Varmi

Í kjarna jarðarinnar losnar stöðugt varmaorka. Ísland er eitt þeirra svæða þar sem varmi úr iðrum jarðar leitar upp á yfirborðið, í gosbelti sem liggur þvert yfir landið.

Orkulind sem endurnýjar sig stöðugt þó af henni sé tekið

Háhitasvæði eru tengd heitum kvikuhólfum og innskotum í gosbeltinu. Vatn á yfirborðinu seytlar niður í jörðina. Á háhitasvæðunum berst það niður að kvikuhólfunum, hitnar og leitar upp að yfirborði.

Vökvinn sem kemur upp um háhitaborholur er blanda af sjóðandi vatni og gufu.

Gufan er notuð til að knýja hverfla sem umbreyta varmaorku gufunnar í rafmagn. Að því loknu þéttist gufan í vatn sem er veitt aftur niður í jörðina og inn í hringrás vatnsins.

Hvernig er rafmagn unnið úr jarðvarma?

Varmi

Þrjár gufuaflstöðvar

Við starfrækjum þrjár aflstöðvar sem nýta jarðvarma til þess að vinna rafmagn. Þær eru allar á Norðausturlandi:

Kröflustöð, sem nýtir blöndu af há- og lágþrýstigufu úr 18 vinnsluholum til að knýja tvo 30 megavatta hverfla. Landsvirkjun eignaðist Kröflustöð árið 1985.

Þeistareykjastöð, sem var fyrsta jarðvarmavirkjunin sem Landsvirkjun reisti frá grunni Hún var gangsett árið 2017, þegar fyrri 45 megavatta vélasamstæðan var ræst, en árið eftir var sú seinni sett í gang. Við byggingu stöðvarinnar var meginmarkmiðið að reisa hagkvæma og áreiðanlega stöð sem tekur mið af umhverfi sínu og náttúru.

Gufustöðina í Bjarnarflagi í Mývatnssveit, sem er elsta gufuaflsstöð landsins. Hún var gangsett árið 1969, þegar Laxárvirkjun lét byggja stöðina, en Landsvirkjun eignaðist hana við sameiningu fyrirtækjanna árið 1983. Afl stöðvarinnar er 5 megavött og nýtir hún gufu jarðhitasvæðisins við Námafjall.