Vistferilsgreiningar - Life Cycle Assessment
Við notum vistferilsgreiningu, eða Life Cycle Assessment (LCA), til að meta heildarumhverfisáhrif raforkuvinnslunnar okkar á öllum stigum virðiskeðjunnar. Það þýðir að við skoðum vistferil virkjana, allt frá öflun hráefna við byggingu þeirra til niðurrifs við lok líftíma og metum umhverfisáhrif þess að vinna raforku úr tiltekinni auðlind á tilteknum stað.
Metin eru umhverfisáhrif við öflun hráefna, á framleiðslu og flutningum byggingarefna, á framleiðslu og flutningum vél- og rafbúnaðar, byggingarframkvæmdum, orkunotkun, rekstri stöðvarinnar sem og niðurrifi hennar við lok líftíma. Niðurstöðurnar notum við til að draga úr umhverfisáhrifum í rekstri tiltekinna aflstöðva og til að draga úr umhverfisáhrifum nýrra aflstöðva í framtíðinni.
Niðurstöður vistferilsgreininga hjálpa okkur einnig að upplýsa kaupendur og aðra hagsmunaaðila um umhverfiseiginleika raforkunnar. Upplýsingarnar geta líka nýst þriðja aðila, t.d. framleiðslu- og iðnfyrirtækjum við mat á umhverfisáhrifum vegna framleiðslu á eigin vöru.