Raforkumarkaðir, fyrir hverja?

10.10.2024Viðskiptagreining

Dr. Ingunn Gunnarsdóttir, sérfræðingur í Viðskiptagreiningu og þróun markaða, fer yfir umræður á raforkumarkaðsfundi sem var haldinn á dögunum.

Bekkurinn var þéttsetinn í Grósku.
Bekkurinn var þéttsetinn í Grósku.
Viðskiptagreining og þróun markaðaSérfræðingur

Mikilvægt samtal hafið

Við hjá viðskiptagreiningu Landsvirkjunar buðum lykilhagaðilum í íslenska raforkukerfinu til fundar og samtals um þróun raforkumarkaða og fyrirkomulags raforkuviðskipta á Íslandi. Fundurinn, sem haldinn var í Grósku hugmyndahúsi, vakti mikla athygli, enda þurfti að loka fyrir skráningu þar sem við sprengdum utan af okkur salinn.

Fyrir áhugasöm sem komust ekki að má horfa á upptöku af fundinum hér fyrir neðan.

Raforkumarkaðir, fyrir hverja?

2. október 2024

Nú er tími aðgerða

Horfa á ávarp Guðlaugs Þórs

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hóf fundinn með því að leggja áherslu á þá gæfu sem við Íslendingar búum við að hafa sjálfbæra og endurnýjanlega orku. Hann benti þó einnig á að við værum komin á erfiðan stað — eftirspurn væri meiri en framboð og engin ný orka hefði bæst við. Að mati ráðherra eru Íslendingar í fremstu röð þjóða um notkun endurnýjanlegrar og sjálfbærrar orku.

Ráðherra ávarpar fundinn.
Ráðherra ávarpar fundinn.

Guðlaugur sagði að næsta skref væri að ljúka orkuskiptunum og verða orkusjálfstæð þjóð. Hann lagði áherslu á að taka þyrfti tillit til séríslenskra aðstæðna við þróun raforkuviðskipta og mikilvægi þess að tryggja áframhaldandi aðgang að ódýrri orku fyrir heimili og smærri fyrirtæki. Ráðherra vakti einnig máls á því að stórnotendur þyrftu samkeppnishæft umhverfi til að viðhalda stöðu sinni á markaðnum.

Að lokum sagði ráðherra að nú væri tími aðgerða og hvatti fundargesti til dáða. Að ávarpinu loknu beindi Dagný Ósk Ragnarsdóttir, fundarstjóri og forstöðumaður Viðskiptagreiningar og þróunar markaða, nokkrum spurningum til ráðherra um áherslumál hans fyrir komandi þingvetur, m.a. um orkuöryggi og einföldun regluverks og leyfisveitinga fyrir nýjar orkuframkvæmdir.

Heildsölumarkaður og fyrirkomulag raforkuviðskipta

Horfa á fyrri pallborðsumræður

Dr. Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Rarik, var umræðustýra fundarins. Fyrri pallborðsumræður fundarins snéru að heildsölumarkaði og fyrirkomulagi raforkuviðskipta. Gagnsæi, sveigjanleiki og fyrirsjáanleiki voru títtnefnd orð í þessu pallborði.

Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun, benti á að jákvæð skref hefðu verið tekin í þróun raforkumarkaða, en að það væri jafnvægislist að þróa raforkumarkaði sem sinntu þörfum allra. Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vonarskarðs, sagði frá sínum raforkumarkaði og hvernig gagnsæi ykist til muna með honum. Hann benti á að treysta ætti á markaðsöflin til þess að nýta auðlindirnar sem best, en tryggja þyrfti vernd fyrir heimili og minni fyrirtæki í regluverkinu.

Mikilvægt samtal í fullum gangi.
Mikilvægt samtal í fullum gangi.

Umræður snerust meðal annars um möguleikann á næstadags markaði (day-ahead market) og hvernig slíkt fyrirkomulag gæti bætt sveigjanleika. Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Elmu, lagði áherslu á mikilvægi næstadags markaðar með tilkomu óstýranlegra orkugjafa, þ.e. vind- og birtuorku. Flest voru þó sammála um mikilvægi langtímasamninga í að tryggja fyrirsjáanleika og stöðugleika á markaðnum.

