Landsvirkjun fer eftir öllum þeim lögum og reglum sem gilda um viðskipti með upprunaábyrgðir og er ríkt eftirlit á markaðnum frá hinum ýmsu aðilum. Með innleiðingu kerfis um sölu upprunaábyrgða á Íslandi í lok árs 2011 varð landið aðili að viðskiptakerfi Evrópu með upprunaábyrgðir. Hlutverk aðila í viðskiptakerfi með upprunaábyrgðir er skilgreint með skýrum hætti í lögum um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. nr. 30/2008 og með reglugerð nr. 757/2012, í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins 2009/28/EB.
Meginskylda ríkja samkvæmt 15. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um upprunaábyrgðir raforku 2009/28/EB er að tryggja að raforkuframleiðendum innan þeirra lögsögu standi til boða að fá útgefnar upprunaábyrgðir vegna eigin framleiðslu raforku af endurnýjanlegum uppruna. Í því skyni skulu ríkin tilnefna tiltekið stjórnvald eða stofnun til að fara með útgáfu upprunaábyrgða, auk þess sem komið skal á fót skráningarkerfi fyrir útgáfu, millifærslu og afskráningu upprunaábyrgða, sbr. 4.-5. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar. Landsnet hf. hefur það hlutverk að annast útgáfu upprunaábyrgða á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum á Íslandi og hefur eftirlit með því að fjöldi upprunaábyrgða sem gefinn er út komi heim og saman við magn orku sem framleitt hefur verið sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2008.
Upprunaábyrgðir sem gefnar eru út af Landsneti hf. skulu viðurkenndar á Evrópska efnahagssvæðinu sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 30/2008 og 9. mgr. 15. gr tilskipunar 2009/28/EB. Orkustofnun hefur hlutverk að staðfesta að upprunaábyrgðir sem gefnar eru út fyrir raforkuvinnslu á Íslandi séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða á Íslandi. Orkustofnun hefur eftirlitshlutverk með viðskiptakerfinu á Íslandi hvert ár, þ.e. samsetningu vottaðrar og óvottaðrar raforkunotkunar á Íslandi með tilliti til samsetningar á raforkuframleiðslu í Evrópu. Stofnunin birtir niðurstöður árlega á vef sínum.