Virkjanir í Blönduveitu

Um virkjunarkostinn

Landsvirkjun hefur undanfarin ár haft til athugunar að nýta allt að 69 metra fall á núverandi veituleið Blönduvirkjunar, frá Blöndulóni að Gilsárlóni, sem í dag rennur um veituskurði á um 20 kílómetra kafla. Þessar athuganir eru liður í áætlunum fyrirtækisins um að bæta nýtingu á núverandi aflsvæðum Landsvirkjunar.

Áætlanir gera ráð fyrir að reisa þrjár smærri virkjanir sem hefðu heildarorkugetu um 194 GW stundir á ári og samanlagt afl þeirra yrði allt að 31 MW. Sú efsta, Kolkuvirkjun, virkjar fallið úr Blöndulóni niður í Smalatjörn. Sú næsta, Friðmundarvirkjun, virkjar fallið frá Smalatjörn í Austara-Friðmundarvatn og sú þriðja, Þramarvirkjun, virkjar fallið frá Austara-Friðmundarvatni niður í Gilsárlón.

Verkhönnun og mati á umhverfisáhrifum lauk árið 2014.

Stækkun Blönduveitu

Mat á umhverfisáhrifum

Verkhönnun og mati á umhverfisáhrifum lauk árið 2014. Gert er ráð fyrir virkjununum á Svæðisskipulagi Miðhálendis Íslands 2015 og á aðalskipulagi Húnavatnshrepps.

Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 (sbr. 5 gr. og 2. tl. 1. viðauka).

Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar var unnið af Verkís fyrir Landsvirkjun. Matsskýrslan fjallar um áhrif framkvæmda sem felast í byggingu stöðvarhúsa, gerð veituskurða og stíflu, myndun lóns og gerð aðkomuvega að mannvirkjum.

Umhverfisþættir sem teknir voru til skoðunar voru jarðmyndanir, vatnafar, setmyndun og rof, gróður, fuglar, vatnalíf, fornleifar, hljóðvist, ásýnd lands, landslag, samfélag og landnotkun. Helstu mótvægisaðgerðir vegna virkjana á veituleið er að fella mannvirki að landi og draga úr sýnileika þeirra og áhrifum á landslag. Áhrif framkvæmda eru að mestu metin óveruleg til nokkuð neikvæð.