Vel heppnaðar framkvæmdir við Þórisvatnslón
Viðamiklar framkvæmdir fóru fram við Vatnsfellsstöð í sumar. Vatnsfellsskurður var lagaður fyrir neðan lokuvirki Þórisvatnsmiðlunar, auk þess sem tjakkar voru endurnýjaðir í lokuvirkinu. Við reynum ávallt að sameina nokkur verkefni ef mögulegt er, til að lágmarka þann tíma sem þarf til að stöðva vélar eða loka mikilvægum aðveituleiðum.
Lungi framkvæmdarinnar fór fram á tímabilinu 21. júní til 20. júlí, þegar lónið var tæmt og vinnulokur settar niður, þótt undirbúningur hafi staðið yfir í marga mánuði þar á undan. Á meðan stöðin var ekki í rekstri var tíminn nýttur til umfangsmikils annars viðhalds.
Viðgerðin gekk mjög vel. Nýir tjakkar voru settir niður, steypuskemmdir lagaðar og skurðurinn bættur til muna.
