Stjórn

Stjórn Landsvirkjunar er samkvæmt lögum um Landsvirkjun skipuð af fjármálaráðherra á aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn skal fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Hún ber ábyrgð á fjármálum og rekstri fyrirtækisins.

Stjórn Landsvirkjunar ræður forstjóra sem veitir fyrirtækinu forstöðu. Forstjóri er Hörður Arnarson. Stjórn og forstjóri fara með stjórn fyrirtækisins. Stjórn setur sér starfsreglur í samræmi við sjöttu grein laga um Landsvirkjun.

Núverandi stjórn var skipuð á aðalfundi fyrirtækisins þann 14. apríl 2025.

  • Stjórnarformaður

    Brynja Baldursdóttir

    Brynja er fædd árið 1976 og býr í Garðabæ. Hún var skipuð í stjórn árið 2025 og er með M.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Georgia Tech í Atlanta. Brynja hefur verið forstjóri Greiðslumiðlunar Íslands frá árinu 2021. Árin 2013 til 2021 starfaði hún hjá Creditinfo Group, lengst af sem framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi og svæðisstjóri Norður-Evrópu. Áður starfaði hún í sjö ár hjá Símanum. Brynja er í stjórn Viðskiptaráðs og Háskólaráðs Háskólans í Reykjavík. Hún hefur auk þess setið í fjölmörgum stjórnum, m.a. hjá Lífsverki lífeyrissjóði, Fossum fjárfestingarbanka og Sensa.

  • Varaformaður

    Berglind Ásgeirsdóttir

    Berglind er fædd árið 1955 og býr á Akureyri. Hún er lögfræðingur frá HÍ, með MA gráðu í alþjóðasamskiptum frá Boston University og var skipuð í stjórn Landsvirkjunar 2025. Hún var aðstoðarforstjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París OECD og framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Þá var hún ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytis í 11 ár og síðar ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins. Berglind starfaði í utanríkisráðuneytinu og var sendiherra í París og Moskvu. Berglind hefur unnið að innflytjendamálum síðustu árin.

  • Stjórnarmaður

    Hörður Þórhallsson

    Hörður er fæddur árið 1967 og býr í Garðabæ. Hann er með M.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá háskólanum í Karlsruhe og var skipaður í stjórn Landsvirkjunar árið 2025. Hann hefur verið forstjóri Ósa – lífæð heilbrigðis og Icepharma frá árinu 2016. Árin 2015 til 2016 kom hann á fót og leiddi Stjórnstöð ferðamála. Áður starfaði hann í 15 ár hjá lyfjafyrirtækinu Actavis og forverum þess. Í upphafi gegndi hann þar stöðu framkvæmdastjóra rekstrarsviðs og varð síðar „Senior Vice President Asia Pacific and Africa“. Hörður hóf starfsferil sinn sem rekstrarráðgjafi hjá VSÓ Ráðgjöf.

  • Stjórnarmaður

    Þórdís Ingadóttir

    Þórdís er fædd árið 1969 og býr í Reykjavík. Hún var skipuð í stjórn Landsvirkjunar 2025. Þórdís er með doktorspróf í lögfræði frá Háskólanum í Helsinki, LL.M gráðu frá New York University School of Law og Cand. juris gráðu frá Háskóla Íslands. Þórdís er prófessor við Háskólann í Reykjavík og er jafnframt forstöðumaður Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar sama skóla. Hún hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir stjórnvöld, háskóla, alþjóðastofnanir og félagasamtök. Hún var meðal annars stjórnarformaður Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) á árunum 2019-2023, sat í endurupptökunefnd 2013-2019, dómstólaráði 2009-2017 og bankaráði Landsbankans hf. 2010-2014.

  • Stjórnarmaður

    Sigurður Magnús Garðarsson

    Sigurður Magnús Garðarsson var skipaður í stjórn Landsvirkjunar 2025. Hann er með doktorsgráðu í umhverfis- og byggingarverkfræði frá University of Washington, meistaragráðu í hagnýtri stærðfræði frá sama skóla og verkfræðipróf frá Háskóla Íslands. Sigurður Magnús er prófessor í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands og hefur verið forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs skólans síðan 2017. Áður starfaði hann sem verkfræðingur við ráðgjöf og hönnun hjá verkfræðistofum í Bandaríkjunum og á Íslandi. Sigurður Magnús hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir háskóla, stjórnvöld og félagasamtök, þar með talið verið stjórnarformaður Vísindagarða HÍ frá 2020, í stjórn samtaka norrænna tækniháskóla 2017-2023 og í stjórn Tækniseturs frá 2021.

Varamenn

  • Agni Ásgeirsson
  • Björn Ingimarsson
  • Elva Rakel Jónsdóttir
  • Eggert Benedikt Guðmundsson
  • Stefanía Nindel