Umhverfi og samfélag

Mótvægisaðgerðir og vöktun

Skoða ytri skilyrði, mótvægisaðgerðir og vöktun

Á löngum undirbúningstíma Hvammsvirkjunar hafa gefist tækifæri til að vanda hönnun og mæta þeim ábendingum sem fram hafa komið í leyfis- og skipulagsferli og almennu samráði við hagaðila.

Yfirlit yfir ytri skilyrði og kröfur, mótvægisaðgerðir og vöktun má finna hér.

Í fararbroddi í umhverfismálum

Skoða loftslags- og umhverfisstefnu

Við undirbúning Hvammsvirkjunar, sem og annarra virkjunarverkefna, vinnum við eftir loftslags- og umhverfisstefnu okkar. Hún er svohljóðandi:

„Landsvirkjun er í fararbroddi á sviði umhverfismála og stuðlar að sjálfbærri þróun í samfélaginu. Við berum virðingu fyrir náttúru landsins og ásýnd þess og vinnum stöðugt að því að bæta nýtingu auðlinda og koma í veg fyrir sóun. Áhersla er lögð er á að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar, að draga úr þeim og koma í veg fyrir umhverfisatvik.“

Landsvirkjun verður kolefnishlutlaus árið 2025 og er losun gróðurhúsalofttegunda á framkvæmdatíma Hvammsvirkjunar hluti af því markmiði. Lögð er áhersla á að draga úr losun helstu losunarvalda, það er steypu, stáls og bruna jarðefnaeldsneytis.

Hér má skoða loftslagsáætlun Landsvirkjunar.

Lífríki og vatnakerfi

Á vatnasvæði Þjórsár eru flestar aflstöðvar Landsvirkjunar. Lífríki Þjórsár er okkur mikilvægt. Landsvirkjun hefur skipulagt og látið framkvæma þar rannsóknir og vöktun um áratugaskeið, bæði ofan og neðan við Búrfell.

Í samvinnu við veiðifélag árinnar reisti Landsvirkjun fiskveg við Búðafoss árið 1991. Við það nær tvöfölduðust búsvæði laxins í ánni. Þar hefur lax numið land síðan og má segja að svæðið fyrir ofan Búða sé nú nær fullnumið laxi. Virkjanir og veitur ofar í vatnakerfinu hafa valdið því að vatnsrennsli er stöðugra en áður og svifaur er minni í ánni.

Göngufiskstofnar Þjórsár hafa verið vaktaðir árlega, en auk þess hefur lífríkið í vatnakerfinu verið rannsakað. Þetta eru einna umfangsmestu rannsóknir á vatnalíffræði í landinu.

Stuðningur við nærsamfélag

Sjá meira um Orkídeu

Við hjá Landsvirkjun kappkostum að vera góðir grannar. Það gerum við m.a. með því að stuðla að jákvæðum samfélagsáhrifum af starfsemi fyrirtækisins, samhliða ábyrgri nýtingu auðlinda. Landsvirkjun kemur fram af heiðarleika og virðingu og hefur að leiðarljósi að nærsamfélagið njóti ávinnings af starfsemi fyrirtækisins, jafnt við undirbúning sem rekstur virkjana. Fyrirtækið leggur áherslu á uppbyggileg samskipti og samvinnu ásamt því að miðla upplýsingum um starfsemi fyrirtækisins. Fyrirtækið tekur auk þess virkan þátt í samfélaginu með því að styðja við málefni og verkefni sem hafa jákvæð samfélagsáhrif.

Landsvirkjun leggur áherslu á að styðja við nærsamfélög með kaupum á vöru og þjónustu þar sem þess er kostur. Fyrirtækið leggur sig fram um að eiga reglubundin samskipti við hagsmunaaðila í nærsamfélögum.

Þá hefur Landsvirkjun ásamt Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Landbúnaðarháskóla Íslands stofnað verkefnið Orkídeu sem hefur þá áherslu að vinna að nýjum tækifærum á svæðinu á sviði orkutengdrar matvælaframleiðslu og hjálpa sveitarfélögum við að þróa tækifæri til atvinnusköpunar í slíkum greinum.