Einn af stofnendum Lands og sona
Ja Ja Ding Dong-maðurinn er raunverulegur, segir Sigurður Einar Guðjónsson, meðlimur í gleðisveitinni Made in sveitin og verkefnisstjóri á Þjórsársvæðinu. „Já, þessi ákveðni og mjög gjarnan vel ölvaði einstaklingur sem öskrar á hljómsveitina að hann vilji heyra sitt uppáhaldslag er svo sannarlega á flestum böllum sem maður spilar á. En maður hefur bara húmor fyrir þessu, enda er þetta nú oftast bara í nösunum á þessum karakterum,“ segir Einar og heldur áfram: „99% allra gesta á böllum eru ofboðslega gott fólk, sem er bara komið þangað til að sletta úr klaufunum í sátt og samlyndi við aðra,“ segir hann.
Einar er frá Hvolsvelli, eins og hljómsveitin ástsæla Land og synir. Það er ekki tilviljun, því hann var einn af stofnendum sveitarinnar, ásamt bróður sínum Árna Þór og söngvaranum Hreimi Heimissyni, og öðrum. Aðspurður segist hann tónlistargyðjuna snemma hafa bankað á dyrnar. „Já, það má segja að ég hafi verið í tónlistinni frá því að ég gat staðið á eigin fótum. Ég lærði á blokkflautu, trompet og gítar. Svo fórum við nú nokkrir unglingspeyjar að rotta okkur saman í bílskúr eins og gengur og gerist og semja lög og árið 1997 stofnuðum við hljómsveit sem hét Land og synir. Sama ár gáfum við svo út lítið lag sem heitir Vöðvastæltur og allt í einu breyttumst við úr bílskúrsbandi í hljómsveit sem þurfti að þvælast um allt land og spila,“ segir hann. „Síðan þá höfum við verið starfandi músíkantar, sumir með tónlistina að aðalstarfi og aðrir í hjáverkum,“ bætir hann við.
Þessi upprunalega útgáfa Lands og sona starfaði í rúmt ár, en þá hættu nokkrir liðsmenn, meðal annarra Einar, og aðrir komu í staðinn. „En við héldum samt alltaf áfram að spila saman, upprunalegi hópurinn, bara undir öðrum nöfnum. Á endanum fjöruðu Land og synir út, en það var alltaf svo gaman hjá okkur hinum, að við erum enn að og köllum okkur núna Hreimur og Made in sveitin,“ segir Einar. Mætti segja að þið væruð frægustu synir Hvolsvallar? spyr spyrill. „Ja við skulum orða það þannig að við eigum sterkan heimavöll þar,“ svarar Einar og brosir í kampinn.
