Í síðari pallborðsumræðunum voru þarfir stórnotenda ræddar. Áhersla var lögð á mikilvægi langtímasamninga á móti dýrri fjárfestingu, til að skapa stöðugleika og fyrirsjáanleika. Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, lagði áherslu á að þó svo að ástæða væri til að hafa áhyggjur af núverandi stöðu raforkumarkaðarins væri nauðsynlegt að horfa til framtíðar. Honum fannst að raforkumarkaðir væru fyrir samfélagið allt og að aukið gagnsæi væri nauðsynlegt fyrir þau umskipti sem við stæðum frammi fyrir. Svandís Hlín Karlsdóttir, framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar hjá Landsneti, tók undir þetta og sagði að raforkumarkaðir væru fyrir notendurna. Hún sagði að tilgangur raforkumarkaða, að því gefnu að þeir væru skilvirkir og gagnsæir, væri að stuðla að raforkuöryggi.
Guðrún Halla Finnsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Norðuráli, vakti athygli á því að uppbygging íslenska orkukerfisins væri langtímasamningum við stórnotendur að þakka. Hún útskýrði að næstadags markaður, eins og hann væri útfærður erlendis, hentaði mögulega ekki jafn vel hér á landi. Egill Jóhannsson, deildarstjóri orkumiðlunar hjá HS Orku, fór yfir að raforkumarkaðir væru gott tól til að styðja við orkuöryggi og aukið gagnsæi.

Svandís Hlín Karlsdóttir, Guðrún Halla Finnsdóttir og Egill Jóhannsson.
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar lagði áherslu á að fyrirsjáanleiki væri grunnforsenda áframhaldandi samkeppnishæfni stórnotenda á alþjóðlegum mörkuðum. Hörður vísaði til nýrrar skýrslu Mario Draghi um samkeppnishæfni Evrópu og að þar væri sveiflukennt orkuverð talið ein meginástæða efnahagsvanda álfunnar. Guðrún Halla og Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, tóku bæði undir það að langtímasamningar væru mikilvægir til að tryggja fyrirsjáanleika. Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, sagði samkeppnishæfni Íslands skipta sköpum þegar kæmi að langtímastefnumótun fyrir raforkumarkaðinn og að huga ætti að hagsmunum samfélagsins í heild.
Samhljómur var meðal þátttakenda um mikilvægi þess að taka tillit til sérstakra íslenskra aðstæðna við þróun raforkumarkaða, þar sem raforkukerfið væri lokað og drifið af endurnýjanlegum orkugjöfum. Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og fulltrúi ASÍ, lagði áherslu á forgangsröðun þess í hvað orkan færi og að íhuga þyrfti hvaða störf sköpuðust út frá því. Hann lagði einnig áherslu á að mikilvægt væri að tryggja orkuöryggi heimilanna. Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, tók undir það að heimilin ættu að njóta vissrar verndar. Hann vildi einnig að litið væri til framtíðar við þróun markaðar og regluverks, þannig það hentaði fyrir mögulegar áskoranir framtíðarinnar, m.a. nýtingu vind- og birturorku.