Uppruna­ábyrgðir

Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar sem er umhugað um umhverfið kaupa upprunaábyrgðir til að sýna í verki stuðning sinn við endurnýjanlega orkuframleiðslu.

Nú hafa allir kost á að styðja endurnýjanlega orkuvinnslu

Aðgengi raforkunotenda í Evrópu að endurnýjanlegri orku er mjög mismunandi.

Margir íbúar og fyrirtæki eru nálægt kolaorkuverum þar sem hvorki er vatnsafl né vindasamt eða sólríkt. Einnig getur verið að erfitt sé að reisa endurnýjanleg orkuver vegna bágborins raforkuflutningskerfis. Þetta gerir raforkukaupendum erfitt fyrir sem vilja styðja endurnýjanlega orkuvinnslu en hafa ekki tækifæri til þess í eigin nágrenni.

Af þessum ástæðum var upprunaábyrgðakerfið hannað þannig að allir raforkunotendur hafa kost á að styðja endurnýjanlega orkuvinnslu hvar sem er í Evrópu, óháð staðsetningu notanda og fá þannig raforkukaup sín vottuð sem endurnýjanleg.

Aukum vinnslu á endurnýjan­legri orku og berjumst gegn loftslags­breytingum

Þessi stuðningur virkar sem fjárhagslegur hvati fyrir orkufyrirtæki til endurnýjanlegrar orkuvinnslu, en markmið kerfisins er að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku í Evrópu og þar með hafa jákvæð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda.

Upprunaábyrgðir eru sjálfstæð söluvara, óháð afhendingu á raforkunni sjálfri.  Þær eru notaðar til að uppfylla skilyrði fjölda alþjóðlegra umhverfismerkja og getur slík vottun opnað markaðstækifæri fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri markaðssetningu á vörum og þjónustu.

Spurt og svarað

 • Upprunaábyrgð er staðfesting á því að tiltekið magn raforku hafi verið framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Uppruni vísar hér til tegundar orkugjafans sem í þessu samhengi er af endurnýjanlegum uppruna.

 • Kerfið með upprunaábyrgðir byggir á samstarfi þjóða í Evrópu og er komið á fót til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Baráttan við loftslagsbreytingar er óháð landamærum ríkja. Kerfið er liður í þeirra baráttu og hefur það markmið að styðja við endurnýjanlega raforku framleiðslu og auka vægi hennar alls staðar í Evrópu. Haldin er nákvæm skráning á magni endurnýjanlegrar orku í Evrópu og græni þátturinn gerður að sjálfstæðri söluvöru óháð afhendingu raforkunnar. Með þessu móti gefst öllum raforkukaupendum kostur á að styðja við græna raforkuframleiðslu óháð staðsetningu.

 • Kaupendur skírteina eru raforkukaupendur í Evrópu, fyrirtæki og einstaklingar. Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar sem er umhugað um umhverfið kaupa upprunaábyrgðir til að sýna í verki stuðning sinn við endurnýjanlega orkuframleiðslu. Með þessu móti geta fyrirtæki sýnt fram á umhverfisvitund og samfélagslega ábyrgð og þar með bætt ímynd sína. Það færist í aukana að fyrirtæki setji sér það markmið að kaupa eingöngu vottaða græna raforku. Í þessu samhengi má helst nefna samtökin RE100, sem eru samtök áhrifamikilla alþjóðlegra fyrirtækja sem hafa skuldbundið sig til að nota eingöngu 100% endurnýjanlega raforku innan ákveðinna tímamarka. Eina leiðin til að flest þessara fyrirtækja nái sínu markmiði er að kaupa græn skírteini.

 • Landsvirkjun fer eftir öllum þeim lögum og reglum sem gilda um viðskipti með upprunaábyrgðir og er ríkt eftirlit á markaðnum frá hinum ýmsu aðilum. Með innleiðingu kerfis um sölu upprunaábyrgða á Íslandi í lok árs 2011 varð landið aðili að viðskiptakerfi Evrópu með upprunaábyrgðir. Hlutverk aðila í viðskiptakerfi með upprunaábyrgðir er skilgreint með skýrum hætti í lögum um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. nr. 30/2008 og með reglugerð nr. 757/2012, í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins 2009/28/EB.

  Meginskylda ríkja samkvæmt 15. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um upprunaábyrgðir raforku 2009/28/EB er að tryggja að raforkuframleiðendum innan þeirra lögsögu standi til boða að fá útgefnar upprunaábyrgðir vegna eigin framleiðslu raforku af endurnýjanlegum uppruna. Í því skyni skulu ríkin tilnefna tiltekið stjórnvald eða stofnun til að fara með útgáfu upprunaábyrgða, auk þess sem komið skal á fót skráningarkerfi fyrir útgáfu, millifærslu og afskráningu upprunaábyrgða, sbr. 4.-5. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar. Landsnet hf. hefur það hlutverk að annast útgáfu upprunaábyrgða á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum á Íslandi og hefur eftirlit með því að fjöldi upprunaábyrgða sem gefinn er út komi heim og saman við magn orku sem framleitt hefur verið sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2008.

  Upprunaábyrgðir sem gefnar eru út af Landsneti hf. skulu viðurkenndar á Evrópska efnahagssvæðinu sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 30/2008 og 9. mgr. 15. gr tilskipunar 2009/28/EB. Orkustofnun hefur hlutverk að staðfesta að upprunaábyrgðir sem gefnar eru út fyrir raforkuvinnslu á Íslandi séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða á Íslandi. Orkustofnun hefur eftirlitshlutverk með viðskiptakerfinu á Íslandi hvert ár, þ.e. samsetningu vottaðrar og óvottaðrar raforkunotkunar á Íslandi með tilliti til samsetningar á raforkuframleiðslu í Evrópu. Stofnunin birtir niðurstöður árlega á vef sínum.

 • Tilskipun 2009/28/EB og raforkutilskipunin 2009/72/EB eru hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES samningsins). Íslenska ríkinu er skylt samkvæmt þessum tilskipunum EES-samnings að gefa raforkusölum hérlendis kost á að fá útgefnar upprunaábyrgðir og taka þátt í viðskiptum með þær. Þátttaka orkufyrirtækja og orkunotenda í kerfi með upprunaábyrgðir er þó valfrjáls.

  Neytandinn gerir í auknum mæli kröfur á fyrirtæki um að sýna ábyrgð í umhverfismálum. Þátttaka í kerfinu tryggir íslenskum raforkukaupendum aðgang að markaði með græna vöru og þjónustu. Kerfið gerir einnig íslenska raforkuvinnslu samkeppnishæfari með því að gera græna orku hagkvæmari.