Ávarp forstjóra

Framtíðina vantar afl og orku

Lesa ársskýrslu 2022

Árið 2022 var eftirminnilegt í starfsemi Landsvirkjunar. Mikið reyndi á starfsfólk fyrirtækisins vegna tíðra óveðra og dræms innrennslis til lóna og á það þakkir skildar fyrir ósérhlífni og fagleg vinnubrögð við erfiðar aðstæður. Um leið var rekstrarafkoman betri en nokkru sinni fyrr, m.a. vegna endursamninga við stærstu viðskiptavini á síðustu árum, sem einnig má þakka mikilvægu framlagi starfsfólks.

Þó má segja að um þessar mundir séu ákveðnar blikur á lofti – ekki hvað varðar afkomu Landsvirkjunar sjálfrar, heldur í orkumálum þjóðarinnar. Staðan er þannig að orkukerfi Landsvirkjunar er nálægt því að vera fulllestað, bæði með tilliti til afls og orku. Eftirspurn eftir grænni raforku er mikil, bæði frá núverandi viðskiptavinum og áhugaverðum nýjum aðilum. Við getum því miður ekki mætt þessari eftirspurn nema að takmörkuðu leyti og höfum því þurft að segja nei við ýmsum áhugaverðum og vænlegum verkefnum sem falast hafa eftir rafmagnssamningum. Orkan – og aflið – eru því miður einfaldlega ekki til.

Við höfum þegar brett upp ermar og vinnum hörðum höndum að því að afla tilskilinna leyfa fyrir frekari uppbyggingu orkuvinnslu, sem við höfum undirbúið í ár og áratugi. Þannig viljum við tryggja samfélaginu nægt rafmagn til orkuskipta og bættra lífsgæða í framtíðinni, ekki síst í ljósi metnaðarfullra markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum.

Í þessari ársskýrslu lýsum við starfsemi Landsvirkjunar árið 2022. Skýrslunni er skilað inn sem framvinduskýrslu um markmið okkar samkvæmt Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna (UNGC). Þar með staðfestum við vilja okkar til að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og í samræmi við tíu viðmið samtakanna. Við lýsum yfir áframhaldandi stuðningi við UN Global Compact.