Græn fjármögnun

Græn fjármögnun Landsvirkjunar

Í mars 2018 varð Landsvirkjun fyrsta íslenska fyrirtækið til að gefa út græn skuldabréf þegar fyrirtækið gaf út skuldabréf að fjárhæð samtals 200 milljónir Bandaríkjadala gegnum lokað skuldabréfaútboð á Bandaríkjamarkaði (e. US private placement). Útgáfan var jafnframt með fyrstu grænu skuldabréfunum sem gefin eru út á þeim markaði.

Í september 2020 gaf Landsvirkjun út uppfærðan grænan fjármögnunarramma fyrirtækisins.

Græn fjármögnun verður notuð til að fjármagna eða endurfjármagna eignir sem stuðla að sjálfbærri, ábyrgri og skilvirkri nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi til að framleiða endurnýjanlega orku. Gjaldgengar eignir (e. eligible assets) eru allar eignir á efnahagsreikningi Landsvirkjunar sem styðja við framleiðslu fyrirtækisins á orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Undir gjaldgengar eignir falla allar aflstöðvar fyrirtækisins, en einnig aðrar eignir svo sem eignfærður undirbúningskostnaður, vatns- og jarðhitaréttindi og mannvirki í byggingu.

Græni fjármögnunarramminn byggir á fjórum stoðum Green Bond Principles (leiðbeiningar fyrir útgefendur grænna skuldabréfa) sem International Capital Market Association (ICMA) gaf út árið 2018 og Green Loan Principles (leiðbeiningar um umgjörð grænna lána) sem Loan Market Association (LMA) gaf út árið 2020:

1. Ráðstöfun fjármuna
2. Ferli um mat og val á verkefnum
3. Stýringu fjármuna
4. Upplýsingagjöf

Ráðgjafarfyrirtækið Sustainalytics var fengið til þess að gera úttekt á grænum fjármögnunarramma Landsvirkjunar. Í úttekt Sustainalytics kemur fram að fyrirtækið telur að Landsvirkjun sé í góðri stöðu til að gefa út græna fjármögnun og að grænn rammi Landsvirkjunar sé gagnsær og traustur og samræmist fjórum stoðum grænnar fjármögnunar samkvæmt ICMA Green Bond Principles 2018 og LMA Green Loan Principles 2020.

Skýrslugjöf

Í loftslagsbókhaldi Landsvirkjunar er gerð grein fyrir tölulegum upplýsingum um umhverfisáhrif vegna starfsemi fyrirtækisins. Upplýsingar í loftslagsbókhaldinu eru rýndar og staðfestar af óháðu ráðgjafafyrirtæki. Ráðgjafafyrirtækið staðfestir að skýrslan innihaldi upplýsingar um helstu þætti í rekstri Landsvirkjunar sem áhrif hafa á umhverfið og að upplýsingarnar séu í samræmi við niðurstöður vöktunar fyrirtækisins á lykiltölum í umhverfismálum. Í loftslagsbókhaldinu er einnig að finna niðurstöður vaktana sem gerðar eru kröfur um í starfsleyfum fyrirtækisins.

Skýrsla ársins 2019 um ráðstöfun og áhrif grænna skuldabréfa

Andvirði 200 milljóna Bandaríkjadala sem var aflað í gegnum lokaða skuldabréfaútboðið á Bandaríkjamarkaði undir græna rammanum hefur verið að fullu ráðstafað til tveggja verkefna, byggingu Þeistareykjavirkjunar og Búrfells II (stækkun Búrfellsstöðvar). Bæði verkefnin uppfylla skilyrði um gjaldgeng verkefni (e. Eligibility Criteria) sem skilgreind eru í græna rammanum, sjá töflu til hliðar.

Kröfur varðandi ráðstöfun fjármuna

Að beiðni Landsvirkjunar tóku CIRCULAR Solutions að sér hlutverk utanaðkomandi ráðgjafa í tengslum við árlega skýrslugjöf. Í skýrslunni er staðfest að (1) verkefni uppfylli kröfur um gjaldgengi, og (2) skýrslugerð uppfylli kröfur græna rammans. Helstu niðurstöður um umhverfisáhrif verkefnanna er að finna í töflunni að neðan. 

Umhverfisáhrif verkefna sem voru fjármögnuð með grænum skuldabréfum

Frekari upplýsingar varðandi skýrslugjöf má finna í skjölum CIRCULAR Solutions og Deloitte fyrir neðan.

Frekari upplýsingar um Þeistareykjastöð og Búrfellsstöð II má finna hér: https://www.landsvirkjun.is/fyrirtaekid/aflstodvar

Nánari upplýsingar:

Fjármál
fjarmal[hjá]landsvirkjun.is