Orkuvinnsla og sjálfbærni

Hönnun og rekstur vatnsafls- og jarðhitavirkjana felur í sér fjölmargar áskoranir ef nýta á náttúruauðlindina á sjálfbæran hátt. Nálgunin er ólík eftir því hvort um jarðhitavirkjun eða vatnsaflsvirkjun er að ræða.

Auðlindir nýttar á sjálfbæran hátt

Við leggjum áherslu á að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt. Með sjálfbærri þróun er vísað til þróunar þar sem litið er til lengri tíma og snýst hún um að auka efnahagsleg verðmæti og styrkja samfélagið, jafnframt því að viðhalda gæðum náttúrunnar.

Viðkvæm jarðhitasvæði er nauðsynlegt að byggja upp í þrepum og gefa tíma til þess að bregðast við nýtingu. Í vatnsaflsvirkjunum er leitast við að hámarka nýtingu auðlindarinnar að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða sem miða að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Landsvirkjun leggur áherslu á að efla samráð og samstarf við hagsmunaaðila á svæðum þar sem uppbygging er fyrirhuguð og tryggja sem besta sátt um ný verkefni.

Að þekkja umhverfi sitt

Úttektir á sjálfbærni í rekstri

Við höfum notað alþjóðlegan matslykil um sjálfbærni vatnsorkuvinnslu - Hydropower Sustainability Assessment Protocol (HSAP) - til að efla enn frekar sjálfbæra auðlindanýtingu fyrirtækisins. Alþjóðlegt teymi úttektaraðila tók m.a. út rekstur Blöndustöðvar og Fljótsdalsstöðvar árið 2017 ásamt hönnun fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar á grundvelli matslykilsins.

Í úttektunum voru teknir til nákvæmrar skoðunar fjölmargir flokkar sem vörðuðu rekstur stöðvanna og gefa mynd af því hversu vel starfsemin féll að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun.

Úttektirnar leiddu í ljós að rekstur stöðvanna væri framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og á mörgum sviðum þóttu starfsvenjur þær bestu sem fyrirfinnast.