðskipti á raforku og við eigum að leitast við að halda því áfram. Í því felst gagnsæ verðmyndun, aðgangur nýrra orkuframleiðenda að kaupendum og fjölbreytt uppbygging orkuvinnslu. En um leið og við byggjum upp slík markaðsviðskipti verðum við að gæta þess að setja ekki orkuöryggi heimila í uppnám. Við eigum heldur ekki að innleiða kostnaðarsamar viðskiptalausnir, við eigum að gæta að því að stórauka ekki verðsveiflur og að raforkuverð sé sem jafnast á öllu landinu.

Höldum mörkuðum aðskildum

Íslenski raforkumarkaðurinn hefur lengi verið tvískiptur. Fyrir nokkrum árum var mikill verðmunur á milli ólíkra hluta hans. Stórnotendur vilja gera langtímasamninga í dollurum, óháða skammtímasveiflum á mörkuðum. Heimili og smærri fyrirtæki gera samninga til skemmri tíma í íslenskum krónum og þar hefur orkuverð verið sanngjarnt og stöðugt og að mestu haldist óbreytt á föstu verðlagi undanfarinn áratug. Slíkur stöðugleiki skiptir miklu.

Því hefur stundum verið haldið fram að stórnotendur greiði ekki nægilega hátt verð fyrir langtíma raforkusamninga sína. Við hjá Landsvirkjun höfum á síðustu misserum samið upp á nýtt við stórnotendur með þeim árangri að verðið hefur hækkað umtalsvert og er nú sambærilegt og verðið til heimila og smærri fyrirtækja, þótt enn séum við vel samkeppnisfær við önnur lönd. Það blasir hins vegar við að einstaka stórnotendur eiga ekki að geta seilst inn á raforkumarkað heimilanna og keypt upp orkuna þar. Við þurfum að halda þessum mörkuðum aðskildum hér eftir sem hingað til svo almenningur hafi áfram öruggt aðgengi að raforku, um leið og stórnotendum er tryggt fyrirsjáanlegt verð, sambærilegt og þeir greiða í öðrum löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Aukin orkuvinnsla er forsendan

Allt tal um örugga orku til notenda og orkuskipti er marklaust ef við tryggjum ekki nægt framboð orku. Þar knýja stórfyrirtækin ekki fastast á dyr, því eftirspurnin vex hjá öllum raforkunotendum. Við hjá Landsvirkjun getum ekki mætt aukinni almennri notkun í samfélaginu og orkuskiptum án þess að vinna meiri orku. Við getum ekki stutt við aukna stafræna vegferð og nýsköpun án aukinnar orkuvinnslu. Og við getum ekki stutt við framþróun núverandi stórnotenda, þeirra traustu stoða efnahagslífsins, án frekari orkuvinnslu.

Við eigum gríðarleg orkuskipti að baki, með hitaveitu- og rafvæðingu landsins. Við getum náð fullum orkuskiptum með aukinni orkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum þjóðarinnar. Það gerum við með samtakamætti, af ábyrgð og með framtíðarsýn okkar að leiðarljósi, um sjálfbæran heim, knúinn endurnýjanlegri orku.

Pistillinn birtist í tímaritinu Áramót í desember 2023