Vistferilsgreiningar

Vistferilsgreiningar - Life Cycle Assessment

Við notum vistferilsgreiningu, eða Life Cycle Assessment (LCA), til að meta heildarumhverfisáhrif raforkuvinnslunnar okkar á öllum stigum virðiskeðjunnar. Það þýðir að við skoðum vistferil virkjana, allt frá öflun hráefna við byggingu þeirra til niðurrifs við lok líftíma og metum umhverfisáhrif þess að vinna raforku úr tiltekinni auðlind á tilteknum stað.

Metin eru umhverfisáhrif við öflun hráefna, á framleiðslu og flutningum byggingarefna, á framleiðslu og flutningum vél- og rafbúnaðar, byggingarframkvæmdum, orkunotkun, rekstri stöðvarinnar sem og niðurrifi hennar við lok líftíma. Niðurstöðurnar notum við til að draga úr umhverfisáhrifum í rekstri tiltekinna aflstöðva og til að draga úr umhverfisáhrifum nýrra aflstöðva í framtíðinni.

Niðurstöður vistferilsgreininga hjálpa okkur einnig að upplýsa kaupendur og aðra hagsmunaaðila um umhverfiseiginleika raforkunnar. Upplýsingarnar geta líka nýst þriðja aðila, t.d. framleiðslu- og iðnfyrirtækjum við mat á umhverfisáhrifum vegna framleiðslu á eigin vöru.

Að lækka kolefnissporið

Vistferilsgreiningar veita okkur mikilvægar upplýsingar um samsetningu heildarkolefnisspor tiltekinna aflstöðva. Niðurstöður sýna til að mynda að við framleiðslu byggingarefna og á framkvæmdatíma eru það stál og steypa auk notkunar á jarðefnaeldsneyti sem skilja eftir sig stærsta kolefnissporið. Við leggjum því sérstaka áherslu á að lágmarka áhrif þessara þriggja þátta við hönnun og byggingu nýrra virkjana.

Hvernig nýtum við vistferilsgreiningar?

Við nýtum þá þekkingu sem við höfum aflað með vistferilsgreiningum á núverandi aflstöðvum til að draga úr umhverfisáhrifum nýrra virkjana. Sem dæmi var vistferilsgreining notuð til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna rannsóknaborana í tengslum við undirbúning á stækkun Þeistareykjastöðvar árið 2023. Boraðar voru tvær rannsóknarborholur með rafknúnum bor sem minnkaði notkun jarðefnaeldsneytis til muna.

Að meðaltali voru notaðir um 66 þúsund lítrar af jarðefnaeldsneyti til að bora hverja holu. Notkun jarðefnaeldsneytis var því 65% minni en í fyrri framkvæmdum sem jafngildir um 320 tonnum CO2-ígilda.

Viltu vita meira?

Vistferilsgreiningar sem gerðar eru á aflstöðvunum okkar eru unnar samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Þær eru aðgengilegar hér fyrir neðan.