Hjálmar Helgi Rögnvaldsson, forstöðumaður Viðskiptaþróunar og orkumiðlunar hjá Orku náttúrunnar, sagði að markaðsfyrirkomulag gæti stutt við hámörkun nýtingu auðlinda en benti einnig á að næstadags markaður væri ekki góður fyrir fyrirsjáanleikann sem væri nauðsynlegur í núverandi kerfi. Ólöf Embla Einarsdóttir, rekstrarstjóri Straumlindar, lagði einnig áherslu á fyrirsjáanleika í framboði og regluverki og sagði að mest þrengdi að sölufyrirtækjum í núverandi skortsástandi. Hanna Björg Konráðsdóttir, deildarstjóri raforkueftirlits Orkustofnunar, lagði áherslu á nauðsyn þess að þróa fullnægjandi regluverk sem tryggði að allir sætu við sama borð og að eftirlitsheimildir væru til staðar til að grípa inn í ef til misbrests kæmi.

Markaður fyrir stórnotendur

Horfa á seinni pallborðsumræður

Í síðari pallborðsumræðunum voru þarfir stórnotenda ræddar. Áhersla var lögð á mikilvægi langtímasamninga á móti dýrri fjárfestingu, til að skapa stöðugleika og fyrirsjáanleika. Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, lagði áherslu á að þó svo að ástæða væri til að hafa áhyggjur af núverandi stöðu raforkumarkaðarins væri nauðsynlegt að horfa til framtíðar. Honum fannst að raforkumarkaðir væru fyrir samfélagið allt og að aukið gagnsæi væri nauðsynlegt fyrir þau umskipti sem við stæðum frammi fyrir. Svandís Hlín Karlsdóttir, framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar hjá Landsneti, tók undir þetta og sagði að raforkumarkaðir væru fyrir notendurna. Hún sagði að tilgangur raforkumarkaða, að því gefnu að þeir væru skilvirkir og gagnsæir, væri að stuðla að raforkuöryggi.

Guðrún Halla Finnsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Norðuráli, vakti athygli á því að uppbygging íslenska orkukerfisins væri langtímasamningum við stórnotendur að þakka. Hún útskýrði að næstadags markaður, eins og hann væri útfærður erlendis, hentaði mögulega ekki jafn vel hér á landi. Egill Jóhannsson, deildarstjóri orkumiðlunar hjá HS Orku, fór yfir að raforkumarkaðir væru gott tól til að styðja við orkuöryggi og aukið gagnsæi.

Svandís Hlín Karlsdóttir, Guðrún Halla Finnsdóttir og Egill Jóhannsson.
Svandís Hlín Karlsdóttir, Guðrún Halla Finnsdóttir og Egill Jóhannsson.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar lagði áherslu á að fyrirsjáanleiki væri grunnforsenda áframhaldandi samkeppnishæfni stórnotenda á alþjóðlegum mörkuðum. Hörður vísaði til nýrrar skýrslu Mario Draghi um samkeppnishæfni Evrópu og að þar væri sveiflukennt orkuverð talið ein meginástæða efnahagsvanda álfunnar. Guðrún Halla og Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, tóku bæði undir það að langtímasamningar væru mikilvægir til að tryggja fyrirsjáanleika. Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, sagði samkeppnishæfni Íslands skipta sköpum þegar kæmi að langtímastefnumótun fyrir raforkumarkaðinn og að huga ætti að hagsmunum samfélagsins í heild.

Samhljómur var meðal þátttakenda um mikilvægi þess að taka tillit til sérstakra íslenskra aðstæðna við þróun raforkumarkaða, þar sem raforkukerfið væri lokað og drifið af endurnýjanlegum orkugjöfum. Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og fulltrúi ASÍ, lagði áherslu á forgangsröðun þess í hvað orkan færi og að íhuga þyrfti hvaða störf sköpuðust út frá því. Hann lagði einnig áherslu á að mikilvægt væri að tryggja orkuöryggi heimilanna. Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, tók undir það að heimilin ættu að njóta vissrar verndar. Hann vildi einnig að litið væri til framtíðar við þróun markaðar og regluverks, þannig það hentaði fyrir mögulegar áskoranir framtíðarinnar, m.a. nýtingu vind- og birturorku.

Áframhaldandi þróun raforkumarkaða

Sjá meira um fundinn

Það er ekki einfalt verkefni að skipuleggja svona stóran fund með þetta mörgum þátttakendum, en við erum afar ánægð með útkomuna og hlökkum til að halda áfram samtalinu á næsta fundi.

Áhugasamir, einbeittir og ánægðir fundargestir.
Áhugasamir, einbeittir og ánægðir fundargestir.

Markmiðið var að ná fram ólíkum sjónarmiðum um framtíð raforkumarkaða og horfa fram á veginn – það tókst sannarlega. Samtalið er hafið um það hvernig þróa má öfluga raforkumarkaði á Íslandi – höldum því áfram.