Kjöraðstæður fyrir klókar lausnir
Fjögur gagnaver eru nú í viðskiptum við Landsvirkjun. Ísland býður upp á góðar gagnatengingar og nýr sæstrengur milli Íslands og Írlands mun auka getu og öryggi gagnaflutninga.
Við stöndum vel að vígi:
• Við bjóðum græna, endurnýjanlega orku
• Erum vel samkeppnishæf í verði
• Kalda loftslagið okkar kælir gagnaverin og lækkar orkukostnað
• Hér er stöðugt og traust flutningskerfi
• Nútímalegir innviðir
• Öruggt umhverfi
• Vel menntað og metnaðarfullt starfsfólk
• Evrópulöggjöf og ívilnanir
Gagnaverin, eða netþjónabúin eins og þau eru líka kölluð, sinna hýsingu, tengi- og afritunarþjónustu, gagnavistun og -flutningi og ýmis konar sérhæfðri þjónustu annarri. Stærstu tæknifyrirtæki heims eru að undirbúa byggingu fleiri gagnavera og hafa sýnt Íslandi áhuga, enda hefur reynslan sýnt að hér er bæði ódýrt og öruggt að vera. Ný gögn verða sífellt til og krafan um örugga vistun og dreifingu eykst stöðugt.
Gagnaversiðnaðurinn er sá orkuháði iðnaður sem vex einna örast í heiminum. Eftirspurn eftir reikniafli ofurtölva (e. High Performance Computing, HPC) og sérfræðiþjónustu sem geymd er í gríðarstóru kerfi samtengdra tölva með bálkakeðjutækni (e. blockchain technology) fer sívaxandi.
Spáð er 9 prósenta vexti á ári hverju næstu árin í þessum iðnaði. Ástæðan er einföld: Ekkert okkar notar minna af gögnum í dag en í gær og öll munum við nota meira af gögnum á morgun en við gerum í dag.
Gagnaver nota mikla orku og raforka getur verið allt að 40% af rekstrarkostnaði þeirra. Nýjustu spár sýna að hlutur gagnavera af raforkunotkun í heiminum mun fara úr 1% árið 2018 í 13% árið 2025. Ísland er vel í stakk búið til að laða þessa starfsemi til sín, með græna og 100% endurnýjanlega orku.
Fyrsta gagnaverið, Verne Global, tók til starfa á Íslandi árið 2012. Advania Data Centers bættist við árið 2016, Etix Everywhere Borealis árið 2018 og árið síðar hóf nýjasti viðskiptavinurinn starfsemi, Reykjavík DC.