Siðareglur birgja Landsvirkjunar

"Birgi“ merkir hér þau fyrirtæki eða einstaklinga sem Landsvirkjun greiðir fyrir vöru, þjónustu eða verk.

Landsvirkjun ætlast til þess að birgjar fyrirtækisins virði alþjóðlega viðurkennd mannréttindi sem sett eru fram í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum sambærilegum alþjóðasáttmálum og undirgangist ákvæði Landsvirkjunar um keðjuábyrgð.

Kröfur Landsvirkjunar til birgja

  • Barnavinna

    Birgjar taki tillit til löggjafar um vinnu barna í viðkomandi landi varðandi lágmarksaldur, vinnutíma og rétt til náms. Ráði ekki börn undir lögaldri til að framkvæma vinnu sem ætla má að sé hættuleg eða skaðleg heilsu þeirra og öryggi.

  • Nauðungarvinna

    Birgjar tryggi að vinna sem framkvæmd er af starfsfólki sé unnin af fúsum og frjálsum vilja án nauðungar af nokkru tagi. Öllu starfsfólki sé frjálst að segja upp vinnu sinni og hætta með hæfilegum eða lögbundnum fyrirvara.

  • Laun og launakjör

    Birgjar greiði starfsfólki sínu sanngjörn laun sem a.m.k. nema lágmarkslaunum í lögum eða kjarasamningum. Virði lög, reglur og ákvæði kjarasamninga um réttindi starfsfólks t.d. til hvíldar, lengd vinnutíma, orlofs, veikindaréttar og annarra launakjara.

  • Félagafrelsi og réttur til kjarasamninga

    Birgjar viðurkenni rétt starfsfólks til félagafrelsis og gerð kjarasamninga samkvæmt lögum. Sé réttur til félagafrelsis eða gerðra kjarasamninga takmarkaður er mælst til þess að birgjar heimili starfsfólki að kjósa sér fulltrúa til að verja rétt þeirra á vinnustað.

  • Jafnrétti og bann við mismunun

    Birgjar skapi starfsumhverfi sem einkennist af jafnrétti, umburðarlyndi og gagnkvæmri virðingu. Mismuni ekki fólki eftir kyni, kynþætti, trúarbrögðum, aldri, fötlun, kynhneigð, þjóðerni, stjórnmálaskoðunum, stéttarfélögum eða öðrum verkalýðshreyfingum.

  • Heilsa og öryggi

    Birgjar tryggi starfsfólki heilsusamlegt og öruggt vinnuumhverfi, fara eftir lögum og reglum um aðbúnað á vinnustað og sjá starfsfólki sínu fyrir viðeigandi þjálfun í öryggis- og vinnuverndarmálum.

  • Siðferði í viðskiptum

    Birgjar starfi í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, viðhafi gott siðferði í viðskiptum sínum og stundi viðskipti í samræmi við lög og reglur. Vinni ávallt gegn spillingu og bjóði ekki eða biðji um, krefjist, veiti eða þiggi hverskyns mútur með beinum eða óbeinum hætti. Starfi í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og viðhafi gott siðferði í viðskiptum.

  • Hagsmunaárekstrar

    Birgjar forðist hverskonar hagsmunaárekstra í viðskiptum sínum við Landsvirkjun. Með hagsmunaárekstrum er t.d. átt við þegar fulltrúi birgja setur persónulega hagsmuni, hagsmuni skyldmenna eða vina framar hagsmunum Landsvirkjunar. Tilkynni Landsvirkjun um mögulega hagsmunaárekstra.

  • Umhverfi og loftslag

    Birgjar þekki umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitist við að draga úr þeim með ábyrgum og markvissum hætti. Grípi til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi sinni, þ.m.t. í virðiskeðju sinni, með markvissum hætti.

Tengd skjöl