Sigurður Einar Guðjónsson

25.09.2020Lífið í Landsvirkjun

Viðtal við Sigurð Einar Guðjónsson, verkefnisstjóra á Þjórsársvæðinu, tekið haustið 2020.

Einn af stofnendum Lands og sona

Ja Ja Ding Dong-maðurinn er raunverulegur, segir Sigurður Einar Guðjónsson, meðlimur í gleðisveitinni Made in sveitin og verkefnisstjóri á Þjórsársvæðinu. „Já, þessi ákveðni og mjög gjarnan vel ölvaði einstaklingur sem öskrar á hljómsveitina að hann vilji heyra sitt uppáhaldslag er svo sannarlega á flestum böllum sem maður spilar á. En maður hefur bara húmor fyrir þessu, enda er þetta nú oftast bara í nösunum á þessum karakterum,“ segir Einar og heldur áfram: „99% allra gesta á böllum eru ofboðslega gott fólk, sem er bara komið þangað til að sletta úr klaufunum í sátt og samlyndi við aðra,“ segir hann.

Einar er frá Hvolsvelli, eins og hljómsveitin ástsæla Land og synir. Það er ekki tilviljun, því hann var einn af stofnendum sveitarinnar, ásamt bróður sínum Árna Þór og söngvaranum Hreimi Heimissyni, og öðrum. Aðspurður segist hann tónlistargyðjuna snemma hafa bankað á dyrnar. „Já, það má segja að ég hafi verið í tónlistinni frá því að ég gat staðið á eigin fótum. Ég lærði á blokkflautu, trompet og gítar. Svo fórum við nú nokkrir unglingspeyjar að rotta okkur saman í bílskúr eins og gengur og gerist og semja lög og árið 1997 stofnuðum við hljómsveit sem hét Land og synir. Sama ár gáfum við svo út lítið lag sem heitir Vöðvastæltur og allt í einu breyttumst við úr bílskúrsbandi í hljómsveit sem þurfti að þvælast um allt land og spila,“ segir hann. „Síðan þá höfum við verið starfandi músíkantar, sumir með tónlistina að aðalstarfi og aðrir í hjáverkum,“ bætir hann við.

Þessi upprunalega útgáfa Lands og sona starfaði í rúmt ár, en þá hættu nokkrir liðsmenn, meðal annarra Einar, og aðrir komu í staðinn. „En við héldum samt alltaf áfram að spila saman, upprunalegi hópurinn, bara undir öðrum nöfnum. Á endanum fjöruðu Land og synir út, en það var alltaf svo gaman hjá okkur hinum, að við erum enn að og köllum okkur núna Hreimur og Made in sveitin,“ segir Einar. Mætti segja að þið væruð frægustu synir Hvolsvallar? spyr spyrill. „Ja við skulum orða það þannig að við eigum sterkan heimavöll þar,“ svarar Einar og brosir í kampinn.

Upphaflega var sveitin Land og synir skipuð Einari, Hreimi Heimissyni, Árna Þór Guðjónssyni, Jóni Guðfinnssyni og Ívari Þormarssyni.
Upphaflega var sveitin Land og synir skipuð Einari, Hreimi Heimissyni, Árna Þór Guðjónssyni, Jóni Guðfinnssyni og Ívari Þormarssyni.

Sterk vinátta úr tónlistinni

Einar segist fá sterkan félagsskap úr spilamennskunni og mikla vináttu. „Við fórum um daginn yfir það hvernig umræðuefnið hjá hópnum hefur breyst í gegnum tíðina. Alveg úr því að ræða stelpuleit þegar við vorum 15, 16 ára, yfir í bleyjuskipti og síðan yfir í málefni miðaldra manna núna á þessum síðustu og verstu,“ segir hann og hlær.

En hvernig starf er það, að spila á balli? „Eðli málsins samkvæmt hefur það sína kosti og galla. Það er stundum afskaplega erfitt að drífa sig af stað frá fjölskyldunni á föstudags- eða laugardagskvöldi til þess að spila á dansleik eða tónleikum, en stundum er það líka ofsalega gott. Þetta hefur allt sína kosti og galla. Eftir því sem árunum fjölgar verður erfiðara að standa vaktina til klukkan þrjú á nóttunni, en þessi nýja þróun í skemmtanalífinu, þar sem fólk byrjar fyrr að skemmta sér og hættir klukkan ellefu, er kannski vonarglæta fyrir okkur sem erum komin á miðjan aldur,“ segir Einar og kímir.

Hljómborðsleikarinn einbeittur við hljóðfærið.
Hljómborðsleikarinn einbeittur við hljóðfærið.

Músíkölsk fjölskylda

Öll fjölskylda Einars er músíkölsk. Konan hans er Rakel Magnúsdóttir, sem er í Hara-dúettnum ásamt systur sinni, HIldi, en þær slógu í gegn í X-Factor keppninni árið 2007. Þau búa í Hveragerði ásamt dætrum sínum þremur, sem allar hafa fetað í fótspor foreldra sinna og læra allar á hljóðfæri. „Við höfum veitt þeim músíkalskt uppeldi – svo er bara að sjá hver áhuginn verður þegar fram í sækir,“ segir Einar.

Þriðji hamur Einars, á eftir tónlistinni og starfinu hjá Landsvirkjun, er hamur langhlauparans. „Já, ég hef fundið hvíld og endurnæringu í fjallahlaupum. Það er svo ofsalega gott að hlaupa utanvegahlaup; fá vindinn í andlitið og brekkurnar til að berjast við,“ segir hann. „Ég byrjaði að hlaupa þegar ég fann að ég var orðinn of gamall fyrir keppnisíþróttir,“ segir hann. „Ég hef stundað fótbolta og körfubolta af miklum krafti og varð að finna eitthvað annað til að berjast við bumbuna þegar ég varð að láta gott heita í þessum íþróttagreinum,“ segir hann. Það er ekki langt að sækja vegleysurnar í nágrenni Hveragerðis. „Nei, við búum náttúrulega í paradís í þessum efnum. Það er til að mynda hægt að hlaupa að heita læknum í Reykjadal, eða upp á Hellisheiði, upp á Ölkelduháls, svo eitthvað sé nefnt,“ segir hann. Einar hefur líka þeyst um önnur lönd á hlaupaskónum, en hann hljóp maraþon í svissnesku ölpunum í október í fyrra. „Það var skemmtilegt og útsýnið alveg ótrúlegt. Þetta tók alveg á, því það var 1.800 metra hækkun á hlaupaleiðinni,“ segir hann.

Á hlaupum í svissnesku ölpunum
Á hlaupum í svissnesku ölpunum

Leiðist ekki í vinnunni

Einar vinnur sem verkefnisstjóri á Þjórsársvæðinu og er með starfsstöð við Búrfellsstöð. „Þetta er skemmtilega fjölbreytt starf, með nóg af verkefnum. Manni leiðist ekki í vinnunni,“ segir hann. Hann sinnir mannvirkja- og stíflueftirliti og stýrir verkefnum í kringum það. Aðspurður segir hann samstarfsfólkið sýni tónlistarbröltinu áhuga og skilning. „Ég held að fólk skilji nú aðallega að ég skuli ekki nota hvíldar- og frítímann til þess að hvílast!“ segir hann og hlær.