Fjármögnun

Áhersla á tryggt aðgengi fjármagns og sjálfbærni

Landsvirkjun leggur áherslu á tryggt og fjölbreytt aðgengi fjármagns.

Fyrirtækið hefur sótt fjármagn með lántökum, með útgáfu skuldabréfa á erlendum mörkuðum og í gegnum verktakafjármögnun. Einnig hefur Landsvirkjun aðgang að veltiláni sem veitt er af viðskiptabönkum fyrirtækisins.

Öll fjármögnun frá árinu 2018 hefur verið græn eða sjálfbærnitengd. Landsvirkjun var fyrsti íslenski útgefandi grænna skuldabréfa og einn af fyrstu útgefendum grænna skuldabréfa á lokaða bandaríska skuldabréfamarkaðnum (e. US Private Placement) árið 2018.

Áhersla á græna og sjálfbærnitengda fjármögnun styður við stefnu Landsvirkjunar og framtíðarsýn um sjálfbæran heim, knúinn endurnýjanlegri orku.

Græn fjármögnun er hefðbundin fjármögnun, en henni skal varið til að fjármagna eignir eða verkefni sem hafa jákvæð áhrif á umhverfis- og loftslagsmál. Græn skuldabréf gefa fjárfestum kost á að finna fjárfestingum sínum grænan farveg. Við notum græna fjármögnun til að fjármagna eða endurfjármagna eignir sem stuðla að sjálfbærri, ábyrgri og skilvirkri nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi til að vinna endurnýjanlega orku.

Sjálfbærnitengd fjármögnun veitir hvata til að ná metnaðarfullum skilgreindum markmiðum á sviði sjálfbærni. Sjálfbærnitengd lán Landsvirkjunar eru tengd mælikvörðum á sviði jafnréttismála, loftslagsmála og öryggismála og endurspegla áherslur okkar á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sjálfbærni. Fjárhagslegur hvati er til að ná sjálfbærnitengdum markmiðum, því ef fyrirtækið nær þeim ekki hækka vextir lána.

Landsvirkjun er með lánshæfismat frá lánhæfismatsfyrirtækjunum Moody's og S&P Global Ratings.

Lánshæfismat frá Moody's og S&P Global Ratings
Moody'sS&P Global Ratings
LangtímaeinkunnBaa1BBB+
Skammtímaeinkunn(P)P-2A-2
HorfurStöðugarStöðugar
Síðast uppfært15/06/202226/09/2022

Skýrslur frá lánshæfismatsfyrirtækjum