Vatn

Við Íslendingar búum svo vel að eiga gnægð af vatni. Við nýtum þetta vatn til þess að vinna raforku sem knýr flest sem við gerum í nútímaþjóðfélagi. Vatn er endurnýjanleg orkulind, sem þýðir að nýtingin gengur ekki á auðlindina. Nýtingin á því er hrein og græn, því hún losar ekki gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið.

Hringrás vatns og orkuvinnslu

Sólarljósið veldur því að vatn gufar sífellt upp af yfirborði jarðar. Sólin hitar yfirborðið og vatn í sjó og á landi umbreytist í vatnsgufu, sem stígur upp til himins. Því hærra sem vatnsgufan berst, þeim mun kaldara verður loftið. Við það kólnar gufan, þéttist og myndar ský.

Úrkoma myndast í skýjunum og fellur aftur niður til jarðar, sem rigning eða snjókoma. Regnvatn og bráðinn snjór safnast saman í ár og læki. Orka losnar á leið vatnsins þegar það rennur ofan af fjöllum og niður til sjávar. Sú orka er notuð til raforkuvinnslu í vatnsaflsstöð, með því að leiða vatnið um hverfla stöðvarinnar.

Eftir nýtingu vatnsorkunnar berst vatnið til sjávar og hringrásin heldur áfram.

Hvernig er rafmagn unnið úr fallvatni?

Vatn

Orkuvinnsla í sátt við náttúru

Við leggjum mikla áherslu á að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti, með tilliti til áhrifa á efnahag, samfélag og umhverfi. Í vatnsaflsvirkjunum er leitast við að hámarka nýtingu auðlindarinnar að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða sem miða að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif.

Fimmtán vatnsaflstöðvar

Orkuvinnsla úr vatnsafli er mikill meirihluti orkuvinnslu okkar, eða 92%. Við rekum fimmtán vatnsaflsstöðvar á fjórum starfssvæðum víðs vegar um landið.

Á Þjórsársvæði eru sjö aflstöðvar með samtals 19 aflvélar og fjölda veituvirkja sem spanna svæðið frá Hofsjökli niður að Búrfellsstöð.

Á Sogssvæði eru þrjár aflstöðvar með samtals átta aflvélar og veituvirki við Þingvallavatn og Úlfljótsvatn.

Á Norðurlandi eru þrjár aflstöðvar, með samtals fimm aflvélar og tilheyrandi veituvirki, og heitir starfssvæðið Blöndusvæði. Þar er Blöndustöð, en einnig tilheyra Laxárstöðvar svæðinu.

Fjórða starfssvæðið er Fljótsdalsstöð, stærsta vatnsaflsstöð landsins, með sex aflvélar og umfangsmikil veituvirki, meðal annars jarðgöng sem eru samanlagt um 70 km löng.